Hoppa yfir valmynd
18. mars 2022 Brussel-vaktin

Hertar reglur um launagagnsæi í augsýn

Að þessu sinni er fjallað um:

  • tillögur um launagagnsæi sem afgreiddar voru út úr nefndum Evrópuþingsins í vikunni
  • fund umhverfisráðherra ESB
  • RePowerEU
  • ESB og heilbrigðisþjónustu í Úkraínu
  • framgang tillagna um kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja
  • tillögur sem lúta að ábyrgð fyrirtækja varðandi mannréttindi o.fl.
  • drög að tilskipun er varðar ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi
  • leiðsögn um leigubílalöggjöf

Nefndir Evrópuþingsins vilja metnaðarfyllri aðgerðir gegn kynbundnum launamun

Nefndir Evrópuþingsins um jafnréttismál og vinnumál luku í gær umfjöllun sinni um tillögur framkvæmdastjórnarinnar um launagagnsæi. Nefndirnar leggja til að öll fyrirtæki með 50 starfsmenn eða fleiri (í stað 250 í upphaflegu tillögunni) þurfi að birta upplýsingar sem geri starfsmönnum auðveldara fyrir að bera saman laun og afhjúpa kynbundinn launamun. Aðferðir til að meta og bera saman laun eiga að vera byggðar á kynhlutlausum mælikvörðum og styðjast við hlutlaust mat á störfum og flokkun þeirra. Ef í ljós kemur að launamunur kynjanna sé að minnsta kosti 2,5% (í stað 5% í upphaflegu tillögunni) þurfa vinnuveitendur ásamt fulltrúum starfsmanna að láta fara fram sameiginlegt launamat og koma sér saman um aðgerðaráætlun.

Þá verður því beint til framkvæmdastjórnar ESB að koma á fót vottun til þeirra fyrirtækja þar sem kynbundnum launamun er ekki fyrir að fara.

Þingnefndirnar leggja einnig til að launaleynd verði afnumin þannig að ákvæði í ráðningarsamningum um slíkt verði óheimil. Enn fremur verði mælt fyrir um að starfsmenn og fulltrúar þeirra eigi ríkan rétt til aðgangs að upplýsingum um laun hjá vinnuveitanda, bæði einstaklingsbundið og að meðaltali og í tengslum við kyn launþega. Þá er tekið undir tillögu framkvæmdastjórnarinnar þess efnis að sönnunarbyrði fyrir því að launamunur sé ekki kynbundinn hvíli á vinnuveitanda.

Sendinefnd frá Evrópuþinginu heimsótti Ísland í nóvember sl. Samkvæmt skýrslu um ferðina var þar aflað gagnlegra upplýsinga um reynsluna af löggjöf um launajafnrétti.

Tillögur um rafhlöður þokast áfram

Umhverfisráðherrar ESB hittust á fundi 17. mars sl., í fyrsta skipti í formennskutíð Frakka. Úrgangsmálin voru ofarlega á dagskrá en einnig efnamál og loftslagsmál.  Farið var yfir stöðu vinnu við að fara yfir tillögur sem eru hluti af svokölluðum „Fit for 55“ pakka. Meðal annars var rætt um kosti og galla þess að taka upp losunarheimildir í sjó- og landflutningum og í byggingariðnaði. Þá var fjallað um þrávirk lífræn efni og Minamata samninginn um kvikasilfur. Loks afgreiddu ráðherrarnir sameiginlega samningsafstöðu vegna tillagna um rafhlöður.

Reglugerð um rafhlöður

Á fundinum var samþykkt afstaða ráðsins til tillögu framkvæmdastjórnar ESB að reglugerð um rafhlöður. Markmið reglugerðarinnar er að styðja við þróun á sjálfbærum og öruggum rafhlöðum allan líftíma þeirra og að jafna samkeppnisskilyrði á innri markaðinum. Tillögunni er ætlað að styrkja ESB löggjöf um rafhlöður og úrgangsrafhlöður. Nýju reglugerðinni er einnig ætlað að tryggja framboð á rafhlöðum til orkuskipta í samgöngum og söfnun á rafhlöðum sem hafa lokið hlutverki sínu þannig að þeim verði ekki hent út í umhverfið með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Mikilvægt er að tryggja söfnun þeirra þar sem í rafhlöðum má finna eiturefni sem geta verið skaðleg umhverfinu og heilsu manna en einnig mjög verðmæta málma sem hægt er að endurnýta.

Tillagan hefur verið lengi til umræðu á vettvangi ráðsins og Evrópuþingsins en hún var lögð fram af framkvæmdastjórn ESB í desember 2020. Í meðförum ráðsins hafa grunnstoðir reglugerðarinnar verið styrktar, m.a. er þar að finna ákvæði er varðar svokallað rafhlöðuvegabréf, takmarkanir á notkun hættulegra efna, ákvæði er varðar kolefnisfótspor rafhlaðna, framlengingu á framleiðendaábyrgð, skyldu til notkunar á endurnýjanlegu hráefni í nýjar rafhlöður ásamt kröfu um áreiðanleikakönnun á framleiðsluferli rafhlaða.

Með afstöðu ráðsins þá er gildissvið reglugerðarinnar víkkað út til tilbúinna rafhlöðueininga (e. ready-made battery modules) og til allra rafhlaðna fyrir ökutæki. Samkvæmt afstöðu ráðsins verður það hlutverk framleiðenda að safna færanlegum úrgangsrafhlöðum (e. portable waste batteries) en einnig er þar að finna markmið um söfnun á færanlegum rafhlöðum fyrir léttari samgöngumáta t.d. rafskútur og rafmagnshjól. 

Réttur aðildarríkja ESB til að leggja strangari takmarkanir á notkun hættulegra efna í rafhlöður á öllum stigum framleiðsluferils þeirra er einnig tryggður.

Nýja reglugerðin mun leysa af hólmi tilskipun um rafhlöður sem er frá árinu 2006 og vera til fyllingar núgildandi löggjöf, sérstaklega þeirri er varðar meðhöndlun úrgangs.

Evrópuþingið samþykkti 10. mars sl. sína samningsafstöðu gagnvart reglugerðinni. Nú munu þríhliða viðræður hefjast milli allra aðila, þ.e. framkvæmdastjórnar ESB, ráðsins og Evrópuþingsins um reglugerðina þar sem stefnt er að því að ná samkomulagi um endanleg ákvæði reglugerðarinnar í fyrstu umræðu.

Þrávirk lífræn efni

Á fundinum kom fram stuðningur umhverfisráðherra við umboð ráðsins til að semja við Evrópuþingið um reglugerð sem hefur það að markmiði að takmarka enn frekar tilvist þrávirkra lífrænna efna (e. persistent organic pollutants (POPs)) í úrgangi. Umboðið var formlega samþykkt í COREPER, sem er nefnd fastafulltrúa aðildarríkjanna, 11. mars sl. Þrávirk lífræn efni eru efni sem eru sérstaklega hættuleg umhverfinu og heilsu manna. Til að tryggja styrkingu hringrásarhagkerfis og gæði afleidds hráefnis (e. secondary raw materials) er mikilvægt að úrgangur innihaldi ekki þessi efni.  Tillaga framkvæmdastjórnarinnar að umræddri reglugerð var lögð fram í október 2021. Henni er ætlað að samræma löggjöf ESB alþjóðlegum skuldbindingum sambandsins, sérstaklega Stokkhólmssamningnum um þrávirk lífræn efni, með breytingu á núgildandi reglugerð sambandsins sem er frá árinu 2019. Í framhaldi af samþykki umhverfisráðherranna hefjast samningaviðræður við Evrópuþingið um endanlega útfærslu á reglugerðinni.

Fit for 55

Aðgerðarpakka framkvæmdastjórnar ESB er ætlað að samræma löggjöf ESB markmiði sambandsins um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og markmiði um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda um allt að 55% fyrir árið 2030. Á meðal tillagnanna er nýtt ETS kerfi sem mun setja á fót kolefnismarkað fyrir vegaflutninga og upphitun bygginga þ.e. nýtt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) fyrir vegasamgöngur og byggingar.  Ráðherrarnir skiptust á skoðunum um tillöguna og mögulegt framlag hennar til að ná 2030 markmiðinu. Ráðherrarnir ræddu möguleika kerfisins og þá lykilþætti sem að þeirra mati geta stuðlað að sátt um slíkt kerfi auk annarra leiða til að ná sama takmarki er varðar samdrátt í losun. Skiptar skoðanir eru um slíkt kerfi. Á fundinum kom fram stuðningur við áformin frá Svíþjóð, Danmörku, Þýskalandi, Hollandi, Finnlandi og Austurríki. Pólland og Ungverjaland eru andstæð slíku kerfi og heyra mátti efasemdaraddir frá ríkjum eins og Belgíu, Rúmeníu, Tékklandi, Spáni, Slóvakíu og Slóveníu þar sem greina mátti áhyggjur af mögulegum kostnaði almennings.

Þeir sem styðja upptöku þessa nýja ETS kerfis halda því fram að markaðurinn þurfi að skera niður losun frá vegasamgöngum en losun hefur aukist á síðustu árum. Ef ekki verði tekið á losun frá byggingum þá geti það komið í veg fyrir að loftslagsmarkmið náist. Þeir sem eru á móti telja að birgjar muni velta kostnaði vegna losunar á CO2 út í verðlag sem mun svo bitna á almenningi með hækkandi orkureikningum. Í tillögu framkvæmdastjórnarinnar að þessu nýja kerfi er ekki gert ráð fyrir að kerfið muni taka gildi fyrr en árið 2026 en umræðan hefur þyngst á síðustu mánuðum vegna hækkandi orkuverðs. Stríðið í Úkraínu hefur svo einnig haft áhrif. Til að bregðast við neikvæðum röddum um hækkun á orkuverði til almennings hefur framkvæmdastjórnin lagt til að notaðar verði tekjur af markaðnum til að styðja við lágtekjuheimili og fjárfestingar í leiðum til orkusparnaðar. Ljóst er að umræðan um þetta mál muni á næstunni verða lífleg. 

Samningur um kvikasilfur

Ráðið samþykkti tvær ákvarðanir sem tengjast afstöðu ESB til aðildarríkjaþings Minamata samningsins um kvikasilfur. Samningurinn setur fram ramma utan um stýringu og takmörkun á notkun kvikasilfurs og kvikasilfursblöndu og losunar þess af mannavöldum í andrúmsloft, vatn og jarðveg í þeim tilgangi að vernda heilsu manna og umhverfið. Ákvarðanirnar snúa að ákveðnum breytingum á viðaukum samningsins og skilgreiningum hans er varðar úrgang. Aðildarríkjaþingið mun fara fram 21-25. mars nk. á Balí í Indónesíu.

Önnur mál

Á fundinum upplýstu Frakkar, sem formennskuríki í ráðinu, og framkvæmdastjórn ESB ráðherrana um 5. Umhverfisþing Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í Nairobi í Kenýa 28. febrúar til 2. mars sl.  Ráðherrarnir skiptust einnig á skoðunum um nýja tillögu að tilskipun um vernd umhverfisins með refsiákvæðum. Nýja tilskipunin skilgreinir ný lögbrot og setur fram nákvæmari ákvæði er varðar viðurlög, reglur sem er ætlað að styrkja framfylgd og ákvæði sem er ætlað að aðstoða þá sem tilkynna brot og samvinnu við eftirlitsyfirvöld. Auk framangreind ræddur ráðherrarnir leiðir til að bregðast við skógareyðingu.

REPowerEU

Stríðið í Úkraínu hefur sýnt að þörf er á hraðari umskiptum í hreina orku. 90% af því gasi sem notað er í ESB ríkjunum er innflutt og þar af er meira en 40% frá Rússlandi. Frá Rússlandi koma einnig 27% af olíuinnflutningi og 46% af kolainnflutningi ESB ríkjanna.

ESB telur að það geti orðið óháð rússnesku gasi vel fyrir lok áratugarins. Framkvæmdastjórnin gaf út orðsendingu 8. mars sl. sem ber heitið „REPowerEU: Joint European Action for more affordable, secure and sustainable energy“. Orðsendingin er sett fram í tveimur hlutum. Í fyrri hlutanum er fjallað um aðgerðir sem hægt er að grípa til til að bregðast við því neyðarástandi sem nú er uppi. Þar er m.a. nefnd lækkun á smásöluverði raforku en samkvæmt raforkutilskipun ESB er ríkjum heimilt við sérstakar aðstæður að ákveða smásöluverð til heimila og minni fyrirtækja. Einnig er nefnt að aðildarríkin veiti þeim fyrirtækjum og bændum sem orðið hafa fyrir barðinu á hækkun raforkuverðs aðstoð en samkvæmt reglum ESB um ríkisaðstoð er það heimilt í stuttan tíma. Einnig er fjallað um mikilvægi þess að tryggja nægar gasbirgðir fyrir næsta vetur og er mælt með því að strax verði hafist handa við að fylla birgðastöðvar innan ESB-ríkjanna af gasi. Framkvæmdastjórnin hyggst í apríl kynna tillögu að löggjöf sem kveður á um skyldu til þess að fylla á gas-birgðastöðvar um að lágmarki 90% fyrir 1. október ár hvert.

Síðari hluti orðsendingarinnar fjallar um REPowerEU. Þar eru nefndar leiðir til að auka þol orkukerfis ESB en fram kemur að mögulegt sé að fasa út notkun á rússnesku jarðefnaeldsneyti vel fyrir árið 2030. Leiðirnar eru settar fram í tveimur stoðum. Fyrri stoðin fjallar um að auka fjölbreytni gasbirgða með meiri innflutningi á fljótandi náttúrugasi (LNG) og innflutningi á gasi í gegnum lagnir frá öðrum birgjum en Rússum auk þess að auka hlutdeild lífmetans og vetnis.

Síðari stoðin fjallar um að draga hraðar úr því ástandi að heimili, byggingar, iðnaður og raforkukerfi séu háð jarðefnaeldsneyti með því að auka orkunýtni, auka hlut endurnýjanlegrar orku og að minnka áhrif flöskuhálsa í innviðum. Fram kemur að full innleiðing á tillögum þeim sem er að finna í „Fit for 55“ aðgerðapakka framkvæmdastjórnarinnar sem kynntur var sl. sumar muni draga úr notkun á gasi um 30% fyrir árið 2030 sem er um 100 milljarðar rúmmetra af gasi. Það, ásamt aukningu á fjölbreyttum og endurnýjanlegum lofttegundum, orkusparnaði, og rafvæðingu, eigi að geta leitt til skerðingar á innflutningi á gasi frá Rússlandi að jafnvirði 155 milljarða rúmmetra sem er það magn af gasi sem flutt var inn frá Rússlandi 2021. Nærri tveimur þriðju af samdrætti í innflutningi mætti ná innan árs.

Fram kemur að fordæmalaus innflutningur á náttúrugasi til ESB í janúar sl. hafi tryggt afhendingu á gasi fyrir þennan vetur. ESB geti flutt inn meira af náttúrugasi frá Katar, BNA, Egyptalandi og vestur Afríku á hverju ári eða sem nemur 50 milljörðum rúmmetra. Einnig sé hægt að flytja um 10 milljarða rúmmetra á ári af gasi með lögnum frá Azerbaijan, Alsír og Noregi. 

Nefnt er að tvöföldun á markmiði „Fit for 55“ fyrir lífmetan geti aukið framleiðslu á lífmetani um 35 milljarða rúmmetra á ári fyrir árið 2030. Auka 15 milljónir tonna af endurnýjanlegu vetni ofan á þau 5,6 milljón tonn sem eru fyrirsjáanleg í samræmi við „Fit for 55“ geti komið í stað 25-50 milljarða rúmmetra af innfluttu rússnesku gasi fyrir árið 2030. Samkvæmt „Fit for 55“ aðgerðarpakkanum er gert ráð fyrir tvöföldun á orkuljósspennu og vindorkugetu fyrir árið 2025 og þreföldun fyrir árið 2030 sem myndi koma í staðinn fyrir árlega notkun á 170 milljörðum rúmmetra af gasi fyrir árið 2030.

Með því að flýta fyrir uppsetningu á sólarorkukerfum fyrir húsþök þá sé hægt að spara aukalega 2,5 milljarða rúmmetra af gasi.  Sagt er að REPowerEU áætlunin geti flýtt fyrir nýtingu á frumlegum vetnislausnum og samkeppnishæfri endurnýjanlegri raforku í iðnaðargeirum. Auk þess segir að forsenda þess að hröðun á endurnýjanlegum orkuverkefnum geti átt sér stað sé að einfalda og stytta leyfisferli. Í maí ætlar framkvæmdastjórnin að gefa út leiðbeiningar um hvernig megi hraða leyfisveitingum fyrir verkefni er varða endurnýjanlega orku.

ESB leggur sitt af mörkum til að halda úti brýnni heilbrigðisþjónustu í Úkraínu

Stríðið í Úkraínu hefur sett mark sitt á virkni heilbrigðiskerfisins og eðlilega heilbrigðisþjónustu þar í landi eins og á aðra innviði samfélagsins. Úkraínsk stjórnvöld kalla eftir aðstoð og leggja mat á hvað brýnast er hverju sinni. Sama gera aðildarríki sambandsins og Moldóva sem taka á móti stríðum straumi flóttamanna frá Úkraínu.

Í fréttum í vikunni kom fram í viðtali við John F. Ryan aðstoðarframkvæmdastjóra ESB og yfirmann lýðheilsu að innan sambandsins sé lagt kapp á að samhæfa hjálparaðgerðir aðildarríkja, heilbrigðisstarfsfólks og frjálsra félagasamtaka til að unnt sé að veita Úkraínumönnum nauðsynlega heilbrigðisþjónustu. Til þess notar ESB öfluga innviði, stofnanir, stjórnkerfi og verkferla sem byggst hafa upp og styrkst m.a. í baráttunni við heimsfaraldurinn. Þar gegna lykilhlutverki Heilbrigðisöryggisnefnd ESB (Health Security Committee), Sóttvarnastofnun Evrópu og evrópska lyfjastofnunin.

Kallað er eftir lyfjum, lækningavörum, skyndihjálparpakkningum, sóttvönum, skýlum og tjöldum, gámum og rafgeymum svo eitthvað sé nefnt.  Þá er brýn þörf fyrir súrefnisbirgðir m.a. til að sinna Covid-19 sjúklingum, en aðeins um 35% íbúa Úkraínu eru full bólusettir. Óttast er að heimsfaraldurinn geti dregist á langinn vegna ástandsins. Einnig vantar blóðbirgðir  og heilbrigðisstarfsfólk til  að sinna veiku fólki, þeim sem slasast hafa í átökunum og þjáist t.a.m. af brunasárum. Þá er talið nauðsynlegt að huga að geðheilbrigði fólks, en reiknað er með auknum þunga í verkefnum á því sviði eftir því sem stríðið dregst á langinn.

Þá eru uppi áhyggjur af útbreiðslu annarra smitsjúkdóma eins og mænusóttar einkum meðal barna sem eru yngri en 6 ára, en bólusetning gegn veirunni er mismunandi eftir aldri og svæðum.  Þá er gert ráð fyrir að um 250 þúsund Úkraínumenn séu smitaðir af alnæmi og verði uppiskroppa með lyf.

Sjúkrahús eru skotmörk og verða fyrir tjóni. Sjúkrabílar komast ekki leiðar sinnar. Skortur er á heilbrigðisstarfsfólki, það leitar skjóls eða flýr land.

Heilbrigðisöryggisnefnd ESB gegnir lykilhlutverki við samhæfingu aðgerða

Heilbrigðisöryggisnefnd ESB (Health Security Committee) hefur á sinni könnu að samhæfa aðgerðir með heilbrigðisráðuneytum aðildarríkjanna. Nefndin hittist reglulega til að greina stöðuna og ákveða hvernig skynsamlegast sé að veita stuðning. Aðildarríkin hafa skuldbundið sig til að aðstoða Úkraínu og tryggja nauðsynlegan neyðarvarning eins og lyf, lækningatæki, hlífðarfatnað,  blóðhluta,  sjúkrabíla og skjólbúnað. Þá eru aðildarríkin að senda lækningateymi inn á svæðin og bjóðast til að meðhöndla slasaða úkraínska sjúklinga á sjúkrahúsum sínum. Nefndin hefur tryggt tiltekinn fjölda sjúkrarúma fyrir sjúklinga á sjúkrahúsum ríkjanna, á gjörgæsludeildum, í skurðlækningum og til meðferðar á brunasárum.  Þá hefur hún leitað leiða til  að flytja bráðasjúklinga til viðkomandi aðildarríkja.

Á vettvangi nefndarinnar  er einnig  fjallað um hvernig veita megi samfellu í umönnun flóttafólksins sem streymir frá Úkraínu til nærliggjandi ríkja. Sóttvarnastofnun Evrópu styður og leiðbeinir aðildarríkjum ESB, einkum nágrönnum Úkraínu og Moldóvu, við að greina og bregðast við smitsjúkdómum eins og COVID-19 og mænusótt.

Lyfjastofnun Evrópu hefur það hlutverk að skoða og fylgjast með hugsanlegum áhrifum stríðsins á framboð lyfja innan Evrópusambandsins og safna  upplýsingum um skort á slíkum varningi.  Verkefnið er einkum unnið í gegn um sameiginlega vefgátt aðildarríkja, stofnunarinnar og framkvæmdastjórnarinnar (Single Point Of Contact, SPOC) sem sett var á fót 2019 til að bæta upplýsingar aðila um skort á mikilvægum lyfjum,  koma í veg fyrir lyfjaskort og ná að stjórna honum. Þá  vinnur Lyfjastofnunin að því að tryggja öruggan  flutning á blóði og blóðhlutum þar sem þeirra er þörf.

Kynjahlutföll í stjórnum fyrirtækja

Félags- og vinnumálaráðherrar ESB samþykktu í vikunni sameiginlega afstöðu til tillögu framkvæmdastjórnarinnar um jafnrétti kynjanna í stjórnum fyrirtækja. Élisabeth Borne, sem fer með þennan málaflokk í frönsku ríkisstjórninni, hvatti til þess að viðræðum við Evrópuþingið yrði nú hraðað. Hér væri komin mikilvæg aðgerð til að rjúfa glerþakið sem konur eiga við að etja á vinnumarkaði. Samkvæmt tillögunni eiga að minnsta kosti 33% stjórnarmanna í fyrirtækjum sem skráð eru á markaði að vera af því kyni sem hallar á. Önnur möguleg útfærsla er að 40% stjórnarmanna sem ekki eru í framkvæmdastjórn séu af því kyni sem hallar ár. Sum ríki hafa þegar tekið upp reglur af þessu tagi og er gert ráð fyrir að taka megi tillit til þess og tilskipunin eigi þá jafnvel ekki við.

Samkvæmt íslenskum lögum gildir að í stjórnum opinberra hlutafélaga og hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli skuli hvort kyn eiga fulltrúa í stjórn þegar stjórn er skipuð þremur mönnum. Þegar stjórnarmenn eru fleiri en þrír í slíkum félögum skal tryggt að hlutfall hvors kyns sé ekki lægra en 40%. 

Drög að tilskipun varðandi samfélagsábyrgð fyrirtækja

Framkvæmdastjórn ESB hefur nýverið birt tillögu að tilskipun sem hefur það að markmiði að stuðla að ábyrgri háttsemi fyrirtækja og sem nær til allrar virðiskeðju þeirra. Fyrirtækjum verður gert að koma auga á og afstýra neikvæðum áhrifum af starfsemi þeirra á mannréttindi og umhverfi. Þar getur verið um að ræða barnaþrælkun, slæman aðbúnað verkamanna, mengandi starfsemi og þá sem hefur skaðleg áhrif á fjölbreytni lífríkis. Fyrir fyrirtækin munu reglurnar að sögn leiða til aukinnar vissu um réttarstöðu þeirra. Fjárfestar og neytendur munu njóta góðs af auknu gagnsæi. Reglurnar munu samkvæmt tillögunni ná til stórfyrirtækja þar sem starfsmenn eru fleiri en 500 og ársvelta meira en 150 milljónir evra. Þær ná einnig til fyrirtækja í tilteknum geirum atvinnulífs þar sem neikvæð áhrif geta verið mikil jafnvel þótt þessum stærðarmörkum sé ekki náð. Á það við um námuvinnslu, landbúnað og textíl-iðnað.

Samtök sem berjast fyrir samfélagsábyrgð í atvinnulífinu telja sumt ágætt í tillögunum en gagnrýna annað eins og að þær nái í raun einungis til 1% fyrirtækja innan ESB.

Drög að tilskipun um ofbeldi gegn konum

Framkvæmdastjórn ESB hefur lagt til tilskipun sem beinist að ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Þar er meðal annars kveðið á um hvernig kynferðisbrot skuli skilgreind og fjallað um réttindi brotaþola. Fram kemur að samþykki sé lykilþáttur í skilgreiningu á nauðgun en í 18 aðildarríkjum ESB er það enn skilyrði refsingar að ofbeldi hafi verið beitt. 

Leiðbeiningar um reglur fyrir leigubíla og sambærilega þjónustu

Nýlega birti framkvæmdastjórnin leiðbeiningar (e. recommendation)  um löggjöf fyrir leigubílaþjónustu og sambærilega þjónustu (t.d. Uber). Fram kemur í skjalinu að aðildarríkin standi frammi fyrir nýjum áskorunum sem fylgja nýrri tækni og vefbókunum. Marka þurfi stefnu sem tekur tillit til nýrra viðskiptahátta, þjónustu og aðila á markaði.  Boðuð er ný tilskipun um vinnuumhverfi þeirra sem vinna við að veita þessa þjónustu.

Fram kemur í leiðbeiningunum að löggjöf um þjónustuna sjálfa sé á hendi einstakra aðildarríkja, enda sé um staðbundna þjónustu að ræða þó svo að hún sé oft veitt yfir landamæri.  Hins vegar væru ýmsir þættir við að veita þjónustuna á verkefnasviði framkvæmdastjórnarinnar s.s. rétturinn til þess að stofna fyrirtæki um hana og atvinnuréttindi þeirra sem veita þjónustu. Þá segir að í löggjöf aðildarríkja skuli gæta jafnræðis á milli allra núverandi og nýrra aðila og að þjónustan búi við jöfn samkeppnisskilyrði. Mikilvægt sé að aðildarríkin endurskoði núverandi löggjöf með það að markmiði að tryggja aðgengilega, hagkvæma, áreiðanlega, örugga og gæðaþjónustu fyrir íbúa.

Fram kemur að gæta þurfi að því að löggjöfin tryggi jafnræði um réttindi þeirra sem veita þjónustuna hvort sem hún er leigubílaþjónusta eða sambærileg þjónusta og að þeir hafi jöfn tækifæri til starfans. Einfalt verði að öðlast atvinnuréttindi og að þau feli ekki í sér mismunun og markaðshindrun. Eftirfarandi eru helstu atriði leiðbeininganna:

  1. Skilyrði fyrir starfsréttindum fyrir akstri leigubíla og sambærilegrar þjónustu séu einföld og ekki umfram það sem nauðsynlegt er. Sama gildi um rekstur leigubíla og sambærilegrar þjónustu.
  2. Reglur styðji við notkun sjálfbærra ökutækja.
  3. Afnema skyldu um að snúa til starfsstöðvar í lok hvers verkefnis.
  4. Heimila að taka farþega utan starfssvæðis í bakaleið.
  5. Reglur stuðli að bættri nýtingu ökutækis s.s. með samnýtingu (e. carpooling) ótengdra farþega á leið á sama áfangastað.
  6. Einfalda reglur um ökumenn leigubíla s.s. kröfur um vinnuskyldu til þess að laða ökumenn að faginu, en skortur á ökumönnum er víða. Sömuleiðis reglur um sambærilega þjónustu (t.d. Uber) sem eru víða hamlandi fyrir ökumenn
  7. Reglur til rekstraraðila séu ekki íþyngjandi og takmarkist við að ná fram settum markmiðum. T.d. reglum um lámarks fjölda ökumanna, skilyrði um fullt starf og að leyfishafi skuli sjálfur aka ökutækinu.

Í leiðbeiningunum er svo að lokum nokkuð fjallað um samþættingu leigubílaþjónustu og sambærilegrar þjónustu við almenningssamgöngur með það að markmiði að stuðla að betri nýtingu þeirra.

 

***

Brussel-vaktin er gefin út af fastanefnd Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum