Hoppa yfir valmynd

Mat á umhverfisáhrifum

Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda felst í að meta og upplýsa um líkleg áhrif tiltekinna framkvæmda á umhverfið. Áhrif framkvæmda á umhverfið eru greind, vægi áhrifanna metin og lagt til hvernig bregðast skuli við þeim. Þegar ákveðið er hvort veita skuli leyfi fyrir framkvæmd skal byggja á niðurstöðu umhverfismats. Ef ákveðið er að veita leyfi til framkvæmdarinnar skal nýta niðurstöður umhverfismatsins við endanlega útfærslu framkvæmdarinnar, þannig að dregið verði eins og kostur er úr neikvæðum áhrifum hennar á umhverfið.

Í lögum um mat á umhverfisáhrifum er tilgreint hvaða framkvæmdir eru ávallt háðar umhverfismati og hvaða framkvæmdir þarf að tilkynna til ákvörðunar um umhverfismat. Um þær síðarnefndu gildir að taka þarf ákvörðun í hverju tilviki hvort þær skuli undirgangast umhverfismat.

Framkvæmdaraðilar bera ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum framkvæmda. Þeir óska eftir ákvörðun Skipulagsstofnunar um hvort tilkynningarskyldar framkvæmdir skuli háðar umhverfismati. Ef framkvæmd er háð umhverfismati leggur framkvæmdaraðili fram matsskýrslu um framkvæmdina.

Skipulagsstofnun metur matsskýrsluna og gefur rökstutt álit sitt á því hvort hún uppfylli skilyrði gildandi laga og reglugerða og hvort umhverfis áhrifunum sé lýst á fullnægjandi hátt.

Mat á umhverfisáhrifum áætlana

Tilteknar skipulags- og framkvæmdaáætlanir stjórnvalda og breytingar á þeim sem líklegt er að hafi í för með sér veruleg áhrif á umhverfið eru háðar mati á umhverfisáhrifum. Með því er leitast við að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum og stuðla að því að við áætlanagerð sé tekið tillit til umhverfissjónarmiða. Þannig eru markmið um sjálfbæra þróun höfð í hávegum við áætlanagerð stjórnvalda.

Sem dæmi er skylt að vinna umhverfismat við mótun ýmissa skipulags- og framkvæmdaáætlana, svo sem skipulagsáætlana sveitarfélaga (svæðisskipulags, aðalskipulags og deiliskipulags) og áætlana á borð við rammaáætlun og samgönguáætlun.

 

Sjá einnig:

Síðast uppfært: 5.9.2022 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum