Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. apríl 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytiðÁrni Magnússon, félagsmálaráðherra 2003-2006

Heilbrigð sál í hraustum líkama

Heilbrigð sál í hraustum líkama
Heilbrigð sál í hraustum líkama

Hótel Lofleiðum, fimmtudaginn, 7. apríl 2005, kl. 09.00–17.00

Ágætu ráðstefnugestir.

Það kann að vekja einhverjar spurningar hvers vegna félagsmálaráðherra er boðið að flytja ávarp á ráðstefnu sem ber yfirskriftina: Heilbrigð sál í hraustum líkama og undirtitilinn áhrif hreyfingar á andlega líðan. Yfirskriftin gefur til kynna að hér sé á ferðinni málefni sem fyrst og fremst heyri til verksviðs þess ráðuneytis sem fer með íþrótta- og æskulýðsmál, þ.e. menntamálaráðuneytisins. Það er vissulega rétt niðurstaða að íþróttamálin er málaflokkur menntamálaráðuneytisins og viðfangsefni ráðstefnunnar meira á sviði menntamálaráðherra en á verksviði mínu eða heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra.  Þegar grannt er skoðað er hér hins vegar á ferðinni málefni sem tengist félagsmálaráðuneytinu með ýmsum hætti.

Allt frá landnámi hafa íþróttir verið stundaðar á Íslandi.  Í Egilssögu er góð frásögn af þátttöku Egils Skallagrímssonar í knattleik.  Lengi vel var glíma þjóðaríþróttin en á síðustu áratugum hefur fjölbreytnin aukist þannig að nú verður vart komið tölu á allar þær íþróttir sem stundaðar eru í landinu.  Það sem auðvitað hefur breyst á síðustu hundrað árum er að vinna og verklag hefur tekið stakkaskiptum.  Dregið hefur úr erfiðisvinnu en ýmiss konar verslunar- og þjónustustörf hafa komið í hennar stað.  Þetta hefur skapað nýjar aðstæður í lýðheilbrigðismálum sem stjórnvöld þurfa að bregðast við.

Á þessari ráðstefnu verða flutt nokkur erindi þar sem m.a. verður gerð grein fyrir niðurstöðum rannsókna sem leiða í ljós að hæfileg hreyfing hefur mikið gildi fyrir andlega líðan.  Þess má geta að fyrir rúmlega 10 árum eða  árið 1994 birtust niðurstöður gagnmerkrar rannsóknar sem Þórólfur Þórlindsson, Þorlákur Karlsson og Inga Dóra Sigfúsdóttir höfðu gert á þessu atriði.  Í skýrslu þeirra kemur fram að greinilegt samband er á milli þunglyndis og íþróttaiðkunar, mats nemenda á eigin getu í íþróttum og líkamsþjálfunar.  Meðal annars kemur fram að hlutfall nemenda sem eru þunglyndir lækkar með aukinni íþróttaiðkun. 

Rannsóknin leiðir í ljós að rúmlega 30% nemenda í 10. bekk sem aldrei stunda íþróttir eru þunglyndir og tæplega 29% í 9. bekk.  Þetta hlutfall lækkar niður í um 17% meðal þeirra sem stunda íþróttir fimm sinnum eða oftar í viku.  Þessar tölur eru sláandi.  Það sem er athyglisverðast er að ekki lágu fyrir margar rannsóknir um þetta efni á þessum tíma.  Það hefur hins vegar breyst og nýjar rannsóknarniðurstöður staðfesta það sem kemur fram í skýrslunni frá 1994.

Heilbrigð sál í hraustum líkamaMér fannst dálítið skemmtilegt að blaða í skýrslunni frá 1994.  Þar er að finna ýmsar góðar tilvitnanir t.d. í Sigurð Nordal.  Sigurður komst þannig að orði snemma á síðustu öld í List og lífskoðunum að margir hafi haldið að íþróttir efldu líkamann á sálarinnar kostnað.  Hann segir ekkert vera fjærri sanni.  Íþróttir eru vald sálarinnar yfir líkamanum.  Vanhirtur líkami verður harðstjóri, þjálfaður líkami sá þjónn sem hann á að verða segir Sigurður Nordal.  Þetta viðhorf var nokkuð almennt meðal aldamótakynslóðarinnar svonefndu.  Í raun var það grunnurinn að starfi Ungmennafélaganna og einkennandi fyrir viðhorf margra til menntunar og íþrótta.  Þetta tvennt þyrfti að haldast í hendur og skipa jafnan sess í mennta- og uppeldisstofnunum samfélagsins.  Enda er það svo að á þessu sviði hafa bæði ÍSÍ og Ungmennafélagið tekið aðdáunarvert frumkvæði. 

Ég vil sem dæmi nefna unglingalandsmótið sem er samkoma án hvers kyns vímuefna. Það var fyrst haldið á Dalvík árið 1992. Fram til ársins 2000 var það haldið á ýmsum stöðum annað hvert ár. Frá árinu 2000 hefur það verið haldið um verslunarmennahelgina. Árið 1992 voru gestir um 4000 en sl. sumar sóttu 12 þúsund manns unglingalandsmótið á Sauðárkróki.

Stjórnvöld verða að taka mið af staðreyndum sem koma fram í rannsókn Þórólfs Þórlindssonar og fleiri rannsóknum og bregðast við þeim.  Það er ljóst að ólík atriði kalla á samstarf margra ráðuneyta.  Spurningin er hvernig félagsmálaráðuneytið getur lagt sitt af mörkum.

Ráðuneytið fer með málefni fjölskyldunnar og það fer með málefni sveitarfélaganna.

Í ráðuneytinu er starfandi fjölskylduráð sem skipað var á grundvelli þingsályktunar árið 1997. Hlutverk ráðsins er að veita stjórnvöldum ráðgjöf í fjölskyldumálum, hvetja til aðgerða á sviði fjölskyldumála, eiga frumkvæði að opinberri umræðu um málefni fjölskyldunnar og veita leiðbeinandi upplýsingar til fjölskyldna um viðbrögð við nýjum og breyttum aðstæðum. Fjölskylduvogin er dæmi um frumkvæði fjölskylduráðs. Með henni má mæla með markvissum hætti aðstæður og lífsskilyrði íslenskra fjölskyldna. Þá má skoða almennt heilsufar fjölskyldna og tækifæri fjölskyldna til að temja sér heilbrigðan lífsstíl. Með voginni væri hægt að kanna hversu oft fjölskyldan hreyfir sig saman. Við vitum að Íslendingar eru tiltölulega duglegir við að stunda líkamsræktarstöðvar en við vitum ef til vill minna um það hve oft fjölskyldan hreyfir sig saman. Fjölskylduvogin er enn í smíðum en ég mun leggja áherslu á að hún geti nýst til að skapa umræðu um mikilvægi hreyfingar fyrir heilbrigði fjölskyldna.

Stefna í málefnum fjölskyldunnar getur því tekið mið af því að hvetja með ýmsum hætti fjölskyldurnar í landinu til að stunda saman útiveru og hreyfingu.  Hér kemur ýmislegt til álita.  Ég nefni af handahófi gerð þjóðgarða og útivistarsvæða sem gera fjölskyldunum í landinu kleift að njóta saman útiveru og náttúru.  Þetta þarf að gera með þeim hætti að ekki hljótist af landsspjöll.  Það er því sameiginlegt verkefni ríkis- og sveitarfélaga að skapa umgjörð við hæfi. En það má hyggja að daglegu hátterni hvers og eins. Íslendingar eiga fleiri bíla heldur en gengur og gerist meðal þjóða. Þessi mikla bílaeign okkar getur varla haft hvetjandi áhrif á hreyfingu landsmanna nema ef til vill þegar börnunum er ekið til íþróttaiðkana meðan við sjálf keyrum í líkamsræktarstöð. Hvernig væri að hvetja börnin okkar til að ganga eða hjóla í skólann og íþróttirnar.  Þau okkar sem búa í hæfilegri fjarlægð frá vinnustaðnum gætu hjólað í vinnuna. Þótt íbúabyggð á höfuðborgarsvæðinu sé dreifð um víðfeðmt landsvæði er hægt að nýta almenningssamgöngutæki og taka hjólið fram. Stefna í skipulagsmálum er því í raun fjölskyldumál - og lýðheilbrigðismál. 

Það er hægt að hafa áhrif á viðhorf til hreyfingar.  Þetta er m.a. hægt að gera við mótun stefnu í málefnum fjölskyldunnar.    Það eigi jafnt við um fyrirtæki og heimili.

Sveitarfélögin gegna þýðingarmiklu hlutverki við að skapa aðstæður til útveru og ástundun ýmiss konar íþrótta og hreyfingar, t.d. með uppbyggingu íþróttamannavirkja. Sum hafa tekið mjög myndarlega á þessum málum.  Nefna má sveitarfélög sem hafa lagt áherslu á að fjármunir torveldi ekki iðkun íþrótta.  Þetta hafa þau m.a. gert með því að gefa börnum og unglingum færi á að stunda íþróttir án endurgjalds.  Með þessu hafa þau komið til móts við ályktun 66. Íþróttaþings ÍSÍ árið 2002 um að öll börn á grunnskólaaldri eigi kost á íþróttaiðkun án endurgjalds í tengslum við skólatíma. Mér finnst þetta lofsvert frumkvæði.

Ágætu ráðstefnugestir.

Á árum áður var litið þannig á að þátttaka í íþróttum væri fyrir fáa útvalda.  Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Bygging sundstaða  hefur stóreflt þátttöku almennings í sundíþróttinni.  Þúsundir taka þátt í skokk- og gönguhópum.  Enn fleiri í hvers kyns boltaíþróttum.  Það er ljóst að viðhorfið er að breytast.  Skilningur á gildi hreyfingar hefur aukist.  Hlutverk stjórnvalda er að mæta þessum áhuga með því að sjá til þess að aðstæður séu fyrir hendi og farið sé eftir reglum þannig að ástundun útiveru og íþróttaiðkunar sé í sátt við náttúru landsins.

Mig langar til að ljúka þessu ávarpi mínu með að vitna til orða sem Sigurður Nordal lét falla árið 1987.  Hann segir: "Það verður sífellt skylda þeirra manna, sem lengra eru á veg komnir, að brýna fyrir hinum, að líkamsrækt og íþróttir eiga sér sín eigin laun, dýrari en nokkur utan að komandi. Höfum það öll í huga. 

Frá pallborðsumræðum:

 Heilbrigð sál í hraustum líkama  Heilbrigð sál í hraustum líkama    
       
       

 



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum