Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

12. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, HeilbrigðisráðuneytiðGuðbjartur Hannesson, félagsmálaráðherra 2010, heilbrigðisráðherra 2010, velferðarráðherra 2011-2013

Nýjar varnir heimila gegn verðbólgu

Grein Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra í DV, 12. desember 2012

Samfara bankahruninu haustið 2008 féll gengi íslensku krónunnar eins og steinn. Á skömmum tíma hækkaði verð á innfluttum vörum um fjórðung og verðbólgan fór í lok ársins  í 18,6%, yfir öll rauð strik. Höfuðstóll verðtryggðra íbúðarlána hækkaði að sama skapi og setti greiðslugetu heimilanna í uppnám. Öryggisleysi og vonleysi fylgdi í kjölfarið. Talað var um forsendubrest og skuldafjötra heimilanna enda raskaði gengishrunið jafnvæginu milli skuldanna og greiðslugetunnar.

Það var því ekki að ófyrirsynju  að hagfræðingur  við Háskóla Íslands, dr. Ásgeir Jónsson, var fenginn af ráðherrahópi um skulda- og greiðsluvanda heimilanna til þess kanna kosti þess og galla að setja þak á verðbætur verðtryggðra fasteignalána eða raunvexti slíkra lána. Skýrslan var kynnt opinberlega í gær, en hún varpar ljósi á hvað mögulegt er að gera í þessum efnum og getur lagt grunninn að málefnalegri umræðu um leiðir til þess að bæta öryggi lántakenda. Úttektin bendir þó til þess að þak á raunvexti sé ekki raunhæfur kostur.

Trygging gegn óvæntri hækkun
Öðru máli gegnir um þak á verðbætur verðtryggðra lána. Sú leið virðist raunhæf.

Með því að setja þak á verðtryggingu íbúðarlána er heimilum veitt ákveðið skjól fyrir áföllum í efnahagslífinu. Fari verðbólgan yfir tiltekin mörk,  segjum 4 %, færist öll verðbólga umfram það á reikning lánveitandans sem tryggir þannig lántakandann gegn verðbólgunni.  Gert er ráð fyrir að um slíka tryggingu gegn verðbólgu verði samið í frjálsum samningum. Útreikningar skýrsluhöfunda benda til þess að árlegt tryggingargjald vegna 40 ára íbúðaláns með 4 prósenta verðbótaþaki verði að samsvara 1,5% vaxtaálagi við núverandi aðstæður. Þetta gjald hækkar eða lækkar í takt við verðbólguvæntingar, en verðbólga nú er nálægt 5 prósentum. Þetta þak á verðbætur ætti einnig að vera lánveitendum hagstætt þar sem líkur á vanskilum og neikvæðu eigin fé heimilanna minnka til muna.  Jafnvel má færa fyrir því rök að lán með verðbótaþaki ættu að njóta betri vaxtakjara en almenn verðtryggð lán.

Þetta má útskýra betur. Skýrsluhöfundur tekur dæmi af 20 milljóna króna láni Íbúðalánasjóðs til 40 ára með uppgreiðsluheimild sem nú ber 4,7% raunvexti. Á upphafsdegi lánsins væri mánaðarleg greiðslubyrði um 93.000 kr. Ef sett væri þak á verðbætur lánsins eins og útskýrt var hér að framan og bætt við 1,5% tryggingagjaldi myndi mánaðarleg greiðsla verða um 113.000 kr. eða um 20% hærri en ella. Meðan verðbólgan væri undir 4% yrði greiðslubyrði lánsins ríflega 20% hærri á hverjum tíma en af venjulegu verðtryggðu húsnæðisláni. Færi verðbólgan hins vegar yfir þessi mörk myndi lántakandinn strax njóta verulegs ávinnings. Árið 2008 fór verðbólgan hæst í 18,6% eins og áður segir og miðað við þær aðstæður hefði lántakandinn í dæminu hér að framan sparað sér nærri 15% af höfuðstóli lánsins þar sem ekki hefðu lagst á lánin neinar verðbætur umfram 4%.

Getur komið í stað vaxtabóta
Annar áhugaverður kostur er ræddur í umræddri skýrslu. Hann er sá að stjórnvöld kaupi verðbótatryggingu fyrir tiltekna hópa lántakenda. Slíkt gæti komið fram sem stuðningur við þá sem eru að kaupa sér íbúð í fysta skipti, tekjulága eða aðra sem eiga augljóslega í erfiðleikum með að mæta verðbólguskotum og aukinni greiðslubyrði. Slíkt þak myndi tryggja eigið fé slíkra hópa sem bundið er í húsnæði. Skýrsluhöfundur telur að þessir hópar gætu fyrir vikið notið betri fyrirgreiðslu lánastofnana og jafnvel betri vaxtakjara og bendir á að markviss stuðningur af þessum toga við tiltekna hópa gæti að einhverju leyti leyst af hólmi núverandi vaxtabótakerfi.

Það er ástæða fyrir stjórnvöld að skoða betur þennan kost sem hér hefur verið ræddur. Þetta gæti verið liður í því að auka fjárhagslegt öryggi heimilanna gegn óstöðugleika á borð við þann sem fylgt hefur gjaldmiðli okkar og fylgir honum enn.

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum