Hoppa yfir valmynd

Um jafnrétti kynjanna

Um jafnréttismál gilda lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Fyrstu almennu lögin um jafnrétti kvenna og karla voru sett hér á landi árið 1976 með það að markmiði að stuðla að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum þjóðfélagsins. Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á löggjöfinni frá upphafi og þar til lögin nr. 10/2008 tóku gildi. Jafnframt er lögunum ætlað að auka rétt kvenna á þeim sviðum sem á konur hallar ásamt því að styrkja rétt karla þar sem þeir hafa rýrari rétt. Áhersla er lögð á að jafnréttismál þurfi að vera viðfangsefni beggja kynja, enda hljóta bæði kynin að njóta góðs af auknu jafnrétti í samfélaginu. Er því mikilvægt að ekki sé mismunað á grundvelli kynferðis. Í þessu sambandi er þó mikilvægt að hafa í huga að sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar og barnsburðar getur ekki talist mismunun kynjanna.

Mikilvæg leið að jafnrétti kynjanna er að gera bæði konum og körlum kleift að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf. Sérstakt ákvæði er í lögunum þar sem sú skylda er lögð á atvinnurekendur að gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera konum og körlum þetta mögulegt. Slíkar ráðstafanir skulu meðal annars miða að því að auka sveigjanleika við skipulagningu á vinnu og vinnutíma þannig að hagsmunir allra séu hafðir að leiðarljósi. Sem dæmi má taka að erfitt er fyrir foreldra ungra barna að vera á fundum á þeim tíma sem sækja þarf börn á leikskóla. Þá geta stjórnendur hvatt foreldra til að skipta veikindadögum barns á milli sín ef þau eru bæði útivinnandi. Æskilegt er að setja fram aðgerðir sem stefna að settu marki í jafnréttisáætlanir eða í starfsmannastefnur fyrirtækja eða stofnana ef starfsmenn eru fleiri en 25. Í smærri fyrirtækjum eða stofnunum er nauðsynlegt að starfsmönnum sé kynnt stefnan á skýran og skilmerkilegan hátt.

Markmið laganna er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Til þess að lögin nái tilgangi sínum voru lögfestar nokkrar leiðir að settum markmiðum þeirra. Þar á meðal skal jafnréttissjónarmiða gætt á öllum sviðum samfélagsins auk þess að vinna skal að jöfnum áhrifum kvenna og karla við ákvarðanatöku og stefnumótun í samfélaginu. Þáttur í þessu er stefna stjórnvalda um að sjónarmið jafnréttis skulu fléttuð inn í alla þætti stefnumótunar, ákvarðana og aðgerða á vegum ríkisins. Í því skyni hefur sérhvert ráðuneyti skipað jafnréttisfulltrúa sem fjallar um og hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málasviði ráðuneytisins og þeirra stofnana sem undir ráðuneytið heyra.

Jafnréttisstofa er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn ráðherra. Hlutverk hennar er meðal annars að auka virkni í jafnréttismálum og fylgjast með þjóðfélagsþróuninni á þessu sviði, meðal annars með upplýsingaöflun og rannsóknum. Ekki síst er eftirlitshlutverk hennar með framkvæmd laganna mikilvægt enda talið eitt af lykilþáttum þess að lögin nái tilgangi sínum. Enn fremur sér Jafnréttisstofa um fræðslu og upplýsingastarfsemi á sviði jafnréttismála en þangað geta stofnanir, fyrirtæki, einstaklingar og félagasamtök leitað eftir aðstoð. Auk þessa skal stofan vera stjórnvöldum til ráðgjafar á þessu sviði.

Í gildi er þingsályktun um áætlun stjórnvalda í jafnréttismálum sem samþykkt var á 150. löggjafarþingi og gildir fyrir tímabilið 2020 –2023 samkvæmt  11. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008.  Hún byggist á tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón var af umræðum á síðustu tveimur jafnréttisþingum, sbr. 10 gr. jafnréttislaga. Núgildandi áætlun er sjöunda framkvæmdaáætlun íslenskrar ríkisstjórnar í jafnréttismálum og tilgreinir brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði  kynjajafnréttismála. 

Framkvæmdaáætlunin felur í sér verkefni sem ætlað er að vinna að markmiði laganna um að jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla í íslensku samfélagi. Við undirbúning hennar bárust tillögur frá öllum ráðuneytum, alls 24 verkefni, þar af tíu sem forsætisráðuneytið ber ábyrgð á. Við undirbúninginn voru umræður á jafnréttisþingi höfð til hliðsjónar, sbr. 10. grein laganna.

Meðal annars fjallað um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð, jafnlaunavottun og jafnrétti á vinnumarkaði, aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi, jafnrétti í skólastarfi, vísindum og listum og karla og jafnrétti. Verkefnatillögurnar voru samþykktar án athugasemda eftir kynningu á fundi Jafnréttisráðs 28. maí sl. og síðan sendar til umsagnar í samráðsgátt stjórnvalda. Í áætluninni eru 24 aðgerðir frá öllum ráðuneytum sem eru tengdar heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Er það í fyrsta sinn sem heimsmarkmiðin eru tengd með beinum hætti framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum.

Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti. Konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti og í samanburði við það sem gerist víða annars staðar í heiminum hafa á undanförnum áratugum verið stigin stór skref til jafnrar stöðu kynjanna á Íslandi. Til framfaraskrefa á sviði jafnréttismála má nefna verulega fjölgun kvenna hér á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins. Lagabreytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrir­tækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali.

Hvergi á Vesturlöndum er hlutfall kvenna á vinnumarkaði hærra en á Íslandi en einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynja­skipting starfa.  Konur og karlar gegna ólíkum störfum og kynbundið námsval og kynja­skipting milli starfsgreina er enn mjög áberandi. Þá eru karlar, eins og áður sagði, ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur. Þó hefur á undanförnum árum dregið saman með kynj­unum í launum og kynbundinn launamunur minnkar ár frá ári sem vissulega er gleðiefni. Staðan á vinnumarkaði sýnir þó að enn er langt í land á sviði jafnréttismála hér á landi. Þrátt fyrir 40 ára gamla löggjöf um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla virðist kynferði enn takmarka frelsi einstaklinga. Íslendingar geta vissulega verið stoltir af því að verma ár eftir ár efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir kynjabil á alþjóðavísu en mikilvægt er að vera meðvituð um að í samfélaginu ríkir enn valda­ójafn­vægi sem ekki eru gerð fyllileg skil í úttekt ráðsins.

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og valfrjálsa bókun hans og hefur hvatt önnur ríki til að framfylgja ákvæðum hans að fullu. Ráðuneytin eiga gott samstarf við lands­nefnd UN Women á Íslandi og árið 2014 undirritaði fulltrúi Stjórnarráðsins yfir­lýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í framkvæmdaáætluninni er kveðið á um sérstakt samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um að lögð verði áhersla á að rödd kvenna heyrist í loftslagsmálum og að ákvæði sem stuðli að samþættingu jafnréttis­sjónarmiða séu tekin inn í alþjóðlega samninga sem varða umhverfis- og loftslagsmál. Ís­lend­ingar munu halda áfram að styðja jafnréttisbaráttu á alþjóðavettvangi með marg­vís­legum hætti, ekki síst með því að vera framsækin þjóð og til fyrirmyndar í hvívetna á sviði jafnréttismála og með því að standa vörð um mannréttindi og framþróun í heiminum. 

Sjá einnig:

Yfirlit um lög

Yfirlit um lög er varða mannréttindi og jafnrétti er að finna á vef Alþingis

Yfirlit um reglugerðir

Yfirlit um reglugerðir er varða jafnrétti er er að finna á reglugerd.is

Stofnanir

Úrskurðarnefndir

Nefndir

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira