Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. nóvember 2001 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra á Innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

20. nóvember 2001
(Hið talaða orð gildir)

Ávarp á Innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

Ágætu ráðstefnugestir,

Það er mér mikil ánægja að ávarpa þessa ráðstefnu Ríkiskaupa sem nú er orðinn árviss viðburður á sviði opinberra innkaupa. Tilgangur ráðstefnunnar er að kynna það sem helst er markvert á sviði opinberra innkaupa nú um stundir. Að þessu sinni er lögð sérstök áhersla á innkaup á fjarskiptaþjónustu og tækjum og tækni henni tengdri.

Það ár sem er liðið frá síðustu ráðstefnu Ríkiskaupa hefur verið viðburðaríkt á sviði opinberra innkaupa. Ný lög voru samþykkt í vor frá Alþingi sem mynda nýjan ramma um innkaup hins opinbera. Óhætt er að segja að með þeim hafi miklar breytingar átt sér stað sem almennt eru taldar til bóta. Samskiptareglur af því tagi sem tilgreindar eru í lögunum eru grundvöllur heilbrigðrar samkeppni og hagkvæmni í ríkisrekstrinum. Hlutverk okkar sem kjörin eru af almenningi til að fara með opinbert vald og fjármuni, er að sjá til þess að fyrirtæki og einstaklingar hafi jafnan aðgang að innkaupum hins opinbera en jafnframt að opinberum fjármunum sé varið á sem hagkvæmastan hátt. Ég tel að stórt skref hafi verið tekið í þá átt með lögunum.

Markmið ríkisins við innkaup verða hins vegar ekki eingöngu uppfyllt með traustu lagalegu umhverfi heldur þarf einnig að huga að framkvæmd innkaupanna sjálfra, nýjum innkaupaaðferðum og áherslum á sérstök málefni. Ráðstefna sem þessi gegnir því hlutverki að fara yfir þau málefni sem hæst standa, hlýða á sjónarmið bæði kaupenda og seljanda sem og þær áherslur sem Ríkiskaup leggja í sínu starfi. Ráðstefnan er því mikilvægur hluti af miðlun upplýsinga til þeirra sem annast innkaup hjá ríkisstofnunum og þeirra sem eiga viðskiptahagsmuna að gæta.

Sífellt er unnið að því að styrkja framkvæmd innkaupa ríkisstofnana. Fjármálaráðuneytið vinnur nú ásamt Ríkiskaupum að undirbúningi verkefnis sem felst í því að færa rammasamninga á rafrænt form. Samningarnir verða hluti af rafrænu markaðstorgi sem verður opið öllum fyrirtækjum og þar geta ríkisstofnanir gert innkaup sín að fullu með rafrænum hætti. Stefnan er sú að ákveðnir vöruflokkar verði eingöngu keyptir inn með rafrænum hætti innan fárra ára. Nú er einnig unnið að innleiðingu innkaupakorta í ráðuneyti og stofnanir og hefur það nú þegar sannað sig sem mikil einföldun á innkaupaferli og umsýslu reikninga. Vert er að nefna að bæði þessi verkefni eru unnin í samvinnu við einkaaðila og að stofnað hefur verið til þeirra með almennum útboðum. Þessi aðferðafræði er tákn um nýjar áherslur í innkaupum þar sem frumkvæði og styrkur ríkisins mun nýtast við uppbyggingu á nýrri tækni og þjónustu.

Á ráðstefnunni í dag er eins og fyrr segir lögð sérstök áhersla á innkaup á fjarskiptaþjónustu og ýmis konar tækni henni tengdri. Það er ekki að ástæðulausu sem lögð er áhersla á þetta efni. Á undanförnum árum hefur verið ör þróun í þessum geira með tilkomu nýrrar tækni en einnig hafa á örskömmum tíma orðið miklar breytingar á rekstrarumhverfi fjarskiptafyrirtækja. Fyrir nokkrum árum var t.a.m. einungis eitt símafyrirtæki hér á landi. Póst- og símamálastofnun var þó ekki fyrirtæki heldur ríkisstofnun og var rekin sem slík. Fyrirtæki, ríkisstofnanir og einstaklingar urðu að kaupa fjarskiptaþjónustu af þessari stofnun og því var eðlilega ekki lögð mikil áhersla á þennan málaflokk. Nú er staðan orðin allt önnur, mikil samkeppni komin á og ríkið í óða önn að draga sig út úr þessum rekstri. Landssíminn starfar á samkeppnisgrundvelli og einkavæðing hans er í fullum gangi. Fjöldi annarra fjarskiptafyrirtækja hefur sprottið upp á allra síðustu árum sem bjóða vörur og þjónustu á flestum sviðum fjarskipta.

Hvað varðar hugbúnað þá var svipuð staða á þeim markaði á sínum tíma þegar Skýrsluvélar ríkisins önnuðust um mestalla hugbúnaðargerð fyrir ríkisstofnanir. Nú er hins vegar svo komið að umtalsverð reynsla hefur myndast við útboð á hugbúnaðargerð og útboð á þessari þjónustu hafa skilað miklum árangri.

Breytingar eins og þær sem ég hef lýst kalla á viðbrögð stjórnenda stofnana. Auknir valkostir í þjónustu krefjast þess að ríkisstofnanir nálgist markaðinn með skilgreindar kröfur og innkaupaaðferðir sem tryggja jafnt aðgengi, gegnsæi og hagkvæmni. Mikilvægt er í þessu sambandi að við innkaup á þjónustunni sé fylgt því verklagi sem mótast hefur við innkaup og útboð á undanförnum árum þrátt fyrir að um nýja þjónustu sé að ræða.

Ég óska ráðstefnugestum góðs gengis hér í dag.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira