Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. apríl 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytiðJón Kristjánsson, félagsmálaráðherra 2006

Íbúafundir á Þórshöfn og Bakkafirði

Fundarstjóri og ágætu íbúar.

Eins og þið þekkið hefur umræða um nauðsyn þess að sameina sveitarfélög verið ofarlega á baugi hér á landi undanfarna áratugi. Hún hefur farið mishátt á mismunandi svæðum og tímabilum. Hæst hefur umræðan farið í kjölfar flutnings grunnskólans frá ríki til sveitarfélaga, og sameiginlegra átaksverkefna ríkis og sveitarfélaga í upphafi 10. áratugarins og aftur á síðasta ári.

Árangur okkar Íslendinga í fækkun og stækkun sveitarfélaga er umtalsverður, ekki síst þegar haft er í huga að það eru íbúar viðkomandi sveitarfélaga sem ákveða hvort sveitarfélag þeirra verður sameinað eða ekki. Íbúarnir hafa þannig alltaf síðasta orðið. Frá 1990 hefur sveitarfélögunum fækkað með frjálsum sameiningum úr 213 í 80 í dag. Sveitarfélögum er með öðrum orðum að fækka ört. Auðvitað eru sum sveitarfélög búin að ganga í gegnum margar sameiningar. Frá 1997 hef ég til dæmis átt heima í Egilsstaðabæ, Austur-Héraði og Fljótsdalshéraði án þess að hafa flutt frá Egilsstöðum. Í hvert sinn sem sameiningarumræðan fer af stað kemur upp neikvæð umræða um að flest fari á versta veg í hinu nýja sveitarfélagi. Eftir að sameining hefur verið samþykkt þagna þær raddir að mestu, enda sér fólk að það er svo margt sem breytist til batnaðar.

Ég trúi því að almennt sé sameining sveitarfélaga til þess fallin að efla viðkomandi svæði og gera þau betur í stakk búin til að takast á við þau verkefni sem fyrir hendi eru. Auk þess hefur reynslan sýnt að sveitarfélög sem hafa gengið í gegnum sameiningar hafa átt auðveldara með að grípa margvísleg tækifæri sem hafa komið upp. Reynslan af sameiningu sveitarfélaganna sem mynda Fjarðabyggð er gott og velþekkt dæmi. Fljótsdalshérað er annað nýlegra dæmi.

Reynslan í sameinuðum sveitarfélögum er á heildina litið mjög jákvæð. Þjónustustigið hefur vaxið, bolmagn til að laða að sér nýja atvinnustarfsemi hefur aukist og þátttaka íbúanna í málefnum samfélagsins hefur vaxið. Auðvitað hefur lífið ekki breyst á einni nóttu þannig að smjör drjúpi nú af hverju strái, en margt hefur breyst og ég leyfi mér að fullyrða, flest til batnaðar.

Sem dæmi má nefna að með aukinni fjarlægð milli íbúa og stjórnsýslu dregur úr því mikla návígi sem oft einkennir sveitarstjórnarmálin. Náin tengsl sveitarstjórnarmanna og íbúa eru í mörgum tilvikum jákvæð, en ákveðnir málaflokkar sveitarfélaganna, ekki síst félagsþjónustan, kalla á ákveðna fjarlægð. Í einstaka tilvikum geta líka komið upp vandamál tengd hæfi sveitarstjórnarmanna til að taka ákvarðanir í einstökum málum. Sem dæmi má nefna að ráðuneytið hefur fengið mál til meðferðar frá fámennu sveitarfélagi þar sem nánast allir sveitarstjórnarmennirnir voru vanhæfir til að taka ákvörðun um úthlutun byggðakvóta. Sumir myndu kannski líta á það sem mikla blessun að losna við þann kaleik.

Niðurstöður viðhorfskannana sem IMG Gallup vann fyrir félagsmálaráðuneytið á síðasta ári styðja þessar fullyrðingar. Niðurstöðurnar sýna að yfir 70% íbúa í sameinuðum sveitarfélögum, svo sem í Fjarðabyggð, Reykjanesbæ, Skagafirði, Árborg og Borgarfirði eru hlynntir sameiningu sveitarfélaga. Þær niðurstöður segja okkur að skrefin virðast ekki hræða þá sem reynsluna hafa af því að sameinast.

Samfélagsgerðin á Íslandi og raunar í heiminum öllum hefur breyst mikið undanfarna áratugi. Nýjar kynslóðir eru að vaxa úr grasi sem eru ekki eins bundnar fæðingar- eða uppeldisstað við val á vinnu og búsetu og áður tíðkaðist. Sú staðreynd hefur leitt til mikillar samkeppni um fólk og fyrirtæki því ekkert svæði, ekkert sveitarfélag og ekkert ríki getur lengur treyst því að íbúarnir og atvinnulífið haldi tryggð við uppeldisstað sinn um aldur og ævi. Upp er komin sú staða að þau sveitarfélög sem best geta uppfyllt óskir og þarfir íbúanna og atvinnulífsins hafa betur í þeim skilningi að þar verður mestur vöxtur.

Af ýmsum ástæðum hefur íslenska sveitarstjórnarkerfið ekki aðlagast breyttum aðstæðum nógu hratt og á það ekki síst við um þau sveitarfélög sem byggja afkomu sína á frumvinnslugreinum. Fjölmennari sveitarfélög sem bjóða upp á fjölbreytta atvinnu og þjónustu eru líklegri en önnur til að geta tekið þátt í samkeppninni um fólk og fyrirtæki til framtíðar.

Góðir fundarmenn. Sú tillaga sem þið þurfið að taka afstöðu til er lögð fram af sveitarstjórnum Þórshafnarhrepps og Skeggjastaðahrepps. Ráðuneytið og Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hafa ákveðnum skyldum að gegna gagnvart sameinuðum sveitarfélögum hvað varðar leiðbeiningar og fjárhagslegan stuðning. Ekki liggur hversu mikinn stuðning hið sameinaða sveitarfélag mun fá úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, en reynslan segir okkur að sameinuð sveitarfélög fá umtalsverða fjármuni til að undirbúa hið nýja sveitarfélag og bæta þjónustu sína.

Ég er ekki kominn hingað til að segja ykkur að sameinast, enda er það ekki í mínum verkahring að ákveða slíkt, heldur ykkar, íbúanna sjálfra. Það sem ég vil biðja ykkur að gera, er að kynna ykkur málið vel, mæta á kjörstað og taka afstöðu. Sameiningarnefndin undir forystu Áka Guðmundssonar og Björns Ingimarssonar hefur skilað afskaplega góðu starfi sem meðal annars má sjá af vönduðum bæklingi sem nefndin gaf út.

Ég sé margt sem mælir með sameiningu þessara sveitarfélaga. Það eru mörg tækifæri framundan. En ykkar er valið í þessu sambandi. Endanlegt ákvörðunarvald liggur hjá ykkur, íbúunum. Til að sameiningartillagan verði samþykkt þarf einfaldur meirihluti þátttakenda í hverju sveitarfélagi að segja já. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur málið og taka þátt þann 8. apríl næstkomandi.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum