Hoppa yfir valmynd

Starfsleyfi kennara

Rétt til að nota starfsheitið kennari og starfa sem slíkur hér á landi við leik-, grunn- eða framhaldsskóla hefur sá einn sem til þess hefur leyfisbréf samkvæmt lögum um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.

Mennta- og barnamálaráðuneyti tekur við umsóknum um leyfisbréf kennara, metur þær með hliðsjón af kröfum laga og gefur út leyfisbréf, sbr. 10. gr. laga nr. 95/2019

Gefið er út eitt leyfisbréf þvert á skólastig leik-, grunn- og framhaldsskóla.

 

Skilyrði fyrir leyfisbréfi kennara

Skilyrði þess að geta hlotið leyfisbréf kennara koma fram í lögum nr. 95/2019 og reglugerð nr. 1355/2022 um hæfniramma með viðmiðum fyrir almenna og sérhæfða hæfni kennara og skólastjórnenda við leik-, grunn- og framhaldsskóla.

Til að hljóta starfsleyfi kennara þarf umsækjandi að:  

  • Hafa lokið 120 ECTS námseininga meistaraprófi sem ráðherra viðurkennir til kennslu á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi.
  • Búa yfir almennri hæfni - miðað er við að lágmarki 60 ECTS námseiningar í uppeldis- og kennslufræði, sbr. 4. gr. laga nr. 95/2019.
  • Búa yfir sérhæfðri hæfni, sbr. 5. gr. laga nr. 95/2019.

Frekari kröfur um hæfniviðmið koma fram í reglugerð um hæfniramma.

 

Menntun erlendis frá

Hafi einstaklingur lokið námi á háskólastigi frá erlendum háskóla, getur hann óskað eftir að láta meta nám sitt hjá ENIC-NARIC skrifstofunni.

Sæki einstaklingur um leyfisbréf kennara getur mat á erlendu námi farið fram samhliða meðferð umsóknar leyfisbréfs.

Ef einstaklingur er ríkisborgari frá landi innan EES svæðisins, Færeyjum eða aðildarríkis EFTA getur hann sótt um gagnkvæma viðurkenningu kennsluréttinda ef hann leggur fram vottorð um viðurkennd kennsluréttindi í ríki innan EES svæðisins, Færeyjum eða aðildarríki EFTA.

 

Umsókn um leyfisbréf kennara

Einstaklingar sem ekki hafa fengið útgefið leyfisbréf samhliða útskrift úr viðurkenndu námi og/eða geta ekki sótt leyfisbréf rafrænt á Ísland.is geta sótt um leyfisbréf kennara hjá mennta- og barnamálaráðherra.

 

Ferli umsóknar

  • Sótt er um á eyðublaðavef Stjórnarráðsins. Nauðsynlegt er að hafa rafræn skilríki.
  • Ef um menntun erlendis frá er að ræða sendir ráðuneytið beiðni til ENIC/NARIC skrifstofunnar og óskar eftir mati á hæfniþrepi menntunarinnar.
  • Umsóknir eru afgreiddar í samræmi við lög nr. 95/2019.
  • Afgreiðslutími er að jafnaði 4-12 vikur frá því að umsókn ásamt fullnægjandi gögnum barst ráðuneytinu.

 

Fylgiskjöl umsóknar

  • Prófskírteini - Afrit af öllum prófskírteinum (bæði bakkalár og meistaranáms).
  • Námsferilsyfirlit - Námsferilsyfirlit sýnir öll námskeið, einingar og einkunnir á brautskráðum ferli. Skila þarf námsferilsyfirliti yfir allar prófgráður. Einnig skal skila námsferilsyfirliti yfir annan námsferil, sem skipt getur máli fyrir umsókn, þó prófgráðu hafi ekki verið lokið.
  • Staðfesting meistararéttinda - Iðnmeistarar skila inn meistarabréfi í iðngrein.
  • Ef prófskírteini eða námsferilsyfirlit er á öðru tungumáli en íslensku eða ensku skulu einnig fylgja með þýðingar frá löggiltum þýðanda.
  • Öll gögn skulu vera á pdf- formi. Ekki er tekið við ljósmynd af gögnum.

 

Ef umsókn er synjað

  • Ef umsókn um leyfisbréf kennara er synjað er umsækjanda veittur rökstuðningur fyrir synjun og leiðbeiningar um hvernig hægt er að sækja sér þá hæfni sem skortir.
  • Umsækjandi á rétt á því að synjun umsóknar verði tekin til meðferðar á ný ef hann beinir beiðni um endurupptöku til ráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því að ákvörðun um synjun var tilkynnt honum.
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum