Hoppa yfir valmynd

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Leiðarljós

Stjórnarráðið er eftirsóknarverður vinnustaður þar sem jafnrétti og jafnræði kynjanna er virt í hvívetna og konur og karlar hafa jöfn tækifæri til að nýta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni.

Jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins

Jafnréttisáætlun þessi tekur til Stjórnarráðsins sem sameiginlegs vinnustaðar starfsfólks í ráðuneytum, sbr. 18. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla (jafnréttislaga), og kveður á um markmið og aðgerðir til að tryggja starfsfólki Stjórnarráðsins þau réttindi sem kveðið er á um í jafnréttislögum.

Þá eru í áætluninni markmið og aðgerðir sem lúta að ákvæðum jafnréttislaga sem varða innra starf ráðuneytanna. Kveðið er á um önnur verkefni þeirra á sviði jafnréttismála í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára sem samþykkt er á Alþingi sem þingsályktun, sbr. 11. gr. jafnréttislaga.

Sérhvert ráðuneyti ber ábyrgð á að framfylgja jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins innan sinna vébanda en er jafnframt heimilt að forgangsraða verkefnum og ákvarða fleiri í sérstakri framkvæmdaáætlun eftir aðstæðum í hverju ráðuneyti.

Markmið jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins gagnvart starfsfólki

Tilgangur jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins er að tryggja jafnrétti kynjanna, jafna stöðu og virðingu kvenna og karla innan ráðuneytanna og að stjórnendur og starfsfólk sé meðvitað um mikilvægi þess að allir fái notið sín óháð kyni. Mikil verðmæti felast í virku jafnréttisstarfi innan Stjórnarráðsins. Sem dæmi má nefna að hæfni starfsfólks og sérþekking mun nýtast betur þar sem Stjórnarráðið mun hafa úr breiðari hópi sérfræðinga að velja við útdeilingu verkefna. Þá sýna rannsóknir að vinnuandinn er betri og framlegðin meiri á vinnustöðum þar sem jafnrétti ríkir og starfsliðið samanstendur af bæði konum og körlum. Einnig er viðbúið að virkt jafnréttisstarf styrki ímynd Stjórnarráðsins og einstakra ráðuneyta sem vinnustaða bæði inn á við og út á við.

Launajafnrétti

Við ákvörðun launa skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Konum og körlum skulu greidd jöfn laun og skulu allir njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafnverðmæt störf. Með jöfnum launum er átt við að laun séu ákveðin á sama hátt fyrir konur og karla. Þau viðmið sem lögð eru launaákvörðunum til grundvallar skulu ekki fela í sér kynjamismunun. Laun eru í 8. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem almennt endurgjald fyrir störf og hvers konar frekari þóknun, bein og óbein, hvort heldur er með hlunnindagreiðslum eða með öðrum hætti sem atvinnurekandi greiðir starfsmanni sínum fyrir vinnu hans.

Kjör eru í 9. tölul. 2. gr. jafnréttislaga skilgreind sem laun ásamt lífeyris-, orlofs- og veikindaréttindum og hvers konar öðrum starfskjörum eða réttindum sem metin verða til fjár. Samkvæmt 19. gr. jafnréttislaga er starfsfólki Stjórnarráðsins ávallt heimilt að skýra frá launakjörum sínum ef það kýs og er yfirmanni eða öðrum sem koma að ákvörðun launa óheimilt að óska trúnaðar starfsmanns um launakjör sín.

Stefnt er að innleiðingu jafnlaunastaðalsins á gildistíma áætlunarinnar.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
 Uppræta  kynbundinn launmun, bæði innan ráðuneyta og á milli ráðuneyta #1: Árlega skal gera jafnlaunaúttekt í hverju ráðuneyti. Komi í ljós kynbundinn launamunur, sem ekki er unnt að skýra með málefnalegum hætti, þarf að bregðast við og leiðrétta þann mun. Niðurstöður jafnlauna-úttektar skal kynna fyrir starfsfólki viðkomandi ráðuneytis. Yfirstjórn hvers ráðuneytis í samstarfi við jafnréttisfulltrúa Í nóvember ár hvert
#2: Kanna skal árlega hvort kynbundinn munur sé á launum og starfskjörum milli ráðuneyta.  Fjármála- og efnahags-ráðuneytið kynnir niðurstöður fyrir ráðuneytisstjórum og jafnréttisfulltrúum og hefur samráð um aðgerðir ef í ljós kemur kynbundinn launamunur. Fjármála- og efnahagsráðuneytið í samráði við rekstrarstjóra, mannauðsstjóra og jafnréttisfulltrúa Í janúar ár hvert
  #3: Til að tryggja launajafnrétti skulu öll ráðuneyti innleiða jafnlaunastaðal, ÍST 85:2012. Yfirstjórn hvers ráðuneytis í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið Innleiðingu skal lokið fyrir 1. janúar 2018

Laus störf og framgangur í starfi, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun

Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum og körlum. Stefnt er að því að halda sem jöfnustu hlutfalli kynjanna í ýmsum störfum innan ráðuneytanna. Jafnréttissjónarmið verði metin til jafns við önnur mikilvæg sjónarmið sem ráða við stöðuveitingar. Sérstök áhersla er lögð á að jafna stöðu kynjanna í stjórnunar- og áhrifastöðum.

Tryggt verði að konur og karlar njóti sömu möguleika til starfsþjálfunar, endurmenntunar og símenntunar og til að sækja námskeið sem haldin eru til að auka hæfni í starfi eða til undirbúnings öðrum störfum, meðal annars í samræmi við mannauðsstefnu Stjórnarráðsins. Þess verði gætt við úthlutun verkefna og tækifæra til að axla ábyrgð, sem og þegar um framgang eða tilfærslu í störfum er að ræða, að einstaklingum sé ekki mismunað vegna kynferðis. Sama gildir um starfs- eða vinnuhópa sem starfsfólk er skipað í.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Jafn aðgangur að störfum #4: Í auglýsingum eru störf ókyngreind og þess gætt að hafa bæði kynin í huga við gerð þeirra. Hvetja skal bæði kynin til að sækja um auglýst störf. Ábyrgðaraðili ráðninga Alltaf
Jöfn tækifæri til framgangs í starfi #5: Við árlega greinargerð jafnréttisfulltrúa til Jafnréttisstofu verði teknar saman upplýsingar um hlut kynja í stjórnunarstöðum í ráðuneytum. Jafnréttisfulltrúi Janúar ár hvert
Kynjablandaður vinnustaður #6: Ef á annað kynið hallar ber að gæta sérstaklega að jafnréttissjónarmiðum þegar nýráðningar eða tilfærslur í störfum innan ráðuneyta eiga sér stað og nýta þá tækifæri til að rétta hlut þess kyns sem á hefur hallað. Ráðuneytisstjórar og skrifstofustjórar Alltaf
 Jafn aðgangur að endurmenntun, símenntun og framgangi í starfi  #7: Halda skal kynjagreint bókhald yfir þátttöku starfsfólks í námskeiðum, í annarri skipulagðri endurmenntun og í starfs- og vinnuhópum svo unnt sé að greina hvort á annað kynið hallar við nýtingu slíkra tækifæra. Komi munur í ljós ber að gera ráðstafanir til að bregðast við honum. Rekstrarstjórar/mannauðsstjórar Janúar ár hvert   
  #8: Kanna skal viðhorf starfsfólks til þess hvernig framgangi starfsfólks í starfi innan ráðuneytisins sé háttað. Komi í ljós að starfsfólki finnist á annað kynið hallaðber að gera frekari greiningar og grípa til ráðstafna. Jafnréttisfulltrúar/ yfirstjórn ráðuneytis Apríl 2019

Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs

Starfsfólki skal gert kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu með sveigjanlegum vinnutíma, hlutastörfum eða annarri vinnuhagræðingu eftir því sem við verður komið og þörf er á. Gera skal ráð fyrir að karlar jafnt sem konur njóti sveigjanleika til að sinna fjölskyldum sínum. Óheimilt er að láta fæðingar- og foreldraorlof, eða aðrar aðstæður tengdar meðgöngu og barnsburði, hafa neikvæð áhrif á ákvarðanir um framgang í starfi, endurmenntun, uppsögn, vinnuaðstæður og fleiri slíka þætti sem fram koma í 1. mgr. 26. gr. jafnréttislaga. Þá ber að leitast við að halda yfirvinnu starfsfólks innan eðlilegra marka.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Samræming fjölskyldu- og atvinnulífs #9: Starfsfólki skulu kynnt úrræði á borð við sveigjanlegan vinnutíma, möguleika á hlutastörfum og einstaklingsbundnum lausnum. Einnig réttur til fæðingarorlofs og veikindadaga með börnum. Rekstrarstjórar og mannauðsfulltrúar í samstarfi við jafnréttisfulltrúa 2017
Halda yfirvinnu starfsfólks innan hóflegra marka og uppræta kynbundinn mun þar á #10: Fara skal yfir fjölda yfirvinnustunda og gera kyngreint yfirlit yfir þær fyrir sérhvert ráðuneyti. Leitast skal við að tryggja að yfirvinna starfsfólks sé innan eðlilegra marka og hafi þannig ekki áhrif á fjölskyldulíf. Bregðast skal við með endurskipu-lagningu verkefna eða annarri vinnuhagræðingu ef þörf er á. Yfirstjórn ráðuneyta Í janúar ár hvert

Kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni

Allt starfsfólk á rétt á því að komið sé fram við það af virðingu og að það sæti ekki kynbundinni eða kynferðislegri áreitni. Í jafnréttislögum eru eftirfarandi skilgreiningar:

 

  • Kynbundin áreitni: Hegðun sem tengist kyni þess sem fyrir henni verður, er í óþökk viðkomandi og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi og skapa aðstæður sem eru ógnandi, fjandsamlegar, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi fyrir viðkomandi.
  • Kynferðisleg áreitni: Hvers kyns kynferðisleg hegðun sem er í óþökk þess sem fyrir henni verður og hefur þann tilgang eða þau áhrif að misbjóða virðingu viðkomandi, einkum þegar hegðunin leiðir til ógnandi, fjandsamlegra, niðurlægjandi, auðmýkjandi eða móðgandi aðstæðna. Hegðunin getur verið orðbundin, táknræn og/eða líkamleg.
  • Kynbundið ofbeldi: Ofbeldi á grundvelli kyns sem leiðir til eða gæti leitt til líkamlegs, kynferðislegs eða sálræns skaða eða þjáninga þess sem fyrir því verður, einnig hótun um slíkt, þvingun eða handahófskennd svipting frelsis, bæði í einkalífi og á opinberum vettvangi.

 

Unnið skal markvisst að því að skapa menningu jafnréttis innan Stjórnarráðsins. Í því felst að skapa umhverfi þar sem hægt er að ræða opinskátt um menningu og staðalmyndir og hvernig hægt er að stuðla að fordómalausu samfélagi. Auk þess skal innleiða verklagsreglur um meðferð mála og kynna þær starfsfólki.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Vinna gegn kynbundnu ofbeldi, kynbundinni og kynferðislegri áreitni #11: Aðlaga skal stefnu og áætlun velferðarráðuneytisins gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni, ofbeldi og annarri ótilhlýðilegri háttsemi svo að hún henti öllu Stjórnarráðinu. Verklagsreglurnar verði birtar í starfsmannahandbók Stjórnarráðsins og á innri vef ráðuneyta. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta Júní 2017
#12: Fræðsla um kynbundna og kynferðislega áreitni og meðferð slíkra mála verði þáttur í fræðslu sem jafnréttisfulltrúar ráðuneyta skipuleggja við gildistöku stefnunnar og árlega á nýliðakynningu Stjórnarráðsins. Jafnréttisfulltrúar ráðuneyta Október 2017
#13: Haldin skulu námskeið fyrir það starfsfólk sem samkvæmt stefnu á að taka á móti kvörtunum starfsfólks vegna kynbundinnar eða kynferðislegrar áreitni.  Ráðuneytisstjóri og skrifstofustjórar  í samstarfi við jafnréttisfulltrúa ráðuneyta

Október 2017

Október 2019

Markmið jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins varðandi innra starf

Í öllu starfi í Stjórnarráðinu verði unnið gegn viðhorfum sem leiða til aðstöðumunar kvenna og karla í þjóðfélaginu. Jafnréttismál og leiðir til að stuðla að jafnri stöðu kynjanna verði virkur þáttur í daglegu starfi í Stjórnarráðinu og samþætt stefnumótun og ákvörðunum innan þess.

Þátttaka í nefndum, ráðum og stjórnum

Unnið skal markvisst að því að jafna hlut kynja í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Við skipan í nefndir, ráð og stjórnir, þ.m.t. stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríkið á að meirihluta, skal þess gætt að kynjahlutfall sé sem jafnast og að hlutfall hvors kyns sé ekki undir 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða, sbr. 15. gr. jafnréttislaga.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Vinna að jöfnum áhrifum kynjanna í samfélaginu #14: Þegar leitað er tilnefninga í opinberar nefndir og ráð skal minnt á ákvæði 15. gr. jafnréttislaga um þátttöku í nefndum, ráðum og stjórnum á vegum hins opinbera. Skal sérstaklega óskað eftir tilnefningu karls og konu í hvert sæti sem skipa á í. Ráðherrar og ráðuneytisstjórar Alltaf

Kynjasamþætting

Kynjasamþættingar skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð á vegum ráðuneyta og opinberra stofnana sem starfa á málefnasviði þeirra. Hið sama gildir um alla ákvörðunartöku innan ráðuneyta og stofnana eftir því sem við getur átt, sbr. 17. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Gera skal áætlun um innleiðingu kynjasamþættingar í samræmi við verkefni 5 í framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016–2019 um samþætt­ingu kynja- og jafn­rétt­is­sjón­ar­miða.

Markmið Aðgerð Ábyrgð Tímarammi
Samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunartöku #15 Jafnréttisfulltrúar móta, í samstarfi við Jafnréttisstofu og undir forystu velferðar-ráðuneytisins, heildstæða áætlun til fjögurra ára um samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og ákvörðunartöku ráðuneyta og stofnana ríkisins. Velferðarráðuneytið í samstarfi við jafnréttisfulltrúa  og Jafnréttisstofu Október 2017

Jafnréttisfulltrúar ráðuneytanna

Í hverju ráðuneyti skal starfa jafnréttisfulltrúi með sérþekkingu á jafnréttismálum, sbr. 13. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008. Jafnréttisfulltrúi fylgir eftir jafnréttisáætlun Stjórnarráðsins, hefur eftirlit með jafnréttisstarfi á málefnasviði viðkomandi ráðuneytis og stofnana þess, vinnur að kynjasamþættingu á málefnasviði ráðuneytisins og sinnir erindum starfsfólks á grundvelli jafnréttisáætlunar. Nánar er kveðið á um hlutverk jafnréttisfulltrúa í starfsreglum.

Önnur ákvæði

Greinargerð til Jafnréttisstofu

Í árlegri greinargerð til Jafnréttisstofu skal gera grein fyrir framvindu jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins í samræmi við starfsreglur jafnréttisfulltrúa.

Gildistími og endurskoðun

Jafnréttisáætlun þessi gildir í þrjú ár frá samþykki. Jafnréttisfulltrúar skulu hafa forgöngu um endurskoðun jafnréttisáætlunar Stjórnarráðsins á þriggja ára fresti.

 

Samþykkt á fundi ráðuneytisstjóra 30. mars 2017

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira