Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

03. september 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Fjórðungsþing Vestfirðinga

Ávarp velferðarráðherra á Fjórðungsþingi Vestfirðinga

Bolungarvík 2.–3. september 2011

Góðir gestir á Fjórðungsþingi Vestfirðinga.

Þakka ykkur fyrir að bjóða mér til Fjórðungsþings Vestfirðinga. Það er mikils virði fyrir mig að hitta ykkur sveitarstjórnarmenn á heimavelli, ásamt öllum öðrum góðum gestum þingsins. Án efa eru mörg mál sem brenna heitt á mönnum hér, þar sem sæti eiga fulltrúar tíu sveitarfélaga í þessum víðfeðma og stórbrotna en tiltölulega fámenna og dreifbýla landshluta.

Samkvæmt dagskrá er mikið lagt undir í umræðunni. Annars vegar stoðkerfi atvinnulífsins, þjónusta gagnvart notendum, hvort og hvernig sé hægt að bæta hana, auka skilvirkni og samvinnu og fleira. Svo er það sóknaráætlunin: Ísland 20/20 og tillögur ykkar Vestfirðinga um forgangsröðun verkefna í tengslum við fjárlagagerðina. Allt þetta er til umræðu á Fjórðungsþinginu og varðar stefnumótun svæðisins til framtíðar.

Fyrir skömmu var haldinn samráðsfundur fulltrúa sveitarfélaga á Vestfjörðum, ráðuneyta og stofnana, þar sem sóknaráætlunin var til umfjöllunar og verkefni sem snúa að eflingu byggðar og atvinnusköpunar hér í samræmi við samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 5. apríl síðastliðnum. Áður en lengra er haldið vil ég biðjast velvirðingar á því að velferðarráðuneytið átti ekki fulltrúa á þessum fundi. Ég harma að þannig skyldi fara, því það var síður en svo ásetningur ráðuneytisins að sniðganga fundinn. Annar samráðsfundur var 30. ágúst og þangað mætti fulltrúi ráðuneytisins eins og vera ber.

Eins og fram kom í kjölfar fundar ríkisstjórnarinnar hér fyrir vestan í vor skal fylgja verkefnunum eftir með samráði stjórnvalda og sveitarfélaganna með það að markmiði að ábyrgð þeirra færist í auknum mæli heim í hérað. Þessi áform og aðgerðir standa í fullu gildi, og ég lýsi heilshugar vilja mínum til þess að vinna áfram að framkvæmd þeirra verkefna sem snúa að velferðarráðuneytinu í samstarfi við ykkur heimamenn.

Góðir gestir.

Það er verulegt áhyggjuefni hve fólksfækkun hefur verið mikil og viðvarandi um langt skeið í mörgum sveitarfélögum á Vestfjörðum. Okkur verður að takast að snúa þessari þróun við með markvissum og raunhæfum aðgerðum. Ég trúi því að hér geti náðst jafnvægi; sjálfbær byggð með öflugu og fjölbreyttu atvinnulífi sem rennir styrkum stoðum undir alla þá þætti sem gera búsetu á svæðinu eftirsóknarverða. Þær aðgerðir á Vestfjörðum sem ríkisstjórnin samþykkti í vor að ráðast í hafa að markmiði að stuðla að þessu. Þær snúa að því að bregðast við samdrætti með forgangsröðun verklegra framkvæmda hins opinbera, bregðast við alvarlegu atvinnuástandi á Flateyri, jöfnun búsetuskilyrða, aðgerðum í velferðarmálum og eflingu menntunar, rannsókna og opinberrar starfsemi.

Heildarfjárhæð til þessara aðgerða er metin um 5,4 milljarðar króna. Um 4,3 milljarðar renna til samgönguverkefna á árunum 2011–2013, um 1 milljarður til ofanflóðaverkefna árin 2012 og 2013 og um 100 milljónir króna dreifast á tólf verkefni á sviði velferðar-, mennta- og byggðamála.

Af verkefnum sem varða ráðuneyti mitt var ráðist í átaksverkefni um tímabundin störf, einkum fyrir íbúa Flateyrar. Sett voru á fót átta mismunandi verkefni í þessu skyni og störfuðu við þau 29 manns. Búið er að verja samtals 20 milljónum króna í þetta verkefni. Átta milljónir hafa komið frá velferðarráðuneytinu, 11 milljónir frá Vinnumálastofnun og 2 milljónir frá Ísafjarðarbæ. Ég vil einnig segja frá því að í bígerð er að stofna til eins til tveggja annarra atvinnuskapandi verkefna þannig að fjárveitingin nýtist að fullu. 

Atvinnuástand er nokkuð mismunandi eftir byggðarlögum hér fyrir vestan. Ég vil hins vegar halda því til haga að sé horft til atvinnuástands í einstökum landshlutum sést að staðan á Vestfjörðum er með því betra sem gerist. Í júlí í fyrra mældist atvinnuleysið 3,1%. Það er nú um 2,6% á móti 6,6% atvinnuleysi á landinu öllu að meðaltali.

Í samræmi við ákvörðun ríkisstjórnarinnar var ákveðið að ráðast í samstarfsverkefni um öldrunarþjónustu sem snýr einkum að efldri heimahjúkrun á Flateyri með samþættingu við félagsþjónustu þar. Velferðarráðuneytið hefur tryggt 20 milljónir króna til þessa verkefnis. Það er mikilvægt að þið heimamenn vinnið í sameiningu að útfærslu varðandi framkvæmdina og hvernig þið getið best nýtt þessa fjármuni í þágu íbúanna. Æskilegt væri að ráðuneytið fengi frá ykkur beinar tillögur um þetta.

Ég nefni einnig að starfsemi hjúkrunarheimilanna í Barmahlíð og Reykhólasveit hefur verið varin og rýmum ekki fækkað, líkt og víðast annars staðar.

Af stærri verkefnum á sviði velferðarmála er samstarfsverkefni stjórnvalda og sveitarstjórna vegna áforma um byggingu hjúkrunarheimilis á Ísafirði og endurbyggingu hjúkrunarheimilisins hér í Bolungarvík. Hér þarf að fara vel yfir mögulega kosti varðandi uppbygginguna, fjármögnun framkvæmda og allt fyrirkomulag miðað við hvað er hagfelldast fyrir sveitarfélögin, íbúana og einkum þá sem munu njóta þjónustunnar. Ég legg áherslu á að við lendum þessum málum sem fyrst og helst fyrir áramót.

Fjölmenningarsetur hefur starfað í tíu ár og hefur að mínu mati gefist afar vel. Þetta er geysilega mikilvæg upplýsingaveita sem heldur úti vef með fjölbreyttum, aðgengilegum og hagnýtum leiðbeiningum og upplýsingum um íslenskt samfélag fyrir þá sem stíga hér fyrstu skrefin. Þessar upplýsingar eru á mörgum tungumálum og sömuleiðis símaþjónusta sem er snar þáttur í starfseminni og afar mikilvæg þar sem fólk getur hringt og rætt, á sínu móðurmáli, við fólk með mikla þekkingu sem getur aðstoðað og vísað veg í kerfinu. Það er augljóst að Fjölmenningarsetur getur verið mjög mikilvægur bakhjarl fyrir sveitarfélögin í landinu varðandi málefni útlendinga, en ég legg áherslu á að þjónusta við innflytjendur er og á að vera á hendi sveitarfélaga á hverjum stað.

Ríkisstjórnin hefur lýst vilja sínum til að tryggja starfsemi Fjölmenningarseturs með lögum. Í samræmi við það er nú unnið að undirbúningi frumvarps um innflytjendur í velferðarráðuneytinu og ég stefni að því að það verði lagt fram á haustþingi.

- - - -

Góðir gestir.

Eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar er að efla sveitarstjórnarstigið og fela sveitarfélögum ábyrgð á framkvæmd fleiri verkefna. Stór áfangi í þessa átt varð með tilfærslu ábyrgðar á þjónustu við fatlað fólk til sveitarfélaganna um síðustu áramót.

Enn er stefnt að því að öll þjónusta við aldraðra færist einnig á hendur sveitarfélaganna og hef ég miðað við að það náist í byrjun árs 2014. Við þurfum þó að skoða þetta í stærra samhengi, ekki síst út frá stöðu heilbrigðisstofnana úti um land og verkefna þeirra og aðstæðum sveitarfélaga á hverjum stað. Ég tel jafnframt fulla ástæðu til að skoða möguleika þess að sveitarfélögin taki að sér ábyrgð á heilsugæsluþjónustu, líkt og reifað er í drögum að heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Ég tel mikilvægt að sveitarfélög og ríki vinni saman að því að koma upp þjónustustofnunum sem víðast, þar sem öll almenn þjónusta við íbúana verður, bæði félags- og heilbrigðisþjónusta auk annarrar þjónustu. Saman geti þessi tvö stjórnsýslustig boðið upp á enn betri þjónustu en nú er veitt.

Öll tel ég að öldrunarmál og heilbrigðismál spili vel saman, enda í mörgum atriðum nátengd. Þau snúast fyrst og fremst um grunnþjónustu eða svokallaða fyrsta stigs þjónustu. Þau eru í eðli sínu nærþjónusta sem mikilvægt er að veita sem næst íbúunum á hverjum stað og að mínum dómi skiptir miklu að heimamenn og notendur þjónustunnar fái sem mestu ráðið um fyrirkomulag hennar, skipulag og þróun.

Góðir gestir.

Ég ætla að víkja aðeins nánar að sóknaráætlun til ársins 2020, því þar er unnið út frá þeirri hugsun að efla aðkomu sveitarfélaga og landshlutasamtaka þeirra að ráðstöfun ríkisfjár.

Mikilvægir þættir í þessari vinnu er gerð sóknaráætlana fyrir landshluta, gerð fjárfestingaráætlunar og vinna við einföldun og samþættingu á opinberum stefnum og áætlunum.

Landshlutasamtök sveitarfélaga vinna nú að því að taka saman og forgangsraða verkefnum á sínu svæði inn í áætlunina ásamt verklýsingum og eiga að skila niðurstöðum sínum til fjármálaráðuneytisins fyrri hluta septembermánaðar. Verkefnin eiga að samræmast þeim áherslum sem lýst er í Ísland 20/20 og skulu rúmast innan þess ramma sem ráðuneytum er markaður í fjárlögum.

Sóknaráætlunin er nýjung sem byggist eins og ég sagði á þeirri hugsun að efla aðkomu sveitarfélaga og heimafólks við stefnumótun, þróun og uppbyggingu landssvæða. Í þessu felst veruleg aukin valdreifing með breiðari aðkomu en áður að ákvarðanatöku um forgangsröðun verkefna í hverjum landshluta. Ég tel þetta algjörlega nauðsynlegt og falla vel að stefnu um eflingu sveitarfélaga og yfirfærslu verkefna á þeirra hendur samhliða aukinni ábyrgð sem þar með fylgir.

Fjárlagagerð fyrir næsta ár er nú á lokastigi. Fulltrúar velferðarráðuneytisins hafa að undanförnu fundað með stjórnendum stofnana ráðuneytisins til að ræða um rekstrarstöðu og fagleg málefni í tengslum fjárlagavinnuna. Þessir fundir eru afar mikilvægir fyrir ráðuneytið og stofnanirnar. Við þurfum enn að hagræða og draga úr útgjöldum og þar náum við ekki árangri nema með góðu samráði og samstarfi.

Það hvílir þung ábyrgð og skylda á okkur öllum að ná jafnvægi í rekstri hins opinbera en tryggja samt að almenningur hafi aðgang að allri nauðsynlegri þjónustu sem rétt er og skylt að veita í velferðarsamfélagi sem stendur undir nafni.

- - - - - -

Talað orð gildir

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum