Fjölgum kennurum: aðgerðir í menntamálum
Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum þar sem lögð er rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Einnig er dregið fram að bregðast þurfi við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.
Haustið 2019 tók gildi 5 ára átaksverkefni stjórnvalda til þess að mæta þessum áskorunum sem fólu meðal annars í sér styrki til kennaranema og launað starfsnám þeirra. Jafnframt var lögð áhersla á að fjölga starfandi kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.
Ný lög um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem tóku gildi í ársbyrjun 2020, hafa þau áhrif á skipulag kennaranáms að frá hausti 2020 hafa kennaranemar val um að ljúka kennsluréttindum með nýrri MT gráðu sem felur það í sér að nemendur ljúki námi í formi valinna námskeiða í stað 30 eininga lokaverkefnis. Endurskoðuð skilyrði styrkveitinga eru í samræmi við aðgerðir stjórnvalda um að fjölga kennurum á Íslandi og taka ný skilyrði gildi skólaárið 2020-2021. Meginbreytingin felur í sér að styrkirnir verða ekki bundnir við 30 eininga lokaverkefni og munu ná til allra kennaranema á lokaári, óháð áherslum þeirra í námi.
Endurskoðuð skilyrði eiga við um nemendur sem eru innritaðir í kennaranám haustið 2020. Kennaranemar sem útskrifast vor eða haust 2020 falla undir skilyrði sem gilda vegna skólaársins 2019-2020
Skilyrði styrkveitinga skólaárið 2019-2020 má finna hér.
Hvatningarstyrkir til kennaranema
Frá skólaárinu 2020-2021 geta nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda sótt um hvatningarstyrki. Markmið styrkjanna er að fjölga kennurum, skapa hvata til þess að þeir útskrifist á tilsettum tíma og ráði sig til kennslu að námi loknu.
Kennaranemar sem leggja stund á 120 ECTS eininga meistaranám geta sótt um styrk sem nemur allt að 800.000 kr. Fyrri helmingurinn greiðist þegar staðfesting liggur fyrir að nemandi hafi lokið 90 ECTS einingum í meistaranámi og seinni helmingurinn þegar nemandi hefur lokið námi og brautskráðst.
Kennaranemar sem hafa meistarapróf í kennslugrein og innritast haustið 2020 í 60 ECTS eininga kennaranám til að fá leyfisbréf geta sótt um styrk sem nemur allt að 400.000 kr. Styrkurinn greiðist út í einu lagi þegar nemandi hefur lokið námi og brautskráðst. Kennaranemi sækir um styrk með því að fylla út rafrænt umsóknareyðublað á vef viðkomandi háskóla.
Réttur til að sækja um síðari hluta styrks fellur niður ef kennaranemi lýkur ekki námi innan 12 mánaða frá móttöku fyrri hluta hans.
Styrkir til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn
Mikilvægt er að fjölga kennurum í íslensku skólakerfi sem hafa þekkingu á móttöku og leiðsögn við nýliða í kennslu. Slíkir leiðsagnakennarar gegna veigamiklu hlutverki við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest hætta er á brotthvarfi úr kennslu fyrstu þrjú starfsár þeirra.
Mennta- og menningarmálaráðuneyti veitir starfandi kennurum sem búa yfir umfangsmikilli kennslureynslu og sérhæfa sig í starfstengdri leiðsögn hvatningarstyrk sem nemur allt að 150.000,- krónur. Styrkurinn er tvískiptur, fyrri hluti styrksins er greiddur út þegar staðfesting liggur fyrir að nemandi hafi staðist nám á fyrsta misseri og seinni hlutinn þegar nemandi hefur lokið námi og brautskráðst. Diplomanám í starfstengdri leiðsögn tekur þrjú misseri, er sniðið að starfandi kennurum og fer fram við Menntavísindasvið Háskóla Íslands og Kennaradeild Háskólans á Akureyri.
Umsókninni þarf að fylgja staðfesting skólastjórnanda að umsækjandi sé starfandi kennari við viðkomandi skóla og að skólastjóri telji mikilvægt að hann sérhæfi sig í starfstengdri leiðsögn. Réttur til að sækja um seinni hluta styrks fellur niður ef kennara útskrifast ekki innan 24 mánaða frá því hann innritaðist í námið.
Markmið styrksins er að fjölga kennurum sem búa yfir sérhæfingu á þessu sviði svo við flesta skóla verði starfandi leiðsagnakennarar sem hafa umsjón með leiðsögn við nýútskrifaða kennara á fyrstu árum þeirra í starfi. Við úthlutun styrkja verður leitast við að jafna dreifingu styrkþega milli skóla og landshluta.
Sjá nánar um hvatningarstyrki skólaárið 2020-2021.
Launað starfsnám
Nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda stendur til boða að velja launað starfsnám. Starfsnámið skal vera í minnst 50% starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár. Nemendur sækja um auglýst kennslustarf og fá greitt samkvæmt kjarasamningi. Markmið þess er að auka hæfni kennaranema til að takast á við áskoranir kennarastarfsins að námi loknu sem eykur líkur á farsælum starfsferli og stuðlar ríkari að tengslum háskóla við starfsvettvang.
Sjá nánar um launað starfsnám kennaranema.
Aðgerðir til að fjölga kennurum voru unnar í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.
Spurt og svarað um aðgerðirnar
Hvatningarstyrkur
Kennaranemar sem hafa meistarapróf í faggrein og innritast í 60 ECTS eininga kennaranám til að fá leyfisbréf geta sótt um styrk sem nemur allt að 400.000 kr. Styrkurinn greiðist út í einu lagi við námslok.
Kennaranemi sem hefur meistarapróf í faggrein og leggur stund á 60 ECTS eininga kennaranám til að fá leyfisbréf og sækir um styrk sem nemur allt að 400.000 kr. fær styrkinn greiddan út í einu lagi við námslok.
Háskóli greiðir styrkina inn á bankareikning umsækjanda.
Styrkurinn er talinn fram sem tekjur líkt og aðrir sambærilegir styrkir og af honum því greiddir skattar og önnur opinber gjöld. Nemendur geta hins vegar skráð kostnað á móti. Ríkisskattstjóri veitir nánari upplýsingar um endurgreiðsluhæfan kostnað.
Styrkur til kennara sem leggja stund á nám í starfstengdri leiðsögn
Starfandi kennarar sem leggja stund á viðbótarnám á meistarastigi í starfstengdri leiðsögn við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eða Kennaradeild Háskólans á Akureyri geta sótt um styrkinn þegar staðfesting liggur fyrir að nemandi hafi staðist
próf á fyrstu námsönn námsins. Forsenda styrkveitingar er að skólastjóri styðji umsókn viðkomandi kennara í námið. Umsókninni þarf m.a. að fylgja staðfesting skólastjórnanda á að umsækjandi sé starfandi kennari við viðkomandi skóla og að skólastjóri telji mikilvægt að viðkomandi kennari sérhæfi sig í starfstengdri leiðsögn.
Nemandi sækir um námsstyrkinn til þess háskóla þar sem hann stundar námið.
Umsækjendur fylla út rafræna umsókn á vef Menntavísindasviðs Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri. Umsókninni þarf m.a. að fylgja staðfesting skólastjórnanda um að viðkomandi sé starfsmaður skóla.
Launað starfsnám á lokaári í námi til kennsluréttinda í leik- eða grunnskóla
Menntamál
Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.