Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

04. apríl 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar

Ávarp fjármálaráðherra
á aðalfundi Samtaka ferðaþjónustunnar
4. apríl 2000

- Staða efnahagsmála, skattamál, evran o.fl. -

(Hið talaða orð gildir)


Ég vil í upphafi máls míns þakka fyrir að fá enn á ný tækifæri til þess að ávarpa aðalfund Samtaka ferðaþjónustunnar, sem mér er jafnframt mikil ánægja. Mig langar fyrst til þess að fara yfir ýmsar breytingar á sviði skattamála, bæði þegar orðnar og fyrirhugaðar, sem allar munu styrkja samkeppnisstöðu ferðaiðnaðar á Íslandi, þennan mikilvæga vaxtarbrodd í íslensku efnahagslífi. Síðan mun ég fara nokkrum orðum um stöðu og horfur í íslenskum efnahagsmálum því að fáar atvinnugreinar eiga eins mikið undir stöðugu efnahagsumhverfi og ferðamannaiðnaðurinn. Í lokin kem ég inn á hugsanleg áhrif Efnahags- og myntbandalags Evrópu og upptöku evrunnar á stöðu okkar Íslendinga, þróun gengismála og annað því tengt.

1. Aðgerðir í skattamálum
Víkjum fyrst að skattamálunum. Frá því að við hittumst fyrir rúmlega 1S ári á Akureyri hafa mikilvægar breytingar verið gerðar á sviði skattamála sem koma ferðamannaiðnaði sérstaklega til góða. Þar má nefna lækkun vörugjalds úr 20% í 5% frá 1. janúar 2000 af hópbifreiðum, í eigu hópferða- eða sérleyfishafa, sem skráðar eru fyrir 10-17 manns. En ekkert vörugjald er lagt á hópbifreiðar fyrir fleiri farþega.

Í gær mælti ég síðan fyrir stjórnarfrumvarpi til breytinga á lögum um vörugjald af ökutækjum. Meginbreyting frumvarpsins felst í því að lagt er til að flokkum vörugjalds á fólksbifreiðar verði fækkað úr þremur í tvo. Þannig verði lagt 30% vörugjald á allar fólksbifreiðar með minni vélar en 2000 sm3 en 45% vörugjald á bifreiðar með vélar yfir 2.000 sm3. Vörugjald af leigubifreiðum lækkar samsvarandi eða í 10% og 13%. Samkvæmt þessu verður ekki lengur gerður greinarmunur á vörugjaldi eftir því hvort um bensín- eða dísilbifreiðar er að ræða.

Samkvæmt gildandi lögum er vörugjald á fólksbifreiðar nú 30, 40 eða 65% eftir vélarstærð og eru mörkin mismunandi eftir því hvort um bensín- eða dísilbifreið er að ræða.

Sem dæmi um áhrif breytinganna má nefna að verð á öflugum jeppum sem gjarnan eru notaðir til að þjónusta ferðamenn í fjallaferðum að lækka um 9 til 13%, að öðru óbreyttu.

Lækkun á vörugjaldi af bílaleigubifreiðum
Auk framangreindra breytinga eru lagðar til breytingar með það að markmiði að bæta rekstrarumhverfi þeirra aðila í ferðaþjónustu sem bjóða upp á útleigu ökutækja.

Samkvæmt gildandi lögum er sérstök heimild til handa bílaleigum til að kaupa bifreiðar sem bera 40% almennt vörugjald, með 30% vörugjaldi.

Í framangreindu frumvarpi hins vegar lagt til að um vörugjald af bifreiðum sem ætlaðar eru til útleigu hjá bílaleigum gildi sömu reglur og um vörugjald af leigubifreiðum. Af því leiðir að bílaleigur geta keypt fólksbifreiðar til starfsemi sinnar á 10 eða 13% vörugjaldi allt eftir vélarstærð. Þessi breyting er í samræmi við þá stefnu sem fylgt hefur verið á undanförnum árum, það er að lækka vörugjald af ökutækjum sem notuð eru í atvinnurekstri. Í þessu sambandi skiptir miklu máli að þjónusta við erlenda ferðamenn sem nýta sér bílaleigubifreiðar sem samgöngutæki er arðvænleg atvinnugrein sem skilar miklum virðisauka í þjóðarbúið. Á það hefur ítrekað verið bent af hálfu Samtaka ferðaþjónustunnar að hátt verð á bifreiðum til þeirrar starfsemi hafi hamlað nokkuð uppbyggingu hennar. Með þessum breytingum er stefnt að því að koma til móts við ferðaþjónustu á þessu sviði og gera hana betur samkeppnishæfa í samanburði við slíka þjónustu í öðrum löndum.

Sem dæmi um áhrif þessara breytinga má nefna að gera má ráð fyrir að vörugjald og virðisaukaskattur af fólksbifreið sem kostar um 1.900.000 kr. frá umboði gæti lækkað um 570.000 kr. Sé dæmi tekið af bensínjeppa með yfir 2.000 sm3 vél, sem kostar um 4 millj. kr. frá umboði, myndu opinber gjöld af honum lækka um u.þ.b. 1.200.000 kr. ef miðað er við ákvæði gildandi laga, en 760.000 kr. ef miðað er við ákvæði frumvarpsins.

Gert er ráð fyrir því að bílaleiga verði að eiga bifreið sem keypt er á lægri gjöldum í 3 ár. Sé bifreiðin hins vegar seld fyrir þann tíma, til óskyldrar starfsemi, ber að endurgreiða eftirgefið vörugjald í réttu hlutfalli við þann tíma sem vantar upp á þriggja ára markið.

Í frumvarpinu er lagt til að skilyrði fyrir lækkun vörugjalds af bílaleigubifreiðum verði nokkuð ströng, en það er gert til þess að tryggja sem best að þær bifreiðar sem bera lægra vörugjald verði eingöngu notaðar til útleigu hjá bílaleigum. Þau eiga þó í engu að hindra þá aðila sem reka bílaleigur til þess að nota sér heimildina.

70% - vélsleðar, mótorhjól og fjórhjól
Í framangreindu frumvarpi er einnig lagt til að almennt vörugjald af bifhjólum, vélsleðum og fjórhjólum verði lækkað úr 70% í 30%. Vörugjald af þessum ökutækjum hefur verið óbreytt frá árinu 1991. Á sama tíma hefur vörugjald af öðrum ökutækjum lækkað verulega. Samhliða þessari breytingu er lagt til að sérregla varðandi lægra vörugjald af vélsleðum í eigu fyrirtækja í ferðaþjónustu verði felld brott. En samkvæmt henni var þessum aðilum heimilt að flytja inn sleða með 30% vörugjaldi. Ekki þykir ástæða til að hafa sérreglur um lægra vörugjald af þessum tækjum ef frumvarpið verður að lögum.

Eftir stendur hins vegar að almenn lækkun á vörugjaldi af vélsleðum, mótorhjólum og fjórhjólum skapar aðilum í ferðaþjónustu aukið svigrúm til að bjóða upp á margvíslega þjónustu í tengslum við útleigu og aðra notkun þessara tækja og auka þannig enn á fjölbreytnina í þessari starfsemi.

Áhrif almennu lækkunarinnar
Það er von mín, að auk þeirra sóknarfæra sem felast í sérstakri lækkun á vörugjaldi af bifreiðum til bílaleiga muni almenn lækkun vörugjalda af fólksbifreiðum skapa aðilum í ferðaþjónustu hagstæðara rekstrarumhverfi

Virðisaukaskattur
Í byrjun síðasta árs skipaði ég nefnd til þess að fara ofan í saumana á virðisaukaskattskerfinu meðal annars í ljósi þess að nú eru liðin 10 ár frá því kerfið kom til framkvæmda. Nefndin skilaði ágætri skýrslu nú fyrir skömmu þar sem m.a. var farið ítarlega yfir þróun tekna af virðisaukaskatti frá upphafi og þær bornar saman við þróun annarra þjóðhagsstærða. Einnig kom nefndin með tillögur um auknar áherslur í skatteftirliti og viðbótarmannafla við virðisaukaskattsframkvæmd. Nefndin telur ekki að gera þurfi neinar grundvallarbreytingar virðisaukaskattskerfinu en er þó með nokkrar tillögur um breytingar eða lagfæringar á lögum og reglugerðum. Ég mun síðar opinberlega gera nánari grein fyrir heildarniðurstöðum nefndarinnar.

Í gær lagði ég fram á Alþingi frumvarp sem felur í sér ýmsar lagfæringar á lögum um virðisaukaskatt. Þessar lagfæringar eru byggðar á tillögum nefndarinnar og snerta einna helst aðila í ferðaþjónustu. Ég ætla að gera hér stutta grein fyrir þessum tillögum.

Í fyrsta lagi má nefna breytta meðferð við álagningu virðisaukaskatts á matsölu í veitingahúsum. Um er að ræða hækkun á sérstakri endurgreiðslu til veitingahúsa, mötuneyta og hliðstæðra aðila sem selja tilreiddan mat. Lagt er til að endurgreiðslan fari úr 93,75% af innskatti vegna matvælaaðfanga í 112,5% Fulltrúar ykkar hafa bent á að söluturnar, verslanir og stórmarkaðir selji í sívaxandi mæli tilbúinn mat í 14% skattþrepi í samkeppni við veitingahús sem selja mat í 24,5% skatti og gildandi endurgreiðslureglur nái ekki að jafna þann mun sem þeim er ætlað. Ég tel að með þessum breytingum sé komið verulega til móts við þær hugmyndir sem ykkar samtök hafa haft og verða til þess að styrkja samkeppnisstöðu greinarinnar. Rétt þykir að setja ákveðið hámark á endurgreiðslurnar til að koma í veg fyrir að þær leiði til þess að tilreiddur matur geti verið seldur með lægri skatti en 14%.

Í öðru lagi vil ég nefna að í frumvarpinu gert ráð fyrir að fjármálaráðherra verði heimilt endurgreiða rekstraraðilum hópbifreiða 19,68% af söluverði hópbifreiða sem þeir flytja úr landi. Hér er um að ræða réttlætismál sem hópbifreiðaeigendur hafa nokkrum sinnum tekið upp við ráðuneytið, en þeir hafa bent á að hluti af verðmæti hópbifreiða er virðisaukaskattur sem ekki hefur verið endurgreiddur þar sem fólksflutningar eru utan skattskyldusviðs virðisaukaskatts. Endurgreiðslureglan ætti að greiða fyrir sölu notaðra hópbifreiða úr landi og þar með auðvelda endurnýjun þeirra.

Loks eru lagðar til breytingar sem þrengja innskattsrétt virðisaukaskattskyldra aðila að því er varðar fólksbifreiðar einkum hópbifreiðar sem notaðar eru í hinum skattskylda rekstri. Það verður að teljast óeðlilegt að virðisaukaskattskyldir aðilar hafi möguleika að innskatta hópbifreiðar þegar fólksflutningar eru utan skattskyldusviðs.

2. Staða og horfur í efnahagsmálum
Víkjum þá að efnahagsmálunum. Ég hygg að það sé óumdeilt að staða efnahagsmála hér á landi sé að flestu leyti góð um þessar mundir. Þrátt fyrir að verðbólgan hafi látið á sér kræla upp á síðkastið og viðskiptahalli sé ef til vill meiri en góðu hófi gegnir vill oft gleymast hvers konar umskipti hafa orðið á íslensku efnahagslífi á undanförnum árum.

Sá áratugur sem nú er senn á enda markar líklega dýpri spor í framþróun efnahagsmála hér á landi en nokkurt annað tímabil í íslenskri hagsögu. Á þessum árum hefur íslenskt hagkerfi tekið stakkaskiptum, sem má ekki síst rekja til gjörbreyttra áherslna í hagstjórn í upphafi þessa áratugar. Í kjölfarið hefur verulega dregið úr opinberri íhlutun og afskiptum af gangi efnahagslífsins. Jafnframt hefur frelsi verið aukið á flestum, ef ekki öllum, sviðum efnahagslífsins.

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar á undanförnum árum í því skyni að bæta rekstrarskilyrði og samkeppnisstöðu atvinnulífsins, bæði með lækkun og niðurfellingu skatta og öðrum aðgerðum til að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu, eiga hér ekki síst hlut að máli. Breyttra áherslna í hagstjórn hefur ekki síst gætt á sviði peningamála og ríkisfjármála.

Algjör umskipti hafa orðið í ríkisfjármálum. Í stað langvarandi halla og skuldasöfnunar hjá ríkissjóði eru nú horfur á að unnt verði að greiða niður skuldir um nálægt fjórðung (ath.) á árunum 1998-2000. Ennfremur hafa miklar breytingar átt sér stað á fjármagnsmarkaðnum á undanförnum árum með eflingu verðbréfa- og hlutabréfamarkaðanna, auknu frjálsræði á peninga- og gjaldeyrismarkaði, einkavæðingu og sölu á hlut ríkisins í viðskiptabönkum og öðrum fjármálastofnunum svo nokkur dæmi séu nefnd. Til viðbótar má nefna þá könnun sem nú fer fram á vegum ríkisstjórnarinnar á hugsanlegri sölu á Landssímanum.

Fjárlög fyrir árið 2000 voru samþykkt á Alþingi um miðjan desember. Niðurstöðutölur frumvarpsins eru sögulegar þar sem það þarf að fara aftur til ársins 1962 til þess að finna sambærilegar tölur um rekstrarafgang, sem nemur um 2,3% af landsframleiðslu og tæplega 17 milljörðum króna, eða 2 milljörðum meira en gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Þess eru fá, ef nokkur, dæmi að fjárlög séu afgreidd með meiri rekstrarafgangi en gert hefur verið ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi. Jafnframt er gert ráð fyrir meiri tekjuafgangi á árinu 1999 en áður var áætlað, eða nálægt 15 milljörðum króna, samanborið við 2S milljarðs króna afgang samkvæmt fjárlögum. Samanlagt nemur tekjuafgangur þessara tveggja ára 32 milljörðum króna sem gengur til þess að grynnka á skuldum eða styrkja stöðu ríkissjóðs með öðrum hætti.

Þessar tölur segja þó ekki alla söguna um hið aukna aðhald sem felst í fjárlögum ársins 2000 í samanburði við árið 1999. Ef við undanskiljum áhrif tekna af eignasölu ríkisins, en þær eru umtalsverðar á árinu 1999, fæst sú niðurstaða að tekjuafgangurinn fari úr 4 milljörðum króna árið 1999 í 12S milljarð árið 2000. Af þessu má ráða að fjárlög fyrir árið 2000 fela í sér verulega aukið aðhald frá árinu 1999.

Ýmsir hafa látið að því liggja að fjárlögin feli ekki í sér nægilega mikið aðhald með tilliti til efnahagsástandsins. Í þessu sambandi hafa menn haldið því fram að sterk staða ríkissjóðs stafi eingöngu af miklum veltu- og tekjubreytingum í þjóðfélaginu. Þessu hafna ég alfarið.

Þótt alltaf megi deila um hvenær aðhald í ríkisfjármálum sé nægilegt eru sérfræðingar í efnahagsmálum almennt sammála um að æskilegt sé að ríkissjóður sé rekinn með afgangi þegar áhrif hagsveiflunnar eru undanskilin. Og hvernig skyldi staðan að þessu leyti vera hjá okkur? Jú, samkvæmt alþjóðlega viðurkenndum mæliaðferðum fela fjárlög ársins 2000 í sér rúmlega 1% afgang í hlutfalli af landsframleiðslu, þegar leiðrétt hefur verið fyrir áhrifum uppsveiflunnar í efnahagsmálum. Þetta er meginatriði og skiptir sköpum um aðhaldsáhrif ríkisfjármála. Einnig eru þetta veruleg umskipti frá fyrri árum þar sem tekist hefur að snúa 4-5% halla á þennan sama mælikvarða í afgang. Loks vil ég nefna að við stöndum mjög vel í samanburði við flest aðildarríki OECD hvað þetta varðar.

Reyndar er málflutningurinn oft mótsagnakenndur þar sem bæði er kvartað undan því að ríkisfjármálastefnan sé of undanlátssöm og að ýmsir málaflokkar séu afskiptir. Þannig eru stjórnvöld iðulega gagnrýnd fyrir að útgjöld til heilbrigðismála séu skorin við nögl og að það standi í veginum fyrir að hið opinbera veiti eðlilega og sanngjarna þjónustu. Síðan er því haldið fram að ákvarðanir stjórnvalda um aukin útgjöld til þessa sama málaflokks, sem oftar en ekki felst í því að hækka laun starfsfólks í heilbrigðisþjónustunni, grafi undan stöðugleika í efnahagslífinu. Það má því með sanni segja að það sé vandlifað í henni veröld!

Ríkisstjórnin hefur lagt megináherslu á að treysta stöðu efnahagslífsins og stuðla að stöðugleika. Þetta markmið hefur verið haft að leiðarljósi við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2000 sem sýnir svo ekki verður um deilt að ríkisstjórnin hefur lagt sitt af mörkum til þess að hamla gegn þenslu og draga úr viðskiptahalla og verðbólgu. Með þessari stefnu er lagður grunnur að áframhaldandi styrkri stöðu efnahagsmála hér á landi sem er öllum landsmönnum fyrir bestu og mun, þegar til lengdar lætur, stuðla að áframhaldandi velmegun.

Þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að treysta enn frekar stöðu ríkisfjármála við fjárlagagerð ársins 2001 og stefna að enn meiri afgangi en á yfirstandandi ári. Í þessu skyni er sérstaklega horft til sparnaðar í almennum ríkisrekstri og framkvæmdum. Jafnframt eru nú til umfjöllunar á Alþingi frumvörp sem fela í sér heimildir til verulega aukins lífeyrissparnaðar. Af þessu má ráða að ríkisstjórnin leggur ofurkapp á það að efla innlendan sparnað og búa þannig í haginn fyrir framtíðina auk þess sem þetta mun hamla gegn innlendri eftirspurn og draga úr verðbólgu og viðskiptahalla.

Loks vil ég nefna að ríkisstjórnin ákvað að koma til móts við hugmyndir Flóabandalagsins um tilteknar aðgerðir í skattamálum til þess að greiða fyrir gerð kjarasamninga. Þótt þessi ákvörðun hafi í för með sér tekjutap á árinu 2000 hjá ríkissjóði vegur þyngra að með þessu móti hefur tekist að tryggja áframhaldandi stöðugleika í launamálum næstu 3-4 ár. Mér hefur stundum þótt skorta nokkuð á almennan skilning á þessu atriði. Það er til lítils gangs að reka ríkissjóð með afgangi ef allt er í uppnámi á almenna vinnumarkaðnum. Þá fer nú stöðugleikinn fyrir lítið.

3. Ísland og evran
Í lokin vil ég fara nokkrum orðum um hugsanleg áhrif Efnahags- og myntbandalags Evrópu og upptöku hinnar sameiginlegu myntar, evrunnar, á þróun mála hér á landi. Stofnun myntbandalagsins og upptaka evrunnar eru einhverjar mestu breytingar sem orðið hafa á sviði alþjóðaefnahagsmála á síðari hluta tuttugustu aldarinnar. Það fer auðvitað ekki hjá því að slíkar breytingar hafi áhrif á stöðu þeirra landa sem standa utan þessara samtaka, jafnt Íslands sem annarra landa. Tveir/þriðju hlutar okkar utanríkisviðskipta eru við aðildarríki Evrópusambandsins og einn/þriðji hluti við núverandi aðildarríki EMU. Þess vegna hljóta íslensk stjórnvöld að fylgjast grannt með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins og myntbandalagsins.

Af þessu tilefni skipaði forsætisráðherra nefnd fulltrúa stjórnvalda, atvinnulífs, launafólks og fjármálastofnana til þess að fjalla um þessi mál og ræða hugsanleg viðbrögð af okkar hálfu. Nefndin skilaði áfangaskýrslu fyrir 1S ári og benti á að stofnun þessa bandalags myndi hafa ýmis jákvæð áhrif hér á landi. Þannig myndi viðskiptakostnaður íslenskra fyrirtækja minnka og aukin hagkvæmni í viðskiptum innan bandalagsins að einhverju leuti skila sér til íslenskra neytanda. Hins vegar getur myntbandalagið einnig haft neikvæð áhrif á íslenskt efnahags- og atvinnulíf. Þannig getur samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja gagnvart evrópskum keppinautum versnað.

Nefndin lagði áherslu á mikilvægi þess að treysta undirstöður efnahagslífsins, ekki einungis í ljósi stofnunar myntbandalagsins heldur einnig með hliðsjón af þeirra róttæku breytinga sem orðið hafa með frjálsum fjármagnsviðskiptum. Hér gegnir stefnan í gengismálum lykilhlutverki.

Nefndin taldi ekki ástæðu til beinna aðgerða eða breytinga á fyrirkomulagi gengismála, að minnsta kosti ekki fyrr en sýnt væri hvernig færi um aðild Dana, Svía og Breta að myntbandalaginu. Hins vegar væri þeim mun mikilvægara að styrkja stjórn efnahagsmála almennt, þ.e. jafnt peningamála sem ríkisfjármála þar sem markvisst væri stefnt að afgangi á rekstri hins opinbera, minnkun skulda og eflingu þjóðhagslegs sparnaðar. Með þessu móti væri unnt að treysta stöðu efnahagsmála enn frekar og mæta hugsanlegum sveiflum í efnahagslífinu án verulegra breytinga á gengi krónunnar.

Þessi staða hefur í sjálfu sér ekki breyst. Hins vegar hafa Danir þegar ákveðið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild að EMU nú í haust og Svíar munu að öllum líkindum gera slíkt hið sama á næstu misserum. Staða Breta er enn óljós, en þó bendir flest til þess að ekki muni líða á löngu þar til ákvörðun um aðild verður tekin. Ennfremur er rétt að hafa í huga að nú standa fyrir dyrum viðræður um hugsanlega aðild fjölmargra Austur- og Mið-Evrópuríkja að Evrópusambandinu.

Það má því gera ráð fyrir að íslensk stjórnvöld þurfi fljótlega að meta stöðu okkar gagnvart Evrópusambandinu og hinni sameiginlegu mynt með tilliti til gengismála o.fl.

Ég vil einnig nefna að á vegum fjármálaráðuneytis og iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis hafa verið til skoðunar í að undanförnu möguleikar þess að heimila fyrirtækjum að færa bókhald sitt í evrum. Af þessu hlýst augljóslega ýmislegt hagræði fyrir fyrirtækin, en jafnframt eru fjölmörg álitamál sem varða framkvæmd skattlagningar o.fl. Ég tel mikilvægt að kanna allar hliðar þessa máls vandlega og flana ekki að neinu.

Það er mikilvægt að átta sig á því að Efnahags- og myntbandalagið er ekki takmark í sjálfu sér heldur snýst málið um að ríkin fylgi samræmdri efnahagsstefnu í því skyni að tryggja stöðugleika í verðlagsmálum og bæta þannig samkeppnisstöðu atvinnulífsins. EMU og sameiginlega myntin eru vitaskuld mikilvægir þættir í þessu samhengi, en meginatriðið er að efla samkeppni, auka hagvöxt og stuðla þannig að betri lífskjörum.

Með hliðsjón af þessu tel ég að íslensk stjórnvöld hafi brugðist rétt við stofnun myntbandalagsins og áhrifum þess á íslenskt efnhagslíf. Meginmálið til skamms tíma er að treysta innlenda efnahagsstjórn og búa íslensku atvinnulífi viðunandi starfskjör þannig að samkeppnisstaða þess verði styrkt. Það tel ég að hafi verið gert, bæði hvað varðar skattalegt umhverfi fyrirtækja og einstaklinga og eins og ekki síður með margvíslegum aðgerðum til þess að stuðla að áframhaldandi stöðugleika hér á landi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum