Hoppa yfir valmynd
F. Alþjóðastarf

Lýsing á aðgerð

 Jöfn tækifæri kynjanna í alþjóðaviðskiptum - „Jafnrétti til útflutnings“. 

Utanríkisráðuneytið leggi áherslu á að ryðja úr vegi kynbundnum viðskiptahindrunum og breiða út þá þekkingu sem hefur skapast á Íslandi varðandi jafnrétti, t.d. á vegum Uppbyggingarsjóðs EES. Ráðuneytið „markaðssetji“ markvisst jafnréttisverkefni í þeim 15 ríkjum sem falla undir Uppbyggingarsjóð EES í því skyni að miðla reynslu og þekkingu hérlendis til þeirra. Jafnframt verði unnið að því að nýta til fullnustu það fjármagn sem í boði er til að skerpa á jafnréttisáherslum, og efla það orðspor sem Ísland hefur byggt upp sem land jafnréttis, og þeirri hugmyndafræði sem Ísland vill vera leiðandi fyrirmynd að í alþjóðastarfi.

Utanríkisráðuneytið beiti sér fyrir því að jafnréttisákvæði verði sett í viðskiptasamninga, bæði á vegum EFTA og í öðrum tvíhliða samningum. Jafnframt haldi utanríkisráðuneytið áfram að setja jafnrétti á dagskrá í umræðu innan Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og fylgja eftir yfirlýsingu um valdeflingu kvenna og þátttöku í alþjóðaviðskiptum sem yfir 120 ríki WTO sendu frá sér á ráðherrafundi stofnunarinnar árið 2017.

Utanríkisráðuneytið vinni að því að jafna hlut kvenna í starfsemi ráðuneytisins á sviði viðskiptamála, t.d. við gerð viðskipta- og fríverslunarsamninga, setu í nefndum og vinnuhópum á sviði alþjóðaviðskiptamála og þátttöku í viðskiptasendinefndum embættismanna eða ráðherra erlendis.

Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: Fjármagnað.
Ábyrgð: Utanríkisráðuneytið.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.4, 8.3, 8.5, 8.7 og 8.8.

Staða verkefnis

Utanríkisráðuneytið rekur gagnagrunn til þess að auðvelda aðilum frá viðtökuríkjum Uppbyggingarsjóðs EES að finna samstarfsaðila á sviði jafnréttismála. Gagnagrunnurinn veitir upplýsingar um félagasamtök, stofnanir og fyrirtæki sem hafa áhuga á að deila með viðtökuríkjunum þeim leiðum sem þau hafa farið í jafnréttismálum en einnig á fleiri sviðum.

Ísland heldur áfram að beita sér fyrir því að setja jafnréttisákvæði í viðskiptasamninga. Fríverslunarsamningur Íslands, Noregs og Liechtenstein við Bretland er fyrsti samningurinn sem Ísland er aðili að sem inniheldur slíkt jafnréttisákvæði. Ríkin eiga reglulega fundi um þetta ákvæði samningsins og framvindu þess.

Þá eru jafnréttismál og það hvernig stuðla megi að efnahagslegri valdeflingu kvenna rædd í reglulegu efnahagssamráði við Bandaríkin, nú síðast í janúar 2023.

Ísland lét á árinu af formennsku í óformlegum vinnuhóp hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni (WTO) um kynjajafnrétti og viðskipti. Það var sameiginleg yfirlýsing um 130 ríkja sem utanríkisráðherra tók þátt í að hleypa af stokkunum í tengslum við ráðherrafund WTO í Buenos Aires árið 2017 sem lagði grunninn að stofnun vinnuhópsins haustið 2020.  Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun vinnuhópsins hefur hann náð að festa sig vel í sessi þökk sé markvissri og skipulagðri vinnu líkt þenkjandi ríkja.

Í starfi vinnuhópsins hefur verið lögð áhersla á að deila upplýsingum um leiðir til að efla þátttöku kvenna í viðskiptum, afla og kyngreina gögn frá WTO skrifstofunni, skilgreina hvernig beita megi kynjagleraugum í greiningar, ásamt því að skoða hvernig best megi horfa til kynjasjónarmiða við framkvæmd verkefnisins Aid for Trade. Stefnt er því að kynna vinnuáætlun sem mun marka veginn fram að næsta ráðherrafundi WTO sem verður haldinn í febrúar árið 2024.

Sem fyrr leggur Ísland fyrir aðildarríkin staðlaðar spurningar um kynjasjónarmið og viðskipti í tengslum við rýni á viðskiptastefnu ríkjanna. Skv. upplýsingum frá WTO skrifstofunni hefur þetta m.a. stuðlað að því að fleiri ríki eru farin að gera grein fyrir kynjajafnrétti í skýrslum sínum til WTO.

Verkefnið er komið vel á veg.

Ábyrgð

Utanríkisráðuneytið

Staða verkefnis

Komið vel á veg
Til baka

Aðgerðir í jafnréttismálum

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum