Hoppa yfir valmynd

Evrópuráðið og Ísland


Evrópuráðið er helsta stofnun Evrópu á sviði mannréttinda, lýðræðis og réttarríkisins. Ísland varð 12. aðildarríki Evrópuráðsins 7. mars 1950 en í dag eru 46 ríki aðilar að stofnuninni og 6 ríki hafa áheyrnaraðild. Öll aðildarríkin eru aðilar að mannréttindasáttmála Evrópu. Mannréttindasáttmálanum var ætlað að standa vörð um mannréttindi, lýðræði og réttarríkið og hefur myndað grundvöll mannréttindaverndar í álfunni í rúm 70 ár. Mannréttindadómstóll Evrópu, ein undirstofnana ráðsins, framfylgir mannréttindasáttmála Evrópu.

Stofnanir CoE

Ráðherranefndin

Ráðherranefnd Evrópuráðsins samanstendur af utanríkisráðherrum aðildarríkjanna 46 eða fastafulltrúum þeirra í Strassborg. Ráðherranefndin fer með framkvæmdavald Evrópuráðsins.

Ráðherranefndin fundar í Strassborg flesta miðvikudaga og meðal verkefna hennar er stefnumótun fyrir hönd Evrópuráðsins, fjármál ráðsins og verkefni þess.

Mannréttindanefnd ráðherranefndarinnar kemur saman fjórum sinnum á ári. Ísland stýrði fundum mannréttindanefndarinnar í sex mánuði fram að formennsku Íslands í ráðherranefndinni. Á þriggja daga fundum mannréttindanefndarinnar er fjallað um dóma Mannréttindadómstólsins sem ekki hefur verið framfylgt af aðildarríkjum ráðsins. Nefndin fylgir málum eftir og vinnur að fullri framfylgd dóma.

Evrópuráðsþingið

Á Evrópuráðsþinginu sitja þingmenn allra aðildarríkja Evrópuráðsins. Þingið kemur saman í Strassborg í viku í senn fjórum sinnum á ári, í janúar, apríl, júní og október. Á fundunum greiða þingmenn atkvæði um ályktanir og tilmæli til ráðherranefndarinnar á grundvelli skýrslna sem unnar eru í níu málefnanefndum þingsins.

Aðildarríki Evrópuráðsins

Í Evrópuráðinu eru 46 ríki með um 700 milljónir íbúa. Öll 27 ríki Evrópusambandsins eiga aðild að Evrópuráðinu auk 19 annarra ríkja, þ.á.m. Úkraínu, Tyrklands og Bretlands.

Síðast uppfært: 6.12.2022
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum