Hoppa yfir valmynd

Fastanefnd Íslands hjá OECD og UNESCO

Sendiráðið í París er einnig fastanefnd gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD) og Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). 

Ísland er eitt stofnríkja Efnahags- og framfarstofnunarinnar (OECD). Árið 2013 tók Ísland sæti í þróunarsamvinnunefnd OECD (Development Assistance Committee eða DAC). Hlutverk OECD er að vinna að stefnumörkun sem leiðir til velmegunar, jafnréttis, aukinna tækifæra og bættra lífsgæða. Ísland tekur virkan þátt í starfi stofnunarinnar í gegnum fastanefnd sína í París og ráðuneyti og stofnanir á Íslandi. Starfsemi stofnunarinnar felst m.a. í því að koma á gagnreyndum alþjóðlegum stöðlum til að finna lausnir við margþættum félags-, efnahags- og umhverfislegum áskorunum.

Stofnunin varð til úr grunni Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu (OEEC), sem sá um enduruppbyggingu Evrópu eftir seinni heimstyrjöld í gegnum Marshall-aðstoðina. Ísland var eitt 20 ríkja sem skrifuðu undir stofnsamning OECD þann 14. desember 1960 og hefur fjöldi aðildarríkja nær tvöfaldast síðan þá. Kjörorð OECD er: „Betri stefnur fyrir betra líf“ (e. „Better policies for better lives“).

Nánari upplýsingar:

Menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) var komið á fót árið 1945, en Ísland gerðist aðili þann 8. júní 1964. UNESCO er sérstofnun SÞ og er meginmarkmið hennar að efla alþjóðlega samvinnu á sviði menntunar, vísinda, menningarmála og fjölmiðla. UNESCO ber höfuðábyrgð á því meðal alþjóðastofnana að innleiða fjórða heimsmarkmiðið um menntun.

Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í stofnskrá með þeim hætti, að stuðla beri að friði og öryggi með því að efla samvinnu þjóða í mennta-, vísinda- og menningarmálum og efla þannig almenna tiltrú og virðingu fyrir réttlæti, lögum og mannréttindum.

Markmiðum sínum hyggst UNESCO ná meðal annars með því að efla fræðslu og stuðla að því að allir eigi jafnan rétt til náms. Enn fremur með samvinnu þjóða um útbreiðslu þekkingar og skilnings manna á meðal og með því að aðstoða aðildarlönd við að byggja upp menntakerfi, sem henta á hverjum stað. UNESCO hefur einnig forystu um verndun menningararfleifðar heimsbyggðarinnar.

Íslands var kjörið í framkvæmdastjórn UNESCO, fyrir tímabilið 2021-2025, á aðalráðstefnu stofnunarinnar í nóvember 2021. Fulltrúi Íslands sat áður í framkvæmdastjórninni á árunum 2001-2005 (Sveinn Einarsson) og 1983-87 (Andri Ísaksson).

Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti Íslands, og Irina Bokova, þáverandi aðalframkvæmdastjóri UNESCO, við undirritun samkomulags í júní 2013 um að Vigdísarstofnun, alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar, starfi undir formerkjum stofnunarinnar. Ljósmynd: UNESCO

Ísland og UNESCO
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, hefur verið velgjörðarsendiherra tungumála hjá stofnunninni frá árinu 1998 og var hún um tveggja ára skeið formaður alþjóðaráðs um siðferði í vísindum og tækni (COMEST). Í júní 2013 var undirritaður í París samningur um að Vigdísarstofnun – alþjóðleg miðstöð tungumála og menningar við Háskóla Íslands starfi undir formerkjum UNESCO.

Í desember 2019 var skrifað undir samkomulag um að GRÓ – Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu starfi undir merkjum UNESCO sem sjálfstæð stofnun en GRÓ er fyrsta þverfaglega stofnun sinnar tegundar undir hatti UNESCO. Í miðstöðinni koma saman fjórir skólar sem áður voru starfræktir sem skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi: Jafnfréttisskólinn, Jarðhitaskólinn, Landgræðusluskólinn og Sjávarútvegsskólinn.

Þá eru íslensk stjórnvöld með samstarfssamning við stofnunina á sviði þróunarsamvinnu sem undirritaður var í apríl 2019. Hann felur í sér að Ísland styður við verkefni á vegum stofnunarinnar, m.a. með því að styrkja getu fátækra ríkja við umbætur á sviði menntamála og stuðla að tjáningarfrelsi og öryggi blaðamanna í þróunarlöndum.

Frá árinu 2018 hefur Ísland verið annar formanna vinahóps UNESCO um kynjajafnrétti (Group of Friends for Gender Equality) ásamt Óman, en hópurinn styður við starf stofnunarinnar á sviði kynjajafnréttis og sinnir þar aðhaldshlutverki.

UNESCO hefur haft forystu um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsbyggðarinnar og Ísland hefur lagt ríka áherslu á skráningu minja á Heimsminjaskrá UNESCO. Vatnajökulsþjóðgarður komst á heimsminjaskrá stofnunarinnar í júlí 2019, en fyrir voru Surtsey og Þingvellir hluti af skránni. Reykjavík var árið 2011 útnefnd Bókmenntaborg UNESCO, en hún var fimmta borgin í heiminum til að hljóta þennan heiður og sú fyrsta utan ensks málsvæðis.

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, og Audrey Azoulay, aðalframkvæmdastjóri UNESCO, í október 2018. Ljósmynd: UNESCO/Christelle ALIX 

UNESCO-nefndin og fastanefnd Íslands gagnvart stofnuninni
Hlutverk íslensku UNESCO-nefndarinnar er að vera ríkisstjórninni og sendinefnd Íslands til ráðuneytis í málum er varða stofnunina og tengiliður á milli UNESCO og íslenskra stofnana. Nefndin annast upplýsingastarfsemi um málefni UNESCO á Íslandi og hefur samvinnu við aðrar íslenskar nefndir sem starfa að málefnum SÞ og sérstofnana þeirra. Sendiráð Íslands í París gegnir hlutverki fastanefndar gagnvart stofnuninni og sinnir daglegu starfi fyrir Íslands hönd innan UNESCO.

Ísland hefur samþykkt eftirtalda sáttmála UNESCO:
18.09.1956: Alþjóðasáttmála um höfundarrétt, Genf 06.09.1952
02.12.1977: Sáttmáli um alþjóðlega mikilvæg votlendi, Ramsar-sáttmálinn, Ramsar í Íran 02.02.1971
11.06.1986: Bókun vegna Ramsar-sáttmála, París 03.12.1982
18.06.1993: Bókun vegna Ramsar-sáttmála, Regina, Kanada, 28.05.1987
15.03.1994: Samningur um vernd listflytjenda, framleiðenda hljóðrita og útvarpsstofnana, Róm 26.10.1961
19.12.1995: Sáttmáli um verndun menningar- og náttúruarfleifðar heimsins, París 16.11.1972
09.02.2005: Sáttmáli um ólöglegan innflutning, útflutning eða aðra ólögmæta tilfærslu á eignarrétti menningarverðmæta, París 14.11.1970
05.10.2005: Sáttmáli um varðveislu menningarerfða, París 17.10.2003
10.02.2006: Alþjóðasamningur gegn misnotkun lyfja í íþróttum, París 02.10.2005
01.02.2007: Samningur um að vernda og styðja við fjölbreytileg menningarleg tjáningarform, París 20.10.2005
29.06.2021: Samningur gegn misrétti í menntakerfinu, París 14.12.1960
05.12.2022: Samningur um vernd menningarverðmæta komi til vopnaðra átaka, Haag 14.05.1954
05.12.2022: Samningur um viðurkenningu háskólanáms á heimsvísu, París 25.11.2019

Undirritanir:
11.04.1997: Sáttmáli um viðurkenningu prófgráða í æðri menntun innan Evrópu
02.07.2004: Þingvellir skráðir á heimsminjaskrá
07.07.2008: Surtsey skráð á heimsminjaskrá
05.07.2019: Vatnajökulsþjóðgarður skráður á heimsminjaskrá

Nánari upplýsingar:

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum