Hoppa yfir valmynd
27. mars 2021 Brussel-vaktin

Vík milli vina vegna bóluefna

Sendiráðið í Brussel fylgist náið með því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins. Undanfarið hefur þetta borið hæst:

Stórveldaslagur

Í yfirlýsingu leiðtogafundar ESB-ríkjanna 25. mars er vikið að nauðsyn þess að herða eftirlit með útflutningi bóluefnis í samræmi við óskir framkvæmdastjórnar ESB. Daginn áður hafði framkvæmdastjórnin gefið út að herða ætti á reglum sem gilt hafa frá 1. febrúar sl., sbr. frásögn hér fyrir neðan. Nú á ekki einvörðungu að beita þeim gegn fyrirtækjum sem virða ekki skuldbindingar sínar gagnvart ESB – líkt og gert var þegar komið var í veg fyrir að AstraZeneca flytti 250.000 skammta til Ástralíu – heldur á einnig að horfa til stöðunnar í viðtökuríkinu.

Það blasir við að sögn Le Monde að spjótum er hér einkum beint að Bretlandi. Ekkert bóluefni hefur verið flutt út frá Bretlandi á meðan búið er að flytja þangað frá meginlandinu 21 milljón skammta (einkum Pfizer BioNTech). Samt hafði samningur framkvæmdastjórnarinnar við AstraZeneca gert ráð fyrir að efni frá tveimur verksmiðjum í Bretlandi myndi þjóna markaði í Evrópusambandinu. 

Að sögn blaðsins hafði forseti framkvæmdastjórnarinnar ekki varað aðildarríkin við áður en nýju reglurnar voru tilkynntar. Undirtektir voru að sögn misjafnar. Ríki þar sem er umfangsmikil lyfjaframleiðsla eða þar sem hefur ríkt frjálslyndi í efnahagsmálum eins og Írland, Belgía og Svíþjóð hafa látið í ljósi áhyggjur. Þannig kvaðst Stefan Löfven forsætisráðherra Svíþjóðar óttast viðskiptastríð um bóluefni sem væri mikið áhyggjuefni þar sem ekkert land og engin heimsálfa væri óháð aðföngum við framleiðslu bóluefna.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, kvaðst bera fullt traust til framkvæmdastjórnarinnar því það væri nauðsynlegt að verja hagsmuni Evrópuríkja. Það væri ekki pláss fyrir einfeldni á þessu sviði. Í Bandaríkjunum væri séð til þess að bandarískir hagsmunir gengju fyrir og ekkert hefði verið flutt úr frá Bretlandi. Koma þyrfti í veg fyrir að aðrir nældu sér í bóluefni framleidd í Evrópu á meðan fyrirtækin sem ættu í hlut stæðu ekki við skuldbindingar sínar.

Því væri hins vegar ekki að neita, sagði Frakklandsforseti að Bandaríkin hefðu skotið Evrópu ref fyrir rass í bóluefnakapphlaupinu meðal annars með því að sýna meira frumkvæði og með því að vera fremur reiðubúin til að taka áhættu. Evrópubúar þyrftu að læra af þessu nú þegar kæmi að því að undirbúa næstu kynslóð bóluefna.

Útflutningur bóluefna til EES EFTA-ríkjanna nú háður leyfi – stjórnvöld mótmæla kröftuglega

Eftir að ljóst var í janúar sl. að framboð á bóluefni í Evrópu yrði ekki eins og væntingar stóðu til tók Evrópusambandið upp tímabundið eftirlit með útflutningi bóluefnis, sbr. reglugerð 2021/442. Ísland sem tekur þátt í sameiginlegum bóluefnainnkaupum með ESB og fær þeim úthlutað í réttu hlutfalli við höfðatölu eins og annars staðar í Evrópu var ásamt öðrum EES/EFTA-ríkjum undanþegið eftirlitinu, einnig þegar það var framlengt hinn 11. mars sl.  

Þann 24. mars sl. samþykkti framkvæmdastjórn ESB hins vegar nýja reglugerð þar sem gerðar eru breytingar á þessu. EFTA-ríkin eru m.a. felld brott af undanþágulistanum. Ástæðan sem ESB gefur fyrir breytingunni er sú að tryggja hafi þurft gagnsæi um flutning bóluefna milli landa og koma í veg fyrir að ríkin á undanþágulistanum yrðu notuð til að komast fram hjá kröfunni um útflutningsleyfi. Þá var því bætt við að áður en leyfi væri veitt skyldi meta framleiðslugetu í viðtökuríkinu og gagnkvæmni, þ.e.a.s. hvort einhverjar hömlur væru á útflutningi á bóluefni eða tengdum bóluefnisframleiðslu til Evrópusambandsins. Einnig mætti taka tillit til stöðu faraldursins og bólusetningar í viðtökuríkinu.

Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt umræddri breytingu á ákvæðum reglugerðar nr. 2021/442 harðlega. Í því sambandi hafa þau bent á að það brjóti gegn ákvæðum 12. gr. EES-samningsins að gera kröfu um útflutningsleyfi vegna útflutnings frá ríkjum ESB til EES EFTA-ríkjanna. Einnig hefur verið bent á að Ísland taki fullan þátt í samstarfi ESB-ríkjanna í innkaupum og dreifingu bóluefna. Þá hafa þau minnt á að sambandið leiðrétti á síðasta ári samsvarandi reglugerð um útflutningsleyfi fyrir hlífarbúnað, en í upphaflegri reglugerð hafði útflutningur á slíkum búnaði frá ríkjum ESB til Íslands og hinna EES EFTA-ríkjanna ekki verið undanþeginn kröfunni um útflutningsleyfi.

Forsvarsmenn ESB hafa svarað því að til að breytingarreglugerðin muni hvorki hafa áhrif á bóluefnasamstarf ESB og Íslands né afhendingu bóluefna til Íslands á grundvelli þess samstarfs.

Aukafundur í sameiginlegu EES-nefndinni

Mótmælum íslenskra stjórnvalda hefur verið komið á framfæri beint við framkvæmdastjórn ESB, sem og einstök aðildarríki sambandsins. Í þessum samtölum hefur því verið komið skýrt á framfæri að íslensk stjórnvöld krefjist þess að umrædd reglugerð verði tafarlaust endurskoðuð og gerð sú breyting að útflutningur á bóluefnum til Íslands verði á ný undanþeginn kröfunni um útflutningsleyfi. Þá var í gær haldinn verði sérstakur aukafundur í sameiginlegu EES-nefndinni til að fara yfir málið og þar sem kröfu um breytingu á reglugerðinni var komið formlega á framfæri.  Fulltrúar Íslands og Noregs töluðu þar einni röddu og Liechtenstein tók undir þann málflutning þótt ríkið í sé annarri stöðu að því leyti að það kaupir bóluefni af Sviss. 

Þrýst á alþjóðlega lausn varðandi stafrænan skatt

Á leiðtogafundi ESB í vikunni var undirstrikað að tafarlaust þyrfti að komast að niðurstöðu um skattlagningu á alþjóðleg netfyrirtæki (e. digital taxation) og brýnt væri að rekstraraðilar greiddu sanngjarna hlutdeild þegar kemur að stafrænum skatti (e. digital levy). ESB aðhyllist alþjóðlega lausn í samræmi við það sem Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) hefur verið að vinna að undanfarna mánuði. Hins vegar ef slíkt bæri ekki árangur fyrir sumarið 2021 þá væru ESB-ríkin tilbúin að taka af skarið og leggja fram eigin tillögu að reglum. Slíka tillögu ætti að innleiða í löggjöf ESB í síðasta lagi fyrir 1. janúar 2023.

Sjálfstæði og fullveldi í stafrænum málum

Leiðtogarnir lögðu á fundi sínum áherslu á mikilvægi stafrænnar umbyltingar við að ná efnahagslegum bata eftir covid-kreppuna og bentu á mikilvægi hennar fyrir framþróun, vernd, samkeppnishæfni og velmegun samfélaganna. Enn fremur bentu þeir á þörfina á að styðja frekar við og stuðla að gagnsæi, stafrænu sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti Evrópu í stafrænum málum. Leiðin til þess væri að byggja á styrkleikum Evrópu á þessu sviði og draga úr veikleikum hennar með vel ígrunduðum aðgerðum, með opnum mörkuðum og í gegnum þátttöku í alþjóðlegri samvinnu. Nýleg orðsending framkvæmdastjórnarinnar um „stafrænan áttavita“ væri skref í þessa átt. Leiðtogarnir lögðu til við ráðherraráðið að vinna úr tillögum orðsendingarinnar sem fyrst undirbúa og kortleggja stafræna þróun Evrópu næsta áratuginn. Auk þess lögðu þeir til við framkvæmdastjórnina m.a. að

  • greinamikilvæga (e. strategic) tækni og tæknigeira sem ástæða væri til að móta stefnu fyrir
  • styðja stafrænu umbyltinguna á breiðari grunni bæði yfir ESB og innan einstakra ríkja sem nær til allra þátta sem skipt geta máli, s.s. menntunar, samkeppnisreglna, rannsókna, iðnaðarstefnu, nýsköpunar og fjármögnunarleiða
  • ·nýta stafræn gögn og kerfi, að teknu tilliti til persónuverndar, til nánari hagsbóta fyrir samfélagið, umhverfið og hagkerfið
  • ·vinna hratt að afgreiðslu nýrra tillagna framkvæmdastjórnarinnar um „digital markets act“, „digital services act“ og „digital governance act“ með það að markmiði að styrkja stafrænan markað. Einnig að styðja við söfnun og bætt aðgengi að opnum gögnum og með því jafna samkeppnisaðstöðu gagnvart rannsóknum og nýsköpun.

Áhersla á aukna samkeppnishæfni Evrópu

Portúgal, formennskuríki leiðtogaráðs Evrópusambandsins, stóð mánudaginn 22. mars sl. fyrir óformlegum ráðherrafundi ESB og EFTA um samkeppnishæfni. Áherslan á fundinum var á styrkingu innri markaðar ESB, aukna samkeppnishæfni Evrópu og sanngjörn samkeppnisskilyrði. Einnig var áhersla á stafræn málefni sem ESB hefur sett í forgang ásamt loftslagsmálum.

Pedro Siza Vieira, ráðherra efnahagsmála í Portúgal, stýrði fundinum og háttsettir fulltrúar framkvæmdastjórnarinnar tóku einnig þátt, þau Margrethe Vestager, varaforseti samkeppnismála, og stafrænnar framtíðar en hún kynnti m.a. stafrænan áttavita ESB til ársins 2030, og Thierry Breton, framkvæmdastjóri innri markaðsmála.

Fyrir Íslands hönd sóttu fundinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem jafnframt er ráðherra samkeppnismála, Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands gagnvart ESB, og Heimir Skarphéðinsson frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, en hann er formaður vinnuhóps EFTA um innri markaðinn og samkeppnismál. Þórdís Kolbrún sló jákvæðan tón í upphafi síns máls og taldi ýmis tækifæri felast í þeim hremmingum sem kórónaveiran hefði valdið. Hún varaði þó við að ríkin innan ESB/EFTA væru hugsanlega of háð aðföngum frá þriðju ríkjum í ýmsum framleiðsluferlum  eins og komið hefur í ljós undanfarið í heilbrigðismálum og benti á nauðsyn þess að auka óhæði ríkjanna við endurskoðun iðnþróunarstefnu ESB (Industrial Strategy).

Þá benti ráðherra m.a. á mikilvægi nýsköpunar til að auka óhæði ríkja og bæta lífsgæði borgaranna. Nýsköpun sé hins vegar oft í höndum lítilla fyrirtækja. Allra ráða þurfi því að leita til að létta byrðar vegna íþyngjandi regluverks en einnig tryggja sanngjarna samkeppnisstöðu nýsköpunarfyrirtækja og frumkvöðlavænt umhverfi með nútímalegum samkeppnis- og ríkisstyrkjareglum. Allt þetta megi yfirfæra á þá miklu nýsköpun sem nú stendur yfir í heilbrigðisvísindum. Þá þurfi evrópskt viðskiptaumhverfi að hafa hraðar hendur varðandi nýsköpun í stafrænum lausnum.

Samhljómur ríkti á fundinum um mikilvægi innri markaðarins í endurreisn efnahagslífsins að loknum heimsfaraldri og um nauðsynlegar aðgerðir sem nýst geta ríkjum og fyrirtækjum beint, einnig í innviðauppbyggingu og þjálfun starfsfólks í stafrænum lausnum.

Orka og loftslag í brennidepli

Í þessari viku var haldin í netheimum fjölsótt ráðstefna undir yfirskriftinni: Hreinorkuskipti, hornsteinn Græna sáttmálans eða Clean Energy Transition: the cornerstone of the European Green Deal.

Ráðstefnan var skipulögð af European Business Summit með atbeina m.a. framkvæmdastjórnar EBS, Evrópska fjárfestingarbankans, stórra orkufyrirtækja og fjölmiðla á borð við Bloomberg og New York Times.

Þingmenn Evrópuþingsins, háttsettir fulltrúar ESB ásamt forsvarsmönnum í orkugeira, loftslagsmálum, háskólasamfélagi og atvinnulífi tóku þátt í vel skipulögðum pallborðsumræðum sem stýrt var af fjölmiðlafólki með sérþekkingu á sviði orku- og loftslagsmála.

Markmið ESB um 55% minni útblástur 2030 (miðað við 1990) og kolefnishlutleysi álfunnar 2050 voru rauði þráðurinn í því hvernig þátttakendur nálguðust umræðuefnið.

Margt áhugavert kom fram og greinilegt að fyrirtæki sem vinna orku úr t.d. kolum eru verulega hugsi. Þó alls ekki jafn neikvæð og mátt hefði reikna með.

Eins og kunnugt er hyggst ESB setja gríðarlega fjármuni í bjargráðasjóð sem er hluti af endurreisnaráætlun vegna heimsfaraldursins og við úthlutun styrkja úr honum verður skýr áhersla á m.a. stafrænar lausnir og ekki síður verkefni sem stuðla að sjálfbærni. Þar munu fjárfestingar á sviði orkuskipta eflaust koma sterkar inn. Úthlutun úr þessum sjóði er ekki hafin en aðildarríkin hafa svigrúm til 30. apríl n.k. til að leggja fram rökstuddar óskir og áætlanir.

Fulltrúi evrópskra flugrekenda sagði á ráðstefnunni að hann liti alls ekki svo á að kórónafaraldurinn tefji sett markmið um orkuskipti í flugi. Bráðnauðsynlegt sé að halda áfram að leita leiða og hreinlega ekki um neitt val að ræða. Það verði hins vegar ekki gert nema með ríkisaðstoð enda megi reikna með að fyrst um sinn verði hver flugferð 5-6 sinnum dýrari en nú er. Þannig spilar þetta saman, atvinnulífið og opinberi geirinn og var andinn á ráðstefnunni afar jákvæður þarna á milli.

Það sem allir voru sammála um var að án aðkomu og sáttar við almenning gæti leiðin að stóra markmiðinu orðið grýtt, sbr. gulvestamótmælin í Frakklandi 2018 og 2019 þegar stjórnvöld voru harðlega gagnrýnd fyrir ,,að hafa misst tengsl við raunveruleikann“ er gjöld á jarðeldsneyti voru hækkuð stórlega. Því þurfi að tryggja að fátækari hópar í samfélaginu verði ekki skildir útundan og lendi í að bera stóraukinn kostnað vegna skipta yfir í endurnýjanlega orkugjafa.

Einnig voru svokallaðar sjálfbærar fjárfestingar til umræðu enda liggur fyrir reglugerð ESB 2020/852 um að koma á fót ramma um sjálfbæra fjárfestingu. Flokkunarkerfið fyrir sjálfbærar fjárfestingar, sem verið er að móta, er sagt vera lykilskref í átt að markmiði ESB um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og jafnframt mikilvægasta og brýnasta aðgerðin í aðgerðaáætlun ESB á sviði sjálfbærra fjármála.

Ráðherraráðið samþykkir stefnumótun um netöryggi

Ráðherraráð ESB samþykkti 22. mars sl. tillögur framkvæmdastjórnarinnar og utanríkismálastjóra sambandsins um stefnu í netöryggismálum þess. Stefnan leggur línurnar að ráðstöfunum ESB til að vernda borgara og fyrirtæki innan ESB fyrir ógnum á netinu, stuðla að öruggum upplýsingakerfum og að vernda opið, frjálst og öruggt net á alþjóðavísu.

Í tillögunum segir að netöryggi sé ómissandi undirstaða fyrir þrautseigri (e. resilient), grænni og stafrænni Evrópu. Það sé lykilþáttur við viðhalda opnu hagkerfi og vinna að auknu frjálsræði í viðskiptum. 

Í greinargerð ráðherraráðsins um málið eru dregin fram nokkur verkefni netöryggisstefnunnar sem ráðið leggur áherslu á að ráðist verði í á næstu árum, m.a. eftirfarandi:

  • Stofnun verndarstöðva (e. Security Operation Centers) víðsvegar um ríki ESB sem fylgjast með netumferð og lesa í vísa um netárásir.
  • Vinna að því að viðbrögð við netárásum falli betur að og verði hluti af neyðarviðbragðskerfi ESB. Undirbúa sameiginlega rekstrareiningu fyrir netöryggi (e. Joint Cyper Unit) sem ætlað er að veita neyðarstjórnunarkerfi ESB netöryggismála nákvæmar (e. focus) upplýsingar um netöryggisógnir, stuðla að tímanlegum viðbrögðum við ógnum, miðla upplýsingum, samhæfa æfingar og viðbrögð við ógnum.
  • Vinna hratt að innleiðingu öryggisráðstafana fyrir 5G net og vinna áfram að ráðstöfunum til þess að tryggja vernd 5G neta og framtíðarkynslóða farneta.
  • Styðja við þróun öflugra dulkóðunaraðferða og samhliða tryggja leiðir fyrirlögregluyfirvöld og dómsvaldið við að framfylgja lögum jafnt á netinu sem utan þess.
  • Finna leiðir til þess að auka skilvirkni tengslanets í þágu vefsins (e. efficiency of the cyber diplomacy toolbox) með áherslu á samtal sem eykur skilning á netöryggi og stuðlar að sameiginlegri sýn hagsmunaaðila á alþjóðavísu t.d. gagnvart hugverkarétti. Markmiðið er aðvinna gegn kerfislægum sjónarmiðum sem eru andstæð aðfangakeðjum, stofnunum og ferlum lýðræðisins og mikilvægum innviðum og þjónustu.
  • Styrkja samvinnu við alþjóðastofnanir og vinaríki við að efla skilning á landslagi netógna. Ráðið leggur áherslu á þau sjónarmið að öflug samvinna yfir Atlantshafið í netöryggismálum stuðli að vernd, stöðugleika og velmegun ríkjanna.
  • Setja saman áætlun um uppbyggingu á getu til þess að vinna að framþróun netsins utan landamæra ESB með það að markmiði að auka notkunarmöguleika ogseiglu netsins á alþjóðavísu.

Í niðurstöðu ráðherraráðsins er farið ítarlega yfir sjónarmið ráðsins og þær aðgerðir sem ráðið leggur áherslu á. 

Að lokum hvetur ráðherraráðið framkvæmdastjórnina og utanríkismálastjóra sambandsins að setja saman ítarlega áætlun um framkvæmd tillagnanna. Ráðherraráðið áformar að fjalla um eigin framkvæmdaáætlun um tillögurnar, sem verði reglulega endurskoðuð og uppfærð í samvinnu við framkvæmdastjórnina og utanríkismálastjóra ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum