Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

25. október 2000 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Þing BSRB 2000 í Bíóborginni

Ávarp fjármálaráðherra
á þingi BSRB í Bíóborginni
25. október 2000

(hið talaða orð gildir)


Formaður BSRB, góðir þingfulltrúar og aðrir samkomugestir.


Ég vil byrja á því að óska ykur til hamingju með þessa glæsilegu samkomu. Það er mér ánægjuefni að fá tækifæri til að segja hér nokkur orð í dag.

Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur um áratuga skeið verið í fararbroddi í baráttu fyrir bættum kjörum og auknum réttindum opinberum starfsmönnum til handa. Sú braut hefur ekki alltaf verið greið.

Skipting afraksturs af atvinnustarfsemi milli launþega og atvinnurekenda hefur aldrei verið neitt sérstaklega einfalt mál. En samband vinnuveitenda og launþega í opinberri starfsemi er annars eðlis að því leyti að staðið er undir kjörum starfsmanna með skattgreiðslum almennings en ekki atvinnurekstrartekjum.

Hinn opinberi launagreiðandi fer jafnhliða vinnuveitendaskyldum sínum með ábyrgð á almannafé og sækir sitt samningsumboð til almennings en ekki hluthafa í fyrirtæki. Og hin opinbera þjónusta sem starfsmenn veita er oftar en ekki samfélagslegs eðlis og ekki sambærileg við hefðbundin markaðsviðskipti.

Þessar staðreyndir einfalda ekki alltaf málið. Og vissulega hefur í gegnum árin, eftir að samtök opinberra starfsmanna fengu fullan samningsrétt, verið tekist á, bæði við samningaborð og annars staðar. En ég hygg að alla jafna hafi bestur árangur náðst þegar menn hafa litið á samninga um kaup og kjör sem sameiginlegt viðfangsefni, þraut sem væri í beggja þágu að leysa friðsamlega innan þess heildarramma sem umhverfi og ytri aðstæður setja hverju sinni.

Í þessum anda hefur undanfarna mánuði verið unnið á vegum heildarsamtaka opinberra starfsmanna og fulltrúa ríkisins og annarra opinberra launagreiðenda að nýju samkomulagi um réttindamál starfsmanna. Það samkomulag náðist í gær og ég vil óska okkur öllum til hamingju með það.

Með þessu samkomulagi er fundinn farvegur fyrir nýja tilhögun fæðingarorlofs í samræmi við nýsett almenn lög um það efni og ítarlega kveðið á um veikinda- og slysarétt starfsmanna.

Einnig er komið á fót nýjum fjölskyldu- og styrktarsjóði með sérstökum framlögum launagreiðenda sem á sér samsvörun í sjúkrasjóðum almennu verkalýðsfélaganna. Ég tel að félagsmenn í félögum opinberra starfsmanna geti vænst mjög góðs af þessum nýja sjóði.

Segja má að í hinu nýja samkomulagi felist annars vegar aðlögun að því sem tíðkast hefur á hinum almenna vinnumarkaði en hins vegar einföldun á fyrra réttindakerfi opinberra starfsmanna. Hvort tveggja er til mikilla bóta.

Ég vil nota þetta tækifæri og þakka forystumönnum í heildarsamtökum opinberra starfsmanna fyrir gott samstarf um þessi mál að undanförnu. Ég nefni sérstaklega hversu ánægjulegt það er að fæðingarorlofsmálið skuli komið í höfn, svo flókið úrlausnar sem það mikilvæga mál var.

Annar málaflokkur þar sem orðið hafa umtalsverðar réttarbætur á undanförnum árum er á sviði lífeyrismála. Þar náðu menn afar mikilvægum árangri með nánu og góðu samstarfi.

Í öllum þessum málum hafa farið saman kröfur frá verkalýðshreyfingunni, ekki síst BSRB, og ásetningur stjórnvalda. Og mér er kunnugt um að hin sameiginlega niðurstaða, bæði í lífeyrismálunum og fæðingarorlofsmálinu hefur vakið athygli langt út fyrir landsteinana.

Ég vil nefna hér annað málefni þar sem þörf er á samstarfi ríkisins og heildarsamtaka opinberra starfsmanna. Það snertir endurskoðun samningsréttarlaganna frá 1986.

Ég hef ítrekað látið það koma fram af minni hálfu, á Alþingi og víðar, að fullt tilefni sé til slíkrar heildarendurskoðunar og ég sé fyrir mér að gömlu lögin frá 1915 um verkfall opinberra starfsmanna verði þá endanlega felld úr gildi.

Í þessu efni er af ýmsu að taka. Við slíka endurskoðun þarf m.a. að leggja mat á það að hve miklu leyti þörf er á sérstökum reglum um samingsumhverfi starfsmanna hins opinbera en jafnframt tryggja að hið opinbera geti jafnan sinnt samfélagslegum skyldum sínum.

Vænti ég góðs samstarfs við heildarsamtökin um þetta mál nú þegar réttindaviðræðurnar eru frá og þegar gengið hefur verið frá nýjum kjarasamningum við félögin.

Góðir fundarmenn.

Það eru sameiginlegir hagsmunir launþega, vinnuveitenda og stjórnvalda að bæta kjörin í landinu eins og kostur er. Og það hefur vissulega tekist svo um munar undanfarin ár. En það eru takmörk fyrir því hve unnt er að taka stór skref í einu og ráða þar mestu efnahagslegar forsendur og þanþol þjóðarbúsins.

Ýmsir telja að nú orðið sé það aðeins tæknilegt úrlausnarefni að reikna út hvar þau mörk liggja hverju sinni. Samt sem áður má það ekki verða hlutverk sérfræðinganna einna að hafasíðasta orðið um gerð kjarasamninga, þar verða rétt kjörnir forystumenn að koma til og axla sína ábyrgð. Gömul reynsla sýnir að sígandi lukka, þegar hægt en örugglega miðar í rétta átt, er best í þessum efnum og launamanninum drýgri en þegar tímabil vaxandi og minnkandi kaupmáttar skiptast á.

Nú er framundan gerð kjarasamninga við stéttarfélög opinberra starfsmanna í stað þeirra sem falla úr gildi um næstu mánaðamót. Undirbúningur er þegar hafinn fyrir nokkru síðan. Mikilvægt er að vinna að þeim samningum í sama anda og unnið hefur verið að réttindamálunum og leita sameiginlegra lausna í góðu samstarfi.

Ekki verður í komandi samningum litið fram hjá þeirri almennu launaþróun sem samið var um á almenna vinnumarkaðnum fyrr á þessu ári. Til lengri tíma litið er ekki eðlilegt að veruleg frávik séu í kjaraþróun opinberra starfsmanna og annarra þótt þessir aðilar geri sjálfstæða samninga og sveiflur geti verið í launaþróun innan styttri tímabila. Hins vegar eru ýmis sérmál er varða félög opinberra starfsmanna sem nú gæti verið lag að koma í höfn. Má þar nefna áframhald þeirrar þróunar að auka hlutfall dagvinnu í heildarlaunum, símenntun starfsmanna og almenna starfs- og endurmenntun, aukinn sveigjanleika í vinnutíma til að gera fólki auðveldara að samræma fjölskyldulíf og vinnu, eflingu séreignarhluta Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, tryggari stöðu trúnaðarmanna á vinnustöðum og auk margra fleiri sérmála einstakra félaga.

Það er von mín að okkur takist í sameiningu að finna farsæla lausn á þessum mikilvægu málum.

Að endingu vil ég óska þingfulltrúum á 39. þingi BSRS allra heilla í þingstörfunum. Ég hlakka til áframhaldandi samstarfs við ykkur.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum