Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

14. nóvember 2002 ForsætisráðuneytiðDavíð Oddsson, forsætisráðherra 1991-2004

Skráning fyrirtækja

14. nóvember 2002

Frumvarp til laga um fyrirtækjaskrá
http://www.althingi.is/altext/128/s/0388.html

Frumvarp til laga um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfs eignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur er varða skráningu þessara félaga og stofnana
http://www.althingi.is/altext/128/s/0387.html


Framsaga forsætisráðherra


Herra forseti.

Ég mæli hér fyrir tveimur frumvörpum í einu lagi. Annars vegar frumvarpi til laga um fyrirtækjaskrá og hins vegar frumvarpi, sem því fylgir, um breytingar á ákvæðum laga um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir, sem stunda atvinnurekstur, að því er varðar skráningu þeirra.

Með samþykkt laga nr. 51/2002 hinn 3. maí síðastliðinn um brottfall laga um Þjóðhagsstofnun var gerð breyting á verkaskiptingu efnahagsstofnana ríkisins með niðurlagningu stofnunarinnar og flutningi hagskýrslu- og þjóðhagsspárverkefna til Hagstofu Íslands, efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis og Seðlabanka Íslands. Í tengslum við þá breytingu var jafnframt ákveðið, að stefna að fleiri breytingum á starfsemi Hagstofunnar í þeim tilgangi að efla hagskýrsluhlutverk hennar og ná aukinni hagræðingu í rekstri. Við þessa endurskipulagningu Hagstofunnar er horft til þess að flytja frá henni verkefni sem ekki tilheyra hagskýrslugerðinni beinlínis lengur. Hér er átt við þjóðskrá og almannaskráningu og skráningu fyrirtækja.

Frumvarp til laga um fyrirtækjaskrá er samið í samræmi við þessa stefnu. Það tekur til fyrirtækjaskrár Hagstofunnar en undirbúningi að flutningi þjóðskrár er ekki lokið.

Með frumvarpinu verður fyrirtækjaskráin færð frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra. Jafnframt hefur verið samið frumvarp um breytingar á lögum um hlutafélög, einkahlutafélög, samvinnufélög og sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þar er lagt til að skrár samkvæmt þessum lögum verði færðar frá Hagstofunni til ríkisskattstjóra. Þessar skrár mynda nú þegar eitt gagnasafn. Samkvæmt þessu mun því fjármálaráðherra fara með mál sem varða fyrirtækjaskrá í stað ráðherra Hagstofu Íslands eins og nú er.

Skráning fyrirtækja í fyrirtækjaskrá Hagstofunnar hófst á árinu 1969 samkvæmt lögum nr. 62/1969. Stofnun fyrirtækjaskrár og rekstur var skipulagður í samvinnu við skattyfirvöld en henni var komið á fót til að sinna brýnum þörfum fyrir samræmda skráningu fyrirtækja og útgáfu auðkennisnúmera til fyrirtækja. Á árinu 1997 tók Hagstofan við rekstri hlutafélagaskrár og skyldra skráa. Við það varð félagaskráning markvissari en verið hafði og veruleg samlegðaráhrif fólust í samhæfingu skránna og færslu þeirra á sama stað.

Rekstur fyrirtækjaskránna hefur falið í sér margháttað hagræði fyrir stjórnvöld og atvinnulíf. Mikið hagræði er fólgið í því að stjórnvöld á ýmsum sviðum geti unnið með eina samhæfða skrá, sem er opinber og aðgengileg til eftirlits. Hagstofan hefur annast skráningu fyrirtækja í samvinnu við skattyfirvöld og sýslumenn. Þegar undan er skilið það hlutverk skránna að vera uppspretta gagna til hagskýrslugerðar, má auka hagræðingu í rekstri fyrirtækjaskránna með því að flytja þær frá hagskýrslugerðinni og tengja þær beint þeirri skráningarstarfsemi sem ríkisskattstjóri hefur með höndum vegna þarfa skattkerfisins. Er þá gert ráð fyrir að Hagstofan hafi áfram aðgang að fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar og hagnýting hennar í því skyni verði engu minni en verið hefur.

Skráning fyrirtækja er nátengd verkefnum skattyfirvalda og tengist skattskyldu fyrirtækja með beinum hætti. Álagning skatta og ákvörðun gjalda byggist á því að til staðar sé á hverjum tíma tæmandi og nákvæm skrá yfir alla þá sem skattskyldir eru eða bera aðrar skattalegar skyldur. Halda skattyfirvöld af þessum ástæðum þegar ýmsar skrár sem eru hliðstæðar fyrirtækjaskrá.

Með því að færa fyrirtækjaskráninguna, þ.e. grunnskráningu allra upplýsinga, sem máli skipta, um auðkenni og einkenni aðila til ríkisskattstjóra, er opinber skráning allra upplýsinga um fyrirtæki sameinuð á einum stað. Með skattgögnum berast upplýsingar um breytingar á ýmsum mikilvægum skráningaratriðum, svo sem á aðsetri og atvinnugrein, yfirleitt fyrr en til fyrirtækjaskrár, þar sem ekki hefur verið jafnrík skylda til að tilkynna slík atriði þangað. Þá hefur ríkisskattstjóri annast rekstur ársreikningaskrár frá upphafi og byggt þá skrá, um skilaskyldu fyrirtækja á ársreikningum sínum, á fyrrnefndum skrám Hagstofunnar og skattgrunnskrá.

Ljóst má því vera að sameining fyrrgreindra skráa á eina hendi gefur aukið svigrúm til hagræðingar og samræmingar í skráningu auk þess að draga úr umstangi skráningarskyldra aðila við að koma á framfæri til stjórnvalda grunnupplýsingum og leiðréttingum, er varða skráningu á atvinnurekstri eða starfsemi viðkomandi.

Hvað efnisatriði frumvarpsins varðar þá er ekki um að ræða umfangsmiklar breytingar frá núgildandi lögum um fyrirtækjaskrá. Breytingarnar felast einkum í uppstokkun og framsetningu ákvæða í frumvarpinu, þannig að betri yfirsýn fáist yfir atriði, sem áhersla er lögð á.

Herra forseti.

Ég tel ekki ástæðu til að fjalla frekar um einstakar greinar frumvarpanna heldur vil ég vísa um það til athugasemda við þær að svo miklu leyti sem þær skýra sig ekki sjálfar.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að frumvörpum þessum verði að lokinni þessari umræðu vísað til annarrar umræðu og háttvirtrar allsherjarnefndar.


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum