Hoppa yfir valmynd

Umhverfismál

Íslensk stjórnvöld hafa um árabil lagt áherslu á umhverfis- og loftslagsmál í opinberri þróunarsamvinnu. Stefna Íslands tekur mið af þeim alþjóðlegu sáttmálum sem Ísland hefur gerst aðili að, samþykkt eða fullgilt og mynda heildstæða umgjörð um þróun á heimsvísu. Íslensk stjórnvöld styðja nú framtíðarsýn Heimsmarkmiða SÞ um sjálfbæra veröld til ársins 2030 og mun þróunarsamvinna Íslands vinna í þágu verndun jarðarinnar og sjálfbærrar nýtingar náttúruauðlinda unnin í samræmi við heimsmarkmið númer 7, 13, 14 og 15. Áhersla verði lögð á nýtingu jarðhita með sérstaka áherslu á beinnýtingu jarðhita til fæðuöflunar og öryggis auk nýtingu annarrar endurnýjanlegrar orku, sjálfbæra nýtingu hafs og vatna, landgræðslu og ráðstafanir til að auka mótvægisaðgerðir og aðlögunarhæfni samfélaga vegna áhrifa af völdum loftslagsbreytinga. Sem aðildarríki að rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (United Nations Framework Convention on Climate Change, UNFCCC) hefur Ísland lagt áherslu á að tryggja að fjárframlög lúti að aðgerðum til að draga úr loftslagsbreytingum sem og til mótvægis- og aðlögunarverkefna sem miða að því að auðvelda fátækari ríkjum að aðlagast breyttum aðstæðum vegna loftslagsbreytinga. Jafnframt er lögð rík áhersla á að stuðningur skili sér til fátækustu þróunarlandanna í náinni samvinnu við helstu samstarfsstofnanir. Ísland hefur einnig fylgt eftir áherslum frá Ríó+20 ríkjaráðstefnunni um að gæta þess að fjármagn til verkefna á sviði loftslagsmála stuðli að jafnrétti og valdeflingu kvenna með málflutningi um fjármögnun jafnréttisaðgerða, og að samþættingar kynja og jafnréttissjónarmiða á sviði loftslagsmála. Í þeirri vinnu hefur verið litið til núverandi og nýrra samstarfsstofnana og áherslusvæða. Ísland er aðili að og fullgilti Parísarsamninginn um aðgerðir gegn loftslagsbreytingum árið 2016. Í kjölfarið lýsti utanríkisráðuneytið yfir efldum stuðningi við fátækari ríki á sviði loftslagsmála með áherslu á að mæta orkuþörf með nýtingu hreinna og endurnýjanlegra orkugjafa þar sem þess er kostur. Fjárframlag Íslands árið 2018 til umhverfis- og loftslagsmála á sviði þróunarsamvinnu nam u.þ.b. 125 m.kr. en þar eru utan skilin framlög til Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi og verkefna í tvíhliða og svæðasamstarfi.

Sjóður fyrir fátækustu aðildarríki rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar

Sjóður fyrir fátækustu þróunarlöndin (Least Developed Countries Fund, LDCF) tilheyrir rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og leggur hann áherslu á að mæta þörfum fátækustu ríkja heims sem eru sérstaklega viðkvæm fyrir neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga. Meginverkefni sjóðsins er að styðja við undirbúning og framkvæmd aðgerðaáætlana um aðlögun að loftslagsbreytingum (National Adaptation Programs of Action, NAPA) og að styðja við verkefni sem miða að styðja við viðnámsþrótt samfélaga gegn loftslagsbreytingum. Markmið sjóðsins um að styðja við allra fátækustu löndin er í samræmi við stefnu Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu og hefur utanríkisráðuneytið stutt við sjóðinn frá árinu 2011 með árlegt framlag að upphæð 100.000 Bandaríkjadala.

Græni Loftslagssjóðurinn 

Græni loftslagssjóðurinn (Green Climate Fund; GCF) var formlega settur á laggirnar 2010 á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Cancún. GCF tilheyrir rammasamningi Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, en sjóðnum er ætlað að fjármagna verkefni í lág- og millitekjuríkjum sem miða að því að minnka losun gróðurhúsalofttegunda og gera löndum kleift að takast á við afleiðingar loftslagsbreytinga. Aukin nýting endurnýjanlegra orkugjafa getur skipt sköpum í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda sem og að bæta lífskjör fólks og áríðandi er að styðja fátækari ríki til þess. Sjóðurinn vinnur með bæði opinberum aðilum og einkageiranum en stefnt er að því að sjóðurinn verði helsti þróunarsjóður í heimi á þessu sviði. Framlög Íslands til sjóðsins nema 200 þúsund Bandaríkjadölum á ári.

Umhverfis- og þróunarstofnun kvenna 

Samstarfssamningur við Umhverfis- og þróunarstofnunar kvenna (WEDO) er í gildi en framlag Íslands hefur farið í sérstakan sjóð (e. Women´s Delegates Fund) sem hefur það að markmiði að auka hlut kvenna frá fátækum ríkjum í alþjóðlegum viðræðum um loftslagsmál. Á árunum 2006-2007 var hlutfall kvenna 12% meðal þátttakenda á fundum Rammasamnings SÞ (COP) fyrir hönd landa sinna en var komið í 35% árið 2015. Sjóðurinn stendur straum af kostnaði vegna þátttöku kvenna til að sækja fundi UNFCCC og taka þannig þátt í samningaviðræðunum. Hluti af verkefninu snýr að færniuppbyggingu, en konurnar hljóta ýmiskonar þjálfun, m.a. í samningatækni. Framlag Íslands til sjóðsins nemur 75.000 Bandaríkjadölum á ári.

Alþjóðleg samtök um sjálfbæra orku fyrir alla

Alþjóðleg samtök um sjálfbæra orku fyrir alla (Sustainable Energy For All; SEforALL) voru sett á laggirnar árið 2010 en meginmarkmið SEforALL er að stuðla að samráði á milli alþjóðlegra stofnana, stjórnvalda, einkageirans og borgarasamtaka og þannig vinna að því ríki fái aðgang að hagkvæmum, stöðugum og nútímalegum orkugjöfum, tvöfalda hlut endurnýjanlegrar orku í orkuvinnslu á heimsvísu og tvöfalda skilvirkni hvað varðar orkunýtingu. Í samstarfi við Alþjóðabankann og SÞ veita samtökin reglulega upplýsingar um þróun á aðgengi almennings að endurnýjanlegri orku og stöðu orkunýtingar. Ísland hefur stutt samtökin með framlögum frá árinu 2016 að upphæð 200 þúsund Bandaríkjadala á ári. Í viðleitni sinni til að sinna áherslu á kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna í umhverfis- og loftslagsmálum á heimsvísu studdi Ísland SEforALL við að koma á fót samstarfsvettvangi (e. people-centred accelerator) sem ætlað er að hraða samfélagsþátttöku og auknu aðgengi kvenna í orkugeiranum.

Orkusjóður Alþjóðabankans

Ísland hefur stutt við Orkusjóð Alþjóðabankans (Energy Sector Management Assistance Programe, ESMAP), sem er sérstakt samstarfsverkefni í orkumálum innan Alþjóðabankans og var sett á laggirnar 1983. Markmið samstarfverkefnisins er að gera þróunarlöndum kleift að stuðla að hagvexti og draga úr fátækt með sjálfbærri nýtingu orkuauðlinda. Þróunarríkjum er veitt aðstoð við stefnumótum í orkumálum, tæknilega ráðgjöf og aðstoð við að hrinda í framkvæmd fjárfestingum á því sviði. Árleg framlög Íslands til sjóðsins nema 300.000 Bandaríkjadölum auk stuðnings við verkefni sjóðsins og jarðhitaverkefni bankans í formi íslenskrar sérfræðiráðgjafar.

Umhverfisstofnun SÞ

Á síðasta ári var skrifað undir áframhaldandi samstarf við Umhverfisstofnun SÞ (e. UN Environment, UNEP) í Naíróbí um jarðhitaþróun í Austur-Afríku undir Argeo-verkefninu. Því er m.a. ætlað að styðja Kenýa og löndin í kring að setja á stofn þjálfunarmiðstöð í jarðhita á svæðinu. Viðræður eru enn fremur við UNEP um að styðja við kvenkyns frumkvöðla og aðgengi að fjármagni til sjálfbærrar orku í sunnanverðri Afríku (African Women Entrepreneurship Energy Framework, AWEEF). Árið 2017 fjármagnaði utanríkisráðuneytið vinnufund fyrir frumkvöðlakonur sem starfa við sjálfbæra orku í Afríku. Rúmlega 100 þátttakendur frá 24 Afríkulöndum sóttu fundinn, sem haldinn var í tengslum við árlegan fund afrískra umhverfisráðherra (AMCEN) í Libreville í Gabon. Niðurstöður fundarins voru m.a. Libreville yfirlýsingin (e. Libreville outcome statement) sem var felld inn í ráðherrayfirlýsingu AMCEN 2017 og stofnun samráðsvettvangs AWEEF.

Samstarf við Háskóla SÞ á Íslandi

Skólar Háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi vinna allir á sviði umhverfis- og loftslagsmála. Jarðhitaskólinn þjálfar jarðhitasérfræðinga frá þróunarlöndum með það að markmiði að bæta aðgang að jarðvarmaorku og sporna þannig við loftslagsbreytingum af völdum brennslu jarðefnaeldsneytis. Jafnréttisskólinn vinnur að því að efla kynjajafnrétti og félagslegt réttlæti í þróunarlöndum og hefur lagt sérstaka áherslu á að fjalla um hlut kvenna í loftslagsmálum með því að bjóða upp á námskeið sem miðar að því að byggja upp þekkingu og skilning á orsökum loftslagsbreytinga og áhrif þess á konur í þróunarlöndum. Landgræðsluskólinn þjálfar sérfræðinga frá þróunarlöndum, sem glíma við jarðvegseyðingu, eyðimerkurmyndun og neikvæð áhrif loftslagsbreytinga, til að berjast gegn landeyðingu, í endurheimt landgæða og sjálfbærrar nýtingu lands. Sjávarútvegsskólinn vinnur að eflingu stofnanagetu og getu einstaklinga til að nýta á sjálfbæran hátt auðlindir bláa hagkerfisins sem er mikilvægur þáttur í að geta brugðist við áhrifum loftslagsbreytinga. Alls hafa í kringum 1.300 sérfræðingar hlotið þjálfun í skólum HSÞ á Íslandi og rúmlega 3.500 tekið þátt í styttri námskeiðum þeirra erlendis. Niðurstöður óháðrar úttektar, sem gerð var á starfsemi skólanna árið 2017, gefa til kynna að sú þjálfun sem skólarnir veita hafi bein þróunaráhrif í samfélögum þeirra sem hennar njóta.

Tvíhliða samstarf í Úganda og Malaví

Í tvíhliða samstarfslöndum Íslands í þróunarsamvinnu hefur verið lögð áhersla á byggðaþróun í dreifbýli í samstarfi við héraðsstjórnir. Unnið hefur verið að bættri grunnþjónustu fyrir íbúa ýmissa héraða, sérstaklega á sviði menntunar og lýðheilsu. Áhersla hefur verið á að bæta vatns- og salernismál, m.a. að draga úr menntun grunnvatns. Samþætting umhverfis- og loftslagsaðgerða inn í þessi verkefni hefur tekist vel. Má sem dæmi nefna að í Úganda hafa verið settar upp sólardrifnar vatnsveitur í Buikwe-héraði, auk orkusparandi hlóða í skólaeldhúsum bæði í Buikwe og í Kalangala-héraði. Slíkar hlóðir draga úr skógareyðingu í nærumhverfinu og minnka reykmengun. Er talið að orkusparandi hlóðir geti minnkað eldiviðarbrennslu um helming. Í Malaví hafa héraðsyfirvöld í Mangochi-héraði verið studd í því að nota steypta múrsteina til byggingagerðar í stað brenndra múrsteina, sem dregur úr skógareyðingu. Auk þess hefur verið unnið með heilbrigðisyfirvöldum við að nota sólarorku í heilsugæslustöðvum í héraðinu.

Svæðasamstarf á sviði jarðhitarannsókna

Frá 2013 hafa íslensk stjórnvöld staðið fyrir umfangsmiklu samstarfi um jarðhitarannsóknir í 13 ríkjum í Sigdalnum mikla í Austur-Afríku í samvinnu við Norræna þróunarsjóðinn (Nordic Development Fund, NDF), Alþjóðabankann og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UN Environment, áður UNEP). Verkefnið er tengt viljayfirlýsingu Íslands og Alþjóðabankans um aukna jarðhitanýtingu á svæðinu og miðar verkefnið að því að aðstoða lönd við rannsóknir og mannauðsuppbyggingu á sviði jarðhitanýtingar, með það að markmiði að auka möguleika þessara landa til framleiðslu sjálfbærrar orku. Verkefninu lauk formlega í lok árs 2017 en framkvæmd nokkurra verkþátta hefur dregist og lýkur þeim verkefnahlutum formlega fyrri hluta árs 2019 en á árinu 2018 lauk yfirborðsrannsóknum í Tansaníu og aðstoð við Djíbútí um gerð hugmyndalíkana fyrir jarðhitasvæði. Við lok verkefnisins er miðað við að löndin hafi skýra mynd af þeim möguleikum sem til staðar eru á sviði jarðhita, þar sem möguleikar eru fyrir hendi séu skilgreind svæði fyrir mögulegar tilraunaboranir, og getu og mannauð til að fylgja málum eftir á næstu stigum til framleiðslu raforku eða beinnar nýtingar jarðhita s.s. við þurrkun matvæla.

Svæðasamstarf í Vestur-Afríku

Nýtt svæðaverkefni Íslands í Vestur-Afríku, í Síerra Leóne og Líberíu byggir jafnframt á samstarfi við Alþjóðabankann og ríkri áherslu á umhverfistengda þætti. M.a. voru á árinu 2018 frumgerðir nýrra og endurbættra reykofna fyrir fisk hannaðir og smíðaðir í samstarfi við Matís og innlendar verkmenntastofnanir. Nýju ofnarnir koma einkum konum í fiskverkun til góða og draga úr eldiviðarnotkun og heilsuspillandi mengun. Mikilvægur hluti verkefnisins felst í því að bæta vatns- og hreinlætismál í fiskiþorpum ásamt því að berjast gegn plastmengun og leggja áherslu á endurvinnslu. Skrifað var undir samning við UNICEF sem verður samstarfsaðili Íslands í löndunum og leiðir innleiðingu þessara verkefnaþátta í samstarfi við þarlend stjórnvöld. Með þessu verkefni stígur Ísland fyrstu skrefin í nýju samstarfi við þessi tvö lönd sem bæði glíma við gríðarmikla fátækt og hafa veikburða innviði.

Síðast uppfært: 3.7.2023 0
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum