Hoppa yfir valmynd

Erlent samstarf

Norrænt samstarf

Jafnréttisráðherrar norrænu ríkjanna hafa starfað saman frá árinu 1974 um sameiginleg hagsmunamál á sínu sviði. Á þessum rúmu fjörutíu árum hafa Norðurlöndin tekið forystu í alþjóðlegum samanburði og skipað sér í efstu sæti lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem árlega mælir árangur ríkja á sviði jafnréttismála. Stigin hafa verið ný skref í mótun norrænna samfélaga sem byggja á grunngildum réttlætis, jafnréttis og lýðræðis.

Norrænu jafnréttisstarfi er stýrt af norrænni ráðherranefnd jafnréttismála (MR-JÄM) og embættismannanefnd um jafnréttismál (ÄK-JÄM). Samstarfið grundvallast á sérstakri samstarfsáætlun sem nær til fjögurra ára í senn. Núgildandi samstarfsáætlun gildir fyrir árin 2019–2022 og hefur að geyma fjögur stefnumarkandi áherslusvið, þ.e. vinnumarkað framtíðarinnar og hagvöxt; velferð, heilsu og lífsgæði; völd og áhrif; og jafnréttisstarf með áherslu á karla og karlmennskuímyndir. Á vegum samstarfsins eru árlega haldnar ráðstefnur og unnið að rannsóknarverkefnum um málefni sem efst eru á baugi hverju sinni. Nánari upplýsingar um samstarfið er að finna á heimasíðu Norrænu ráðherranefndarinnar.

Norrænar upplýsingar um kynjafræði (http://www.nikk.no/) er skrifstofa sem starfar á vegum norræna jafnréttissamstarfsins. Verkefni skrifstofunnar er að safna saman upplýsingum um rannsóknir, stefnumál og framkvæmd á sviði jafnréttismála sem gerðar eru á Norðurlöndunum og miðla til allra sem áhuga hafa á málefninu. Markmiðið er að miðlun þessarar þekkingar geti orðið undirstaða pólitískrar umræðu á Norðurlöndunum og á alþjóðavettvangi.

Evrópusamstarf

Ísland á áheyrnarfulltrúa í ráðgjafarnefnd Evrópusambandsins. Nefndin hittist yfirleitt tvisvar á ári í Brussel. Þar er kynnt hvaða vinna er í gangi við einstakar tilskipanir, hvaða ráðstefnur eru framundan, hverjar áherslur næsta formennskulands eru o.s.frv. Nefndin gerir samþykktir og beinir þeim til framkvæmdanefndarinnar.

Ísland á einnig fulltrúa í jafnréttisnefnd EFTA sem hefur nú fengið aukin verkefni og fjallar einnig um málefni aldraðra og fatlaðra (The EFTA WG on Gender Equality, Anti-Discrimination and Family Policy). Fundir nefndarinnar eru yfirleitt haldnir í tengslum við fundi ráðgjafarnefndar Evrópusambandsins.

Ísland á sæti í jafnréttisnefnd Evrópuráðsins (Gender Equality Commission). Evrópuráðið stendur fyrir fjölda ráðstefna og gerir kannanir á ýmsum málum meðal aðildarríkjanna.

Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna

Norrænu löndin beita sér innan Sameinuðu þjóðanna fyrir verkefnum á sviði jafnréttismála á vettvangi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna (Commission on the Status of Women). Norðurlöndin hafa undanfarin ár haldið sameiginlegan hliðarviðburð á árlegum fundi kvennanefndarinnar sem venjulega er haldinn um mánaðamótin febrúar/mars. Undirbúningur viðburðarins hvílir jafnan á því landi sem fer með formennsku í norræna samstarfinu og skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Nánari upplýsingar um kvennanefndarfundinn er að finna á heimasíðunni kvennnefndarinnar.

Stofnanir á vegum Sameinuðu þjóðanna sem einkum einbeita sér að jafnréttismálum eru: UN WOMEN (Stofnun Sameinuðu þjóðanna í þágu kvenna) og INSTRAW (Alþjóðleg rannsóknar- og menntastofnun til framdráttar konum). Á nokkurra ára fresti er Ísland kallað fyrir hjá kvennaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna CEDAW- nefndinni sem heyrir undir mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, þar sem stjórnvöld gera grein fyrir hvernig kvennasáttmála Sameinuðu þjóðanna hefur verið fylgt eftir.

Sjá einnig:

Yfirlit um lög

Yfirlit um lög er varða mannréttindi og jafnrétti er að finna á vef Alþingis

Yfirlit um reglugerðir

Yfirlit um reglugerðir er varða jafnrétti er er að finna á reglugerd.is

Stofnanir

Úrskurðarnefndir

Nefndir

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira