Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. ágúst 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Fyrsta skóflustungan tekin að nýju hjúkrunarheimili á Eskifirði

 

Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra
Fyrsta skóflustungan tekin að nýju hjúkrunarheimili á Eskifirði, 18. ágúst 2011

Góðir fjarðarbúar og aðrir gestir.

Upp er runnin langþráð stund og einstaklega ánægjulegt að nú geti hafist framkvæmdir við byggingu nýs hjúkrunarheimilis hér á Eskifirði sem þjóna mun íbúum hér á svæðinu.

Dagurinn sem var valinn til þess að taka fyrstu skóflustunguna að nýja heimilinu er enginn venjulegur dagur. Í fyrsta lagi er 18. ágúst afmælisdagur Eskifjarðarkaupstaðar sem sameinaðist Fjarðabyggð árið 1998 og þennan sama dag fyrir 22 árum var hjúkrunarheimilið Hulduhlíð tekið í notkun.

Eins og ég sagði þá er þetta langþráð stund. Ég ætla hins vegar ekki að nota tímann hér til þess að rekja þá sögu sem að baki er vegna undirbúnings að byggingu nýs hjúkrunarheimilis og svo margir hér þekkja. Við skulum miklu heldur horfa fram á veginn og gleðjast yfir því að á teikniborðinu er tilbúið fullhannað, glæsilegt og vel skipulagt hjúkrunarheimili. Nú er ekkert því til fyrirstöðu að bjóða út verkið og hefjast handa við byggingu heimilisins.

Nýja hjúkrunarheimilið mun leysa af hólmi Hulduhlíð sem hefur þjónað mörgu fólki vel á sinni tíð. Ég ætli síst að lasta það ágæta heimili en tel þó ekki ofsagt að þörfin sé orðin brýn fyrir nýtt húsnæði í samræmi við þær kröfur sem eðlilegt er að gera til hjúkrunarheimila samtímans.

Ráðuneytið setti fyrir nokkrum árum viðmið um skipulag hjúkrunarheimila. Þar er lagt til grundvallar að hjúkrunarheimilum sé ætlað að vera heimili fólks sem heilsu sinnar vegna er ekki lengur fært um að búa á eigin vegum og þurfi á umönnun og hjúkrun að halda. Áhersla er lögð á að hjúkrunarheimili líkist eins og kostur er húsnæði, skipulagi og aðstæðum á venjulegum einkaheimilum fólks en mæti engu að síður þörfum þeirra sem hafa skerta getu til athafna daglegs lífs.

Í viðmiðunum eru settar fram helstu kröfur sem húsnæði þarf að uppfylla til að mæta þessum áherslum í samræmi við þarfir fólks á hjúkrunarheimilum.

Áhersla er lögð á litlar hjúkrunareiningar með rúmgóðu einkarými fyrir hvern og einn auk sameiginlegs rýmis fyrir íbúa og starfsfólk hverrar einingar með eldunaraðstöðu, borðstofu og dagstofu.

Nýja heimilið sem hér mun rísa er að öllu leyti hannað og skipulagt í samræmi við viðmið ráðuneytisins. Byggingin verður á einni hæð, hjúkrunarrými verða 20 í þremur einingum með sameiginlegri aðkomu og stoðrýmum. Sérstök eining er fyrir heilabilaða ætluð sex íbúum.

Áætlaður heildarkostnaður við byggingu heimilisins er 640 milljónir króna. Fjarðabyggð leggur fram 15% kostnaðarins en 85% koma úr ríkissjóði.

Góðir gestir.

Ég hef skoðað teikningar að nýja hjúkrunarheimilinu og er þess fullviss að það muni falla vel inn í bæjarmyndina og verða jafnt til gagns og prýði.

Mér er sagt að Fjörugrjót úr Vattarnesskriðum verði notað til skreytinga og þannig sköpuð tengsl við náttúru og umhverfi staðarins.

Ánægjuleg viðbót, sem segja má að sé utan dagskrár, verður garðskálinn sem ákveðið hefur verið að byggja við við hjúkrunarheimilið en hann verður reistur fyrir fé úr gjafasjóði Thors Klausen.

Fyrsta skóflustungan gefur fyrirheit um það sem koma skal. Vonandi munu framkvæmdir ganga vel en gert er ráð fyrir að heimilið verði tilbúið að sumarlagi 2013. Hver veit nema 18. ágúst geti enn á ný komið við sögu sem hátíðisdagur í lífi heimamanna hér.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum