Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

21. október 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Málþing - TAIEX um stefnumótun og stefnuvinnu í málefnum fatlaðs fólks

Distinguished guests.

It is a pleasure to have you here today and we all look forward to hear from your experience in strategic planning and promoting policies and programs for and with disabled persons in the UK, Spain and Northern Ireland.

Góðir gestir, verið öll velkomin á þetta málþing um stefnumótun og stefnuvinnu í málefnum fatlaðs fólks sem er liður í undirbúningi samningaviðræðna Íslands og Evrópusambandsins. Þingið er haldið á grundvelli TAIEX sem stendur fyrir Technical Assistance and Information Exchange Instrument sem felur í sér tæknilega aðstoð við umsóknarríki að Evrópusambandinu og á að undirbúa þau fyrir þær skuldbindingar sem hugsanleg aðild að sambandinu felur í sér.

Það er framkvæmdastjórn Evrópusambandsins í samvinnu við velferðarráðuneytið sem stendur að málþinginu en markmiðið er að auðvelda starfsfólki ríkis og sveitarfélaga að tileinka sér nýja starfshætti og sinna skyldum sínum á sem árangursríkastan hátt.

Fyrirlesararnir sem hingað eru komnir munu segja frá reynslu af verkefnum sem þeir hafa komið að í sínum heimalöndum í tengslum við Evrópusambandið. Þeir hafa án efa margs að miðla og þetta gefur okkur færi á að máta okkur við það sem vel er gert annars staðar og orðið okkur sjálfum hvatning í okkar vinnu og til þess að gera enn betur. Það er von mín að sá stuðningur sem felst í TAIEX geti stuðlað að því:

  • að auka samhæfingu þjónustu við fatlaða og gera hana skilvirkari,
  • að veita íslenskum stjórnvöldum kost á því að draga lærdóm af aðferðafræði annarra Evrópuþjóða við gerð framkvæmdaáætlana þegar mótuð er þjónusta við fatlað fólk til framtíðar,
  • að kveikja nýjar hugmyndir við áætlanagerð og þróun þjónustu við fatlað fólk,
  • að þróa aðferðir við samráð og samvinnu við hagsmunaaðila
  • og síðast en ekki síst að tengja samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks við þær framkvæmdaáætlanir sem unnið er að.

Áður en ég set málþingið ætla ég að fara nokkrum orðum um þau verkefni sem hæst ber í málefnum fatlaðs fólks nú um stundir. Verkefnin eru mörg og viðamikil og tengjast flest á einhvern hátt þeim tímamótum sem urðu um síðustu áramót með flutningi málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga.

Með breytingu á lögum um málefni fatlaðra um síðustu áramót, sem við endurskoðun laganna fengu heitið lög um málefni fatlaðs fólks, var meðal annars kveðið á um að velferðarráðherra skuli leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks þar sem sett verði fram stefna í málaflokknum, skýr forgangsröðun verkefna, markviss aðgerðaáætlun og skilgreindir árangursmælikvarðar. Var jafnframt kveðið á um að þar skuli tímasetja aðgerðir vegna lögfestingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, vegna aðgengismála, biðlista eftir þjónustu, atvinnumála fatlaðs fólks og samræmds mats á þjónustu.

Vinna við gerð þessarar framkvæmdaáætlunar stendur nú sem hæst í velferðarráðuneytinu.

Lagabreytingin um síðustu áramót fól einnig í sér fjórtán önnur stór verkefni sem hrinda þarf í framkvæmd á þessu ári eða ljúka að fullu. Ég ætla að nefna þau helstu hér á eftir:

  • Settar hafa verið tvær reglugerðir, annars vegar um þjónustu við fatlað fólk á heimilum þess og hins vegar reglugerð um trúnaðarmenn sem voru skipaðir síðsumars sem eru átta talsins og starfa um allt land.
  • Alþingi samþykkti í vor ný og mikilvæg lög um réttindagæslu fyrir fatlað fólk.
  • Nú er á lokastigi í velferðarráðuneytinu gerð frumvarps um aðgerðir gegn beitingu nauðungar við fatlað fólk og er stefnt að því að leggja það fram á Alþingi á næstu vikum.
  • Að störfum er starfshópur um framtíðarskipulag atvinnumála fatlaðs fólks og er stefnt að því að sá hópur ljúki störfum fyrir næstu áramót.
  • Lokið hefur verið við gerð þriggja svokallaðra leiðbeinandi reglna sem ráðherra er heimilt að setja, í fyrsta lagi reglur um stuðningsfjölskyldur, í öðru lagi reglur vegna náms- og tækjakaupa og loks reglur um ferðaþjónustu. Þessar reglur eru nú í umsagnarferli en vonandi fæ ég þær til staðfestingar fljótlega.
  • Verkefnisstjórn um notendastýrða persónulega aðstoð hefur verið að störfum frá því í maí á þessu ári og stefnir að því að leggja fram stöðuskýrslu í næsta mánuði ásamt leiðbeiningum til sveitarfélaga um meðferð umsókna um þessa þjónustu.
  • Fulltrúar fimm ráðuneyta hafa unnið að verkefnum sem tengjast fullgildingu samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er áætlað að þeirri vinnu ljúki næsta vor.

Ég nefni einnig hér vinnu við svokallað SIS-mat á þjónustuþörf fatlaðs fólks. Í því felst að gera vandað mat á þörfum fatlaðs fólks fyrir stuðning og þjónustu og ég tel ótvírætt að SIS-matskerfið muni verða mikilvægur liður í gæðastjórnun þjónustu við fatlað fólk samhliða margvíslegum öðrum ávinningi af kerfinu.

Að lokum minni ég á opna ráðstefnu um aðstæður fatlaðs fólks, aðbúnað, þjónustu, viðhorf, líðan og sjálfræði sem haldin verður í Hörpu 26. október næstkomandi. Þar verða kynntar niðurstöður viðamikillar rannsóknar sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands vann fyrir velferðarráðuneytið í því skyni að afla upplýsinga um stöðu málefna fatlaðs fólks svo unnt sé að meta faglegan ávinning af flutningi hans frá ríki til sveitarfélaga. Ég hvet ykkur öll til að mæta.

Góðir gestir.

Ég ætla nú að hleypa að okkar góðu erlendu gestum. Vonandi verður málþingið lærdómsríkt og til gagns og ánægju fyrir alla sem hér eru samankomnir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum