Orðskýringar

Í utanríkisþjónustunni eru stundum notuð orð sem mörgum þykja framandi. Hvað er t.d. prótókoll? Attaché? Hvað þýðir það að hafa flutningsskyldu? Hér á eftir eru nokkur algeng orð sem notuð eru í utanríkisþjónustunni útskýrð.

Attaché: starfsheiti diplómatískra sendiráðsmanna sem eru ýmist aðstoðarmenn eða aðstoðarstarfsmenn.

Diplómatar: Fulltrúar ríkja í sendiráðum skiptast í tvo meginflokka: diplómatíska fulltrúa, er oftast nefnast diplómatar, og ræðismenn. Diplómatar eru stundum nefndir sendierindrekar og starfa í utanríkisþjónustunni.

Doyen: er sá sendiherra sem lengst hefur starfað sem slíkur hverju sinni í ákveðinni höfuðborg (óslitið). Hann er stundum nefndur oddviti sendiherranna á staðnum.

Exequatur: er viðurkenning á skipun ræðismanns, ræðisviðurkenning, og er hún víða veitt í formi sérstaks skjals.

Fangamerking-fangmerkja: Við gerð ríkjasamninga geta formenn samninganefnda staðfest með upphafstöfum sínum að samkomulag hafi náðst um samningstexta. Fangmerking er ekki bindandi fyrir hlutaðeigandi ríkisstjórnir.

Flutningsskylda: Flestir starfsmenn utanríkisþjónustunnar eru skyldir til að starfa ýmist í utanríkisráðuneytinu eða í sendiráðum erlendis. Þeir teljast hafa flutningskyldu og flytjast milli “starfspósta” eða staða eftir því sem þörf krefur.

Heimsóknir: Í megin atriðum má skipta opinberum heimsóknum í þrennt. Opinbera heimsókn þjóðhöfðingja – “state visit”, opinbera heimsókn-“official visit” en þar getur bæði verið um að ræða þjóðhöfðingjaheimsókn, heimsókn ráðherra og forstöðumanns alþjóðastofnunar, vinnuheimsókn—“working visit” þar sem gesturinn getur verið ráðherra, háttsettur embættismaður eða forstöðumaður alþjóðastofnunar.

Prótókoll: Prótókollskrifstofa utanríkisráðuneytisins byggir starfsvenjur sínar á hefðum sem tíðkast með öðrum þjóðum og eiga rætur að rekja langt aftur í tímann. Helstu viðfangsefni skrifstofunnar eru: samskipti, við forsetaskrifstofu og forsætisráðuneyti, opinberar heimsóknir, ýmis konar athafnir, samskipti við erlend sendiráð og sendierindreka á Íslandi, málefni ræðismanna, mál varða orður, fána og skjaldarmerki og útgáfa handbóka ráðuneytisins.

Prótókollstjóri: Öll ríki hafa prótókollstjóra og hann er jafnan sendiherra. Prótókollstjóri annast ekki allar opinberar heimsóknir til Íslands, heldur er verksviðið bundið við utanríkisráðuneytið, þ.e. heimsóknir til utanríkisráðherra, til forsætisráðherra og til forseta Íslands.

Ræðismenn: Ræðismenn greinast í tvo aðalflokka: sendiræðismenn og kjörræðismenn (ólaunaða ræðismenn). Stundum er orðið konsúll notað um ræðismenn.

Ræðisstörf: Gerður er munur á sendiráðsstörfum (functions of diplomatic missions) annars vegar og ræðisstörfum (consular functions) hins vegar. Diplómatískir fulltrúar reka mál sín við ríkisstjórn viðtökuríkisins en ræðisstörfin felast fyrst og fremst í aðstoð og vernd hagsmuna (consular protection). Á meðal verkefna eru: -að gæta hagsmuna sendiríkis og ríkisborgara, jafn einstaklinga sem lögaðila í viðtökuríkinu, innan þeirra takmarka sem þjóðaréttur setur, -að stuðla að aukningu viðskiptalegra, efnahagslegra, menningarlegra og vísindalegra samskipta sendiríkisins og viðtökuríkisins og efla með öðrum hætti vinsamleg samskipti -að gefa út vegabréf og ferðaskilríki til handa ríkisborgurum sendiríkisins og staðfestingaráritanir.

Sendiráð: Hin hefðbundna skilgreining á því hvert sé hlutverk sendiráða er sú, að fulltrúi ríkis, eigi að túlka stefnu ríkisstjórnar sinnar og vera hinn opinberi milligönguaðili í samskiptum sendiríkisins og viðtökuríkisins og eigi enn fremur að gefa skýrslur um ástand og þróun í viðtökuríkinu til ríkisstjórnar sinnar og vernda hagsmuni sendiríkisins og ríkisborgara þess í viðtökuríkinu. Helstu viðfangsefni sendiráða eru:

  • Að vera fulltrúi sendiríkisins í viðtökuríkinu
  • Að vernda hagsmuni sendiríkisins og ríkisborgara þess í viðtökuríkinu innan þeirra takmarkana sem þjóðaréttur setur
  • Að annast samningsgerð við ríkisstjórn viðtökuríkisins
  • Að afla á löglegan hátt upplýsinga um ástand og þróun mála í viðtökuríkinu og gefa ríkisstjórn sendiríkisins skýrslur um það
  • Að efla vinsamleg samskipti milli sendiríkisins og viðtökuríkisins og auka efnahagsleg, menningarleg og vísindaleg samskipti þeirra

Starfsmenn utanríkisþjónustunnar aðrir en kjörræðismenn skiptast í grófum dráttum í eftirfarandi flokka heima og erlendis: Ráðuneytisstjóri, Sendiherrar Skrifstofustjóri. Sendifulltrúar. Aðalræðismenn. Deildarstjórar. Sendiráðunautar. Ræðismenn. Sendiráðsritarar. Vararæðismenn.

Sendiherra: Sendiherra er fulltrúi ríkis eða þjóðhöfðingja hjá öðru ríki.

Sendifulltrúi: Sendifulltrúi getur sá verið kallaður sem er forstöðumaður sendiráðs (Chargé d´Affaires). Í íslensku er þetta orð notað sem þýðing á diplómatísku starfsheiti “Minister-Counsellor”.

Sendiráðunautur: Sendiráðunautur er háttsettur starfsmaður sendiráðs.

Sendiráðsritari: Starfsmaður í sendiráði eða ritari sendisveitar.

Trúnaðarbréf: Trúnaðarbréf kallast á ensku “Credentials” eða “Letters of credence”. Trúnaðarbréf er í raun og veru sendibréf í sérstöku formi frá þjóðhöfðingja þess ríkis, sem sendiherra kemur frá (sendiríkisins), til þjóðhöfðingja þess ríkis sem tekur við sendiherranum (viðtökuríkisins). Trúnaðarbréf sendiherra hafa að jafnaði lokasetningu þess efnis að sendandinn biður viðtakandann að “leggja trúnað á” allt sem sendiherrann kunni að tjá honum í sínu nafni eða ríkisstjórnar sinnar.

Heimildir:

Pétur J. Thorsteinsson: Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál (1992) Bindi I, II og III, Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík.

Pétur J. Thorsteinsson: Meðferð utanríkismála-Yfirlit, (1999), Útgefandi: utanríkisráðuneytið, Reykjavík

Helgi Ágústsson: Prótókollnámskeið, Erindi flutt 17. september 1998.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn