Hoppa yfir valmynd
A. Stjórnsýslan

Lýsing á aðgerð

Framkvæmdasjóður jafnréttismála.

Varið verði 40 millj. kr. samtals af fjárlögum til jafnréttisverkefna á vegum ráðuneyta á tímabilinu 2020–2023. Verkefnin geta verið samstarfsverkefni ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands eða ráðuneyta og ríkisstofnana eða háskólasamfélagsins þar sem tilgangurinn er að nýta niðurstöður, reynslu og þekkingu á sviði jafnréttismála eða innleiða tillögur sem telja má til afraksturs verkefna í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar. Forsætisráðuneytið auglýsi eftir umsóknum frá ráðuneytum og úthluti styrkjum að undangengnu faglegu mati skrifstofu jafnréttismála. Endurskoðaðar reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð verði kynnt ráðuneytum fyrir árslok 2019.

Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: 40 millj. kr.
Ábyrgð: Forsætisráðuneytið.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 5 og stuðlar að samþættingu þess við önnur heimsmarkmið.

Staða verkefnis

Endurskoðaðar reglur sjóðsins og umsóknareyðublöð voru samþykkt af ráðherra í janúar 2020. Þeim hluta verkefnis telst lokið. 

Í apríl 2022 var úthlutað til sex verkefna.

 • Dómsmálaráðuneytið fékk tvo styrki. Annars vegar styrk til að styrkja enn frekar baráttu lögreglu gegn kynbundnu ofbeldi með innleiðingu handbókar UN Women um kynrænt viðbragð lögreglu vegna kynbundins ofbeldis og þjálfun lögreglu til að nýta sér efni handbókarinnar við meðferð og rannsókn á kynbundnu ofbeldi. Hins vegar styrk til áframhaldandi stuðnings við framgang verkefnis hjá sýslumanni í Vestmannaeyjum um greiningu kynjaðrar tölfræði úr starfskerfum sýslumanna, þannig að til verði opinber og samræmdur gagnagrunnur sem hægt verður að nýta til að varpa ljósi á stöðu kynjanna og meta hvort munur sé þar á þegar kemur að meðferð mála í stjórnsýslunni.
 • Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytið fékk styrk til að framkvæma rannsókn í samstarfi við Umhverfisstofnun um kynjaáhrif flokkunar og endurvinnslu úrgangs á heimilum.
 • Heilbrigðisráðuneytið fékk tvo styrki. Annars vegar til að bæta þjónustu við þolendur heimilisofbeldis með kortlagningu ferla í heilbrigðiskerfinu vegna áverkavottorða í tengslum við rannsókn lögreglu á ofbeldismálum og með kortlagningu á hlutverki og aðkomu réttargæslumanna fyrir þolendur kynbundins ofbeldis á Íslandi. Hins vegar styrk til að kortleggja aðgangshindranir fólks af erlendum uppruna að heilbrigðisþjónustu á Íslandi, óháð efnahag og búsetu, og koma með tillögur að úrbótum og efla menningarlæsi heilbrigðisstarfsfólks.
 • Utanríkisráðuneytið fékk styrk til þátttöku í málstofu um valdeflingu kvenna á sviði sjálfbærrar orku og í hliðarviðburði á Loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna –COP27 um þátttöku kvenna í orkuiðnaði í þróunarríkjum í Afríku og framkvæmd orkuskipta til framtíðar.

Í apríl 2021 var úthlutað til sex verkefna.

 • Dómsmálaráðuneytið fékk styrk til að vinna áfram að greiningu á skráningu í upplýsinga- og starfskerfi sýslumanna. Undanfarin ár hafa sýslumenn unnið að þróun starfskerfa embættanna með það að markmiði að nýta þau sem upplýsingakerfi. Þróa á kerfið áfram og greininga þær upplýsingum ber að skrá til að auka notagildi þess út frá jafnréttis- og kynja sjónarmiðum.
 • Fjármála- og efnahagsráðuneytið fékk styrk til að þróa netnámskeið um jafnréttismál og kynjaða fjárlagagerð fyrir starfsfólk Stjórnarráðsins.
 • Heilbrigðisráðuneytið fékk styrk til að vinna fimm verkefni sem snúa að kynja- og jafnréttissjónarmiðum í heilbrigðisþjónustu. Í tengslum við innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar hefur heilbrigðisráðuneytið gert rannsóknar á heilsufari og heilbrigðisþjónustu út frá kynjasjónarmiðum. Framkvæmdasjóður styrkir fimm af þeim tillögum sem skýrslan leggur til: Mat á árangri verkefna og úrræða við móttöku þolenda ofbeldis í nánum samböndum, úttekt á kynjamun legutíma á heilbrigðisstofnunum, fræðsla heilbrigðisstarfsfólks um staðalmyndir og fordóma, bætt aðgengi að tölfræðigögnum um félagslega þætti og söfnun gagna um kynja- og jafnréttisáhrif Covid-19 á notkun heilbrigðisþjónustu.
 • Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk styrk til að þróa gagnvirkt fræðsluefni gegn ofbeldi fyrir börn og ungmenni með því að opna fræðslugátt sem viðbót við núverandi vefgátt 112.is.
 • Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið fékk styrk til að vinna úttekt á kynhlutföllum í stjórnum fyrirtækja, óháð því hvort þau falli undir löggjöf um kynjahlutföll í stjórnum. Verkefnið útvíkkar verkefni í framkvæmdaáætlun um jafnrétti í stjórnum fyrirtækja.
 • Utanríkisráðuneytið fékk styrk til að halda málstofu um Istanbúlsamninginn með áherslu á stafrænt kynferðisofbeldi og þátttöku karla í forvörnum gegn ofbeldi. Málstofunni yrði fylgt eftir á formennsku ári Íslands í Evrópuráðinu með viðburði í Strassbourg. Málstofan er kynning á samningnum og innleiðingu hans hér á landi í samræmi við verkefni í framkvæmdaáætlun um innleiðingu Istanbúl-samningsins.

Í apríl 2020 var úthlutað til fimm verkefna.

 • Dómsmálaráðuneytið fékk styrk til að fylgja eftir fyrri rannsókn um Vinnustaðamenningu og kynjatengsl lögreglunnar frá árinu 2011 þar sem kannað er hvort breyting hafi orðið á vinnumenningu innan lögreglunnar frá því að ráðist var í aðgerðir í kjölfar rannsóknar um ástæður þess að konur eru fámennar í hópi lögreglumanna.
 • Mennta- og menningarmálaráðuneytið fékk styrk til að skipuleggja starfsþróun grunnskólakennara með það að markmiði að gera kennara betur í stakk búna til að sinna jafnréttisfræðslu til nemenda og styðja forystu félagslífs skólanna í jafnréttisátt, samkvæmt jafnréttisáætlunum skólanna.
 • Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið fékk tvo styrki. Annars vegar framhaldsstyrk í tengslum við greiningu á ólíkum ferðavenjum karla og kvenna. Hins vegar styrk fyrir verkefnið konur og siglingar en konur eru nú um 1% þeirra sem starfa við siglingar. Fyrri hlutinn er kynning á störfum kvenna á sjó fyrir nemendur í framhaldsskólum og efstu bekkjum grunnskóla og markmiðið er að vekja athygli ungra kvenna á þeim fjölbreyttu störfum sem eru í boði á sjó. Seinni hlutinn snýr að hvatningu til fyrirtækja og stofnana með starfsemi á sjó til að veita þar konum aukin tækifæri.
 • Heilbrigðisráðuneytið fékk styrk til verkefnis um karla og heilbrigðisþjónustu þar sem skoðaðar eru ástæður ólíkrar notkunar karla og kvenna á þjónustugáttinni Heilsuvera út frá kynbundnum þáttum.
 • Félagsmálaráðuneytið fékk styrk til að framkvæma mat á kynja- og jafnréttisáhrifum á ákveðnum málefnasviðum ráðuneytisins. 
 • Utanríkisráðuneytið fékk styrk til þriggja verkefna: a) Áframhaldandi vinnu að Rakarastofu viðburðum en markmið þeirra er að efla þátttöku og ábyrgð karla á sviði jafnréttismála. b) Rödd Kvennahreyfingarinnar: leiðir gegn kynbundnu ofbeldi, á vettvangi c) Gerð sérstæðs kynningarefnis erlendis um jafnréttismál.

Auglýst er árlega á tímabili framkvæmdaáætlunar eftir umsóknum í sjóðinn.
Hluta verkefnis er lokið en úthlutun er sífelluverkefni og telst komið vel á veg. 
 

 

 

Ábyrgð

Forsætisráðuneytið

Staða verkefnis

Lokið
Til baka
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira