Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

11. nóvember 1998 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Áhrif Efnahags- og myntbandalagsins á íslenskt efnahagslíf. EMU-ráðstefna í Reykjavík

FJÁRMÁLARÁÐHERRA
GEIR H. HAARDE

Magnús Pétursson ráðuneytisstjóri fjármálaráðuenytisins flutti ræðuna f.h. ráðherra

Ávarp á EMU-ráðstefnu í Reykjavík 11. nóvember 1998

Áhrif Efnahags- og myntbandalagsins á íslenskt efnahagslíf

Ég vil í upphafi þakka fyrir að fá hér tækifæri til að fjalla stuttlega um hugsanleg áhrif Efnahags- og myntbandalagsins á íslenskt efnahagslíf. Það er reyndar gaman að rifja það upp að þótt stofnun þessa bandalags sé án efa mesti viðburður á vettvangi alþjóðafjármála frá því að Bretton Woods samkomulagið svokallaða var gert í lok seinni heimsstyrjaldar, þegar Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn voru stofnsettir, fer því fjarri að þetta sé einsdæmi í veraldarsögunni því að á þessu sviði líkt og svo mörgum öðrum sviðum voru Norðurlöndin fyrri til. Árið 1873 var Norræna myntbandalagið stofnað með þátttöku Dana, Svía og Norðmanna og Íslendingar voru einnig aðilar vegna ríkjasambandsins við Dani. Þótt hér væri ekki um sameiginlega mynt að ræða voru norrænu krónurnar jafngildar og jafnnothæfar í öllum ríkjunum. Þetta myntbandalag leið undir lok við hrun gullfótarins svokallaða í lok fyrri heimsstyrjaldar. Að mörgu leyti verður þetta bandalag að teljast merkilegt því að þarna var í raun verið að skipa mörgum málum með líkum hætti og gert er í EMU, evrópska efnahags- og myntbandalaginu, í dag.

Það er ljóst að stofnun og ekki síður framþróun þessa bandalags á næstu árum mun hafa umtalsverð áhrif á jafnt aðildarríki þess og ýmis þau ríki sem standa utan bandalagsins, þar á meðal Ísland. Inngönguskilyrðin í EMU, þ.e. svokölluð Maastrichtskilyrði, gera ákveðnar kröfur til aðildarríkjanna um að hafa stjórn á efnahagsmálum sínum, meðal annars um að viðhalda stöðugleika í verðlags-, vaxta- og ríkisfjármálum. En þessar viðmiðanir eru ekki eingöngu tengdar aðildarríkjum myntbandalagsins því að þær eru orðnar að eins konar lágmarkseinkunn í efnahagslegu tilliti á alþjóðlegum vettvangi. Þau ríki sem ekki uppfylla skilyrðin fá einfaldlega ekki sæti í úrvalsdeild alþjóðaefnahagsmála. Það þýðir að þessi ríki njóta lakari lánskjara og eru á allan hátt talin ótryggari en ríkin sem uppfylla aðildarskilyrðin.

Þess vegna er mikilvægt að hagstjórnin í þeim ríkjum sem standa utan myntbandalagsins standist þær kröfur sem gerðar eru til ríkja á alþjóðavettvangi. Þetta á bæði við um stefnuna í gengis- og vaxtamálum og ríkisfjármálum. Um leið og alþjóðamarkaðurinn metur stöðuna þannig að hagstjórnin sé að fara úr böndum refsar hann viðkomandi ríki með því að krefjast hærri vaxta eða setja gengið undir þrýsting.

Eins og ykkur er auðvitað kunnugt ákvað ríkisstjórnin síðastliðið haust að efna til víðtækrar umræðu stjórnvalda og helstu samtaka atvinnulífsins til að ræða hugsanleg áhrif Evrópska myntbandalagsins á íslenskt efnahags- og atvinnulíf og var í því skyni settur á laggirnar samráðshópur þessara aðila. Hlutverk hópsins var að fjalla um þau álit og úttektir sem þegar höfðu verið gerðar um þetta efni og kanna hvort ástæða þætti til sérstakra viðbragða af hálfu stjórnvalda og atvinnulífs af þessu tilefni. Þessi samráðshópur skilaði fyrr á þessu ári áfangaskýrslu til ríkisstjórnar þar sem meðal annars er vakin athygli á því að áhrifa bandalagsins muni fyrst í stað væntanlega einkum gæta í gengis- og vaxtamálum. Áhrifin á atvinnulífið koma mest fram í þeim greinum sem eru í útflutningi eða keppa við erlend fyrirtæki á innlendum markaði. Erfitt er að meta þessi áhrif nákvæmlega á þessari stundu þar sem ljóst er að ýmis helstu viðskiptalönd Íslendinga myndu standa utan bandalagsins, að minnsta kosti á allra næstu árum. Þó má greina ákveðna þætti sem hafa vafalítið áhrif á íslenskt efnahagslíf þegar fram í sækir.

Þannig telur samráðshópurinn óumdeilt að stofnun myntbandalagsins muni almennt hafa jákvæð áhrif á íslenskt efnahagslíf. Viðskiptakostnaður íslenskra fyrirtækja minnkar og aukin hagkvæmni í viðskiptum innan bandalagsins mun að einhverju marki skila sér til innlendra aðila. Þessi áhrif verða þó væntanlega minni til að byrja með þar sem nokkur mikilvæg viðskiptalönd okkar Íslendinga, þ.e. Bretland, Danmörk og Svíþjóð, munu ekki taka þátt í bandalaginu, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. En stofnun myntbandalagsins mun einnig leiða til aukinnar samkeppni í Evrópu sem getur haft tvenns konar áhrif. Annars vegar getur samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja versnað þar sem þau munu ekki njóta jafn jákvæðra áhrifa af stofnun myntbandalagsins og fyrirtæki í ríkjum innan þess. Hins vegar munu íslenskir neytendur hugsanlega njóta hagstæðari kjara með aukinni samkeppni. Niðurstaða þessara vangaveltna samráðshópsins er sú að þegar öllu er á botninn hvolft muni áhrifin á íslenskt efnahagslíf að verulegu leyti fara eftir því hvernig okkur Íslendingum tekst að halda á okkar eigin málum, ekki síst hvað varðar innlenda hagstjórn.

Þess vegna er af hálfu samráðshópsins lögð megináhersla á mikilvægi þess að treysta undirstöður hagstjórnar hér á landi. Traust efnahagsstjórn er talin veigamesti þátturinn í því að festa í sessi þann stöðugleika sem hér hefur náðst í efnahagsmálum á undanförnum árum. Gengisstefnan er þar í lykilhlutverki. Samráðshópurinn er sammála um að varhugavert sé að gera grundvallarbreytingar á framkvæmd gengismála nema þær séu í tengslum við víðtækari breytingar, svo sem vegna nánari tengsla við myntbandalagið en nú eru á dagskrá.

Í þessu skyni er talið nauðsynlegt að styrkja stjórn peningamála hér á landi, en sérstaklega er þó talið mikilvægt að beita ríkisfjármálunum skynsamlega. Þannig þurfi markvisst að stefna að afgangi á rekstri hins opinbera til að geta lækkað skuldir og jafnframt aukið almennan sparnað í þjóðfélaginu. Markmiðið með þessu er að unnt verði að draga úr áhrifum hugsanlegra sveiflna í þjóðarbúskapnum án þess að þurfa að grípa til gengisbreytinga.

En hvaða kostir eru í gengismálum fyrir okkur Íslendinga? Fræðilega séð má segja að ýmsar útfærslur komi til greina. Niðurstaða samráðshópsins er hins vegar sú að ekki sé ástæða til þess að hlaupa upp til handa og fóta og breyta þeirri fastgengisstefnu sem hér hefur verið fylgt um nokkurra ára skeið. Fastgengisstefnan, ásamt aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu, hefur átt drjúgan þátt í að koma á stöðugleika hér á landi og engin ástæða sé til að hverfa frá þessari stefnu að svo stöddu. Ég er alveg sammála þessari skoðun og tel það eitt mikilvægasta hlutverk íslenskra stjórnvalda að viðhalda þeim stöðugleika sem hér hefur náðst að undanförnu.

Samráðshópurinn ræddi einnig hugsanleg tengsl íslensku krónunnar við evrósvæðið í framtíðinni, ekki síst í ljósi hugsanlegrar fjölgunar aðildarríkja. Niðurstaða hópsins var að heppilegasta lausnin væri ótvírætt sú að freista þess að ná samningum við hinn nýja Seðlabanka Evrópu um tvíhliða tengingu íslensku krónunnar við evróið þar sem það myndi styrkja tiltrúna á hagstjórn hér á landi. Hér eru vitaskuld ýmis ljón í veginum þar sem það er ekki sjálfgefið að með slíkri tengingu séu stjórnvöld alfarið að afsala sér réttinum til þess að fella gengið. Slík óvissa getur haft neikvæð áhrif á trúverðugleika efnahagsstefnunnar, en það er lykilatriði í að varðveita stöðugleikann hér á landi. Ég tel afar brýnt að þetta sjónarmið verði haft að leiðarljósi við hugsanlega endurskoðun á gengisfyrirkomulaginu.

Í þessu sambandi vil ég nefna að á ráðstefnu sem haldin var á vegum Norðurlandaráðs síðastliðið sumar var rætt um hugsanleg áhrif stofnunar myntbandalagsins á norrænt efnahagslíf og norrænt samstarf. Þar komu fram mörg athyglisverð sjónarmið. Meðal annars kom fram í máli norsks hagfræðiprófessors að mikilvægasta viðfangsefni hagstjórnar væri að halda verðlagi stöðugu, jafnvel þótt það væri á kostnað óstöðugs gengis, enda væri afar erfitt að sameina þessi tvö markmið til lengdar. Jafnframt taldi hann að eina leiðin til að unnt væri að búa við í senn frjálsar fjármagnshreyfingar milli landa og stöðugt gengi væri að efna til myntbandalags og taka upp sameiginlega mynt.

Ég held að þessi sjónarmið kunni út af fyrir sig að vera hagfræðilega rétt. Það er því þeim mun mikilvægara að búa þannig um hnútana í hagstjórn að þetta tvennt, þ.e. stöðugt gengi og stöðugt verðlag, geti farið saman.

Í framhaldi af þessu má nefna að samráðshópurinn skilgreindi verkefni sitt þannig að þar sem íslensk stjórnvöld hefðu þegar ákveðið að aðild að Evrópusambandinu - og þar með að Efnahags- og myntbandalaginu - væri ekki á dagskrá að svo stöddu þyrfti ekki að skoða sérstaklega áhrif aðildar með samanburði við ýmsa aðra kosti. Engu að síður taldi samráðshópurinn óhjákvæmilegt að tengja ýmsa valkosti við þann möguleika að Ísland gerðist aðili að myntbandalaginu til þess að ná fram samanburði milli þessara kosta. Í sumum tilvikum, þar á meðal í umræðu um helstu leiðir í gengismálum, var niðurstaðan sú sama og fram kom hjá norska prófessornum, þ.e. að besta leiðin til að tryggja í senn stöðugt verðlag og gengi væri aðild að myntbandalaginu.

Samráðshópurinn bendir á að nokkur óvissa ríki um hvort sameiginlega myntin, evróið, verði í einhverjum mæli tekin upp í viðskiptum innlendra aðila hér á landi. Hér má nefna að í ýmsum löndum sem munu standa utan bandalagsins, til dæmis í Bretlandi og Danmörku, er til alvarlegrar umræðu hvort fyrirtækjum skuli heimilað að færa bókhald sitt í evróum, í stað þess að nota pund eða danskar krónur Það myndi einfalda bókhaldið og spara mikið fé þar sem tvöfalt bókhald er auðvitað mun kostnaðarsamara en einfalt bókhald. Sömu viðhorf hafa komið upp vegna skattálagningar og skattframtala. Af hálfu samráðshópsins er því beint til stjórnvalda að þau láti fara fram könnun á kostum og göllum slíkra ráðstafana.

Eins og nærri má geta er stofnun og hugsanleg áhrif þessa bandalags meginumræðuefni á alþjóðlegum fundum. Í októbermánuði var sameiginlegur fundur fjármálaráðherra EFTA- og ESB-ríkjanna þar sem rætt var um þessi mál. Þar var meðal annars fjallað um stöðu og hugsanleg áhrif myntbandalagsins í alþjóðlegu samhengi, ekki síst í ljósi þess óstöðugleika sem gætt hefur á alþjóðafjármálamarkaði að undanförnu. Ennfremur var rætt um mikilvægi ýmissa skipulagsbreytinga í efnahagslífinu, jafnt innan sem utan bandalagsins, og nauðsyn aukins sveigjanleika á vinnumarkaði.

Stofnun Efnahags- og myntbandalagsins er mikilvægt skref í átt til aukinnar samræmingar efnahags- og peningamálastefnu í Evrópu. Atburðir síðustu vikna, sem hafa einkennst af miklum sviptingum á alþjóðafjármálamörkuðum, ekki síst í gengismálum, hafa enn frekar leitt í ljós mikilvægi traustrar efnahagsstefnu, sem byggist á jafnvægi í ríkisfjármálum og lágri verðbólgu. Við ríkjandi aðstæður er ótvírætt að styrk staða efnahagsmála í Evrópu stuðlar að auknum stöðugleika í heimsbúskapnum og dregur þannig úr neikvæðum áhrifum fjármálakreppunnar í Asíu, Rússlandi og Suður-Ameríku.

Á þessum fundi voru menn sammála um nauðsyn þess að treysta upplýsingagjöf um stöðu efnahagsmála á alþjóðavettvangi í því skyni að hamla gegn neikvæðum áhrifum óstöðugleikans á alþjóðafjármálamarkaði á efnahagslífið. Menn töldu að þrátt fyrir miklar sviptingar á alþjóðafjármálamarkaði að undanförnu, sem hefðu óneitanlega veikt efnahagshorfur til skamms tíma litið, væru efnahagshorfur í aðildarríkjum ESB og EFTA almennt hagstæðar. Efnahags- og myntbandalagið myndi án efa treysta þessa stöðu.

Þar var einnig fjallað um leiðir til þess að efla atvinnu í Evrópu og voru menn sammála um að Stöðugleikasáttmáli Evrópusambandsins, þar sem meðal annars er kveðið á um nauðsyn þess að auka sveigjanleika á vinnumarkaði án þess að hverfa frá ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum, stuðlaði að áframhaldandi hagvexti og stöðugleika í efnahagsmálum. Mikilvægt væri að jafnt stjórnvöld sem aðilar vinnumarkaðarins legðu sitt af mörkum til að þessi markmið gengju eftir. Atburðir síðustu vikna undirstrika enn frekar nauðsyn þessa.

Í þessu samhengi benti ég meðal annars á mikilvægi þess að stjórnvöld fylgdu ábyrgri og aðhaldssamri efnahagsstefnu sem miðaði að því að treysta stöðu atvinnulífsins og stuðla þannig að auknum hagvexti og fjölgun starfa. Þetta er enn mikilvægara í ljósi þeirra sviptinga sem orðið hafa á undanförnu á alþjóðamarkaði. Athyglisvert er að fylgjast með því hvernig aðildarríkin að myntbandalaginu samræma stefnu sína í þessum efnum.

Fyrir lönd utan myntbandalagsins skiptir auðvitað miklu máli að háleit markmið þess nái fram að ganga. Lönd jafnt innan sem utan bandalagsins munu njóta góðs af auknum gengisstöðugleika, minni viðskiptakostnaði og þeim aukna hagvexti sem líklegt er að fylgi í kjölfarið. Á hinn bóginn geta önnur áhrif orðið neikvæð, a.m.k. fyrst í stað, t.d. vegna aukins vaxtamunar milli landa innan og utan svæðisins.

Það er athyglisvert að rifja upp hve þróunin er ör í þessum efnum. Fyrir ekki alllöngu voru menn fullir efasemda um að það yrði yfirhöfuð nokkuð af stofnun myntbandalagsins, að minnsta kosti á tilsettum tíma. Þessar efasemdarraddir hafa nú þagnað.

Hins vegar eru tvö atriði sem valda vissum áhyggjum og rétt er að vekja athygli á. Annars vegar er sú staðreynd að efnahagsstaða nokkurra fyrirhugaðra aðildaríkja myntbandalagsins er misjöfn. Á meðan uppgangur ríkir í ýmsum ríkjum, sem einkennist af örum hagvexti og jafnvel þenslu, eru önnur ríki að kljást við mikið atvinnuleysi og lítinn hagvöxt. Ýmsir eru þeirrar skoðunar að þetta geti valdið erfiðleikum þegar að því kemur að fylgja samræmdri stefnu í efnahagsmálum, ekki síst í peningamálum.

Hitt atriðið, þessu nátengt, er að víða er þrálátt atvinnuleysi sem veldur óhjákvæmilega erfiðleikum heima fyrir og grefur undan trú almennings á mikilvægi myntbandalagsins fyrir almenna hagstjórn í Evrópu. Menn spyrja einfaldlega hvort stofnun myntbandalagsins sé virkilega einhvers virði fyrst ekki hafi tekist að ráða niðurlögum atvinnuleysisvandans. Í þessu samhengi má benda á þær umræður sem nú virðast færast í vöxt innan Evrópusambandsins um hvort ekki sé rétt að slaka á því aðhaldi í ríkisfjármálum sem hingað til hefur verið talið nauðsynlegt til að treysta undirstöður efnahagslífsins og tryggja varanlegan hagvöxt samhliða stöðugleika í verðlagsmálum. Ég minni á í þessu samhengi þá umræðu sem verið hefur í Þýskalandi í kjölfar nýlegra stjórnarskipta þar sem háværar raddir heyrast um nauðsyn þess að slaka á klónni og auka framlög til atvinnumála. Áhrif þessarar umræðu hafa þegar birst í auknum áhyggjum á alþjóðafjármálamarkaði af efnahagsstefnu þýskra stjórnvalda.

Ég vil að lokum segja að þótt íslensk stjórnvöld hafi ákveðið að sækja ekki um aðild að Evrópusambandinu að svo stöddu gerum við okkur fyllilega grein fyrir því að ekki einungis aðild að myntbandalaginu heldur einnig alþjóðavæðingin sem slík gerir miklar kröfur um ábyrga hagstjórn til þeirra landa sem vilja láta taka sig alvarlega á alþjóðlegum vettvangi. Þetta þýðir einfaldlega, hvort sem okkur líkar betur eða verr, að þau lönd sem standa utan myntbandalagsins þurfa að setja markið hærra en gert er innan þess. Þetta á ekki síst við um stefnuna í ríkisfjármálum. Ég tel mikilvægt að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar miði að þessu markmiði og að við höldum áfram að treysta stöðu ríkisfjármála. Það er mikilvægasta markmið okkar í efnahagsmálum og með því getum við best búið í haginn fyrir framtíðina og treyst lífskjörin í landinu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum