Hoppa yfir valmynd

Um jafnrétti kynjanna

Um jafnréttismál gilda:

Þá eru fleiri lög sem taka til jafnréttismála og ber þar að nefna sérstaklega:

Jafnréttislög

Markmið jafnréttislaga er að koma í veg fyrir mismunun á grundvelli kyns og koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Allt fólk skal eiga jafna möguleika á að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Með kyni í lögum þessum er átt við konur, karla og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá nema annars sé sérstaklega getið. Markmiði þessu skal náð með því m.a. að:

  1. gæta jafnréttissjónarmiða og vinna að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunum á öllum sviðum samfélagsins,
  2. vinna að jöfnum áhrifum kvenna og karla í samfélaginu,
  3. bæta sérstaklega stöðu kvenna og auka möguleika þeirra í samfélaginu,
  4. vinna gegn launamisrétti og annarri mismunun á grundvelli kyns á vinnumarkaði, m.a. með því að fyrirtæki og stofnanir uppfylli skilyrði jafnlaunavottunar eða jafnlaunastaðfestingar,
  5. gera öllum kleift, óháð kyni, að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf,
  6. efla fræðslu um jafnréttismál,
  7. greina tölfræðiupplýsingar eftir kyni,
  8. efla rannsóknir í kynja- og jafnréttisfræðum,
  9. vinna gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni,
  10. breyta hefðbundnum kynjaímyndum og vinna gegn neikvæðum staðalímyndum um hlutverk kvenna og karla,
  11. stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf,
  12. gæta sérstaklega að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá,
  13. vinna gegn fjölþættri mismunun.

Jafnréttisstofa er sérstök stofnun sem heyrir undir yfirstjórn forsætisráðherra en hlutverk hennar er skilgreint í lögum nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála. Stofnunin annast stjórnsýslu á sviði jafnréttismála á því sviði sem löggjöf um jafnréttismál tekur til, þ.e. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna, lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og lög um jafna meðferð á vinnumarkaði. Hér má lesa nánar um hlutverk Jafnréttisstofu.

Á fjögurra ára fresti er lögð fram tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í kynjajafnréttismálum til fjögurra ára í senn. Í gildi er þingsályktun um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2020-2023. Hún byggist á tillögum ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs, auk þess sem hliðsjón var af umræðum á síðustu tveimur jafnréttisþingum. Núgildandi áætlun er sjöunda framkvæmdaáætlun íslenskrar ríkisstjórnar í jafnréttismálum og tilgreinir brýnustu verkefni ríkisstjórnarinnar á sviði  kynjajafnréttismála. Til þess að fylgja eftir framgangi aðgerðanna hefur forsætisráðuneytið stillt upp mælaborði þar sem hægt er að fylgjast með stöðu aðgerða. Allar aðgerðir eru tengdar heimsmarkmiðum Sameinuðu Þjóðanna. Er það í fyrsta sinn sem heimsmarkmiðin eru tengd með beinum hætti framkvæmdaáætlun stjórnvalda í jafnréttismálum.

Almennt um stöðu jafnréttismála á Íslandi

Hér á landi ríkir formlegt kynjajafnrétti sem þýðir að konur og karlar búa við lagalegt jafnrétti og í samanburði við það sem gerist víða annars staðar í heiminum hafa á undanförnum áratugum verið stigin stór skref til jafnrar stöðu kynjanna á Íslandi. Til framfaraskrefa á sviði jafnréttismála má nefna verulega fjölgun kvenna hér á Alþingi og í sveitarstjórnum landsins. Lagabreytingar hafa verið samþykktar sem ætlað er að tryggja áhrif kvenna í stjórnum fyrir­tækja og í atvinnulífi og styrkja baráttuna gegn kynbundnu ofbeldi, vændi og mansali.

Hvergi á Vesturlöndum er hlutfall kvenna á vinnumarkaði hærra en á Íslandi en einkennandi fyrir íslenskan vinnumarkað er mikil kynja­skipting starfa. Konur og karlar gegna ólíkum störfum og kynbundið námsval og kynja­skipting milli starfsgreina er enn mjög áberandi. Þá eru karlar, eins og áður sagði, ofar í valdastigum atvinnulífsins en konur. Þó hefur á undanförnum árum dregið saman með kynj­unum í launum og kynbundinn launamunur minnkar ár frá ári sem vissulega er gleðiefni. Staðan á vinnumarkaði sýnir þó að enn er langt í land á sviði jafnréttismála hér á landi.

Íslendingar geta vissulega verið stoltir af því að verma ár eftir ár efsta sætið á lista Alþjóðaefnahagsráðsins sem mælir kynjabil á alþjóðavísu en mikilvægt er að vera meðvituð um að í samfélaginu ríkir enn valda­ójafn­vægi sem ekki eru gerð fyllileg skil í úttekt ráðsins.

Ísland hefur fullgilt samning Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og valfrjálsa bókun hans og hefur hvatt önnur ríki til að framfylgja ákvæðum hans að fullu. Ráðuneytin eiga gott samstarf við lands­nefnd UN Women á Íslandi og árið 2014 undirritaði fulltrúi Stjórnarráðsins yfir­lýsingu um að fylgja Jafnréttissáttmála stofnunar Sameinuðu þjóðanna um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Í framkvæmdaáætlun um jafnréttismál fyrir árin 2020-2023 er kveðið á um sérstakt samstarfsverkefni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins um að lögð verði áhersla á að rödd kvenna heyrist í loftslagsmálum og að ákvæði sem stuðli að samþættingu jafnréttis­sjónarmiða séu tekin inn í alþjóðlega samninga sem varða umhverfis- og loftslagsmál. Ís­lend­ingar munu halda áfram að styðja jafnréttisbaráttu á alþjóðavettvangi með marg­vís­legum hætti, ekki síst með því að vera framsækin þjóð og til fyrirmyndar í hvívetna á sviði jafnréttismála og með því að standa vörð um mannréttindi og framþróun í heiminum.

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 30.1.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum