Hoppa yfir valmynd

Fjölgum kennurum: aðgerðir í menntamálum


 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er boðuð stórsókn í menntamálum þar sem lögð er rík áhersla á að efla menntun í landinu með hagsmuni nemenda og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi. Fram kemur að mikilvægt sé að stuðla að viðurkenningu á störfum kennara, efla faglegt sjálfstæði þeirra og leggja áherslu á skólaþróun á öllum skólastigum. Einnig er dregið fram að bregðast þurfi við kennaraskorti í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og stéttarfélaga.

Fyrstu aðgerðirnar sem ráðist verður í til þess að mæta þessum áskorunum eru: 

Launað starfsnám

Frá og með næsta hausti býðst nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Starfsnámið skal vera í minnst 50% starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár og fá nemendur greitt samkvæmt kjarasamningi. Kennaranemar njóta leiðsagnar reynds kennara á vettvangi og þess verður gætt að þeir hafi jafnframt svigrúm til að vinna að lokaverkefnum sínum.

Sjá nánar um fyrirkomulag launaðs starfsnáms kennaranema.

Námsstyrkur til nemenda

Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi geta sótt um námsstyrk frá og með næsta hausti. Markmið styrksins er að auðvelda nemendum að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi og skapa hvata til þess að nemendur klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur alls 800.000 kr. og greiðist í tvennu lagi – fyrri greiðslan er bundin við skil verkefnisáætlunar lokaverkefnis og hin síðar við skil á lokaverkefni innan ákveðins tíma.

Sjá nánar um námsstyrki

Styrkir til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn

Mikilvægt er að fjölga kennurum í íslenskum skólum sem hafa þekkingu á móttöku nýliða í kennslu. Slíkir leiðsagnakennarar skipta lykilmáli við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest hætta er á brotthvarfi úr kennslu fyrstu þrjú árin.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið mun styrkja Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands til að fjölga útskrifuðum kennurum með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn. Námið er þrjár annir og sniðið að starfandi kennurum.

Aðgerðir þessar voru unnar í góðu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.

Spurt og svarað um aðgerðirnar

Lokaverkefnisstyrkur

Nemendur sem ljúka námi til kennsluréttinda í leik- eða grunnskóla geta sótt um 800.000 kr. námsstyrk vegna 30 eininga meistaraverkefnis. 

Nemendur fylla út rafræna umsókn á vef Menntavísindasviðs Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri þegar rannsóknaráætlun þeirra hefur verið samþykkt.

Námsstyrkurinn greiðist í tvennu lagi, 400.000 kr. þegar staðfesting liggur fyrir frá skólanum um að nemandi hafi lokið gerð rannsóknaráætlunar og seinni hlutinn, 400.000 kr. þegar nemandi hefur lokið meistaraverkefninu og brautskráðst með fullgild kennsluréttindi. Styrkir eru greiddir út á þriggja mánaða fresti, þ.e. 10. október, 10. janúar, 10. apríl og 10. júlí. Háskóli greiðir styrkina inn á bankareikning viðkomandi umsækjanda. ATH. Réttur til að sækja um síðari hluta styrksins fellur niður ef nemandinn útskrifast ekki innan 18 mánaða frá móttöku fyrri hluta styrksins. 

Styrkurinn er talinn fram sem tekjur líkt og aðrir sambærilegir styrkir og af honum því greiddir skattar og önnur opinber gjöld. Nemendur geta hins vegar skráð kostnað á móti. Ríkisskattstjóri veitir nánari upplýsingar um endurgreiðsluhæfan kostnað. 

 

Nýliðunarsjóðurinn starfar frá og með skólaárinu 2019/2020. Þeir sem brautskrást í október 2019 geta ekki sótt um lokaverkefnisstyrk því sumarmisserið 2019 tilheyrir skólaárinu 2018/2019. 

 

Horft er til þess hvort nemendur eru skráðir í lokaverkefnisáfanga við kennaradeild HA eða Menntavísindasvið HÍ og eru með því að útskrifast sem leik- eða grunnskólakennarar. Þeir nemendur sem innrita sig í lokaverkefnisáfanga frá og með hausti 2019 og klára innan 18 mánaða eiga rétt á styrk.

 

Við endurinnritun í nám ber að fylgja reglum viðkomandi háskóla. Kjósir þú að endurinnritast í meistaranám til kennsluréttinda á leik- eða grunnskólastigi og ljúka meistaraprófsverkefni, getur þú sótt um styrk til lokaverkefnis að uppfylltum skilyrðum nýliðunarsjóðs.

 

Nemendur sem skiluðu inn rannsóknaráætlun á vorönn 2019 sem unnið verður samkvæmt á skólaárinu 2019-2020 og nemendur sem skila inn rannsóknaráætlun eftir 1. júlí 2019 geta sótt um styrk til lokaverkefnis úr Nýliðunarsjóði kennara. Þú getur tekið ákvörðun um að leggja fram nýja rannsóknaráætlun og sótt um styrk vegna hennar. 

Kennsluskrifstofa Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Kennaradeild Háskólans á Akureyri veita nánari upplýsingar um lokaverkefnisstyrkinn. 

Styrkur til kennara sem leggja stund á nám í starfstengdri leiðsögn

Starfandi kennarar sem sótt hafa um og hafið nám í starfstengdri leiðsögn við Menntavísindasvið Háskóla Íslands eða Kennaradeild Háskólans á Akureyri. Forsenda styrkveitingar er að skólastjóri styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggð sé jöfn dreifing þeirra milli skóla og landshluta.

Umsækjendur fylla út rafræna umsókn á vef Menntavísindasviðs Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri. Umsókninni þarf m.a. að fylgja staðfesting skólastjórnanda um að viðkomandi sé starfsmaður skóla. 

Styrkurinn er ígildi innritunargjalds opinberra háskóla í að hámarki tvö skólaár.

Umsækjendur fylla út rafræna umsókn á vef Menntavísindasviðs Háskóla Íslands eða Háskólans á Akureyri. Umsókninni þarf m.a. að fylgja staðfesting skólastjórnanda um að viðkomandi sé starfsmaður skóla. 

MVS og HA greiða út styrkinn til umsækjenda í október og febrúar. 

Launað starfsnám á lokaári í námi til kennsluréttinda í leik- eða grunnskóla

Leik- og grunnskólakennaranemar á lokaári til M.Ed. gráðu við Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri eru í 50% launuðu starfsnámi við leik- eða grunnskóla á lokaári kennaranáms. Þegar gengið hefur verið frá ráðningarsamningi við kennaranema heldur hann stöðu sinni út það skólaár. Ráðning kennaranema er alla jafna frá 1. ágúst til 31. júlí. Kennaranemi skráir sig að vori í námskeið tengd vettvangsnámi á lokaári og tilkynnir þá að hann muni sækjast eftir launuðu starfsnámi á komandi hausti. Nánari upplýsingar um launað starfsnám veita viðkomandi háskólar.

Nemendur á lokaári í leik- og grunnskólakennaranámi við Menntavísindasvið HÍ og kennaradeild HA eiga möguleika á að taka starfsnám sitt, sem jafngildir ½ stöðugildi, á launum í leik- eða grunnskóla.

Sækja þarf um starf við leik- eða grunnskóla og samhliða því vera innritaður í starfsnámsáfanga. Nánari upplýsingar veita skrifstofur Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Kennaradeildar Háskólans á Akureyri.

Skólar auglýsa eftir kennurum með venjubundnum auglýsingum. Einnig er gert ráð fyrir að háskólarnir fái upplýsingar frá skólum um stöður fyrir starfsnámsnema.

Launagreiðslur fyrir kennaranema í launuðu starfsnámi fara eftir kjarasamningum viðkomandi stéttarfélags og starfshlutfalli nemans. Laun taka mið af launakjörum leiðbeinanda á viðkomandi skólastigi. Nánari upplýsingar veitir Kennarasamband Íslands. 

Starfsnámsnemar sem starfa eftir kjarasamingum viðkomandi aðildarfélaga KÍ hafa sömu réttindi og skyldur og aðrir félagsmenn í FG og FL. Nánari upplýsingar um hvað félagsaðild felur í sér fá starfsnámsnemar hjá viðkomandi stéttarfélagi. 

Skrifstofur Menntavísindasviðs Háskóla Íslands og Kennaradeildar Háskólans á Akureyri veita nánari upplýsingar um launað starfsnám.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira