Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

06. apríl 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Aðalfundur Sambands íslenskra viðskiptabanka

Ræða fjármálaráðherra
á aðalfundi Sambands íslenskra viðskiptabanka
6. apríl 2000 á Grand Hótel

(Hið talaða orð gildir)


Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til að ávarpa þennan fund, sérstaklega þar sem nú er kjörinn tími til að koma á framfæri og kynna ýmsar nýjungar sem verið er að koma í framkvæmd um þessar mundir í ráðuneytinu. Mörg þessara atriða lúta að málum sem varða starfsemi ykkar beint og mun ég því eyða dágóðum tíma mínum hér í að kynna þessar nýjungar sem mikilvægastar eru á sviði lífeyrismála. Síðan mun ég fjalla aðeins um þann gamla danska skatt, stimpilgjaldið, sem okkur hefur reynst erfitt að losa okkur við. En víkjum þá að fyrirhuguðum breytingum:

Lífeyrismál
Síðar í dag mun ég væntanlega mæla fyrir frumvarpi á Alþingi þar sem lagt er til að í stað þess að launþegi geti dregið frá skattskyldum tekjum sínum 4% vegna lífeyrisiðgjalda í samtryggingarsjóð og allt að 2% vegna séreignarsparnaðar, verði honum gert kleift að draga frá tekjum sínum allt að 20% samtals vegna lífeyrissparnaðar, að hámarki þó 1,5 m. króna á ári. Þetta á við um hvort heldur sem iðgjald er greitt í sameignar- eða séreignarsjóði, skv. lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Þess ber að geta að annars konar sparnaðarform, svo sem innlögn á almennar bankabækur, veita ekki rétt til frádráttar. Meginbreytingin frá gildandi lögum er því sú að framlag launagreiðenda verður nú tekjufært í hendi launþega en á móti fær launþeginn mun rýmri rétt til frádráttar sem nemur allt að 20% í stað 6% áður.

Sem dæmi má nefna að launþegi sem í dag getur dregið allt að 6% eigið iðgjald frá tekjum og nýtur auk þess 6% framlags frá atvinnurekanda, eða samtals 12%, mun eftir breytinguna geta notið allt að 20% frádráttar. Rýmkunin er því 8%. Hér er um umtalsverða almenna rýmkun að ræða á þeim hluta launagreiðslna sem geta verið frádráttarbærar frá skatti með skipulögðum lífeyrissparnaði og njóta því skattfrestunar þar til útborgun úr lífeyrissjóði kemur til. Í þessu felst með öðrum orðum markviss hvatning til aukins sparnaðar.

Til að auka áhuga og fjárhagslegan ávinning einstaklinga á frekari lífeyrissparnaði er ennfremur lagt til að mótframlag launagreiðanda í formi lækkunar á tryggingagjaldi verði aukið úr 0,2% í allt að 0,4%. Markmiðið með hækkun mótframlagsins er fyrst og fremst að auka þjóðhagslegan sparnað, og að auka lífeyrissparnað þannig að lífeyrir verði í ásættanlegu hlutfalli við þau laun sem menn hafa yfir starfsævina. Þannig styrkja Íslendingar enn stöðu sína sem forystuþjóð á sviði lífeyrismála.

Reynst hefur erfitt að meta þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði þar sem upplýsingar liggja ekki fyrir á einum stað, en getgátur hafa verið um að þátttakan gæti verið um 15% þegar á heildina er litið. Vitað er að rúmlega þriðjungur ríkisstarfsmanna hefur aukið við lífeyrissparnað sinn með þessum hætti. Í könnun sem sem fyrirtækið PriceWaterhouseCoopers gerði í ársbyrjun fyrir fjármálaráðuneytið á þátttöku almennings í viðbótarlífeyrissparnaði kemur sú ánægjulega staðreynd í ljós að þátttakan virðist vera meiri en framangreindar getgátur segja til um. Þar kemur fram að rúmlega 27% þjóðarinnar nýtir sér nú þegar möguleikann á tveggja prósenta viðbótarsparnaðinum. Í könnuninni kemur ennfremur fram að fleiri konur en karlar hafa sparað í þessu formi, flestir þátttakendur eru á aldursbilinu 30-49 ára og virðist dreifingin jöfn á landinu öllu. Jafnframt var í könnuninni skoðaður ásetningur fólks til þess að bæta 2% við lífeyrissparnað sinn, og í ljós kom að rúm 41% aðspurðra hefðu slíkt í hyggju. Síðast en ekki síst kom fram í könnuninni að 44% þeirra sem spurðir voru töldu mjög eða frekar líklegt að þeir myndu nýta sér þann möguleika að verja hærra hlutfalli af skattskyldum tekjum til viðbótarlífeyrissparnaðar ef slíkt væri heimilt. Það er því von okkar að ofangreind rýmkun muni leiða til þess að áhugi almennings á þessu hagstæða sparnaðarformi muni aukast enn frekar.

Kaupréttur
Í fyrrnefndu frumvarpi sem ég mun mæla fyrir síðar í dag, er einnig að finna ný ákvæði um skattlagningu tekna á grundvelli svokallaðra kaupréttarsamninga á hlutabréfum starfsmanna í fyrirtækjum sem þeir vinna hjá. Kaupréttur sem hluti launakjara hefur verið að ryðja sér til rúms hér á landi og hefur þann mikilvæga kost að veita æ fleiri launamönnum beina hlutdeild í atvinnurekstri. Í gildandi lögum er ekki sérstaklega kveðið á um skattlagningu slíkra tekna og hefur það leitt til vandkvæða við upptöku kaupréttarkerfis hér á landi. Því er lagt til í frumvarpinu að tekin verði af öll tvímæli um hvernig skattskyldu slíkra tekna skuli háttað og þessum málum komið í fastan farveg.

Við samningu frumvarpsins var þess gætt að reglurnar yrðu einfaldar og skýrar og tækju mið af útfærslu reglna í þeim löndum sem mesta reynslu hafa á þessu sviði, svo sem Bandaríkjunum. Lagt er til að tvenns konar reglur gildi um skattlagningu þessara tekna, annars vegar meginregla og hins vegar sérregla.

Í meginreglunni felst að til skattskyldra tekna teljist mismunur á gangverði þegar kaupréttur er nýttur og þeirri fjárhæð sem starfsmaður greiðir fyrir hlutabréfin samkvæmt kaupréttarsamningi. Með gangverði er átt við skráð gengi á þeim tíma sem kaupréttur er nýttur. Hafi félag ekki skráð gengi skal miða við gangverð í viðskiptum með bréfin, annars bókfært verð eigin fjár samkvæmt síðasta endurskoðaða uppgjöri félagsins. Skattskyldan stofnast um leið og rétturinn er nýttur, þ.e. á þeim tíma þegar starfsmaður leysir til sín bréfin og greiðir fyrir þau hið fyrirfram ákveðna verð. Samkvæmt meginreglunni er því um að ræða endurgjald til starfsmanns fyrir vinnuframlag hans sem skattlagt er hjá honum eins og aðrar launatekjur. Þegar starfsmaður selur bréfin reiknast fjármagnstekjur af mismun söluverðs og gangverðs þegar hann nýtti kaupréttinn.

Í sérreglunni felst hins vegar að um tekjur starfsmanna vegna kaupréttar fari alfarið eins og um fjármagnstekjur sé að ræða að uppfylltum tilteknum skilyrðum og þær skattlagðar samsvarandi með 10% skatti. Skilyrðin eru m.a. þau að kauprétturinn nái til allra fastráðinna starfsmanna, að starfsmaðurinn verði að eiga bréfin í tvö ár eftir að hann nýtir kaupréttinn og að hámark kaupréttar hvers starfsmanns megi ekki vera hærra en 600 þúsund kr. á ári að kaupverði. Í þessu tilviki er gangverð og kaupverð hið sama. Jafnframt þarf félag sem hefur í hyggju að veita starfsmönnum sínum kauprétt samkvæmt sérreglu að senda áætlun um það fyrirfram til Ríkisskattstjóra til staðfestingar. Til skattskyldu samkvæmt sérreglunni stofnast því ekki fyrr en starfsmaðurinn selur bréf sín, en ekki þegar kauprétturinn er nýttur eins og samkvæmt meginreglunni. Er skattstofninn þá mismunur á upphaflegu kaupverði og söluverði bréfanna.

Með þessari lagasetningu er verið að svara kalli tímans og færa framkvæmd þessara mála í nútímalegt horf. Einnig er verið að koma til móts við óskir atvinnulífsins og er það mín von að þetta fyrirkomulag muni falla vel að þörfum þess.

Frádráttur vegna fjárfestinga í hlutabréfum
Önnur fyrirhuguð lagabreyting sem ég vil nefna varðar hlutabréfaafsláttinn svokallaða. Eins og kunnugt er hefur mönnum um árabil verið heimilt að draga frá tekjum sínum tiltekna fjárhæð vegna fjárfestinga í atvinnurekstri og hefur þetta án efa leitt til þess að þátttaka almennings á hlutabréfamarkaði hefur verið mun almennari en ella. Frádrátturinn hefur hingað til verið bundinn við fjárfestingu í innlendum hlutafélögum, en í frumvarpinu er hins vegar lagt til að frádráttarreglurnar verði rýmkaðar frá því sem nú er. Þar er lagt til að heimild til þess að draga frá tekjum einstaklinga fjárfestingu í hlutabréfum taki jafnt til innlendra sem erlendra félaga og þurfa erlendu félögin að fullnægja öllum þeim skilyrðum sem gerð eru til innlendu félaganna í lögunum. Leiðir breytingin m.a. af samningsskuldbindingum Íslands á grundvelli EES-samningsins, en Eftirlitsstofnun EFTA gerði athugasemd við íslensk stjórnvöld um núgildandi ákvæði.

Þessu tengt er breyting sem einnig er lagt til að ráðist verði í, en hún varðar eignarskattsfrelsi hlutabréfa að tilteknu marki. Hingað til hefur eignarskattsfrelsi verið bundið við innlend, skráð félög en það skilyrði verður nú fellt brott m.a. vegna athugasemda frá ESA.

Stimpilgjald
Að lokum vil ég fara nokkrum orðum um stimpilgjaldið sem löngu er orðið tímabært að endurskoða, þó ekki væri nema fyrir "aldurs sakir". Gildandi lög um stimpilgjald eru frá árinu 1978 og leystu þau af hólmi lög frá 1921. Í þeim er mælt fyrir um stimpilskyldu ýmissa viðskiptaskjala, svo sem kaupsamninga, hlutabréfa, skuldabréfa, víxla og afsala fyrir fasteignum og skipum, svo eitthvað sé nefnt. Gjaldið er á bilinu 0,25 til 2% af gjaldstofni, eftir því hvers kona skjal á í hlut.

Undanfarin misseri hefur farið fram nokkur umræða um breytingar á umræddum lögum. Árið 1994 skipaði þáverandi fjármálaráðherra nefnd til að semja nýtt frumvarp til laga um stimpilgjaldið og var það lagt var fram á Alþingi vorið 1998. Tillögur frumvarpsins voru einkum þær að laga gjaldtökuna eftir lengd lánstíma og samræma eftir lánsformum, auk ýmissa annara breytinga. Efni frumvarpsins mætti mikilli andstöðu ýmissa alþingismanna og hagsmunasamtaka og fór svo að frumvarpið náði ekki fram að ganga. Síðan þá hafa einungis verið gerðar smávægilegar breytingar á lögunum.

Meðal þeirra athugasemda sem gerðar voru við frumvarpið var að stimpilgjald væri úrelt form skattlagningar og að gjaldið skerti samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs. Í því sambandi var lögð rík áhersla á að víkkun gjaldstofnsins væri einungis til þess fallin að skerða hæfni innlendra fjármálafyrirtækja í alþjóðlegri samkeppni. Jafnframt var talsverð andstaða við þær hugmyndir sem lutu að stimpilskyldu vátryggingasamninga. Þá var bent á að frumvarpið væri í andstöðu við þróun í helstu viðskiptalöndum okkar sem stefndi í þá átt að draga úr eða afnema stimpilskyldu skjala.

Ég get vel tekið undir margt í þeirri gagnrýni sem fram hefur komið á gildandi lög um stimpilgjald, einkum í ljósi aukins frjálsræðis á fjármagnsmörkuðum þar sem fé streymir nánast óhindrað milli landa. Gildandi reglur leiða óhjákvæmilega til ákveðinnar mismununar milli innlendra og erlendra aðila og ýta væntanlega í einhverjum mæli íslenskum fyrirtækjum út á erlendan lánsfjármarkað. Við það er hins vegar að glíma að þessi tekjustofn skilar ríkissjóði u.þ.b. 3.000 millj. kr. í tekjur á ári. Því er ljóst að ekki er hlaupið að því að fella slíkan tekjustofn niður í einum áfanga.

Í ráðuneytinu hefur þegar farið fram skoðun á því með hvaða hætti unnt sé að sníða helstu agnúana af lögum um stimpilgjald með það að leiðarljósi að jafna samkeppnisstöðu innlendra aðila gagnvart erlendum keppinautum. Ljóst er að það verður vart gert öðruvísi en að tekjur ríkissjóðs af gjaldinu lækki eitthvað. Í þessu sambandi hefur verið litið til þess að samræma gjaldtökuna á einstaka flokka skjala og um leið og gjaldstofninn yrði þrengdur.

Eins og sakir standa er óljóst hvaða breytingar verða lagðar til í þessum efnum eða hve stórt skref er unnt að stíga í lækkun gjaldsins að svo stöddu.

Ég vil aftur þakka fyrir það tækifæri að fá að ávarpa þennan fund og vona að þær breytingar sem ég hef hér rakið komi ykkar starfsgrein til góða.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira