Hoppa yfir valmynd
D. Jafnrétti, menntun og menningar, íþrótta- og æskulýðsstarf

Lýsing á aðgerð

Jafnrétti og öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi og forvarnir gegn kynbundnu brotthvarfi úr íþróttum.

Unnið verði að því að auka öryggi og jafnrétti í íþrótta- og æskulýðsstarfi með aðgerðum sem miða að því að uppræta kynbundið áreiti og ofbeldi og tryggja að allir geti leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem upp koma án ótta við afleiðingarnar. Þar með verði stuðlað að öruggu umhverfi óháð kynferði eða stöðu barna, unglinga og fullorðinna að öðru leyti innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. Aðgerðir felist m.a. í eftirfarandi:

  • Rafrænt aðgengi að sakaskrá verði tryggt til að auðvelda íþrótta- og æskulýðsfélögum að framfylgja æskulýðslögum, nr. 70/2007, og íþróttalögum, nr. 64/1998, en samkvæmt þeim er íþrótta- og æskulýðsfélögum óheimilt að ráða til starfa einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Sama gildir um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæði þetta nær einnig til þeirra sem eru sjálfboðaliðar í íþróttastarfi.
  • Ástæður brotthvarfs úr skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi út frá kyni og öðrum þáttum verði kannaðar sérstaklega.
  • Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs, sem starfar á vegum mennta- og menningarmálaráðherra, tryggi að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða réttar síns vegna atvika og misgerða sem þar koma upp án ótta við afleiðingarnar.

Tímaáætlun: 2020–2023.
Kostnaðaráætlun: 2 millj. kr. auk 12 millj. kr. á ári vegna samskiptaráðgjafa.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneytið (nú mennta- og barnamálaráðuneytið) í samstarfi við dómsmálaráðuneytið og embætti ríkislögreglustjóra.

Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður einkum markmið 5.1, 5.2, 5.c og 10.2.

Staða verkefnis

Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum á málefnasviðum mennta- og menningarmálaráðuneytis (öflun sakavottorðs) var lagt fram á Alþingi vorið 2021 en náði ekki fram að ganga. Frumvarpið er liður í því að auka öryggi viðkvæmra hópa í skóla-, íþrótta- og æskulýðsstarfi, einkum barna og unglinga.

Samkvæmt viðaukasamningi mennta- og menningarmálaráðuneytis við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands vegna stuðnings við iðkun íþrótta og aðgerðir til að draga úr afleiðingum heimsfaraldursins er tilgreint að ÍSÍ beri að fylgjast sérstaklega með brotthvarfi barna og ungmenna úr íþróttum. Verkefnið er í gangi og fylgst er með brotthvarfi úr íþróttum.

Breyting á lögum um starfsemi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs nr. 45/2019 var samþykkt í vor 2023 sem heimilar samskiptaráðgjafa vinnslu persónuupplýsinga sem er nauðsynleg til að hann geti sinnt hlutverki sínu á grundvelli laga þessara. Heimild þessi tekur til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga og annarra upplýsinga viðkvæms eðlis, þ.m.t. heilsufarsupplýsinga og upplýsinga um félagslegar aðstæður einstaklinga, svo og upplýsinga um refsiverða háttsemi og ætlaða refsiverða háttsemi.

Samningur við Domus Mentis hefur verið endurnýjaður með gildistíma 2023-2025. Töluverð hækkun er á framlagi til samnings sem á að tryggja tvö stöðugildi.

Verkefnið er komið vel á veg.

Ábyrgð

Mennta- og menningarmálaráðuneytið

Staða verkefnis

Komið vel á veg
Til baka

Aðgerðir í jafnréttismálum

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum