Hoppa yfir valmynd

Um Norræna velferðarvakt

Norræna velferðarvaktin er eitt verkefnanna í formennskuáætlun Íslands 2014. Það er þriggja ára rannsóknarverkefni sem stendur yfir árin 2014-2016 og miðar að því að styrkja og stuðla að sjálfbærni norrænu velferðarkerfanna, með því að efla rannsóknir og auka samvinnu og miðlun reynslu og þekkingar á milli Norðurlandanna.

Markmið verkefnisins eru:

  • Að finna betri leiðir til að mæla og fylgjast með velferð borgaranna
  • Að rannsaka áhrif fjármálaþrenginga og tengdra afleiðinga á norrænu velferðarkerfin
  • Að stuðla að upplýstri stefnumótun í velferðarmálum

Mikilvægt er að velferðarkerfin séu í stakk búin til að takast á við breytingar og áskoranir. Íslendingar leggja áherslu á að nýta og miðla af eigin reynslu og reynslu hinna Norðurlandanna af fjármálakreppum. Þessi þekking verður notuð til þess að meta áhrif á velferð íbúa og norrænu velferðarkerfin, auk áhrifa á ákveðna samfélagshópa. Þannig er hægt að meta hvar vel hefur tekist til og hvar frekari úrbóta er þörf. Einnig verður skoðað hvernig norrænu velferðarkerfin eru í stakk búin til að takast á við vá, hvort sem er af náttúru eða mannavöldum og afleiðingar þeirra. Sérstök áhersla er lögð á hlutverk félagsþjónustu og spurt hvernig hún geti aukið viðnámsþrótt einstaklinga og samfélaga. Rannsóknir sýna að þörf er á aukinni þekkingu á langtímaviðbrögðum á þessu sviði.

Verkefnið skiptist í þrjá meginþætti:

1. Velferð og vá

Í þessum verkþætti verður metið hvernig norræn velferðarkerfi eru undirbúin undir hvers konar vá með sérstaka áherslu á hlutverk félagsþjónustu. Dreginn verður lærdómur af starfi Velferðarvaktarinnar sem var stofnsett hér á landi í kjölfar efnahagskreppunnar, viðbragðskerfi annarra Norðurlanda verða kortlögð, lagt verður mat á hvernig norræn velferðarkerfi þurfa að búa sig undir áskoranir komandi ára og metið hvort grundvöllur sé fyrir norrænni velferðarvakt.

  • Umsjón Guðný Björk Eydal, prófessor við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

2. Kreppur og velferð – Lærdómur fyrir framtíðina

Gerð verður víðtæk rannsókn á afleiðingum fjármálakreppa á Norðurlöndunum, bæði á yfirstandandi kreppu og kreppum um 1990, og könnuð sérstaklega viðbrögð stjórnvalda og árangur af þeim. Gerður verður samanburður við valin Evrópulönd s.s. Eystrasaltsríkin, Írland, Bretland, Grikkland, Ungverjaland, Spán og Portúgal. Dreginn verður lærdómur af því sem vel var gert og öðru sem skilaði ekki árangri. Verkefnið verður unnið sameiginlega af hópi fræðimanna frá öllum norrænu löndunum, með miðstöð og verkstjórn í Reykjavík.

  • Umsjón Stefán Ólafsson, prófessor við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands.

3. Norrænir velferðarvísar

Unnar verða tillögur að norrænum velferðarvísum til að auðvelda stjórnvöldum yfirsýn yfir samfélagsþróunina á hverjum tíma. Slíkir velferðarvísar auðvelda stefnumótun og ákvarðanatöku þannig að unnt verði að efla frekar norrænu velferðarkerfin.

  • Umsjón Sigríður Jónsdóttir, sérfræðingur í velferðarráðuneytinu.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum