Hoppa yfir valmynd

Erlent samstarf og alþjóðlegar skuldbindingar

Norrænt samstarf

Jafnréttisráðherrar norrænu ríkjanna hafa starfað saman frá árinu 1974 um sameiginleg hagsmunamál á sínu sviði. Á þessum rúmu fjörutíu árum hafa Norðurlöndin tekið forystu í alþjóðlegum samanburði og skipað sér í efstu sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem árlega mælir árangur ríkja á sviði jafnréttismála. Stigin hafa verið ný skref í mótun norrænna samfélaga sem byggja á grunngildum réttlætis, jafnréttis og lýðræðis.

Norrænu jafnréttisstarfi er stýrt af norrænni ráðherranefnd jafnréttismála (MR-JÄM) og embættismannanefnd um jafnréttismál og LGBTI (ÄK-JÄM). Samstarfið grundvallast á sérstakri samstarfsáætlun sem nær til fjögurra ára í senn. Núgildandi samstarfsáætlun gildir fyrir árin 2019–2022 og hefur að geyma fjögur stefnumarkandi áherslusvið, þ.e. vinnumarkað framtíðarinnar og hagvöxt; velferð, heilsu og lífsgæði; völd og áhrif; og jafnréttisstarf með áherslu á karla og karlmennskuímyndir. Á vegum samstarfsins eru árlega haldnar ráðstefnur og unnið að rannsóknarverkefnum um málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Nánari upplýsingar um samstarfið er að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norðurlönd hafa löngum verið framsækin í málefnum LGBTI fólks í alþjóðlegum samanburði. En þrátt fyrir bætta löggjöf eru mörg viðfangsefni enn óleyst áður en LGBTI fólk fær notið sömu tækifæra og réttinda og annað fólk. Árið 2020 hófu jafnréttisráðherrar Norðurlanda formlegt samstarf innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnrétti og jafnræði LGBTI fólks á Norðurlöndum með samþykkt sérstaks viðauka við Norræna samstarfsáætlun um jafnréttismál 2019–2022. Viðaukinn ber titilinn Jafnrétti, jafnræði og jöfn tækifæri LGBTI fólks á Norðurlöndum og hefur þrjú áherslu svið: frelsi og opnun, lífsgæði og lífsskilyrði og tengslanet og borgarasamfélag.

Norrænar upplýsingar um kynjafræði (NIKK) er skrifstofa sem starfar á vegum norræna jafnréttissamstarfsins. Verkefni skrifstofunnar er að safna saman upplýsingum um rannsóknir, stefnumál og framkvæmd á sviði jafnréttismála sem gerðar eru á Norðurlöndunum og miðla til allra sem áhuga hafa á málefninu. Markmiðið er að miðlun þessarar þekkingar geti orðið undirstaða pólitískrar umræðu á Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi.

Evrópusamstarf

Ísland á áheyrnarfulltrúa í ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins (The EU Advisory Committee on Equal Opportunities for Women and Men). Nefndin fundar yfirleitt tvisvar á ári í Brussel. Þar er kynnt hvaða vinna er í gangi við einstakar tilskipanir sem varða jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, hvaða ráðstefnur eru framundan, hverjar áherslur næsta formennskulands eru o.s.frv. Nefndin gerir samþykktir og beinir þeim til framkvæmdanefndarinnar.

Ísland á einnig fulltrúa í jafnréttisnefnd EFTA (The EEA EFTA Working Group on Gender Equality, Anti-Discrimination and Family Policy). Fundir nefndarinnar eru almennt haldnir tvisvar á ári í Brussel og eru yfirleitt haldnir í tengslum við fundi ráðgjafarnefndar Evrópusambandsins.

Ísland á sæti í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins (Gender Equality Commission). Evrópuráðið stendur fyrir fjölda ráðstefna og gerir kannanir á ýmsum málum meðal aðildarríkjanna.

Ísland á sæti í European Focal Points Network sem er samráðsvettvangur stjórnvalda og frjálsra félagasamtaka um hinsegin málefni í Evrópuráðinu. Einnig á Ísland fulltrúa í GT-ADI-SOGI vinnuhópi um hinsegin málefni á vegum Evrópuráðsins.

Istanbúl-samningurinn

Samningur Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi, svokallaður Istanbúl-samningur, var samþykktur á vettvangi Evrópuráðsins 11. maí 2011. Hann var undirritaður af íslenskum stjórnvöldum sama dag og fullgiltur 2018.

Sérfræðingahópur um aðgerðir gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (GREVIO) hefur eftirlit með framkvæmd samningsins hjá samningsaðilum. Samningsaðilar leggja skýrslu fyrir framkvæmdastjóra Evrópuráðsins, byggða á spurningalista unnum af GREVIO um löggjöf og aðrar ráðstafanir sem gripið hefur verið til í því skyni að framfylgja ákvæðum samningsins. GREVIO gefur í kjölfarið út skýrslu um framkvæmd samningsins í viðkomandi ríki og kemur með tilmæli um það sem betur má fara.

Samstarf á vettvangi Sameinuðu þjóðanna

Ísland tekur virkan þátt í því jafnréttisstarfi á vegum Sameinuðu þjóðanna og hefur skrifað undir Samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW). 

Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna

Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women) var sett á fót árið 1947. Nefndin telst í dag vera ein helsta milliríkjastofnun heims sem starfar að kynjajafnrétti og bættri stöðu kvenna og sitja 45 ríki í stjórn nefndarinnar hverju sinni. UN Women starfar í umboði kvennanefndarinnar og fer með stjórnsýslu hennar. Í tengslum við árlegan fund kvennanefndarinnar er haldin ráðstefna sem telst vera meðal fjölsóttustu viðburða Sameinuðu þjóðanna en til hennar eru boðaðir fulltrúar ríkisstjórna, stofnana og frjálsra félagasamtaka.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið undirbýr í samstarfi við utanríkisráðuneytið og fastanefnd Íslands gagnvart  þátttöku Íslands á fundum kvennanefndarinnar og í samráði við stofnanir og frjáls félagasamtök sem starfa að jafnréttismálum. Ráðherra jafnréttismála fer fyrir sendinefnd Íslands en undanfarin ár hafa sérfræðingar í jafnréttismálum í ráðuneyti jafnréttismála og utanríkisráðuneytinu, jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna, stofnana, samtaka aðila vinnumarkaðarins og frjálsra félagasamtaka verið í sendinefnd Íslands. Í tengslum við fundinn hefur Ísland skipulagt hliðviðburði í samræmi við þema fundarins að hverju sinni.

Nánari upplýsingar um kvennanefndarfundinn er að finna á heimasíðunni kvennnefndarinnar.

Norrænu löndin beita sér innan Sameinuðu þjóðanna fyrir verkefnum á sviði jafnréttismála á vettvangi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna. Norðurlöndin hafa undanfarin ár haldið sameiginlegan hliðarviðburð á árlegum fundi kvennanefndarinnar. Undirbúningur viðburðarins hvílir jafnan á því landi sem fer með formennsku í norræna samstarfinu og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Kvennasamningur Sameinuðu þjóðanna

Á nokkurra ára fresti eru íslensk stjórnvöld kölluð fyrir hjá kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna, sem heyrir undir mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, þar sem stjórnvöld gera grein fyrir því hvernig samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (einnig kallaður Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna) hefur verið fylgt. Ísland skilaði síðast skýrslu til nefndarinnar þann 23. nóvember 2021. Hún var tekin fyrir á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í Genf þann 22. maí 2023 en nefndin birti lokaathugasemdir sínar hinn 31. sama mánaðar.

Kynslóð jafnréttis

Kynslóð jafnréttis er alþjóðlegt jafnréttisátak sem hófst árið 2020 í tilefni 25 ára afmælis framkvæmdaáætlunarinnar frá Peking. Átakið stendur yfir til ársins 2026 og er skilgreint í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun. Markmið þess er að ríki, alþjóðastofnanir, frjáls félagasamtök og einkaaðilar sameinist um úrbætur á sviðum þar sem enn hallar á konur og stúlkur í samræmi við Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Ísland er eitt forysturíkja verkefnisins og veitir aðgerðabandalagi um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi forystu ásamt Bretlandi, Kenía og Úrúgvæ. Frönsk og mexíkósk stjórnvöld fara ásamt stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna, UN Women, með yfirstjórn verkefnisins.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 9.9.2024 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum