Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

09. október 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Fjárlagaræða fyrir árið 2002

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

4. október 2001
Talað orð gildir


Herra forseti

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2002. Í ræðu minni mun ég fjalla um megináherslur ríkisstjórnarinnar í efnahags- og ríkisfjármálum eins og þær birtast í þessu fjárlagafrumvarpi. Auk þess mun ég gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins og þeim forsendum sem frumvarpið byggir á, en mun ekki fjalla um einstakar fjárveitingar í frumvarpinu.

Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum
Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2002 endurspeglar að mörgu leyti breytta stöðu efnahagsmála. Eftir kröftuga efnahagsuppsveiflu síðustu ár hefur hagkerfið færst nær jafnvægi á nýjan leik. Verulega hefur dregið úr innlendri eftirspurn og viðskiptahalli minnkar óðfluga. Einnig eru horfur á að verulega dragi úr verðbólgu á næstunni. Í kjölfarið hefur hagvöxtur minnkað. Þessi þróun leiðir óhjákvæmilega til minni tekjuauka hjá ríkissjóði. Við þessar aðstæður er eðlilegt að afgangur á ríkissjóði verði minni en verið hefur á undanförnum árum. Hins vegar er afar mikilvægt að áfram verði fylgt aðhaldssamri stefnu í ríkisfjármálum. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að afgangur á ríkissjóði á árinu 2002 verði 18,6 milljarðar króna, eða sem nemur tæplega 2S% af landsframleiðslu. Lánsfjárafgangur verður mun meiri, eða rúmlega 41 milljarður króna. Þessi niðurstaða er til marks um þann árangur sem náðst hefur í stjórn efnahagsmála hér á landi á undanförnum árum og er í fullu samræmi við þá meginstefnu ríkisstjórnarinnar að viðhalda stöðugleika, styrkja undirstöðu atvinnulífsins og stuðla að áframhaldandi lífskjarabót fyrir fólkið í landinu. Reiknað er með að hreinar skuldir ríkisins verði komnar niður í 14% af landsframleiðslu undir lok næsta árs. Þetta þýðir að í fyrirsjáanlegri framtíð má gera ráð fyrir því að ríkið verði í heildina lánveitandi, en ekki skuldari, þótt vissulega muni ríkið halda áfram að gegna hlutverki sínu á lánamarkaði með útgáfu skuldabréfa.

Svigrúm til skattalækkunar
Við þessar aðstæður eru veigamikil rök fyrir því að lækka skatta, jafnt á fyrirtækjum sem einstaklingum. Með skynsamlegum skattaaðgerðum er hægt að koma í veg fyrir neikvæða keðjuverkun í efnahagslífinu og ríkisvaldið getur þannig verið aflvaki í jákvæðum viðbrögðum hagkerfisins við niðursveiflunni. Ríkisstjórnin hefur því ákveðið að beita sér fyrir umfangsmiklum skattkerfisbreytingum sem munu koma til framkvæmda á næstu tveimur árum. Þessar aðgerðir voru kynntar af fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í gær og mun ég mæla fyrir frumvarpi þess efnis á Alþingi á næstunni. Þær breytingar sem eru fyrirhugaðar eru meðal annars að tekjuskattur fyrirtækja verður lækkaður um nær helming. Sérstakur eignarskattur fyrirtækja og einstaklinga verður felldur niður og almennur eignarskattur lækkaður um helming. Stimpilgjald verður lækkað. Verðbólgureikningsskil verða afnumin og fyrirtækjum heimilað að færa bókhald og ársreikninga í erlendri mynt. Jafnframt verða fríeignamörk í eignarskatti hækkuð verulega á næsta ári til að koma í veg fyrir að nýleg hækkun fasteignamats leiði til hækkunar eignarskatta. Þá hækka viðmiðunarmörk í sérstökum tekjuskatti einstaklinga, hinum svokallaða hátekjuskatti, umtalsvert. Skatthlutfall í hinum almenna tekjuskatti einstaklinga lækkar um 0,33% og skattlagning á húsaleigubætur verður afnumin. Á móti er gert ráð fyrir smávægilegri hækkun á tryggingagjaldi til þess að geta stigið stærri skref en ella í skattalækkunum. Markmiðið með þessum skattbreytingum er að sjálfsögðu fyrst og fremst að örva atvinnulífið og skapa með því ný og meiri verðmæti í þjóðarbúið.

Ríkissjóður nú reiðubúinn
Þessar aðgerðir eru mögulegar nú vegna þeirra umbóta sem orðið hafa í rekstri ríkissjóðs á undanförnum árum. Ríkisvaldið er nú í stakk búið til að bregðast við hinum breyttu aðstæðum efnahagslífsins á jákvæðan og uppbyggilegan hátt í stað fálmkenndra handaflsaðgerða sem við Íslendingar þekkjum allt of vel. Hlutverk ríkisins sem sveiflujafnandi stjórntæki hefur verið styrkt og það er mjög í samræmi við góða hagstjórn að ríkið geri fyrirtækjum og einstaklingum auðveldara um vik með því að lækka skatta þegar efnahagsumhverfið er viðkvæmt.

Unnið er að frekari umbótum á skattkerfinu
Ríkisstjórnin hefur að auki ákveðið að beita sér fyrir lagabreytingum til að koma í veg fyrir að stórhækkun fasteignamats leiði til hækkunar eignarskatta á næsta ári. Ennfremur tekur um næstu áramót gildi næstsíðasti áfangi þess að persónuafsláttur verði að fullu millifæranlegur milli maka. Verður á næsta ári unnt að millifæra 95% hans milli maka í stað 90% á þessu ári og árið 2003 verður persónuafslátturinn að fullu millifæranlegur.

Aðgerðirnar styrkja atvinnulífið og efla sparnað
Þær aðgerðir sem kynntar voru í gær munu styrkja samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja, gera íslenskt skattaumhverfi enn hagstæðara í alþjóðlegum samanburði og skapa þannig í senn forsendur fyrir því að erlend fyrirtæki flytji hingað starfsemi sína og draga úr líkum á því að íslensk fyrirtæki flytji starfsemi sína af landi brott af skattalegum ástæðum. Öll þessi atriði munu hafa jákvæð áhrif á atvinnulífið, skapa góðar forsendur fyrir frekari uppbyggingu þess og renna traustari stoðum undir íslenskt efnahagslíf. Lækkun eignarskatta er ennfremur rökrétt miðað við ríkjandi aðstæður hér á landi og stuðlar að auknum þjóðhagslegum sparnaði.

Veigamikil rök eru fyrir þessum breytingum
Efnahagsleg rök fyrir þessum breytingum eru margvísleg. Nú er tæplega áratugur frá því að gripið var til umfangsmikilla skattalækkana á fyrirtæki til þess að treysta stöðu atvinnulífsins og koma efnahagslífinu upp úr þeirri lægð sem þá hafði ríkt um margra ára skeið. Hæst bar verulega lækkun tekjuskatts fyrirtækja og afnám aðstöðugjalds. Með þessu varð skattalegt umhverfi fyrirtækja hér á landi með því besta sem þekktist í okkar helstu viðskiptalöndum. Íslenskt atvinnulíf býr að vissu leyti við erfiðari aðstæður en erlend fyrirtæki, meðal annars vegna smæðar markaðarins, fjarlægðar frá erlendum mörkuðum og þar með meiri flutningskostnaðar o.fl. Þess vegna skiptir jafnvel enn meira máli hér á landi en annars staðar að skapa atvinnulífinu starfsskilyrði sem eru ekki aðeins sambærileg við önnur lönd heldur betri.

Skattalegt forskot fyrri ára er að mestu horfið
Margt bendir hins vegar til þess að íslenskt atvinnulíf búi ekki lengur við það forskot sem hér ríkti í skattalegu tilliti á síðasta áratug. Þetta á bæði við um tekjuskattshlutfallið, sem í dag er einungis um meðallag OECD-ríkjanna, en var langt fyrir neðan það fyrir tæplega áratug. Einnig er rétt að hafa í huga að samhliða lækkun skatthlutfallsins hér á landi var skattstofninn breikkaður með afnámi hvers kyns frádráttarheimilda og er hann óvíða jafn breiður og hér. Tillögur OECD í nýlegri úttekt á íslenska skattkerfinu hníga í sömu átt.

Staða atvinnulífsins er einnig þrengri en oft áður
Ennfremur er afkoma atvinnulífsins lakari en verið hefur um nokkurt skeið sem meðal annars má rekja til minnkandi eftirspurnar, innanlands sem erlendis. Að nokkru má rekja þetta til utanaðkomandi áhrifa þar sem sú staða er nú uppi í alþjóðaefnahagsmálum að nánast öll helstu ríki heims eiga við nokkra efnahagsörðugleika að stríða og hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafa enn frekar aukið þar við. Verulega hefur hægt á hagvexti í Bandaríkjunum og Evrópu að undanförnu og ekkert lát er á efnahagserfiðleikum í Japan. Sömu sögu er að segja af mörgum þróunarríkjum og ríkjum Asíu og Suður-Ameríku. Áhrifa þessa gætir að sjálfsögðu einnig hér á landi enda mörg þessara ríkja mikilvægir viðskiptaaðilar. Einnig hefur hægt verulega á innlendri eftirspurn eftir mikinn uppgang síðustu ára með tilheyrandi útgjaldaþenslu jafnt hjá heimilum sem fyrirtækjum. Hvort tveggja hefur skilað sér í lakari afkomu fyrirtækja og í einstaka tilvikum hefur það leitt til uppsagna starfsfólks þótt í litlum mæli sé.

Skattalækk-un skilar sér fljótt til heimila og fyrirtækja
Að öllu samanlögðu verður því að telja afar sterk efnahagsleg rök fyrir því að grípa til slíkra aðgerða nú. Áhrif skattalækkunar hjá fyrirtækjum og einstaklingum eru jákvæð í efnahagslegu tilliti. Fyrstu áhrif slíkra aðgerða munu skila sér tiltölulega fljótt og birtast í auknum umsvifum í efnahagslífinu, meðal annars vegna aukinna fjárfestinga sem leiðir til aukinnar atvinnu og aukinna tekna heimila og betri afkomu fyrirtækja. Aukinn hagvöxtur og almenn umsvif í efnahagslífinu munu aftur skila sér í auknum skatttekjum ríkissjóðs.

Hvatning til verðmætasköpunar
Það er því mikið gleðiefni að ríkisstjórnin geti við þessar aðstæður haldið áfram að styrkja undirstöður atvinnulífsins. Og haldið fast við þá stefnu, sem gefist hefur þjóðinni vel undanfarinn áratug, að markmið ríkisins sé að búa fyrirtækjum og einstaklingum slíkt umhverfi að það hvetji til aukinnar verðmætasköpunar. Ég trúi því að affærasælast sé að afla verðmætanna fyrst og ráðstafa þeim svo – en ekki ráðstafa verðmætunum fyrst og vona svo það besta. Við Íslendingar þekkjum slík vinnubrögð alltof vel og vitum í hvaða ógöngur þau hafa leitt okkur.

Mikilvægir áfangar í sölu ríkisfyrirtækja á næstunni
Á þessu ári og því næsta verða stigin veigamikil skref varðandi sölu ríkisfyrirtækja. Hér vegur þyngst sala á stærstum hluta ríkisins í Landssímanum, Landsbanka og Búnaðarbanka. Þessi sala mun skila umtalsverðum tekjum í ríkissjóð og gefa færi á að lækka skuldir ríkissjóðs svo um munar. Ekki er síður mikilvægt að með þessum aðgerðum er dregið marktækt úr ríkisumsvifum og stuðlað að bættri samkeppnisstöðu atvinnulífsins á alþjóðamarkaði. Jafnframt má gera ráð fyrir að þær hleypi nýju lífi í hlutabréfaviðskipti og verði til þess að örva atvinnulífið og styrkja þannig almenna stöðu efnahagsmála.

Þáttaskil í efnahagsmálum
Að undanförnu hafa orðið þáttaskil í efnahagsmálum. Verulega hefur hægt á hagvexti og innlendri eftirspurn eftir mikla uppsveiflu síðustu ára. Þessi þróun er að mörgu leyti jákvæð. Þannig eru ótvíræð merki um að viðskiptahallinn sem varð til á uppgangsárunum sé nú á hröðu undanhaldi og að hagkerfið sé að færast í átt til aukins jafnvægis. Nýjustu spár benda til þess að hallinn lækki umtalsvert þegar á þessu ári og hinu næsta og verði, að óbreyttu, kominn niður undir 3% af landsframleiðslu á árunum 2003-2004. Jafnframt eru horfur á að verðbólga fari ört minnkandi á næstu mánuðum og verði komin á svipað ról og í helstu nágrannaríkjunum innan fárra missera. Ennfremur er rétt að benda á að viðskiptahallinn hefur nær alfarið stafað af auknum útgjöldum einkaaðila, heimila jafnt sem fyrirtækja og sveitarfélaga, þar sem ríkissjóður hefur skilað umtalsverðum afgangi á undanförnum árum.

Ákveðin samdráttarmerki eru þó framundan
Þótt minnkandi verðbólga og viðskiptahalli í kjölfar minni þenslu í efnahagslífinu séu fagnaðarefni er ástæða til þess að vera á varðbergi gagnvart vísbendingum um hugsanlegan samdrátt. Of hröð kæling hagkerfisins getur leitt til samdráttar sem gæti reynst erfitt að vinda ofan af á skömmum tíma. Að undanförnu hafa komið fram marktækar vísbendingar um að verulega hafi dregið úr hagvexti og er það hlutverk ríkisins að hafa sveiflujafnandi áhrif á þróunina og grípa til viðeigandi aðgerða til þess að efla atvinnulífið í landinu.

Megináherslur í hagstjórn eru að treysta hagvöxt
Við þessar aðstæður hljóta megináherslur í hagstjórn, jafnt í ríkisfjármálum sem peningamálum, að miða að því að bæta rekstrarskilyrði atvinnulífsins, meðal annars með því að hamla gegn verðbólgu, og stuðla að auknum hagvexti. Þær aðgerðir sem boðaðar eru í þessu frumvarpi taka mið af þessum sjónarmiðum. Lækkun skatta og einkavæðingaráform ríkisstjórnarinnar eru mikilvægt framlag til þess að renna styrkum stoðum undir efnahagslífið og treysta atvinnu og almenn lífskjör í landinu sem eru meginmarkmið fjárlagafrumvarpsins.

Herra forseti.

Ég mun nú víkja nánar að helstu þáttum fjárlagafrumvarpsins, bæði hvað varðar einstaka efnisþætti á tekju- og gjaldahlið og helstu efnahagsforsendur þess.

Breytt staða efnahagsmála
Eins og ég nefndi áðan hefur staða efnahagsmála breyst í ýmsum veigamiklum atriðum á þessu ári. Í stað eftirspurnarþenslu gætir nú slaka og jafnvel samdráttar í sumum atvinnugreinum. Þessi snöggu umskipti koma í kjölfar mikilla hræringa á fjármagnsmarkaði á vordögum þar sem gengi krónunnar lækkaði mikið í kjölfar þess að horfið var frá vikmörkunum. Viðbrögðin í hagkerfinu hafa einnig á margan hátt verið með líkum hætti og vænta mátti við slíkar aðstæður. Innflutningsverðlag hækkaði verulega sem aftur leiddi til aukinnar verðbólgu. Jafnframt dró mjög úr innflutningi og staða þjóðarbúsins gagnvart útlöndum fór batnandi. Eins og við var að búast hafði gengislækkunin hins vegar örvandi áhrif á útflutningsgreinarnar og leiddi til þess að samkeppnisstaða þeirra hefur stórbatnað.

Ekki efnahagslegar forsendur fyrir mikilli gengislækkun
Að mínu mati voru ekki efnahagslegar forsendur fyrir jafn mikilli gengislækkun íslensku krónunnar og varð síðast liðið sumar. Gildir þar einu hvort litið er á raungengi krónunnar í sögulegu samhengi eða á stöðu og horfur í efnahagsmálum almennt. Svipaðar skoðanir hafa reyndar komið fram af hálfu Seðlabanka og fjármálafyrirtækja. Bent hefur verið á að óróleiki og óvissa á fjármálamarkaði hafi haft hér mikil áhrif og jafnvel orðið til þess að gengislækkunin varð meiri en efnahagslegar forsendur voru fyrir.

Hlutverk ríkisfjármála í hagstjórn breytist
Við þá þróun sem orðið hefur á nýliðnum árum á íslenskum fjármagnsmarkaði og með auknu sjálfstæði Seðlabankans við mótun peningamálastefnunnar hefur orðið ákveðin breyting á hagstjórnarhlutverki ríkisfjármála. Þannig er ekki hægt að beita ríkisfjármálum með sama hætti og áður til að breyta raunstærðum í efnahagslífinu með skjótvirkum hætti. Þess í stað verður hlutverk ríkisfjármála í ríkari mæli en áður að tryggja stöðugleika í efnahagsmálum þegar til lengri tíma er litið. Þetta verður best gert með því að tryggja viðunandi afgang á rekstri ríkissjóðs og að rekstrarumhverfi í landinu miði að því að ná fram sem mestri hagkvæmni hvort sem er í rekstri heimila eða fyrirtækja.

Ríkisfjármálastefnan hefur stutt við stefnuna í peningamálum
En ríkisfjármálin snúast ekki einvörðungu um langtímamarkmið. Stuðningur við stefnuna í peningamálum er einnig mikilvægur. Á undanförnum árum hefur rekstur ríkissjóðs skilað myndarlegum afgangi, bæði þegar á heildina er litið og eins, sem ekki er síður mikilvægt, þegar áhrif hagsveiflunnar eru undanskilin. Þannig nam afgangurinn á síðast talda mælikvarðann tæplega 3S% af landsframleiðslu á árunum 1999-2000. Á þessu ári er hins vegar útlit fyrir að sveifluleiðréttur afgangur verði mun minni, eða um 1% af landsframleiðslu. Þessa breytingu má einkum rekja til fárra, en kostnaðarsamra, útgjaldatilefna, einkum á sviði félags- og tryggingamála. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2002 er aftur á móti gert ráð fyrir að sveifluleiðréttur afgangur aukist á nýjan leik og verði 2S% af landsframleiðslu. Þessi þróun sýnir svo ekki verður um villst að ríkisfjármálin hafa stutt dyggilega við stefnuna í peningamálum á undanförnum árum og þannig dregið úr áhrifum ýmissa miður æskilegra fylgikvilla efnahagsuppsveiflunnar.

Vaxtastigið og verðbólgan
Hátt vaxtastig hér á landi hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu og þær raddir orðið æ háværari sem telja tímabært að Seðlabankinn lækki vexti. Það er ljóst að það verðbólguskot sem fylgdi í kjölfar gengislækkunar krónunnar fyrr á þessu ári hefur orðið til þess að Seðlabankinn hefur beitt sér af meira afli en fyrr í því skyni að halda stýrivöxtum háum og það jafnvel þótt töluverðra samdráttareinkenna sé nú farið að gæta í efnahagslífinu. Rök bankans hafa verið að enn séu ekki komin fram nægjanlega skýr merki um að þenslan í hagkerfinu sé í rénun til þess að réttlæta lækkun vaxta og hefur í þessu samhengi einkum vísað til stöðunnar á vinnumarkaði.

Vaxtalækkun nálgast
Að öllu samanlögðu sýnist mér að sú stund hljóti að nálgast óðfluga að vextir verði lækkaðir. Annars vegar hlýtur að þurfa að horfa til þess að verðbólgan er að ganga hratt niður í kjölfar tímabundins verðbólguskots í sumar og haust. Hins vegar er ljóst að íslenskt atvinnulíf getur ekki til lengdar lifað við það vaxtastig sem nú ríkir og það kann að hafa afdrifaríkar afleiðingar í för með sér og jafnvel birtast í aukinni verðbólgu þegar upp er staðið.

Efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins
Sú aðlögun sem nú á sér stað í hagkerfinu mun að verulegu leyti móta efnahagsumgjörðina á næsta ári. Svigrúm til hagvaxtar er takmarkað og líkur á að heimilin og fyrirtæki í landinu verði að búa sig undir breyttar aðstæður frá því sem verið hefur á allra síðustu árum.

Ég vil í þessu samhengi fara nokkrum orðum um efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og þann mun sem er á þeim og nýjustu spá Þjóðhagsstofnunar sem talsvert hefur verið til umræðu síðustu daga. Fyrst vil ég segja að þessi umræða hefur verið býsna yfirlýsingakennd og borið vott um að menn hafi ekki kynnt sér staðreyndir málsins til hlítar. Þannig er að við gerð og lokafrágang tekju- og gjaldaáætlana fjárlagafrumvarps er höfð hliðsjón af nýjustu spám Þjóðhagsstofnunar eins og kveðið er á um í lögum. Hér er af ásettu ráði ekki kveðið fastar að orði enda getur auðvitað komið upp sú staða að nauðsynlegt sé að víkja frá spánni í tilteknum atriðum, meðal annars vegna þess að oft liggur endanleg þjóðhagsspá ekki fyrir þegar lokafrágangur fjárlagafrumvarpsins fer fram. Við hvaða spá á þá að miða? Það frávik sem nú er til staðar milli efnahagsforsendna fjárlagafrumvarpsins og þjóðhagsáætlunar felst reyndar fyrst og fremst í mismunandi mati á efnahagsþróuninni á árinu 2001. Það sem við í fjármálaráðuneytinu lesum út úr tölum um innheimtu skatttekna það sem af er þessu ári bendir einfaldlega til þess að samdráttur þjóðarútgjalda sé meiri en gert er ráð fyrir í þjóðhagsáætlun. Jafnframt sýnist okkur að útflutningsspá þjóðhagsáætlunar sé því miður í hærri kantinum. Samanlagt leiðir þetta til þess að hagvöxtur samkvæmt áætlunum ráðuneytisins er um 1,5%, eða tæplega 0,5% lægri en í þjóðhagsáætlun. Hvað næsta ár varðar munar mestu um mismunandi mat á verðbólguhorfum. Spá ráðuneytisins er um 5% meðalverðbólgu milli ára, sem er svipað og síðasta spá Seðlabankans gerði ráð fyrir, en tæplega 1% lægri en í þjóðhagsáætlun. Hins vegar er spá um verðbólgu frá upphafi til loka 2002 svipuð, eða nálægt 3%. Þessi munur leiðir til þess að kaupmáttur ráðstöfunartekna er talinn standa sem næst í stað á næsta ári, en hann dregst saman um 1% í þjóðhagsáætlun. Þar af leiðandi er einkaneyslan talin verða óbreytt, samanborið við 0,5% samdrátt í þjóðhagsáætlun. Ennfremur höfum við leyft okkur að vera bjartsýnni hvað varðar almennar fjárfestingarhorfur á næsta ári og byggjum það meðal annars á því að þær skattalækkanir sem ríkisstjórnin hefur nú ákveðið muni hafa jákvæð áhrif á almennar væntingar fyrirtækja og einstaklinga þegar á næsta ári. Auk þess má búast við því að þessar skattalækkanir hafi veruleg og jákvæð áhrif á sölu þeirra ríkisfyrirtækja sem nú hefur verið ákveðin.

Ég tel því fráleitt að hlaupa upp til handa og fóta út af því að forsendum fjárlagafrumvarpsins ber ekki að öllu leyti saman við þjóðhagsáætlun. Munurinn á þessu er óverulegur eins og sést af því að landsframleiðslan í fjárlagafrumvarpinu er í krónum talið ívið lægri á árinu 2002 en í þjóðhagsáætlun. Það er því rækilegt vindhögg að halda því fram, eins og formaður Samfylkingarinnar hefur gert, að efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins feli í sér tilraun til þess að fegra afkomu ríkissjóðs. Ef eitthvað er myndi afgangurinn vera meiri á forsendum þjóðhagsáætlunar.

Hagvöxtur verður tiltölulega hægur á næsta ári
Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að hagvöxtur á árinu 2001 geti orðið um 1S%. Það þýðir í raun að tekjur þjóðarinnar standa sem næst í stað að raungildi miðað við hvern íbúa. Á næsta ári er í forsendum fjárlagafrumvarps gert ráð fyrir heldur minni hagvexti, eða nálægt 1%, en síðan mun hagvöxtur glæðast á nýjan leik og verða á bilinu 2-3% næstu árin og reyndar enn meiri ef hafist verður handa um þau stóriðjuáform sem nú eru til umræðu.

Viðskiptahallinn minnkar verulega á næstu árum
Horfur um þróun utanríkisviðskipta í ljósi almennrar efnahagsþróunar gefa fyrirheit um jákvæða þróun viðskiptahallans á næstunni. Eins og nú horfir má fastlega gera ráð fyrir að í ár verði viðskiptahallinn töluvert lægri en fyrri spár gáfu til kynna. Í forsendum fjárlagafrumvarpsins er gert ráð fyrir að viðskiptahallinn verði um 58 milljarðar króna á þessu ári og rúmlega 40 milljarðar á árinu 2002. Þessi niðurstaða byggist meðal annars á væntingum um áframhaldandi samdrátt innflutnings eftir því sem hagkerfið lagar sig að nýju raungengi krónunnar.

Engin kreppa framundan
Í þessu sambandi er þó mikilvægt að undirstrika að tekjur þjóðarbúsins eru nú í sögulegu hámarki og þau umskipti sem felast í þessum efnahagshorfum endurspegla fyrst og fremst aðlögun að nýju jafnvægi eftir óvenjusnarpt hagvaxtarskeið fremur en að efnahagskreppa sé skollin á. Hins vegar má gera ráð fyrir að hryðjuverkin í Bandaríkjunum hafi einhver neikvæð áhrif á efnahagsþróunina hér á landi sem annars staðar. Hversu mikil slík áhrif kunna að verða og hvenær þau koma fram er hins vegar mjög erfitt að segja til um.

Áfram traustur afgangur á ríkissjóði
Eins og ég gat um fyrr er gert ráð fyrir að tekjuafgangur ríkissjóðs verði 18,6 milljarðar árið 2002, samanborið við um 21 milljarðs króna afgang á yfirstandandi ári. Lækkunin skýrist alfarið af minni söluhagnaði eigna. Þar sem tekjur af sölu eigna á árinu 2001 skila sér að mestu í sjóðstreymi næsta árs, verður lánsfjárafgangur árið 2002 óvenju mikill, eða sem nemur rúmlega 41 milljarði króna, samanborið við tæplega 6 milljarða neikvæða stöðu í ár. Það er því eðlilegt að skoða þessi tvö ár saman, en þau sýna að samanlagður lánsfjárafgangur verður um 35 milljarðar króna gangi áætlanir um sölu eigna eftir. Ég tel að þetta sé mjög ásættanleg niðurstaða og í raun mikið fagnaðarefni að íslenska ríkið skuli geta haldið áfram að greiða niður skuldir og búið þannig enn betur í haginn fyrir atvinnulífið og komandi kynslóðir. Þótt almenn sala á hlutabréfum í Landssímanum hafi ekki gengið sem skyldi í fyrstu umferð er ég sannfærður um að þetta er tímabundið ástand enda benda fyrstu viðbrögð kjölfestufjárfesta til þess að þeir telji Landssímann áhugaverðan fjárfestingarkost. Líklegt verður einnig að telja að breytt skattumhverfi, sem nú hefur verið kynnt, auki verðmæti fyrirtækisins.

Hver er besti mælikvarðinn á afkomu ríkissjóðs?
Í þessu samhengi vil ég víkja nokkrum orðum að þeirri umræðu sem orðið hefur um afkomu ríkissjóðs í kjölfar birtingar á ríkisreikningi fyrir árið 2000 sem hefur vakið furðu margra. Það er til dæmis ekki með nokkurri sanngirni hægt að halda því fram að niðurstaða ríkisreiknings fyrir árið 2000 hafi verið "gríðarlegt áfall" eins og sagt hefur verið. Þótt vissulega sé hægt að lesa út úr ríkisreikningi stórt frávik frá fjárlögum síðasta árs verður að gera þá kröfu að menn horfi til þeirra sérstöku atriða sem hér búa að baki. Skýringarnar á þessu liggja ljósar fyrir og höfðu nákvæmlega ekkert með svonefnd lausatök í ríkisfjármálum að gera eins og rækilega er útskýrt í þessum sama ríkisreikningi. Þar kemur skilmerkilega fram að frávikið stafar alfarið af færslu ýmissa óreglulegra liða, svo sem lífeyrisskuldbindinga, skattaafskrifta o.fl. Að þessum liðum frátöldum fæst mun réttari mynd af rekstri ríkisins sem sýnir að tekjuafgangurinn vex milli áranna 1999 og 2000, en lækkar hins vegar aftur á árunum 2001 og 2002 í takt við minnkandi efnahagsumsvif. Sambærileg þróun sést einnig þegar skoðaðir eru útreikningar á sveifluleiðréttri afkomu ríkissjóðs eins og áður hefur komið fram.

Botni hagsveiflunnar er senn náð
Ein meginforsenda tekjuáætlunar fjárlagafrumvarps fyrir árið 2002 er að botni hagsveiflunnar verði senn náð og að hagvöxtur muni smám saman aukast á næstu árum. Gert er ráð fyrir að verulega dragi úr verðbólgu á næsta ári og að hækkunin innan ársins verði nálægt 3%. Kaupmáttur ráðstöfunartekna á mann er því talinn haldast nokkurn veginn óbreyttur á næsta ári. Hins vegar er gert ráð fyrir að einkaneysluútgjöld á mann dragist lítillega saman og að sparnaður heimilanna muni því aukast. Að öllu samanlögðu er gert ráð fyrir að þótt hagvöxtur verði minni á næsta ári en í ár geti hann orðið um 1%. Í þessu sambandi geta skattalækkunaráform ríkisstjórnarinnar skipt sköpum enda hljóta þau að hafa veruleg áhrif á væntingar jafnt heimila sem fyrirtækja og þar með fjárfestingaráform o.fl. Í forsendunum er ennfremur miðað við að gengi krónunnar muni heldur styrkjast á næsta ári.

Skatttekjur standa í stað að raungildi
Á þessum forsendum eru skatttekjur ríkissjóðs taldar geta numið rúmlega 222 milljörðum króna en heildartekjur ríkissjóðs um 258 milljörðum. Samkvæmt þessum áætlunum standa skatttekjur nánast í stað að raungildi en heildartekjur lækka um tæplega 8 milljarða. Hér skiptir mestu að fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir minni tekjum af sölu eigna en á yfirstandandi ári. Tekjuskattar einstaklinga hækka í takt við hækkun launa. Tekjur af virðisaukaskatti eru óbreyttar að raungildi. Hins vegar er gert ráð fyrir að tekjuskattur lögaðila og fjármagnstekjuskattur skili mun minni tekjum en í ár vegna lakari afkomu fyrirtækja og versnandi stöðu og minni umsvifa á fjármagnsmarkaði.

Annar áfangi hækkunar barnabóta kemur til framkvæmda
Um næstu áramót kemur til framkvæmda annar áfangi af þremur í hækkun barnabóta. Þetta er í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og yfirlýsingu hennar frá 27. október á síðasta ári. Í því fólst að barnabætur hækka um meira en þriðjung á árunum 2001-2003, eða sem nemur hátt í tvo milljarða króna. Fyrsti áfangi kom til framkvæmda á þessu ári. Megininntak breytinganna er að ótekjutengdar barnabætur eru teknar upp á nýjan leik, dregið er úr skerðingu bótanna vegna tekna og skerðing vegna eigna er felld niður. Þessar breytingar leiða til verulegrar hækkunar á ráðstöfunartekjum alls barnafólks, en hinir tekjulægri bera þó mest úr býtum.

Útgjöld ríkissjóðs lækka að raungildi
Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð 239 milljarðar króna árið 2002 og hækka um liðlega 3% frá áætlaðri útkomu árið 2001. Útgjöldin dragast saman að raungildi milli ára jafnvel þótt leiðrétt hafi verið fyrir lækkun lífeyrisskuldbindinga. Þetta endurspeglast í lækkun ríkisútgjalda í hlutfalli við landsframleiðslu um 1% frá áætlaðri útkomu þessa árs sem er í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Ég vek sérstaka athygli á því að almennur rekstrarkostnaður ríkisins lækkar að raungildi á milli ára. Hins vegar hækka greiðslur lífeyris- og tryggingabóta eins og ég mun nánar víkja að hér á eftir. Í framhaldi af þessu vil ég benda á að heildarútgjöld ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu hafa lækkað á undanförnum árum og nema um 30,7% af VLF árið 2002.

Aukið aðhald að rekstrarútgjöldum
Í kjölfar aukins kostnaðar vegna meiri launa- og verðlagsbreytinga en gert var ráð fyrir í forsendum fjárlaga fyrir árið 2001 ákvað ríkisstjórnin að rekstrarútgjöld í römmum ráðuneyta og stofnana fyrir árið 2002 skyldu lækkuð um 2% frá því sem annars hefði orðið. Það markmið hefur náðst. Að teknu tilliti til nýrra rekstrarverkefna, svo sem hjúkrunarheimilis við Sóltún o.fl., lækka rekstrargjöldin að raungildi um 0,6% frá áætlaðri útkomu þessa árs. Áfram verður strangt eftirlit með framkvæmd fjárlaga á grundvelli nýrrar reglugerðar um það efni og stefnt að því að nýjum útgjaldatilefnum verði mætt með lækkun kostnaðar á öðrum sviðum eins og kostur er.

Lífeyris- og tryggingabætur hækka
Tekjutilfærslur til heimila aukast nokkuð að raungildi frá áætluðum útgjöldum yfirstandandi árs. Í fyrsta lagi er hækkun á útgjöldum almannatrygginga. Sú hækkun er tvíþætt og tekur bæði til almennrar hækkunar bóta um rúm 7% og tillaga nefndar um aukin bótarétt til þeirra sem höllustum fæti standa. Þær taka nú til heils árs, en breytingarnar tóku gildi um mitt ár 2001. Í öðru lagi aukast framlög til barnabóta um hálfan milljarð í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar eins og ég hef áður nefnt. Í þriðja lagi er Fæðingarorlofssjóður nú í fyrsta sinn rekinn í heilt ár auk þess sem einn mánuður bætist við rétt feðra til töku fæðingarorlofs.

Lokaorð


Herra forseti.

Breyttar aðstæður í efnahagsmálum
Þetta fjárlagafrumvarp er lagt fram við nokkuð óvenjulegar aðstæður. Annars vegar eru aðstæður í íslensku efnahagslífi með allt öðrum hætti en var fyrir réttu ári. Verulega hefur hægt á efnahagsstarfseminni að undanförnu og víða má greina samdráttarmerki. Þótt þessi þróun hafi að nokkru leyti verið fyrirsjáanleg varð gengislækkun krónunnar enn frekar til þess að hraða þessari þróun. Hins vegar hafa aðstæður á alþjóðamarkaði einnig versnað og hryðjuverkin á Bandaríkjunum hafa ekki bætt stöðuna. Þessi atriði hafa óhjákvæmilega áhrif á stöðu ríkisfjármála, sérstaklega tekjuhliðina þar sem verulega hefur hægt á innstreymi tekna í ríkissjóð. Gjaldahliðin er ekki eins næm fyrir þessum samdráttaráhrifum, nema síður sé, og því leiðir af sjálfu sér að afkoma ríkissjóðs hlýtur að versna.

Við njótum nú fyrirhyggju undanfarinna ára
Við þessar aðstæður njótum við þeirrar fyrirhyggju sem sýnd hefur verið við rekstur ríkissjóðs á undanförnum árum að hafa byggt upp myndarlegan afgang og jafnframt lækkað skuldirnar. Af þessum ástæðum erum við mun betur í stakk búin til þess að taka á okkur áhrif niðursveiflunnar án þess að rekstur ríkissjóðs fari á hliðina. Niðurgreiðsla skulda á undanförnum árum hefur skilað þeim árangri að vaxtakostnaður ríkissjóðs hefur lækkað að raungildi. Varlega áætlað má ætla að vaxtalegur ávinningur ríkisins af 100 milljarða króna lánsfjárafgangi síðustu fimm ára nemi um 5 milljörðum króna á ári. Þeim fjármunum tel ég sjálfsagt og eðlilegt að verja að hluta til lækkunar skatta á einstaklinga og fyrirtæki. Ég er sannfærður um að aðgerðir af því tagi samrýmast fyllilega áframhaldandi traustri og aðhaldssamri hagstjórn þar sem þær munu, þegar upp er staðið, stuðla að breikkun skattstofna sem vegur upp á móti hugsanlegri tekjulækkun ríkissjóðs.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpi þessu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umræðu og háttvirtrar fjárlaganefndar. Óska ég eftir nánu og góðu samstarfi við nefndina nú sem jafnan og vona að takast megi að afgreiða frumvarpið í samræmi við starfsáætlun þingsins.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum