Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

15. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Ávarp ráðherra á málþingi um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði málþingið
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra ávarpaði málþingið
Málþing um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi

16. mars 2012 
Ávarp Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra


Góðir gestir.

Það er mér ánægja að ávarpa málþingið sem hér er hafið um málefni fatlaðs fólks í alþjóðlegu ljósi og alveg sérstök ánægja að bjóða velkominn hingað Dr. Tom Shakespeare, sérfræðing hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni og einn höfunda fyrstu alþjóðaskýrslunnar um fötlun og aðstæður fatlaðs fólks, World report on disability, sem er kveikjan að málþinginu og meginefni þess.

Dr. Tom - við metum það mikils að þú skulir gefa þér tíma í stuttri heimsókn hingað til lands til að kynna okkur Íslendingum þessa stórmerkilegu skýrslu. Ég held að allir geti verið sammála um að hún sé ómetanlegt innlegg í baráttu fatlaðs fólks fyrir bættri stöðu og viðurkenningu á rétti sínum til fullrar samfélagsþátttöku á borð við aðra.

Gerð Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks er tvímælalaust eitt hið merkasta skref sem stigið hefur verið á alþjóðlegum vettvangi í þessum málaflokki. Ísland var eitt af fyrstu ríkjum heims til að undirrita samninginn, þann 30. mars 2007 en hefur ekki fullgilt hann ennþá. Að því er hins vegar stefnt. Í tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem nú liggur fyrir Alþingi er fjallað um aðgerðir sem nauðsynlegar eru til þess og lagt til að frumvarp til fullgildingar samningsins verði lagt fram á vorþingi árið 2013.

Skýrslunni sem hér er til umfjöllunar; World report on disability, er ætlað að veita þjóðum sem aðild eiga að samningnum leiðbeiningar um innleiðingu hans. Skýrslan er okkur því sérstaklega kærkomin og mun án efa nýtast vel í þeirri vinnu sem framundan er vegna innleiðingarinnar en einnig í tengslum við önnur verkefni sem unnið er að hér á landi í því skyni að bæta aðstæður fólks með fötlun og styrkja réttindi þess.

Ég vil taka það sérstaklega fram að í lögum um málefni fatlaðs fólks er kveðið á um að við framkvæmd þeirra skuli tekið mið af alþjóðlegum skuldbindingum sem íslensk stjórnvöld hafa gengist undir, einkum samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Sama máli gegnir um þingsályktunartillöguna um framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks sem ég gat um áðan og þar er einnig lögð áhersla á jafnrétti og bann við mismunun á grundvelli fötlunar. Eins er þar fjallað um viðurkenningu á því að fötlun sé hugtak sem þróast og breytist og að fötlun verði til í samspili einstaklinga sem eru með skerðingar, umhverfis og viðhorfa sem hindri fulla og virka samfélagsþátttöku til jafns við aðra.

Þetta er einmitt svo mikilvægt, þ.e. að átta sig á því að fötlun snýst ekki fyrst og fremst um einstaklinginn sjálfan heldur miklu frekar um aðstæðurnar sem samfélagið býr fötluðu fólki. Í samfélaginu eru margvíslegar hindranir í eiginlegum og óeiginlegum skilningi þess orðs sem geta reynst fötluðu fólki óyfirstíganlegur farartálmi og staðið í vegi fyrir aðgengi þess að námi, vinnu, þjónustu, tómstundalífs og svo mætti áfram telja. Oft felast erfiðustu hindranirnar í viðhorfum á borð við fordóma og skilningsleysi samfélags sem viðurkennir ekki mikilvægi fjölbreytninnar fyrir samfélagið og þar með ólíkar þarfir borgaranna vegna mismunandi aðstæðna þeirra. Hlutverk stjórnvalda er að vinna markvisst að því að ryðja þessum hindrunum úr vegi. Þá skiptir miklu að byggja það verkefni á skýrri stefnu með sterkri framtíðarsýn og markvissum aðgerðum og verkáætlunum til skemmri og lengri tíma.

Um allt þetta og svo miklu fleira er fjallað í skýrslunni sem Tom Shakespeare mun kynna fyrir okkur hér á eftir. Ég ætla því ekki að hafa þessi orð fleiri en þakka að lokum öllum þeim sem unnu að undirbúningi málþingsins og hlakka til að hlýða á okkar góða gest. Hann er okkur Íslendingum raunar að góðu kunnur, hefur komið hingað tvisvar áður og vill svo til að er staddur hérna núna til að veita viðtöku heiðursdoktorsnafnbót við Háskóla Íslands.

Megi málþingið verða okkur til gagns og ánægju. Dr. Tom, þakka þér fyrir að deila þekkingu þinni með okkur.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum