Hoppa yfir valmynd

Jafnréttisfulltrúar

Jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins

Samkvæmt 27. grein laga um nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal í sérhverju ráðuneyti starfa jafnréttisfulltrúi sem hefur sérþekkingu á jafnrétti kynjanna. Hlutverk jafnréttisfulltrúa er að fjalla um og hafa eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, þar á meðal skal jafnréttisfulltrúi vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða á málefnasviði ráðuneytisins. Jafnréttisfulltrúar starfa samkvæmt starfsreglum samþykktum af ráðuneytisstjórum og kveðja reglurnar á um hlutverk þeirra og samstarf þeirra á milli ráðuneyta.

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins er unnin af jafnréttisfulltrúum ráðuneytanna í samstarfi við mannauðsstjóra þeirra.  Jafnréttisáætlunin tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum. Jafnréttisfulltrúi fylgir eftir aðgerðum jafnréttisáætlunarinnar í sínu ráðuneyti og tekur þátt í sameiginlegum verkefnum hennar. Jafnréttisfulltrúi skilar árlegri greinargerð til Jafnréttisstofu þar sem m.a. er gert grein fyrir skipunum í nefndir og ráð auk þess sem gert er grein fyrir framvindu aðgerða jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins. 

Samkvæmt 26. grein laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal ráðherra leggja fyrir Alþingi á fjögurra ára fresti tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta og að loknu samráði við Jafnréttisstofu. Núverandi þingsályktun um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum er í gildi frá árinu 2020 til lok árs 2023. Framfylgd aðgerða er fylgt eftir með sérstöku mælaborði sem forsætisráðuneytið sér um að uppfæra.

Jafnréttisfulltrúar Stjórnarráðsins:

  • Ásta Bjarnadóttir, forsætisráðuneyti,
  • Kristrún Friðriksdóttir, dómsmálaráðuneyti,
  • Jóhanna Lind Elíasdóttir,  félags- og vinnumarkaðsráðuneyti,
  • Þröstur Freyr Gylfason, fjármála- og efnahagsráðuneyti,
  • Úlfar Kristinn Gíslason, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti,
  • Unnur Ágústsdóttir, heilbrigðisráðuneyti,
  • Arndís Dögg Arnardóttir, innviðaráðuneyti,
  • Bryndís Guðrún Knútsdóttir, matvælaráðuneyti,
  • Þórarinn Örn Þrándarson, menningar- og viðskiptaráðuneyti,
  • Ingibjörg Ólafsdóttir, mennta- og barnamálaráðuneyti,
  • Kristján Páll Guðmundsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti,
  • Lára Kristín Pálsdóttir, utanríkisráðuneyti.

Formaður jafnréttisfulltrúahóps Stjórnarráðsins er Þorbjörg Auður Ævarr Sveinsdóttir og starfsmaður hópsins er Sunna Diðriksdóttir, sérfræðingur á skrifstofu jafnréttis- og mannréttindamála í forsætisráðuneytinu.

Saga jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins

Kveðið er fyrst á um störf jafnréttisfulltrúa í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000. Þar segir  „sérhvert ráðuneyti skal skipa jafnréttisfulltrúa sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra.“ Með sömu lögum voru fyrirtækjum og stofnunum með fleiri en 25 starfsmenn gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun. Kom það í hlut jafnréttisfulltrúa að gera slíkar áætlanir fyrir sín ráðuneyti og sneru störf þeirra á fyrstu starfsárunum aðallega að réttindum starfsmanna samkvæmt jafnréttislögum auk þess að sinna þeim verkefnum sem fram komu í þingsályktunum um framkvæmdaáætlanir í jafnréttismálum. Fljótlega komst á óformlegt samstarf jafnréttisfulltrúa Stjórnarráðsins og Jafnréttisstofu sem síðar var formfest í starfsreglum jafnréttisfulltrúa.

Árið 2008 voru gerðar breytingar á hlutverki jafnréttisfulltrúa með tilkomu nýrra jafnréttislaga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla en þar kom fram krafa um sérþekkingu á málaflokknum og lögð áhersla á kynjasamþættingu í starfi jafnréttisfulltrúa. Í 13. grein laga nr. 10/2008 kemur fram að „í sérhverju ráðuneyti skal starfa jafnréttisfulltrúi sem hefur sérþekkingu á jafnréttismálum. Jafnréttisfulltrúi fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, þar á meðal skal hann vinna að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins.“ Í lögunum frá 2008 er fyrst sett fram skylda ráðuneyta til að samþætta jafnréttis- og kynjasjónarmið í allri stefnumótun, áætlanagerð og ákvarðanatöku á þeirra vegum sem og þeirra opinberu stofnana sem starfa á málasviði þeirra.

Sjá einnig:

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum