Hoppa yfir valmynd

Tengiliður vistheimila - framkvæmd verkefnisins

Tengiliður vistheimila hjá dómsmálaráðuneytinu (áður innanríkisráðuneytinu) hefur séð um framkvæmd við mat og greiðslu sanngirnisbóta til handa þeim sem urðu fyrir varanlegum skaða af illri meðferð eða ofbeldi á vist- eða meðferðarheimilum fyrir börn samkvæmt nánari skilgreiningu laga. Embætti sýslumanns á Norðurlandi eystra á Siglufirði úrskurðar um upphæð bóta fyrir þá einstaklinga sem sóttu um sanngirnisbætur og gátu einstaklingar jafnframt sótt um bætur beint til sýslumanns.

Þetta umfangsmikla verkefni hófst í október 2010 með ráðningu tengiliðar vistheimila. Starf tengiliðar vistheimila hefur meðal annars falist í að koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem kunna að eiga rétt á sanngirnisbótum. Hann hefur einnig leiðbeint þeim sem til hans leita um framsetningu bótakrafna í kjölfar innköllunar sýslumanns. Þá hefur hann aðstoðað fyrrverandi vistmenn, sem eiga um sárt að binda í kjölfar vistunar, við að sækja sér þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á, svo sem varðandi endurhæfingu og menntun.

Öllum formlegum viðtölum tengiliðar vegna sanngirnisbóta fyrri heimila lauk um mitt ár 2015, en lokaskýrsla vistheimilanefndar kom út í október 2011 en grundvöllur sanngirnisbóta eru þær skýrslur sem nefndin vann um 12 heimili sem börn voru vistuð á árin 1947–1994.

Árið 2015 komu fram lög á Alþingi um að greiddar skyldu sanngirnisbætur vegna Landakotsskóla og er það verkefni enn í gangi. Einnig hefur komið fram skýrsla um Kópavogshæli en vistheimilanefnd skilaði henni í byrjun árs 2017. Unnið er samkvæmt henni við að þjóna þeim hópi sem þar um ræðir.

Eftirfarandi tölur gefa nokkra mynd af umfangi verkefnis tengiliðar vistheimila:

  • Allt að 1000 manns hafa sótt um sanngirnisbætur og hafa 98% umsókna farið í gegnum tengilið.
  • Yfir 4000 tölvupóstar hafa borist með ýmsum erindum vegna vistheimila.
  • Símtöl eru um 4000.
  • Kostnaður vegna verkefnisins er kominn yfir tvo milljarða króna (maí 2017).
  • Bætur eru skattfrjálsar og hafa ekki áhrif á aðrar bætur. Hámarksbætur eru um 6 milljónir króna.

Nánari tölulegar upplýsingar, skýrslugerð, frágangur einstaklingsmála og fleira munu því ekki liggja fyrir fyrr en við lok verkefnisins.

Sýslumaðurinn á Norðurlandi eystra á Siglufirði annast svo þau verkefni sem sýslumanni eru falin samkvæmt lögum um sanngirnisbætur fyrir misgjörðir á stofnunum eða heimilum sem falla undir lög nr. 26/2007. 

Fyrirspurnir til tengiliðar vistheimila skal senda á [email protected]

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 18.4.2023
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum