Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. apríl 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Góð heilsa bætir lífi við árin

Þann 7. apríl ár hvert heldur Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) stofndag sinn hátíðlegan með því að vekja athygli á tilteknu mikilvægu heilbrigðismáli. Að þessu sinni hvetur stofnunin til þess að allir hugi að eigin heilsu undir kjörorðinu – Góð heilsa bætir lífi við árin. Sífellt fleiri ná hárri elli en aukin þekking og framfarir hafa orðið til þess að mannkyninu hefur tekist að bæta árum við lífið. Öldruðum fer fjölgandi og því er brýn þörf á að vekja athygli á málefnum aldraðra og aðgerðum sem bæta lífi við árin. Aukið langlífi er fagnaðarefni en ekki neikvætt fyrirbrigði og fólk á ekki að bera skarðan hlut frá borði aldurs síns vegna. Stofnunin býður því þjóðum heims að taka sameiginlega þátt í að vekja athygli á framlagi eldri borgara til samfélagsins og vinna gegn aldursfordómum. Með þekkingu að vopni er hægt að vinna gegn neikvæðum staðalímyndum. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að rannsóknir sýna að andleg og líkamleg hnignun vegna aldurs er oft mun minni en haldið er fram og bendir meðal annars á að nýlega hafi einstaklingur hlaupið heilt maraþon fyrstur manna yfir tírætt. Aldraðir gegna veigamiklu hlutverki í samfélaginu en oft virðist litið framhjá því framlagi sem felst meðal annars í umönnun annarra, svo sem eigin foreldra, maka, barna eða barnabarna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að eftir hamfarirnar í Japan 2011 voru það aldraðir sem buðu fram aðstoð sína á svæðinu sem varð fyrir geislun þar sem þeir höfðu minni áhyggjur af langtímaáhrifum geislavirkninnar en þeir sem yngri voru. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin er ekki ein um að beina kastljósinu að málefnum aldraðra í ár því Evrópusambandið hefur tileinkað árið virkni aldraðra og samstöðu kynslóða og tekur Ísland þátt í Evrópuárinu. Evrópuárinu er ætlað að opna augu almennings fyrir framlagi eldra fólks til samfélagsins og snýst umræðan um það hvernig skapa megi tækifæri til að auka virkni eldri borgara og efla samstöðu kynslóðanna. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur áherslu á þrjá þætti sem eru mikilvægir fyrir virkni aldraðra, það er heilsu, þátttöku og öryggi. Er þá átt við það að fólk nái að eldast við góða líkamlega, andlega og félagslega heilsu, að það hafi tækifæri til þátttöku í samfélaginu án mismununar og í samræmi við óskir, þarfir og getu hvers og eins og að því verði tryggð fullnægjandi vernd, umhyggja og öryggi í samfélaginu. Góð heilsa er gulli betri eins og máltakið segir og því mikilvægt að huga vel að heilsunni til að eiga frekari möguleika á að vera virk á efri árum og við góða heilsu.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum