Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

02. september 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Hvernig eiga stjórnvöld að auka sparnað. Morgunverðarfundiur Samtaka iðnaðarins

Ræða Geirs H. Haarde fjármálaráðherra
á morgunverðarfundi Samtaka iðnaðarins þann 2. september 1998

Hvernig eiga stjórnvöld að auka sparnað?
Bjartar framtíðarhorfur
Þegar litið er yfir 20. öldina er það tvennt öðru fremur, sem einkennt hefur efnahagslíf okkar Íslendinga. Mikill hagvöxtur og miklar hagsveiflur. Þetta ber efnahagssagan með sér og sést einnig vel í samanburði við aðrar þjóðir.

Þrátt fyrir velgengnina, sem nánast er einsdæmi, hefur það verið keppikefli að draga úr sveiflunum. Þær eru þó aðeins að hluta á okkar valdi. Viðfangsefnið hefur því jafnframt verið að tryggja sveigjanleika og aðlögunarhæfni í framleiðslu, á vinnumarkaði og í opinberri stjórnsýslu.

Nú þegar við erum að ganga í gegnum eitt blómlegasta skeið efnahagssögunnar er eðlilegt að staldra við og spyrja, annars vegar hvað við getum gert til að varðveita þann árangur sem náðst hefur og hins vegar hvernig við getum búið okkur sem best undir hið óvænta og möguleg áföll. Áður en ég kem að þessum spurningum er þó mikilvægt að víkja að þeim efnahagsárangri, sem við njótum nú góðs af. Til að takast á við framtíðina er skynsamlegt að horfa til reynslu fyrri ára, átta sig á því sem hefur fordæmisgildi, en einnig og ekki síður því sem er ólíkt og ekki til eftirbreytni.

Traustur grunnur
Á ýmsa mælikvarða hefur hagur þjóðarinnar sjaldan verið eins traustur og nú. Hagvöxtur er meiri og jafnari en áður og gera má ráð fyrir álíka hagvexti í það minnsta í tvö ár í viðbót. Núverandi hagvaxtarskeið getur þannig bæði orðið stöðugra og skilað meiri hagsæld en dæmi eru um áður. Þessum árangri erum við að ná þrátt fyrri háa raunvexti og vaxandi alþjóðlega samkeppni í kjölfar markaðsvæðingar og opnunar hagkerfisins á undanförnum árum. Þetta eru strangar takmarkanir, sem ekki hafa verið til staðar hér á landi síðan á fyrri hluta aldarinnar, en jafnframt skýring og forsenda þess að við getum staðhæft að efnahagsárangurinn nú hvíli á traustum grunni.

Samhliða meiri aga í hagstjórn en áður byggir árangurinn á aukinni framleiðni, tækninýjungum og atvinnuuppbyggingu á nýjum sviðum s.s. hugbúnaðargerð og lífefnaiðnaði. Samkeppni heldur verðbólgu í skefjum og knýr á um endurbætur og lækkun rekstrarkostnaðar. Milliuppgjör, sem birst hafa að undanförnu, staðfesta síðan viðunandi afkomu og að launahækkanir hafa almennt ekki dregið úr hagnaði fyrirtækja milli ára.

Viðskiptahalli og fjárfesting
Viðskiptahalli er að sönnu mikill, en þegar grannt er skoðað á hann ekki að koma á óvart, né vekja ótta um ofþenslu. Ríkisstjórnin stefnir að afgangi í rekstri ríkisins á næsta ári hvort heldur miðað er við greiðslugrunn eða rekstrargrunn. Á þessu og næsta ári má gera ráð fyrir að ríkissjóður geti greitt niður erlendar skuldir sínar um 20-25 milljarða króna. Árleg vaxtagreiðsla ríkisins til útlanda gæti þannig lækkað um 1-1S milljarð króna. Viðskiptahallann má með öðrum orðum rekja til einkaaðila og ekki síst til aukinnar fjárfestingar í atvinnulífinu. Engar vísbendingar eru um annað en þær verði til að auka enn á framleiðni og samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á næstu árum. Fjármunamyndun á Íslandi hefur vaxið um nær 70% á þremur árum og það er ekki að undra að slíkur vöxtur leiði til aukinnar einkaneyslu og viðskiptahalla.

Viðskiptahallinn er engu að síður áminning um nauðsyn þess að við höldum vöku okkar og gætum þess að færast ekki of mikið í fang. Það kallar á árvekni að halda fengnum hlut og nú eins og áður þegar vel árar verðum við að vera í stakk búin til að mæta mótlæti. Asíukreppan svokallaða og atburðirnir í Rússlandi undanfarna daga minna okkur á að við lifum í hverfulum heimi. Reynslan kennir okkur einnig að aflabrögð geta brugðist án fyrirvara og viðskiptakjör versnað án þess að við fáum rönd við reist. Við verðum hér eftir sem hingað til að geta brugðist skjótt og skynsamlega við aðstæðum, sem ekki er á okkar valdi að stjórna.

Ráðdeild og sparnaður
Til að varðveita efnahagsárangurinn og auka líkurnar á áframhaldandi hagvexti gegna ráðdeild og sparnaður lykilhlutverki. Jafnframt er hann til þess fallinn að auðvelda okkur að takast á við mögulegt mótlæti og áföll í framtíðinni. Þegar spurt er: "Hvernig eiga stjórnvöld að örva sparnað?" er þannig nauðsynlegt að hafa þetta tvíþætta hlutverk sparnaðarins í huga. Krafa um aukinn sparnað er krafa um minni lántökur og um leið áminning til heimila, fyrirtækja og hins opinbera að gera ekki um of út á framtíðina. Hins vegar snýst sparnaðurinn um að eyða ekki öllu um leið og aflað er, heldur leggja hluta af afrakstrinum til hliðar til að mæta kostnaði í framtíðinni.

Stjórn peningamála
Svigrúm til aðhalds í peningamálum er ekki mikið. Þær breytingar sem átt hafa sér stað á undanförnum árum takmarka mjög mögulegar stjórnvaldsaðgerðir. Ekki verður hjá því komist að taka mið af erlendum markaðsaðstæðum og þar með eru því takmörk sett hvað vextir hér á landi geta verið mikið hærri en í helstu viðskiptalöndum okkar. Sömuleiðis eru breytingar á raungengi krónunnar takmörk sett og verða að taka mið af getu atvinnulífsins, kjarasamningum, framleiðni og þeim viðskiptakjörum sem útflutningsgreinarnar búa við.

Hækkun vaxta er án efa árangursríkasta leiðin til að auka sparnað þar sem hækkunin gerir hvort tveggja í senn að auka framboð og draga úr eftirspurn eftir lánsfé. Opnun hagkerfisins setur þessari leið skorður, en gerir um leið meiri kröfur til þátttakenda á markaðnum, hvort sem þeir eru að veita eða taka lán. Ekkert bendir til annars en að við stöndum undir þessum auknu kröfum. Í sögulegu ljósi verður jafnframt ekki fram hjá því litið að vextir eru og hafa undanfarið verið mjög háir.

Aukinn sparnaður almennings
Á undanförnum mánuðum hafa komið fram margvíslegar hugmyndir um leiðir til að örva sparnað einstaklinga og heimila. Í bréfi sem Samtök iðnaðarins sendu ráðherrum og alþingismönnum fyrir tæpu ári síðan er það áréttað að samtökin telja að þjóðhagslegur sparnaður á Íslandi sé of lítill. Jafnframt er bent á að þótt stjórnvöld geti ekki nema að takmörkuðu leyti stjórnað sparnaði geti þau haft áhrif á hann með margvíslegum hætti, ekki síst með hvötum tengdum skattheimtu. Í því sambandi er síðan nefndur skattaafsláttur vegna hlutabréfakaupa, lífeyrissparnaðar og öflunar og viðhalds húsnæðis.

Í greinargerð sem Vinnuveitendasamband Íslands sendi frá sér í júní sl. er í raun tekið í sama streng og lagt til að stjórnvöld örvi sparnað almennings með því að:
- flýta sölu ríkiseigna og veita almenningi góð greiðslukjör,
- beita skattalegum hvata til hlutafjárkaupa,
- endurvekja lög um húsnæðissparnaðarreikninga,
      - gefa tímabundið kost á enn frekari frádráttarbærni lífeyrissparnaðar.
Segja má að þessum hugmyndum hafi síðan verið fylgt eftir af ýmsum aðilum m.a. af Sambandi íslenskra viðskiptabanka sem hefur ítrekað tillögur sínar um endurbætta húsnæðissparnaðarreikninga eða um svo kallaðan fyrirhyggjusparnað.

Í júlí sl. skipaði ég starfshóp til að fara yfir þessar hugmyndir og meta mögulegar leiðir til að örva sparnað almennings. Gert er ráð fyrir að starfshópurinn skili áliti um næstu mánaðamót. Í framhaldi af því mun ríkisstjórnin yfirfara málið og taka ákvörðun um næstu skref. Á þessari stundu er erfitt að segja til um það hver niðurstaðan verður, en þó ljóst að áhugi er á málinu og mikill skilningur á nauðsyn þess að örva sparnað.

Einkavæðing
Þær hugmyndir sem ganga út á að örva hlutabréfakaup almennings í tengslum við einkavæðingu ríkisfyrirtækja eru mjög áhugaverðar, en þurfa að samrýmast þeirri kröfu að ríkið tryggi sér sannvirði fyrir eignirnar. Þrátt fyrir þessa takmörkun eru möguleikarnir miklir þar sem ætlunin er að selja á næstunni hlutabréf í eigu ríkisins fyrir háa fjárhæð í dreifðri sölu.

Gangi áform ríkisstjórnarinnar eftir verða 30-49% hlutabréfa í Fjárfestingarbankanum seld fyrir áramót, þar af allt að 30% hlutabréfanna í dreifðri sölu til almennings. Áformað er að ljúka sölu allra bréfanna á næsta ári. Ætla má að verðmæti þeirra bréfa sem almenningi verða boðin í ár sé af stærðargráðunni 3 milljarðar króna.

Í síðustu viku ákvað ríkisstjórnin einnig að nýta heimildir núgildandi laga til að gefa út ný hlutabréf og auka hlutaféð um allt að 15%, annars vegar í Landsbanka Íslands og hins vegar í Búnaðarbanka Íslands. Undirbúningur að útgáfu nýrra hlutabréfa í Landsbankanum er á lokastigi og er gert ráð fyrir útgáfunni í þessum mánuði. Hvað Búnaðarbankann varðar er stefnt að útgáfu nýrra hlutabréfa eigi síðar en í febrúar 1999 og að nánari tímasetning fari eftir aðstæðum á hlutabréfamarkaði.

Í farvatninu er með öðrum orðum að bjóða almenningi til kaups hlutabréf í þremur fjármálastofnunum á næstu sex mánuðum að verðmæti 4S - 5 milljarða króna eða sem samsvarar um 1,3% af einkaneyslunni og ætti það eitt og sér að hafa jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuðinn. Þetta eru miklir fjármunir og áformin metnaðarfull. Mikilvægt er að talsmenn atvinnulífsins, fjölmiðlar og aðrir áhrifaaðilar styðji þessi áform og veiti góð ráð varðandi framkvæmdina. Þannig má án efa örva sparnað í þjóðfélaginu, treysta stöðugleikann í verðlagsmálum, draga úr viðskiptahalla og samtímis efla tengsl almennings og atvinnulífs.

Breytingar á skattareglum
Þær hugmyndir sem hafa komið fram um aðgerðir í skattamálum til að örva sparnað almennings lúta eins og áður segir fyrst og fremst að ýmis konar skattaívilnunum. Á það hefur einnig verið bent að ýmislegt í núgildandi skattareglum mætti betur fara og því jafnframt haldið fram að reglurnar hvetji til skuldsetningar og vinni gegn sparnaði. Það er mikið til í þessari gagnrýni, en breytingarnar sem hún kallar á eru vandasamar.

Brýnt er orðið að endurskoða lagaákvæði um eignarskatt og vissulega gæti það orðið til að örva sparnað og eignarmyndun í þjóðfélaginu ef skatthlutfallið yrði lækkað um leið og skattstofninn væri breikkaður. Núgildandi undanþágur ýmissa peningalegra eigna og verðbréfa fela í sér mismunun og gera kerfið bæði flókið og óréttlátt.

Annað atriði sem bent hefur verið á er vaxtabótakerfið og þá staðreynd að undir vissum kringumstæðum hvetur það til lántöku og skuldsetningar. Á undanförnum árum hafa á hinn bóginn verið gerðar margvíslegar breytingar á kerfinu og í mínum huga er mikilvægt að fara fram af varfærni, ekki síst vegna breytinganna sem gerðar voru sl. vor í tengslum við nýja Íbúðarlánasjóðinn. Áhugaverð hugmynd, sem vert er að gaumgæfa vel, lýtur að því að innleiða húsnæðisbætur sem valkost við vaxtabætur til handa þeim sem byggja eða kaupa sína fyrstu íbúð. Þessar húsnæðisbætur gætu verið tengdar sparnaði, en umfram allt óháðar lántöku eða vaxtabyrði þannig að þær ýttu ekki undir skuldasöfnun.

Skattaívilnanir
Hugmyndir um sérstakar skattaívilnanir til að örva sparnað tengjast flestar þeim reglum um skattafslætti sem eru nú til staðar eða hafa verið til staðar í skattkerfinu á undanförnum árum. Í fyrsta lagi eru það hugmyndir sem tengjast hlutabréfakaupum, í öðru lagi sparnaði sem fyrst og fremst tengist kaupum eða viðhaldi á íbúðarhúsnæði og í þriðja lagi lífeyrissparnaði.

Skattaafsláttur vegna húsnæðissparnaðarreikninga var innleiddur árið 1985, en afnuminn í áföngum á árunum 1994 – 1997.

Ákvæði um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar einstaklinga í hlutabréfum voru fyrst innleidd árið 1984, en höfðu fyrst veruleg áhrif eftir 1989. Reglurnar hafa síðan tekið ýmsum breytingum og um leið verið dregið úr afslættinum. Árið 1996 var svo ákveðið að fella hann niður í áföngum og að óbreyttu mun hann hverfa árið 2000.

Á sama tíma og þessir afslættir hafa verið felldir niður hefur launamönnum verið heimilaður 4% skattafrádráttur vegna iðgjalda til lífeyrissjóða og frá og með næstu áramótum 2% frádráttur til viðbótar vegna lífeyrissparnaðar.

Þegar fjallað er um framangreindar skattaívilnanir er nauðsynlegt að hafa hugfast að þær voru innleiddar með önnur markmið í huga en að auka þjóðhagslegan sparnað. Húsnæðissparnaðarreikningum var fyrst og fremst ætlað að vera farvegur fyrir opinberan stuðning við ungt fólk sem var að kaupa eða byggja sína fyrstu íbúð, sbr. vaxtabótakerfið í dag. Hlutabréfaafslátturinn var frá upphafi hugsaður sem tímabundin ívilnun til að efla íslenska hlutabréfamarkaðinn og áhuga almennings á hlutabréfaeign. Frádráttur vegna lífeyrisiðgjalda og lífeyrissparnaðar er í raun frestun á skattlagningu þar sem útborgaður lífeyrir er skattlagður eins og launatekjur og ekki síst ætlað að efla lífeyriskerfið og tryggja almenna þátttöku í skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Til að skattaívilnanir auki þjóðhagslegan sparnað benda athuganir til þess að mæta þurfi tekjuskattslækkuninni sem í þeim felst og tryggja að afkoma ríkissjóðs versni ekki. Ástæðan er sú að miklar líkur eru á að sértækar skattaívilnanir hafi fyrst og fremst þau áhrif að einstaklingar færa sparnað sinn úr einu formi í annað. Í sumum tilvikum leiða þær vissulega til viðbótarsparnaðar, en í öðrum ekki, og geta jafnvel haft þveröfug áhrif. Þannig eru dæmi um að einstaklingar hafi alfarið fjármagnað hlutabréfakaup með lánum og notað skattaafsláttinn til að drýgja ráðstöfunartekjur sínar og auka neyslu.

Skattaívilnanir sem ætlað er að örva sparnað verða að vera eins almennar og kostur er, verða að vera auðskiljanlegar og mega ekki flækja skattkerfið um of. Helst þurfa þær jafnframt að tengjast öðrum markmiðum sem almenn samstaða er um. Hlutabréfaafsláttur getur þannig, svo dæmi sé tekið, virkað sem mikilvæg hvatning til hlutabréfakaupa og þátttöku almennings í einkavæðingu ríkisfyrirtækja og jafnframt verið liður í átaki til að örva sparnað einstaklinga og heimila. Ríkisstjórnin hefur því til athugunar að framlengja núverandi hlutabréfaafslátt, þó að í breyttri mynd verði þar sem nauðsynlegt er að einfalda þær reglur sem um hann gilda.

Lífeyrissparnaður
Ný lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða tóku gildi 1. júlí sl. Um þau tókst að lokum víðtæk samstaða og er óhætt að fullyrða að þau eru miklvæg umgjörð um mikla hagsmuni. Lífeyrissjóðir hafa verið að breyta samþykktum sínum og framvegis á að vera tryggt að sjóðirnir eigi jafnan fyrir þeim skuldbindingum sem til er stofnað. Þar til jafnvægi næst mun eiga sér stað mikil sjóðsöfnun og kerfið ótvírætt stuðla að auknum þjóðhagslegum sparnaði. Nú samsvara eignir sjóðanna um 66% af VLF en þegar kerfið kemst í jafnvægi eftir 40 - 50 ár má gera ráð fyrir að samanlagðar eignir lífeyrissjóðanna samsvari um 160% af VLF.

Í tengslum við þessi nýju lög, sem meðal annars kveða á um 10% lágmarksiðgjald til skyldutryggingar lífeyrisréttinda, var gerð breyting á tekjuskattslögunum, sem tekur gildi 1. janúar nk. Frá þeim tíma munu einstaklingar geta dregið lífeyrissparnað frá skattskyldum tekjum, sem samsvarar allt að 2% af launum. Þessi réttur kemur til viðbótar 4% frádráttarréttinum vegna iðgjalda til lífeyrissjóða, sem tekinn var upp í áföngum í kjölfar kjarasamninga árið 1995. Til að einstaklingar geti nýtt sér þennan viðbótarrétt þarf lífeyrissparnaðurinn að uppfylla tiltekin skilyrði og vera greiddur reglulega til viðurkenndra aðila, sem auk lífeyrissjóða geta verið líftryggingafélög, bankar, sparisjóðir og verðbréfafyrirtæki.

Lágmarkstryggingavernd sem lífeyrissjóðir veita samkvæmt hinum nýju lögum miðast við að útborgaður ellilífeyrir samsvari 56% af meðallaunum á starfsævinni. Þetta viðmið þykir lágt og telja margir eðlilegra að miða við 70 til 80% af lokalaunum. Til viðbótar benda útreikningar til að markmið laganna náist almennt ekki fyrr en eftir 20 til 30 ár miðað við óbreytt iðgjöld, þar sem við erum enn að byggja upp lífeyrissjóðakerfið. Líkur eru til þess að á næstu áratugum eigi ævilíkur eftir að hækka. Margt bendir því til þess að iðgjöld til lífeyrissjóða ásamt lífeyrissparnaði þyrftu að vera 15 til 20% af launum, en ekki 10 - 12%, eins og lög gera nú ráð fyrir.

Eins og áður segir hafa ýmsir aðilar hvatt stjórnvöld til að örva sparnað almennings með því að gefa kost á enn frekari frádráttarbærni lífeyrissparnaðar en þegar hefur verið ákveðið. Með hliðsjón af nauðsyn aukins lífeyrissparnaðar er þetta áhugaverð tillaga, sem ríkisstjórninn hefur til skoðunar í fullri alvöru. Niðurstaðan má á hinn bóginn ekki leiða til þess eins að sparnaður verði færður úr einu formi í annað á kostnað ríkissjóðs.

Lokaorð
Margir hafa nefnt nauðsyn þess að almenningur fái upplýsingar um þýðingu aukins sparnaðar og um þá sparnaðarkosti sem í boði eru. Undir þetta má taka, en aukin samkeppni á fjármálamarkaði hefur þó að hluta til leitt þetta af sér. Fram hjá því verður hins vegar ekki horft að hjá fjármálastofnunum eru tvær hliðar á peningnum. Þær geta einnig séð sér hag í auknum lánveitingum og skuldsetningu einstaklinga og heimila. Hvatning í þá veru hefur vakið athygli, því það er ótrúlega stutt síðan menn þurftu að standa í biðröð, í orðsins fyllstu merkingu, til þess að fá lán. Í þessu ljósi, ásamt því að stöðugt er verið hvetja einstaklinga til aukinnar neyslu er spurning hvaða leiðir eru færar til mótvægis.

Aukin samkeppni um lífeyrissparnað landsmanna á undanförnum misserum er dæmi um jákvætt mótvægi við þá daglegu hvatningu sem dynur á okkur um að auka neyslu.

Það viðfangsefni að örva sparnað er margslungið og í raun langtímaverkefni. Mikilvægt er að treysta í eins ríkum mæli og kostur er á frjálsan sparnað. Traust markaðsstarfsemi og virk samkeppni eiga að tryggja varfærni í lántökum og raunsæjar væntingar um framtíðina. Bæði beint og óbeint má hagnýta skattareglur þannig að þær hvetji til ráðdeildar og sparnaðar. Stjórnvöld geta örvað sparnað, en fyrst og fremst er það ábyrg afstaða hvers og eins sem ræður úrslitum. Huga þarf að aukinni samkeppni á þeim hluta fjármálamarkaðarins sem keppir um sparifé almennings, og síðast en ekki síst þarf hið opinbera, ríki og sveitarfélög, að sýna gott fordæmi og nýta góðærið til að borga niður skuldir.
Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira