Hoppa yfir valmynd

Spurt og svarað um notendastýrða persónulega aðstoð (NPA)

Almennt um NPA


Hvar er hægt að finna góðar upplýsingar um NPA?

Á heimasíðu NPA hjá félagsmálaráðuneytinu er hægt að finna handbók. Í henni eru góðar upplýsingar um NPA. Þú getur smelt hér til að skoða þær.

 

Fyrir hverja er NPA?

Ef þú ert með fötlun og þarft stuðning í þínu daglega lífi í meira en 15 klukkustundir á viku áttu rétt á að fá NPA.

 

Hvað merkir að NPA sé valkostur?

Það þýðir að þeir sem vilja sjálfir stjórna aðstoðinni sinni og þurfa stuðning í daglegu lífi geta beðið um NPA.

 

Hentar NPA fyrir allt fatlað fólk?

NPA er fyrir allt fatlað fólk sem vill sjálft stjórna hver aðstoðar það, hvenær það fær aðstoð og hvernig það er gert.

 

Hver borgar fyrir NPA?

Ríki og sveitarfélög borga fyrir NPA.

 

Ef peningarnir sem einstaklingurinn fær duga ekki til að borga allt vegna NPA, þarf notandinn þá sjálfur að borga?

Já. Ef peningarnir sem notandi fær til að borga fyrir NPA duga ekki til þess þá verður hann annað hvort að reyna að spara með því að nota færri tíma í aðstoðina eða borga sjálfur það sem vantar.

 

Má notandi spara og geyma peninga til að nota síðar?

Já. Notandi má spara og geyma peningana ef hann veit að hann þarf meiri aðstoð síðar, til dæmis ef hann ætlar til útlanda.

 

Hvað gerist ef starfsmaður er lengi veikur og getur ekki unnið? Fær notandinn peninga til að greiða honum laun?

Það er sjóður sem verður að sækja um í til þess að hægt sé að greiða laun. Þú getur talað við sveitarfélagið þitt og umsýsluaðila um þetta.

 

Hver borgar ef starfsmaður er lengi veikur?

Notandinn ber sjálfur ábyrgð á að peningarnir sem hann fær endist til að borga öllum starfsmönnum laun, líka þeim sem eru veikir.

Ef peningarnir duga ekki verður notandinn sjálfur að borga. Hægt er að sækja um styrk úr sjóði sem heitir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga til þess að borga starfsmanni, sem er lengi veikur, laun.

 

En dugar þessi styrkur til að borga starfsmanni sem er lengi veikur?

Hjá þessum sjóði eru sérstakar reglur sem segja að ef margir sækja um svona styrk, þá er ekki víst að allir fái allt sem þeir sækja um. Sjóðurinn hefur ákveðna peninga sem duga kannski ekki ef umsóknir um þá eru margar.

 

Hvar sækir maður um í þennan sjóð?

Best er að sækja um hjá sínu sveitarfélagi. Starfsmenn hjá sveitarfélaginu koma umsókninni á réttan stað.

 

Get ég sjálfur valið sér aðstoðarfólk?

Já. Það er einmitt ein mikilvæg hugmynd með NPA. Notandi velur sjálfur hver aðstoðar hann, hvar aðstoðin er veitt og ákveður hvað starfsmaður gerir þegar hann er í vinnunni.

 

Get ég haft NPA samning ef ég þarf stundum meiri aðstoð og stundum minni?

Notandi og sveitarfélagið geta alltaf hist og farið yfir NPA samninginn.

Notandinn á að hitta ráðgjafa sinn að minnsta kosti einu sinni á ári til að fara yfir þjónustuna. Ef líf notandans hefur breyst er alveg hægt að breyta samningnum.

 

Námskeið um NPA


 

Þurfa allir að fara á NPA námskeið?

Já. Allir þurfa að fara á námskeið. Notendur, verkstjórnendur og aðstoðarfólk þurfa að fara á námskeið eins fljótt og hægt er þegar búið er að gera NPA samning.

 

Reglur sveitarfélaga um NPA

 

Geta sveitarfélög ákveðið að notandi megi ekki ráða nána aðstandendur í vinnu hjá sér?

Já. Sveitarfélög geta ákveðið að notandi megi ekki ráða aðstandendur í vinnu. Til dæmis getur verið að notandi megi ekki ráða foreldra, maka eða börnin sín til að aðstoða sig.

 

Er hægt að biðja sveitarfélög um leyfi til að ráða náinn aðstandanda í vinnu?

Já. Sveitarfélög eiga að leyfa það ef aðstæður eru sérstakar.

 

Er það líka hægt ef notandinn er barn?

Já. Sveitarfélög geta líka gefið leyfi til að foreldrar eða aðrir nánir aðstandendur séu ráðnir sem aðstoðarfólk fyrir börn.

 

Verður að gera SIS-mat eða annað mat áður en einstaklingur fær NPA samning?

Já. Það þarf alltaf að gera mat til að hægt sé að fá NPA. Í matinu er spurt margra spurninga um líf notandans.

 

Afmörkun á NPA sem þjónustuformi


 

Er hægt að fá NPA samning ef maður þarf aðstoð í minna en 15 klukkustundir á viku?

Nei. Það er ekki hægt að vera með NPA ef maður þarf minna en 15 klukkustundir í aðstoð á viku.

Það er hægt að fá annan samning um aðstoð hjá sveitarfélaginu sínu.

 

Verða sveitarfélög að bjóða einstaklingi NPA samning ef hann þarf aðstoð í meira en 15 klukkustundir á viku?

Já. Sveitarfélagið verður að segja einstaklingi frá því að hægt sé að gera NPA samning.

 

Verða sveitarfélög að bjóða einstaklingi annan samning ef hann treystir sér ekki til að fá NPA samning?

Já. Sveitarfélög verða að segja fólki frá allri þjónustu sem er í boði.

 

Getur fatlaður einstaklingur sem býr á stofnun fengið NPA samning?

Nei. Einstaklingar sem búa eða dveljast á stofnunum geta ekki fengið NPA samning. Stofnanir eru til dæmis sjúkrahús, hjúkrunarheimili og dvalarheimili.

 

Eru gömlu herbergjasambýlin stofnanir?

Það er ekki ljóst. Sumum sambýlum hefur verið breytt þannig að þau eru ekki lengur stofnanir. Sveitarfélög eiga að bjóða fólki sem býr á sambýlum annars konar búsetu, til dæmis að flytja í íbúðakjarna.

 

Ef íbúi á sambýli vill flytja þaðan og búa í séríbúð, á þá sveitarfélagið að bjóða honum NPA samning?

Já. Íbúi á sambýli á rétt á að fá NPA samning ef hann ætlar að flytja þaðan.

 

Geta sveitarfélög sett í reglurnar sínar að NPA samningur hætti ef NPA notandi fer á sjúkrahús?

Nei. Það má ekki hætta með NPA samning þó notandi fari á sjúkrahús. Í sérstöku skjali er talað um hvenær má segja upp NPA samningi og af hverju honum er sagt upp.

 

Getur sveitarfélag gert NPA samning við notanda og líka aðstoðað hann við að ráða fólk og borga laun?

Eiginlega ekki. Sveitarfélag má þó gera það ef allir eru sammála um að það sé best.

Oftast gerir sveitarfélagið þó samning um öðruvísi þjónustu við notandann ef allir eru sammála um að sveitarfélagið eigi að sjá um þetta allt saman.

 

Eftirfarandi spurningum var sleppt:

Falla NPA samningar undir lög um opinber innkaup?

Getur þriðji aðili kært samstarfssamning um umsýslu til kærunefndar útboðsmála?

Þarf sveitarfélag að leiðbeina aðilum um kæruleið til kærunefndar útboðsmála?

 

Réttindagæsla og persónulegir talsmenn


 

Ef notandi er með persónulegan talsmann, er hann þá í vinnu hjá notandanum og á þá að greiða honum laun?

Nei. Persónulegur talsmaður fær ekki laun fyrir sína vinnu og fær ekki borgað eins og aðrir starfsmenn.

 

Má persónulegur talsmaður vera aðstoðar-verkstjórnandi?

Nei, helst ekki. Það geta komið upp aðstæður þar sem það er ekki gott.

Það er mjög gott að fá aðstoð þegar það þarf til dæmis að taka erfiðar ákvarðanir varðandi starfið. Það getur til dæmis gerst að notandi þarf að skipta um aðstoðarverkstjórnanda eða segja upp aðstoðarmanni hjá sér.

Þá er mikilvægt að hafa einhvern með sér sem tengist NPA aðstoðinni ekki neitt.

 

Þarf persónulegur talsmaður að vera viðstaddur þegar gerður er NPA samningur?

Það er ekki í reglunum. Það er samt örugglega betra að hafa hann með. Þegar á að ræða mjög persónuleg mál eiga ríki og sveitarfélög að biðja persónulegan talsmann að vera með í þeim umræðum. Það stendur í reglum um persónulega talsmenn.

 

Má sveitarfélag biðja um að fatlaður einstaklingur fái sér persónulegan talsmann til að aðstoða sig við að sækja um NPA?

Já. Ef sveitarfélagið heldur að það sé nauðsynlegt. Þá á sveitarfélagið að hafa samband við réttindagæslumann og spyrja hann hvað honum finnst um það. Ef allir eru sammála um að það væri best, þá þarf að finna persónulegan talsmann.

 

Hvað gerir aðstoðar-verkstjórnandi?

Hann á að veita notandanum stuðning og ráð. Hann á til dæmis að aðstoða notandann við að ráða starfsmenn og skipuleggja hvenær aðstoðarfólk á að vinna.

 

Hvað gerir persónulegur talsmaður?

Hann á að veita fötluðum einstaklingi stuðning við að taka ýmsar ákvarðanir. Hann getur til dæmis farið með honum á fundi og talað máli hans þar. Svo getur hann líka aðstoðað við persónuleg fjármál og við að lesa til dæmis lög og reglur.

 

Samsetning þjónustuþátta í NPA


 

Má greiða fyrir akstursþjónustu með NPA peningum?

Nei. Það má ekki nota NPA peninga til að greiða fyrir akstursþjónustu.

 

Má greiða fyrir mikla heilbrigðisþjónustu með peningum sem maður fær frá sveitarfélaginu vegna NPA samnings?

Já. Ef maður notar aðstoð frá heilbrigðiskerfinu í ákveðið marga tíma á dag eða á viku, þá má borga það með peningunum frá sveitarfélaginu.

 

Má greiða fyrir túlkaþjónustu með peningum frá sveitarfélaginu vegna NPA samnings?

Túlkaþjónusta er ekki hluti af NPA samningi. Sveitarfélög, félagsmálaráðuneytið og hagsmunasamtök fatlaðs fólks eiga að ákveða hver greiðir fyrir túlkaþjónustu.

 

Getur atvinna með stuðningi verið hluti af NPA samningi?

Já. Það er einmitt gert ráð fyrir því.

 

Getur aðstoð við athafnir daglegs lífs og stuðningur í framhaldsskóla verið hluti af NPA samningi?

Já. Það er einmitt ein hugmyndin með NPA.

 

Á vef félagsmálaráðuneytisins eru eyðublöð til að gera NPA samning. Má nota önnur eyðublöð til að gera NPA samning?

Nei. Það má ekki. Það á að nota þessi eyðublöð til að tryggja að allir séu með sömu réttindi í sínum NPA samningi.

 

Hvað þurfa NPA starfsmenn að skrifa undir?

Allir starfsmenn sem vinna við að aðstoða fólk með NPA þurfa að skrifa undir ráðningarsamning.

Í honum kemur meðal annars skýrt fram að allir starfsmenn eiga að gera það sem notandinn biður hann um. Það er notandinn sem er verkstjórinn.

 

Af hverju má ekki gera verktakasamninga við aðstoðarfólk?

Það er vegna þess að verktakasamningar geta verið flóknir og ríki og sveitarfélög vilja hafa ráðningarsamningana einfalda og alla eins. Þannig er öruggast til að allir notendur fái sömu þjónustuna og þannig sést best í hvað peningarnir fara.

 

Má ráða aðstoðarmanneskju í stuttan tíma og gera við hana verktakasamning?

Já. Ef sérstakar aðstæður koma upp.

 

Hvað má aðstoðar-verkstjórnandi vinna marga tíma?

Ráðgjafar í sveitarfélögunum verða að meta hjá hverjum umsækjanda hversu marga tíma aðstoðar-verkstjórnandinn vinnur. Hann má mest vinna í 10 klukkustundir á viku.

 

Fær aðstoðarfólk borgað þegar það ferðast í vinnuna eða úr vinnunni?

Nei. Aðstoðarfólk fær ekki greitt á meðan það ferðast í eða úr vinnu.

 

Kæruleiðir


 

Á sveitarfélag að segja umsækjanda frá því að hægt sé að kæra ef umsækjandi og sveitarfélagið eru ósammála um NPA samning?

Já. Sveitarfélag á að segja umsækjanda að það sé hægt að kæra ef fólk er ósammála um NPA samninginn.

Sveitarfélagið á líka að segja frá hvar er hægt að kæra, hvað það kostar og hvað umsækjandinn hefur langan tíma til að kæra.

 

Hvert á að kæra?

Það þarf að kæra til nefndar sem heitir Úrskurðarnefnd velferðarmála. Nefndin fer yfir málið og athugar hvort það hefur verið rétt unnið samkvæmt öllum lögum og reglum.

 

Þegar verið er að ræða um hvort einstaklingur fái NPA eru þá teknar ákvarðanir á meðan verið er að ræða málið?

Já. Þegar verið er að ræða um NPA samning þá er það gert í nokkrum skrefum. Sveitarfélag tekur ákvörðun um hvert skref fyrir sig og á að tilkynna umsækjanda um niðurstöðuna þegar hverju skrefi er lokið. Sveitarfélagið á til dæmis að tilkynna umsækjanda þegar það hefur ákveðið hvað umsækjandi fær marga tíma í NPA og hversu mikla peninga.

 

Getur umsækjandi samþykkt NPA samninginn sem sveitarfélagið býður honum en samt kært hann til úrskurðarnefndar velferðarmála?

Já. Það er hægt að samþykkja samninginn til að fá þjónustu sem fyrst. Umsækjandi þarf að láta sveitarfélagið vita að hann ætli að kæra samninginn.

 

Hvað er hægt að kæra?

Það er hægt að kæra ef vinnustundir starfsmanna eru of fáar, ef peningarnir er of litlir og ef sveitarfélagið vill ekki samþykkja að einstaklingur þurfi eins mikinn stuðning og hann segir sjálfur að hann þurfi.

 

Hvenær er hægt að kæra?

Það er hægt að kæra eftir að sveitarfélag hefur ákveðið hversu mikinn stuðning umsækjandi fær. Ef honum finnst stuðningurinn of lítill, þá getur hann kært.

 

Hvenær getur umsækjandi kært ef honum finnst hann fá of litla peninga eða of fáar vinnustundir frá starfsfólki?

Umsækjandi getur til dæmis kært þegar sveitarfélagið hefur ákveðið hversu mikla peninga hann á að fá og hversu margar vinnustundir.

 

Hvaða regla gildir um hvenær má kæra og hvenær það er ekki lengur hægt?

Þegar sveitarfélag hefur ákveðið hvernig það vill samningurinn eigi að vera má ekki líða lengri tími en 3 mánuðir áður en umsækjandi kærir.

 

Þarf að borga fyrir að kæra?

Nei. Ríkið borgar starf úrskurðarnefndar. Umsækjendur þurfa ekkert að borga.

 

Hvað gerist ef úrskurðarnefnd velferðarmála ákveður að sveitarfélagið hafi gert NPA samning með of litlum stuðningi, of fáum vinnustundum eða of litlum peningum?

Það fer eftir ýmsu. Til dæmis hvort sveitarfélagið hafi farið eftir öllum lögum og reglum.

 

Hvað gerist ef úrskurðarnefnd velferðarmála kemst að því að sveitarfélag hafi brotið lög eða alls ekki unnið NPA samninginn nógu vel?

Þá getur verið að úrskurðarnefnd sendi málið aftur til sveitarfélagsins og segi því að vinna það betur. Það getur líka gerst að úrskurðarnefnd segi sveitarfélaginu að breyta reglum sínum um NPA samninga.

 

Hvað getur umsækjandi gert ef hann er alls ekki sáttur við það sem úrskurðarnefnd ákveður?

Umsækendur geta leitað til umboðsmanns Alþingis og/eða dómstóla ef þeir eru ósáttir við ákvörðun úrskurðarnefndar. Sveitarfélög geta líka leitað til dómstóla ef þau eru ósátt við hvernig hún starfaði.

Síðast uppfært: 20.11.2020
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum