Hoppa yfir valmynd

Kynjajafnrétti

Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna

Jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna eru einn af hornsteinum þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar Íslands enda grundvallarmannréttindi og forsendur framfara og þróunar. Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á að verkefni og framlög, bæði í tvíhliða eða fjölþjóðlegri samvinnu, að bæði kynin hafi jöfn tækifæri til þátttöku, áhrifa og ábata af þróunarsamvinnuverkefnum Íslands.

Ísland beitti sér víða á árinu í málsvarastarfi á vettvangi þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoðar eins og fram kemur í skýrslu utanríkisráðherra fyrir 2018-2019. Virðing fyrir mannréttindum kvenna og bann við mismunun á grundvelli kynferðis er grunnstefið í málflutningi stjórnvalda, meðal annars hvað varðar kyn- og frjósemisréttindi, rétt kvenna til þátttöku á öllum sviðum samfélagsins, þar með talið í friðar- og öryggismálum, og mikilvægi þess að karlar beiti sér fyrir jafnrétti kynjanna, enda sé það lykillinn að sjálfbærri þróun og velsæld allra. Mannréttindi kvenna og réttindi hinsegin fólks fengu líka mikið vægi í gegnum setu Íslands í Mannréttindaráði SÞ. Íslensk stjórnvöld studdu enn fremur við verkefni og aðgerðir UN Women á heimsvísu með sérstakri áherslu á aðstoð þeirra við sýrlenskar konur í flóttamannabúðum í Líbanon og Jórdaníu. Íslensk stjórnvöld gerðu Mannfjöldasjóð Sþ (UNFPA) að einni af áherslustofnunum sínum í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð til þess að vinna að kyn- og frjósemisheilbrigði og -réttindum þ.m.t. rétti kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Sá stuðningur nær einnig yfir mæðra- og ungbarnavernd, kynfræðslu, aðgengi að getnaðarvörnum og heilbrigðisþjónustu vegna kynsjúkdóma á borð við HIV/ alnæmi og aðstoð við þolendur kynbundins ofbeldis t.d. limlestinga á kynfærum kvenna og stúlkna. Íslensk stjórnvöld, ásamt Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi (HSÞ) og UN Women í Malaví og Sambíu, héldu kynbundnu ofbeldi á loft á 63. Kvennafundi SÞ í New York þar sem rætt var um barnahjónabönd ungra stúlkna og þann árangur sem Malaví og Sambía hafa náð í að uppræta þau. Ísland lagði áfram áherslu á að konum væri tryggð jöfn og raunveruleg þátttaka í öryggis- og friðarmálum og tekið sé tillit til hagsmuna kvenna á átakasvæðum í gegnum starf Íslensku Friðargæslunnar (ÍF) og með því að samþykkja þriðju framkvæmdaáætlun sína um ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 og tengdar ályktanir um konur, frið og öryggi. Íslenskt stjórnvöld studdu einnig verkefni í samvinnu við frjáls félagasamtök sem tengdust forvörnum gegn kynbundu ofbeldi og aukin var stuðningur við valdeflingu kvenna í sunnanverðri Afríku á sviði loftslagsmála. Ísland hefur einnig unnið ötullega að því að virkja þátttöku karla og drengja betur í verkefnum sem snúa að jafnrétti kynjanna til að mynda með stuðningi við tvær rakarastofur í Lilongwe í Malaví og í Mangochi-héraði í samstarfi við landsnefnd UN Women á Íslandi, UN Women í Malaví og stjórnvöld í landinu. Áhersla var lögð á hlutverk karla og drengja í að uppræta kynbundið ofbeldi en þetta voru fyrstu rakarastofurnar sem haldnar hafa verið í sunnanverðri Afríku.

Ný stefna um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands með jafnrétti sem leiðarljós

Mannréttindi, jafnrétti kynjanna og sjálfbær þróun er sett í öndvegi í nýrri þróunarsamvinnustefnu Íslands fyrir tímabilið 2019-2023, sem var lögð fyrir Alþingi á haustmánuðum 2018, og samþykkt var á vorþingi 2019. Stefnan útlistar framtíðarsýn Íslands með heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra veröld að leiðarljósi þar sem hungri og sárafátækt hefur verið útrýmt, dregið hefur úr ójöfnuði innan og á milli ríkja, mannréttindi allra eru virt, allir eru jafnir fyrir lögum og lifa við frið og öryggi í daglegu lífi. Stefna Íslands í þróunarsamvinnu tekur jafnframt mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt, m.a. á sviði mannréttinda, alþjóðlegum skuldbindingum um fjármögnun þróunar og Parísarsamkomulaginu um loftslagsmál, sem saman mynda heildstæða umgjörð um þróun á heimsvísu til ársins 2030.

Í þróunarsamvinnustefnunni er jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna eitt af tíu markmiðum auk þess sem tekið er fram að lögð verði frekari áhersla á samþættingu kynjasjónarmiða í verkefni og framlög til þróunarsamvinnu. Reynslan hefur sýnt að aðstoð sem grundvallast á jöfnum rétti og byggist á þátttöku beggja kynja er árangursrík leið í þróunarsamvinnu. Jafnrétti kynjanna og  valdefling kvenna er enn fremur eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun sem íslensk stjórnvöld einsetja sér að ná fyrir árið 2030.

Stefnumið um jafnréttismál í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð

Á árinu 2017 fór fram óháð úttekt á jafnréttisstefnu ÞSSÍ fyrir árin 2013-2016 og niðurstöður  bentu til marktæks árangurs með starfi Íslands í jafnréttismálum, bæði í gegnum tvíhliða- og fjölþjóða þróunarsamvinnu. Í niðurstöðum kemur fram að unnið sé á góðum grunni sem mætti þó styrkja enn frekar með skýrari markmiðasetningu og markvissari notkun árangursmælikvarða. Í samræmi við nýja þróunarsamvinnustefnu næstu fimm ára og niðurstöður úttektarinnar hófst stefnumótunarvinna innan þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkiráðuneytisins á árinu 2018 við að útfæra stefnumið fyrir framkvæmd á sviði jafnréttismála í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð sem byggir á þeim gildum að kynjajafnrétti séu grundvallarmannréttindi og forsenda framfara og þróunar.

Líkt og fyrri jafnréttisstefna Þróunarsamvinnustofnunar Íslands 2013-2016 mun nýtt stefnumið endurspegla þróunarsamvinnustefnu hvað varðar áherslusvið og tímaramma. Nálgun Íslands mun sem áður vera annars vegar samþætting kynjasjónamiða og hins vegar stuðningur við sérstök jafnréttisverkefni, stofnanir og sjóði, sem hafa kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna að meginmarkmiði. Þá verður enn fremur lögð áhersla á að styðja við málsvarastarf á málefnasviðinu. Stefnt er að því að stefnumið verði fullunnið á vormánuðum 2019. Í kjölfar þeirrar vinnu hefur ÞSS ákveðið að innleiða jafnréttisvottun fyrir Ísland sem byggist á vottunarkerfi UNDP fyrir þróunarsamvinnu.

Niðurstöður úttektar á jafnréttisstefnu í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016 benda til þess að marktækur árangur hafi náðst með starfi Íslands í jafnréttismálum, bæði í gegnum tvíhliða- og fjölþjóða þróunarsamvinnu. Í niðurstöðum kemur fram að unnið sé á góðum grunni sem mætti þó styrkja enn frekar með skýrari markmiðasetningu og markvissari notkun árangursmælikvarða. Ný stefnumið um jafnréttismál í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands 2019-2023 munu styðjast við ábendingar og tillögur sem koma fram í úttektinni en einnig verða til skoðunar aðferðir og leiðir sem eru best til þess fallnar til að ná fram betri árangri á sviði jafnréttismála.

Greining á þróunarsamvinnu Íslands með tilliti til kynjajafnréttis og valdeflingar kvenna

Frá árinu 2011 hefur Ísland notað aðferðafræði þróunarsamvinnunefndar OECD (DAC), svokallaða kynjajafnréttisstiku (e. Gender Equality Policy Marker) sem greinir  framlög og verkefni með tilliti til þess hversu mikið þau stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í dag er Ísland þriðja efsta ríki á lista DAC yfirhlutfall þróunarfjármagns sem rennur til jafnréttismála. Tölur frá árunum 2016 til 2018 sýna að 80 % íslenskra framlaga fór til verkefna sem stuðla að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna.

Þótt greiningunni sé ekki ætlað að meta árangur er hún  góð leið til að leggja mat á hvort verkefni sem Ísland styður hafi kynjasjónarmið að meginmarkmiði eða sé ætlað að stuðla að jafnrétti í gegnum samþættingu kynjasjónarmiða og getur þannig styrkt starf Íslands á þessu sviði. Notkun stikunnar hefur reynst mikilvægur hluti af umsjón með framlögum til þróunarsamvinnu. Þess má geta að á fundi jafnréttisnefndar DAC (GENDERNET) í október 2018 var Ísland beðið um að deila reynslu sinni við að samþætta kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna inn í þróunarsamvinnuverkefni.

Jafnréttismál í tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands

Áðurnefnd úttekt á jafnréttisstefnu Íslands bendir til þess að náðst hafi áþreifanlegur árangur í jafnréttismálum í tvíhliða samstarfsverkefnum Íslands er snúa að vatns- og hreinlætismálum og mæðraheilsu, ásamt menntaverkefnum sem veita stúlkum tækifæri á skólagöngu og þar með betri framtíð.

Meginmarkmið Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu er að draga úr fátækt og hungri og stuðla að almennri velferð á grundvelli kynjajafnréttis, mannréttinda og sjálfbærrar þróunar. Stór hluti hennar á sér stað í tvíhliða samstarfslöndum Íslands, Malaví og Úganda, en þar hafa sendiráð Íslands umsjón með samstarfinu sem á sér stað í tilteknum héruðum þar sem héraðsyfirvöld bera þungan af framkvæmd verkefna. Auk þess fá Mósambík, Palestína og Afganistan einnig umtalsverðan íslenskan stuðning í gegnum fjölþjóðastofnanir og félagasamtök. Þar er beitt annarri nálgun og fyrst og fremst unnið í nánu samstarfi við ýmsar stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem hafa starfsemi í löndunum þremur. Í öllum ríkjum beinist þungi stuðningsins frá Íslandi að þeim hópum sem búa við sárafátækt og kerfisbundinn ójöfnuð, einkum í dreifbýli.

Malaví

Í Malaví felst meginþungi starfsins í þróunarsamvinnuverkefnum með héraðsstjórninni í Mangochi héraði. Áherslur snúa að ýmissi grunnþjónustu; að draga úr mæðra- og ungbarnadauða, auka gæði grunnskólamenntunar og bæta aðgengi að drykkjarhæfu vatni og viðunandi salernisaðstöðu. Einnig er unnið að efnahagslegri valdeflingu kvenna og ungmenna og styrkingu héraðsstjórnarinnar. Á öllum þessum áherslusviðum er ríkt kveðið á um að jafnrétti sé ævinlega haft að leiðarljósi. Þannig hefur samþætting kynjasjónarmiða í verkefni verið í brennidepli á sviði mæðra- og ungbarnaheilsu, og almennt í stuðningi við heilbrigðismálin sem og í menntaþættinum til að koma í veg fyrir brottfall, sérstaklega unglingsstúlkna, úr skóla. Þá hafa umbætur í vatns- og salernisaðstöðu veruleg áhrif á heilsu, aðbúnað og vinnuálag kvenna, enda eru það einkum konur og stúlkur sem annast vatnsöflun. Með nýjum vatnsbólum er aðgangur að hreinu vatni tryggður og vegalengd til vatnsbóla stytt, með tilheyrandi tímasparnaði fyrir konur og stúlkur, minna líkamlegu álagi og meira öryggi. Þá er stutt við heimaræktaðar skólamáltíðir í Mangochi héraði í samstarfi við Matvælaáætlun SÞ (World Food Programme, WFP) til að vinna gegn vannæringu barna á grunnskólaaldri. Á árinu var unnið með Action Aid félagasamtökunum í herferðinni 50:50 til að auka pólitíska þátttöku kvenna í Mangochi-héraði fyrir þing- og sveitastjórnarkosningarnar sem haldnar voru 21.maí 2019. Aðeins tvær konur eru á þingi frá héraðinu og engin kona í núverandi sveitarstjórn. Ennfremur var brotið blað í jafnréttisumræðunni í Malaví með tveimur Rakarastofum (e. Barbershop) sem haldnar voru í nóvember 2018 í höfuðborginni Lilongwe og í Mangochi héraði, en þetta voru fyrstu Rakarastofnunar sem haldnar hafa verið í Afríku. Jafnréttisskóli HSÞ í samstarfi við sendiráð Íslands í Lilongwe stóð fyrir kynjafræðinámskeiði, Teaching Gender to Youth, í apríl 2019 fyrir kennara og skólastjórnendur í þeim 12 skólum sem Ísland styður  við, auk kennara frá kennaraháskóla í Blantyre og verkefnisfulltrúa frá malavíska Rauða krossinum. Á árinu 2019  eru fyrirhuguð sérstök valdeflandi verkefni í samstarfi viðMannfjöldastofnun Sþ (UNFPA) í Mangochi, til að mynda á að koma á fót þjónustumiðstöð fyrir þolendur kynbundins og kynferðisofbeldis og við að auka aðgengi fólks að getnaðarvörnum og skurðstofu fyrir fistúluaðgerðir. Í maí var undirritaður samningur við UN Women í Malaví um gerð fyrstu aðgerðaáætlun Malaví um ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Snýr verkefnið að gerð aðgerðaáætlunarinnar og framkvæmdaramma hennar.

Úganda

Í Úganda tekur Ísland þátt í byggðaþróunarverkefnum með héraðsstjórnvöldum í tveimur héruðum, Buikwe og Kalangala, þar sem unnið er að því að bæta ýmsa grunnþjónustu við íbúa héraðanna. Á sviði menntamála er leitast við að auka aðgengi og bæta gæði menntunar og meðal annars leitað leiða til að draga úr fjarveru unglingstúlkna frá skóla og gerð gangskör í að koma á laggirnar orkusparandi skólaeldhúsum til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum með því að minnka eldiviðarnotkun jafnframt því að bæta vinnuaðbúnað kvenna sem starfa í þeim. Í Buikwe er enn fremur stutt við uppbyggingu vatns- og salernismála sem m.a. miðar að því að auka þátttöku stúlkna í skólastarfi og bæta aðbúnað kvenna og stúlkna í tengslum við vatnsöflun. Ísland hefur verið í samstarfi við frjálsu félagasamtökin WOMENA, og með fjárframlagi til samtakanna hafa þau verið með í framkvæmd verkefni í Buikwe héraði, þar sem bæði nemendur og kennarar fá fræðslu um tíðarhring kvenna og þannig er opnað á umræðu um þessi mál og vitund og skilningur aukinn innan skólanna, en í Úganda hætta margar ungar stúlkur skólagöngu um það leyti sem þær byrja á blæðingum. Byggð hafa verið sérstök hreinlætisherbergi fyrir stúlkur við salernisaðstöðu í skólum og stúlkur hafa fengið úthlutað svokölluðum álfabikar sem koma í stað dömubinda og endast í mörg ár. Ný áhersla mun verða á valdeflingu kvenna í fiskimannasamfélögum við Viktoríuvatn í samræmi við óskir héraðsyfirvalda og í samræmi við þróunaráætlun Úganda um sköpun atvinnutækifæra. Það er einnig í samræmi við markmið þróunarsamvinnustefnu Íslands 2019-2023 um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna og sjálfbærann hagvöxt og mannsæmandi atvinnutækifæri fyrir alla. Áframhaldandi stuðningur við héraðsyfirvöld um samþættingu kynjasjónarmiða inn í mennta- og hreinlætisverkefni mun halda áfram í næstu landsáætlun fyrir Úganda.

Í byrjun árs fékk UNICEF ríflegt framlag sem samþætta mannúðaraðstoð og þróunaraðstoð í flóttamannabyggðum West Nile í norðvesturhluta landsins. Þar er m.a. verið að byggja og bæta salerni og baðherbergi sem henta barnshafandi konum og konum á blæðingum, við heilsugæslustöðvar, skóla og annars staðar. Á árinu 2019 mun Jafnréttisskóli HSÞ fara af stað með námskeið um jafnréttis- og loftslagsmál í tveimur héruðum í samstarfi við ráðuneyti umhverfismála og jafnréttismála ásamt Makerere háskóla. Er þetta í framhaldi af verkefni sem sendiráðið stóð fyrir 2012-2013 og beindist að því að auka þekkingu héraðsstarfsmanna á tengslum kynjajafnréttis og loftslagsmála.

Mósambík

Mósambík er ekki lengur formlega tvíhliða samstarfsland Íslands þar sem sendiráði Íslands í Maputo var lokað í desember 2017. Áfram er þó umtalsverður tvíhliða stuðningur við landið í samstarfi við stofnanir Sþ og því áhersluland í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð. Annars vegar er um að ræða áframhaldandi stuðning við verkefni UN Women og ráðuneyti  jafnréttis-, barna- og félagsmála um framkvæmd fyrstu áætlunar landsins sem snýr að ályktun öryggisráðs SÞ nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Meginmarkmið er að styrkja framgang áætlana sem stuðla að friði, öryggi og endurreisn í mósambísku samfélagi á grundvelli jafnréttis og valdeflingar kvenna og stúlkna. Verkefnið er unnið í fjórum fylkjum í landinu. Með verkefninu er m.a. miðað að því að tryggja að konur og stúlkur sem hafa fyrir ofbeldi hafi aðgang að fjölþættri aðstoð á flóttamanna- og endurreisnarsvæðum. Einnig er lögð áhersla á að geta ráðuneytis jafnréttismála til að samræma, hafa eftirlit með og gera grein fyrir framvindu aðgerðaáætlunar um ályktun 1325 verði aukin. Hins vegar er samstarf við Barnahjálp SÞ (UNICEF) um aðgengi að hreinu vatni og viðunandi salernisaðstöðu við heimili og skóla í Sambesíu-fylki. Helstu áherslur í því samstarfi eru bætt heilsa, aukið jafnrétti og verndun umhverfis.

Stofnun Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna – UN Women

Ísland hefur veitt framlög til stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna (UN Women) um árabil. UN Women er ein af fjórum áherslustofnunum í fjölþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands en stofnunin sinnir  samræmingarhlutverki jafnréttismála á meðal stofnana Sameinuðu þjóðanna og stuðlar að afnámi ofbeldis gegn konum, pólitískri þáttöku og efnahagslegri valdeflingu kvenna á vettvangi og tryggir að raddir kvenna fái að heyrast og kvenmiðar neyðaraðstoð. Ísland hefur lagt áherslu á að auka vægi kjarnaframlaga sem svar við beiðni UN Women um að framlagsríki dragi úr eyrnamerkingum framlaga en með því getur stofnunin brugðist hraðar við breyttum aðstæðum og forgangsraðað verkefnum betur. Á þeim forsendum er framlögum Íslands til UN Women í Afganistan og Palestínu beint í almenna framkvæmd ársáætlana skrifstofanna tveggja í stað ákveðinna afmarkaðra verkefna. Af verkefnum UN Women í Afganistan má nefna stuðning við miðstöðvar fyrir upplýsinga- og fjarskiptatækni og vitundavakningu um Kvennasáttmálann (CEDAW) meðal háskólanema, embættismanna og fulltrúa borgarasamtaka í gegnum vinnustofur og námskeið. Einnig veitir stofnunin ríkistjórninni stuðning við gerð áætlunar um og eftirlit við framkvæmd ályktunar um konur, frið og öryggi. Af verkefnum UN Women í Palestínu má nefna stuðning stofnunarinnar við gerð frumvarps sem fjallar um regluverk og viðbrögð við heimilisofbeldi og aðstoð við þróun verklagsreglna fyrir saksóknara sem sinna málum tengdum kynbundnu ofbeldi. Þá fjármagnar Ísland stöðu sérfræðings sem vinnur að málefnum flóttamanna á skrifstofu UN Women í Tyrklandi frá 2017-2019 en auk þess hófst stuðningur við verkefni á sviði mannúðaraðstoðar sem er aðstoð við sýrlenskar flóttakonur í landinu. Þá hefur Ísland stutt við Eid bi Eid verkefni UN Women í Jórdaníu frá árinu 2015 þar sem konur á flótta frá Sýrlandi fá atvinnutækifæri, menntun og daggæslu fyrir börn sín á svokölluðum griðarstöðum í Zaatari og Azraq flóttamannabúðunum. Framundan er seta Íslands í stjórn UN Women í eitt ár á tímabilinu 2019-2021.

Samstarf við landsnefnd UN Women á Íslandi.

Um árabil hefur utanríkisráðuneytið átt gott samstarf við landsnefnd UN Women á Íslandi og í gildi er samstarfssamningur þar að lútandi sem gildir út árið 2019. Markmið samningsins er að skapa grundvöll fyrir samráð og samvinnu ráðuneytisins og landnefndarinnar, en auk kynningar- og fræðslumála veitir landsnefndin almenna ráðgjöf og umsögn vegna málefna á alþjóðavettvangi og fræðir útsenda sérfræðinga á vegum Íslensku friðargæslunnar og mannúðaraðstoðar um jafnréttismál og framkvæmd ályktunar öryggisráðs SÞ nr. 1325.

Ísland hefur unnið ötullega að því að virkja þátttöku karla og drengja betur í verkefnum sem snúa að jafnrétti kynjanna. Á árinu 2018 studdi sendiráð Íslands í Malaví við tvær rakararáðstefnur í höfuðborginni Lilongwe og í Mangochi-héraði sem skipulagðar voru af landsnefnd UN Women á Íslandi í samstarfi við UN Women í Malaví og þarlend stjórnvöld. Áhersla rakarastofanna var á hlutverk karla og drengja við að uppræta kynbundið ofbeldi. Um var að ræða fyrstu rakarastofuviðburði sem haldnir hafa verið í Afríku.

Jafnréttismiðuð þróunarsamvinna og mannúðaraðstoð Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna – UNFPA

Starf Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) samræmist mjög vel áherslum Íslands á sviði kynjajafnréttis og lýðheilsu, þar með talið kyn- og frjósemisheilbrigðis og réttinda (e. sexual and reproductive health and rights, SRHR) en  starf stofnunarinnar er að styðja þróunarríki við stefnumótun og framkvæmd verkefna sem beinast að því að útrýma fátækt, að gera getnaðarvarnir aðgengilegar, fæðingar öruggar og draga úr HIV smiti. Mikilvægir þættir starfseminnar eru réttindi mæðra og barna til heilsuverndar, ungbarnavernd, dreifing getnaðarvarna og kynlífs- og fjölskyldufræðsla. Annað hlutverk UNFPA er að stuðla að aukinni þekkingu á efnahags-, félags- og umhverfislegum afleiðingum fólksfjölgunar og aðstoða þróunarríki við að afla gagna og vinna úr þeim til að bæta stefnumörkun og áætlanagerð á þessu sviði. Ísland hefur stutt við starf UNFPA um árabil en frá árinu 2017 hefur UNFPA fengið aukin framlög og er núna ein af áherslustofnunum í þróunarsamvinnu og mannúðaraðstoð Íslands. Í febrúar 2018 undirritaði utanríkisráðherra samning við UNFPA um stuðning Íslands við verkefni stofnunarinnar í Sýrlandi en af árangri UNFPA í Sýrlandi má nefna að árið 2016 fengu tvær milljónir sýrlenskra kvenna aðgang að lífsbjargandi heilbrigðisþjónustu í Sýrlandi, Egyptalandi, Írak, Jórdaníu og Tyrklandi. Af öðrum framlögum Íslands til UNFPA 2018 má nefna: gerð og úrvinnslu manntals í Malaví og mannúðaraðstoð til Lýðstjórnarveldisins Kongó og til Jemen. 

FGM/C sjóður UNICEF og UNFPA Endurnýjaður var samningur til næstu fimm ára vegna samstarfsverkefnis UNICEF og UNFPA um upprætingu limlestingar á kynfærum kvenna og stúlkna í 17 löndum í vestan-, austan- og norðaustanverðri Afríku. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin áætlar að meira en 200 milljónir kvenna hafi orðið fyrir slíkri limlestingu og samkvæmt áætlunum UNICEF eru 54 milljónir stúlkna í hættu á að hljóta sömu örlög fyrir árið 2020. Þar átt við allar aðgerðir sem fela í sér að ytri kynfæri kvenna eru fjarlægð algerlega, eða að hluta til, auk allra þeirra áverka sem koma til sökum slíkra aðgerða. Limlesting á kynfærum kvenna er heilbrigðisvandamál, brot á mannréttindum og birtingarmynd á kynbundnu misrétti og ofbeldi. 

Kynjasjónarmiðum haldið á lofti í starfi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna – UNICEF

Í gildi er rammasamningur milli íslenskra stjórnvalda og Barnahjálpar Sþ (e. UN Children´s Fund, UNICEF) sem veitir heildstæða umgjörð um samstarfið. Gert er ráð fyrir að kjarnaframlög Íslands til UNICEF hafi náð til milljóna barna víðs vegar um heim. Utanríkisráðherra  undirritaði áframhaldandi samstarfssamning við UNICEF í Mósambík sem nær frá 2018 til 2020 um að bæta vatns- og hreinlætisaðstæður í einu fátækasta fylki landsins. Fyrsta samstarfsáætlunin, fyrir tímabilið 2014-2017, bar góðan árangur í sex héruðum fylkisins. Umbætur varðandi aðgengi að hreinu vatni náði til 63 þúsund íbúa með byggingu 160 vatnsbóla og umbætur í salernismálum náðu til 67 þúsund íbúa. Þá voru vatns- og hreinlætisumbætur gerðar í 85 grunnskólum.

Ísland hefur einnig stutt við heilsutengd verkefni UNICEF í Palestínu frá árinu 2011 og studdi meðal annars ljósmæðraeftirlit til mæðra í viðkvæmri stöðu. Úttekt á verkefninu kom út í fyrra. Hún sýnir að mikil þörf var á þjónustunni sem talin er hafa átt stóran þátt í að draga úr mæðra- og ungbarnadauða.

Áhersla á stuðningur við jafnréttismál innan Alþjóðabankans

Ísland hefur lengi lagt ríka áherslu á jafnréttismál innan Alþjóðabankans, bæði í almennu málefnastarfi innan kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, sem og í tvíhliða samstarfi. Þannig hefur Ísland veitt regluleg framlög í sérstakan jafnréttissjóð (e. Umbrella Facility for Gender Equality, UFGE) innan bankans, en nýlega var gerður samningur við sjóðinn til fimm ára (2018-2022). Meginmarkmið sjóðsins er að auka þekkingu á jafnréttismálum innan Alþjóðabankans og stuðla þannig að samþættingu kynjasjónarmiða á öllum sviðum, en sjóðurinn gegnir mikilvægu hlutverki í stefnumótun bankans á sviði jafnréttismála. Sjóðurinn hefur skilað góðum árangri og byggir ný og metnaðarfull jafnréttisstefna bankans fyrir árin 2017-2023 meðal annars á rannsóknum og verkefnum á vegum hans. Kynjajafnrétti er jafnan forgangsmál þegar Ísland gegnir formennsku í svæðisbundnu samstarfi, en á árinu 2019 mun Ísland meðal annars taka við formennsku í kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna hjá Alþjóðabankanum. Ísland veitir einnig framlög til mannréttindasjóðs (e. Human Right sand Development Trust Fund) sem ætlað er að auka veg mannréttindamála innan bankans og verkefna hans og hefur haft töluverða skorun við valdeflingu kvenna sérstaklega hvað varðar rétt að aðgengi að kyn- og frjósemisheilbrigði.

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ)

Íslensk stjórnvöld fjármagna rekstur Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) sem veitir sérfræðingum frá fátækum ríkjum og átakasvæðum þjálfun á sviði jafnréttismála og gerir þeim betur kleift að stuðla að auknu jafnrétti kynjanna og valdeflingu kvenna heima fyrir. Ýmist er um að ræða sérfræðinga sem koma úr opinberri stjórnsýslu, eða starfa hjá félagasamtökum eða stunda framhaldsnám í háskólum landa sinna. Skólinn hefur jafnframt boðið fagfólki á Íslandi sem starfar að þróunar- og jafnréttismálum að sækja fyrirlestra og námskeið skólans. Í maí 2018 útskrifuðust 23 nemendur, fjórir karlmenn og 19 konur, úr 20 vikna námi við skólann. Flestir nemendur sem hlotið hafa þjálfun við skólann hafa komið frá ríkjum sem sérstök áhersla er lögð á í alþjóðlegri þróunarsamvinnu Íslands (tvíhliða samstarfslöndin Malaví, Mósambík [1] og Úganda, auk Afganistan og Palestínu). Árið 2018 komu nemendurnir frá 14 ríkjum, Afganistan, Búrkína Faso, Sierra Leone, Malaví, Mósambík, Nígeríu, Palestínu, Sómalíu, Túnis, Líbanon, Serbíu, Bosníu og Hersegóvínu, Svartfjallalandi og Úganda. Frá upphafi starfseminnar (2009) hafa alls 109 nemendur hlotið menntun hjá skólanum. Utanríkisráðuneytið hækkaði framlag til Jafnréttisskólans á síðasta ári til að koma til móts við fjölgun nemenda við skólann.

Alþjóðaviðskiptamiðstöðin – stuðningur við SheTrades

Í takt við auknar áherslur á viðskiptamál innan þróunarsamvinnu var í lok árs 2017 undirritaður samningur til þriggja ára við Alþjóðaviðskiptmiðstöðina (International Trade Centre, ITC) sem hefur að markmiði að stuðla að efnahagslegri þróun og útrýma fátækt í þróunarríkjum fyrir tilstuðlan viðskipta. Leggur Ísland sérstaka áherslu á efnahagslega valdeflingu kvenna og í því samhengi er stuðningur Íslands eyrnamerktur verkefni ITC sem ber heitið SheTrades og varsett á fót samhliða samþykkt heimsmarkmiðanna. Markmið verkefnisins er að tengja konur og kvenfrumkvöðla í þróunarríkjum og á stríðshrjáðum svæðum við alþjóðamarkaði, en takmarkið er að tengja milljón konur við markaði fyrir árið 2020.

Stuðningur við jafnréttisverkefni á vegum félagasamtaka

Opinber framlög Íslands til jafnréttisverkefna á vegum félagasamtaka á erlendri grundu renna í fyrsta lagi til verkefna á vettvangi í tvíhliða samstarfslöndum Íslands, í öðru lagi í gegnum stofnanir Sameinuðu þjóðanna sem víða vinna með félagasamtökum á vettvangi, og loks beint til íslenskra félagasamtaka og samstarfsaðila þeirra. Forsendur styrkveitinga frá ráðuneytinu til íslenskra samtaka sem vinna í  þróunarsamvinnu eða mannúðaraðstoð er að tekið sé tillit til jafnréttissjónarmiða í öllum verkefni, en ráðuneytið styður jafnframt við nokkur verkefni félagasamtaka sem hafa jafnrétti og valdeflingu kvenna og stúlkna að meginmarkmiði. Á árinu 2018 voru til að mynda veittir styrkir til styrktarsjóðsins Umoja til valdeflingar kvenna í Dzaleka flóttamannabúðunum í Malaví, og Sól í Tógó vegna verkefnis þeirra Stelpur Rokka í Tógó, og til Women Power Africa vegna valdeflingar kvenna og nýsköpunar í Tansaníu.  Í byrjun árs 2018 gerði Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið með sér rammasamning um alþjóðlega mannúðaraðstoð og gildir hann yfir tímabilið 2018–2021. Eitt markmiða rammasamningsins er að Rauði krossinn á Íslandi komi jafnréttisáherslum að í verkefnum sem unnin eru í samstarfi við Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánans (IFRC). Upphæð samningsins fyrir fjárlagaárið 2018 nam 149,2 millj. kr. sem Rauði krossinn á Íslandi nýtti til verkefna í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó, Úganda og Sýrlandi. Jafnrétti kynjanna er mikilvægur liður í allflestum þessum verkefnum og snýr að vernd kvenna á vettvangi neyðar þar sem félagslegir innviðir hafa hrunið, en konur eru sérstaklega berskjaldaðar við slíkar aðstæður. Auk þess hefur sérstök áhersla verið lögð á forvarnarverkefni gegn kynferðislegu ofbeldi á átakasvæðum. Ísland studdi einnig samtökin Promundo sem vinna gagngert að því að fá karlmenn til þátttöku í jafnréttismálum. Hefur það starf m.a. falist í útgáfu á skýrslu um þátttöku feðra í uppeldi og umönnun (State of the World´s Fathers), og málsvarastarfi og vitundarvakningu um karla og jafnrétti, þ.á m. með skipulagningu og þróun á verkfærakistu rakarastofa (Barbershops) sem unnið var fyrir HeforShe herferð UN Women.

Stuðningur við kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna á sviði umhverfis- og loftslagsmála

Ísland hefur veitt samþættingu kynjasjónarmiða sérstaka athygli undanfarin í ár í umhverfis- og loftslagsmálum og tekur virkan þátt í málsvarastarfi til að tryggja að ákvæði sem stuðla að samþættingu jafnréttissjónarmiða séu tekin inn í alþjóðlega samninga sem varða umhverfis- og loftslagsmál. Íslensk stjórnvöld hafa markvisst unnið að því að auka hlutdeild endurnýjanlegrar orku heima fyrir og í verkefnum á alþjóðavettvangi. Aðlögun að loftslagsbreytingum snýst einnig um viðbrögð við loftslagsbreytingum og að draga úr tjóni vegna líklegra breytinga. Vegna bágrar stöðu sinnar víða standa konur í fátækari ríkjum heims frammi fyrir margvíslegum áskorunum og hafa alla jafna ekki mikil völd til að komast að og breyta orkugeiranum. Í því samhengi leggja íslensk stjórnvöld sig fram um að styðja sértækar aðgerðir til að efla stöðu kvenna innan málaflokksins.

Kyn og loftslag

Í aðdraganda Parísarsamkomulagsins lagði utanríkisráðuneytið ríka áherslu á að tryggja þátttöku kvenna frá þróunarlöndum í loftslagsviðræðum og í því skyni voru, á árunum 2010-2014, veitt framlög í sjóð Umhverfis- og þróunarstofnunar kvenna (Women´s Environment and Development Organisation, WEDO) sem hefur að markmiði að auka hlut kvenna frá þróunarlöndum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagmál (e. Women Delegates Fund) sem og til loftslagsverkefnis á vegum UN Women. Markmiðið með þessum framlögum var að tryggja að kynjasjónarmiðum væri komið á framfæri í alþjóðlegum samningaviðræðum og stefnumótun á sviði loftslagsmála. Konum frá þróunarlöndum var gert kleift að sækja loftslagsráðstefnur og fundi Sameinuðu þjóðanna fyrir hönd landa sinna og hlutu einnig ýmiskonar þjálfun, m.a. í samningatækni, til að auka færni þeirra og getu í samningaviðræðum. Á sl. árum hefur átt sér stað töluverð vitundarvakning varðandi mikilvægi þess að konur taki þátt í loftslagsviðræðum og rödd þeirra heyrist, en hlutfall kvenna meðal þátttakenda í fundum Rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC) fór úr 12% árin 2006-2007 í  35% árið 2015. Á árinu 2018 hélt Ísland áfram að styðja sjóð Umhverfis- og þróunarstofnunar kvenna (WEDO) og gat sjóðurinn styrkt ferð þriggja kvenna á loftslagsráðstefnu Sþ í Póllandi. 

Í kjölfar samþykktar Parísarsamkomulagsins hefur utanríkisráðuneytið svo unnið að því að koma á fót samstarfsverkefnum um loftslagsbreytingar sem taka mið af stöðu karla og kvenna og eru á einhvern hátt valdeflandi fyrir konur. Í þeirri vinnu hefur verið litið til núverandi samstarfsstofnana og áherslusvæða.

Íslensk stjórnvöld eiga í viðræðum við skrifstofu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UN Environment) í Naíróbí í Kenya vegna verkefnis sem miðar að því að styðja við afrískar konur og tengslanet þeirra sem vinna frumkvöðlastarf á sviði sjálfbærrar orku (Africa Women Energy Entrepreneur Framework, AWEEF). Sá stuðningur er framhald af framlagi og samstarfi utanríkisráðuneytins og Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) við UN Environment á sviði jafnréttis- og orkumála. Árið 2017 fjármagnaði utanríkisráðuneytið vinnufund fyrir rúmlega 100 frumkvöðlakonur frá 24 Afríkulöndum sem starfa við sjálfbæra orku í Afríku. Vinnustofan var haldin var í tengslum við árlegan fund afrískra umhverfisráðherra (AMCEN) í Libreville í Gabon. Í framhaldi af þessum vinnufundi setti UN Environment, með stuðningi frá Íslandi, á fót verkefni sem miðar að því að virkja afrískar konur í frumkvöðlastarfi sem tengist orkumálum (e. Africa Women Energy Entrepreneur Framework). Af niðurstöðum fundar má nefna að þátttakendur mótuðu Libreville yfirlýsingu (e. Libreville outcome statement) sem var felld inn í ráðherrayfirlýsingu AMCEN 2017 en ljóst er að frumkvöðlakonur í orkugeiranum í Afríku standa frammi fyrir margvíslegum áskorunum. Á sama tíma er einnig ljóst að mörg sóknarfæri eru til staðar, sér í lagi ef að auður og framlag kvenna er nýtt til fullnustu.

Þessu til viðbótar styðja íslensk stjórnvöld við samtökin SEforALL (Sustainable Energey for All) og þá einkum samstarfsvettvang (e. People-Centered Accelerator) þess sem ætlað er að stuðla að kynjajafnrétti, samfélagsþátttöku og eflingu kvenna í orkugeiranum á heimsvísu. Í framhaldi af stofnun þessa vettvangs mun SEforALL vinna ásamt samstarfsaðilum að því að kortleggja hagsmunaaðila á sviði orkumála og kynjajafnréttis og mynda bandalög í þeim tilgangi að stuðla að kerfisbreytingum. Landsvirkjun, Orkuveitan og Jafnréttiskóli HSÞ hafa tekið þátt í því starfi á alþjóðavettvangi.

Á árinu 2018 voru jafnframt veitt framlög til fjölþjóðlegra loftslagssjóða, s.s. Sjóð á vegum rammasamnings SÞ fyrir fátækustu þróunarlöndin (UNFCCC Least Developed Countries Fund, LDCF) og Græna loftslagssjóðinn (Green Climate Fund, GCF) en þessir sjóðir halda allir kynjasjónarmiðum á lofti í stefnuritum og aðgerðaáætlunum. Í því samhengi má nefna að Græni loftslagssjóðurinn hefur metnaðarfulla jafnréttisstefnu og gaf út nýverið handbók sem leiðbeinir samstarfsaðilum sjóðsins um hvernig á að samþætta kynja- og jafnréttissjónarmiðum í loftslagsverkefni.

Einnig er rétt að geta þess að Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ), sem utanríkisráðuneytið veitir framlög til, hefur lagt sérstaka áherslu á að fjalla um hlut kvenna í loftslagsmálum og býður upp á námskeið sem miðar að því að byggja upp þekkingu og skilning á orsökum loftslagsbreytinga og áhrif þess á konur í þróunarlöndum.


[1] Mósambík fór úr því að vera tvíhliða samtarfsland yfir í að vera áhersluland frá og með 1. janúar 2018.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum