Hoppa yfir valmynd

Undanþágur vegna kennslustarfa

Í vissum tilvikum er heimilt að ráða til kennslustarfa einstakling sem ekki hefur kennsluréttindi. Fjallað er um undanþáguheimildir vegna lausráðninga starfsmanna til kennslustarfa sem ekki eru kennarar í 19. gr. laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, nr. 95/2019.

Skólastjórnendum ber að sækja um heimild til mennta- og barnamálaráðherra um að lausráða starfsmann til kennslustarfa í eftirfarandi tilvikum og að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, sem nánar er lýst í 19. gr. laga nr. 95/2019:

  • Ef enginn kennari sækir um auglýst kennslustarf við grunn- eða framhaldsskóla þrátt fyrir endurtekna auglýsingu. Ráðherra getur gefið út heimild til lausráðningar til eins árs í senn að fenginni tillögu undanþágunefndar kennara, sbr. 2 mgr. 19. gr.
  • Ef hvorki skólastjórnandi né að minnsta kosti tveir skólanefndarmenn mæla með ráðningu kennara sem sótti um kennslustarf. Ráðherra getur veitt heimild til að lausráða annan einstakling sem ekki er með leyfisbréf í stöðu leiðbeinanda til eins árs, sbr. 7. mgr. 19. gr.

 

Umsóknum skólastjórnenda um undanþágu er skilað rafrænt í gegnum Mínar síður á Ísland.is:

 

Með umsókn skulu fylgja eftirtalin gögn:

  • Afrit auglýsingar og upplýsingar um hvar og hvenær starfið var auglýst og með hvaða hætti auglýsing var endurtekin.
  • Gögn um menntun, kennsluferil og starfsreynslu umsækjanda sem óskað er heimildar til að ráða ásamt umsögnum um starfshæfni.
  • Fyrirhugað ráðningartímabil.
  • Ítarlegur rökstuðningur skólastjóra og skólanefndar ef umsækjandi án réttinda er tekinn fram yfir umsækjanda með leyfisbréf.

 

Ferli umsóknar

  • Mennta- og barnamálaráðuneytið kannar hvort fullnægjandi gögn séu til staðar og kallar eftir frekari gögnum eftir því sem við á.
  • Þegar öll gögn hafa borist sendir ráðuneytið málið til undanþágunefndar kennara sem gerir tillögu að afgreiðslu umsóknar til ráðuneytisins.
  • Ráðuneytið fer yfir gögn og tillögur undanþágunefndar, tekur endanlega afstöðu í málinu og tilkynnir skólastjórnanda.

 

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur eftirlit með framkvæmd laga nr. 95/2019 og er heimilt á grundvelli þeirra að kalla eftir upplýsingum frá skólum um ráðningu í kennslustörf og er skólum skylt að veita þær upplýsingar.

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum