Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

04. október 2002 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Fjárlagaræða fyrir árið 2003

Geir H. Haarde
Fjármálaráðherra

Flutt á Alþingi 4. október 2002
Talað orð gildir

Fjárlagaræða fyrir árið 2003

Herra forseti

Ég mæli fyrir frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2003. Í ræðu minni mun ég gera grein fyrir helstu efnisatriðum frumvarpsins sem og þeim þjóðhagslegu forsendum sem það byggist á.

Ég hygg að það sé óumdeilt að meira jafnvægi ríkir í efnahagsmálum um þessar mundir en um árabil. Verðbólgan er á hraðri niðurleið, viðskiptahallinn sömuleiðis, kaupmáttur heimilanna hefur aukist samfellt frá árinu 1994, og er nú meiri en nokkru sinni fyrr, vextir lækka hratt og verulega hefur dregið úr skuldsetningu fyrirtækja og einstaklinga.

Það bendir því flest til þess að íslenskt efnahagslíf sé að taka við sér á nýjan leik eftir skammvinna niðursveiflu og að framundan sé nýtt hagvaxtarskeið eins og fram kemur í nýrri þjóðhagsspá og ég mun fjalla nánar um hér á eftir.

Hið mikla hagvaxtarskeið við lok síðasta áratugar var um margt ólíkt öðrum slíkum í Íslandssögunni. Að nokkru leyti varð það til vegna hagstæðra ytri skilyrða en ábyrg efnahagsstefna stjórnvalda og jákvæðar breytingar á skipulagi efnahags- og atvinnumála réðu þar einnig miklu. Með auknu frelsi í viðskiptaumhverfinu hafa stjórnvöld hlúð að þeim vexti sem átt hefur sér stað og lagt rækt við nýja vaxtarsprota.

Hinn raunverulegi prófsteinn á efnahagsstjórn er hins vegar í niðursveiflu. Sú væga niðursveifla sem við virðumst nú hafa gengið í gegnum sýndi að það eru breyttir tíma í efnahagsstjórn á Íslandi. Íslandssagan er full af dapurlegum dæmum um hagvaxtarskeið sem glutrast hafa niður vegna óðagots og skammsýni í efnahagsmálum. Í þetta skiptið er slíku sem betur fer ekki að heilsa.

Hagsaga Íslands á síðustu áratugum virðist benda til þess að stórfelld niðursveifla í kjölfar uppsveiflu sé ófrávíkjanlegt lögmál. Þetta er sem betur fer ekki rétt. Hið ófrávíkjanlega lögmál kann að vera að slæm hagstjórn leiði til slíkra hamfara en ábyrg efnahagsstjórn á tímum góðæris og yfirvegun á tímum samdráttar getur, eins og núverandi staða ríkisfjármála bendir til, tryggt áframhaldandi uppbyggingu þótt misvindasamt gerist í efnahagsumhverfinu. Ef fyrirtæki og einstaklingar geta treyst á stöðugleika, og hagað áætlunum sínum í samræmi við það, getum við komið í veg fyrir að dýrtíð og hallæri taki við af kröftugum efnahagsuppsveiflum. Í stað þess að hrapa stjórnlaust eftir hátt flug taki efnahagslífið snertilendingu og hefji sig til lofts á ný.

Í nýlegum vefpistli fjallar ungur hagfræðingur, sem er við nám og störf erlendis, um þá hröðu aðlögun sem átt hefur sér stað á Íslandi á síðustu misserum og telur að um ótrúlega mjúka lendingu sé að ræða miðað við reynslu annarra þjóða af eftirköstum jafnkröftugrar uppsveiflu og við höfum upplifað á síðustu árum. Hann segir m.a. að fjárlagafrumvarpið í ár sé til marks um að sá viðsnúningur sem orðið hefur á rekstri ríkissjóðs á síðasta áratug sé ekki afleiðing þenslu heldur sé um varanlegan viðsnúning að ræða. Fagaðilar á fjármagnsmarkaði innan lands hafa mjög tekið í sama streng.

Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2003 endurspeglar trausta stöðu ríkisfjármála og aðhaldssama stefnu stjórnvalda í fjármálum ríkisins. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir tæplega 11 milljarða króna tekjuafgangi og 10 milljarða lánsfjárafgangi. Afgangurinn gengur sem fyrr til þess að draga úr skuldum og skuldbindingum ríkissjóðs og styrkja stöðu hans að öðru leyti m.a. með auknum innstæðum í Seðlabankanum. Nefna má að frá árinu 1999 til ársloka 2003 nema uppreiknaðar innborganir ríkissjóðs til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins samkvæmt frumvarpinu um 53 milljörðum króna, eða sem svarar til nálægt fjórðungi af heildarskuldbindingum ríkisins gagnvart sjóðnum sem áður voru ófjármagnaðar. Með þessu móti er komið í veg fyrir stórfelld framtíðarútgjöld sem ella gætu hæglega sligað ríkissjóð eftir tiltölulega fá ár. Þar er að sjálfsögðu um að tefla hagsmuni allra skattgreiðenda en ekki opinberra starfsmanna einvörðungu.

Hreinar skuldir ríkissjóðs verða um 19% af landsframleiðslu í árslok 2003 miðað við frumvarpið en voru 34,5% árið 1996. Árangur þessa sést vel á þeirri staðreynd að vaxtagjöld ríkisins umfram vaxtatekjur hafa lækkað um 4,4 milljarða frá 1998 til 2003. Það munar sannarlega um þessa fjármuni þegar sinna þarf mikilvægum samfélagsverkum og treysta undirstöður íslensks atvinnulífs.

Aðhaldssöm stefna í ríkisfjármálum að undanförnu hefur átt drjúgan þátt í því að skapa skilyrði fyrir þeirri umfangsmiklu skattalækkun sem lögfest var á síðasta þingi og kemur til framkvæmda á næsta ári án þess að raska því meginmarkmiði stefnunnar í ríkisfjármálum að skila afgangi. Meðal þeirra aðgerða var helmingslækkun eignarskatta einstaklinga og fyrirtækja og mjög veruleg lækkun á tekjuskatti lögaðila. Mikilvægt er að áfram verði haldið að lækka skatta og auka þar með samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs og bæta lífskjörin í landinu.

Frá árinu 1998 til 2003 stefnir samanlagður tekjuafgangur ríkissjóðs í 47 milljarða króna. Á sama tímabili mun uppsafnaður lánsfjárafgangur, eða það fé sem er til ráðstöfunar til að draga úr skuldbindingum og styrkja stöðuna við Seðlabanka, nema tæplega 67 milljörðum. Ef ekki hefði komið til sérstök lántaka til að efla Seðlabanka Íslands á síðasta ári væri samanlagður lánsfjárafgangur rúmir 92 milljarðar á tímabilinu. Það lán var að stærstum hluta endurlánað til Seðlabankans en að hluta nýtt til að auka stofnfé hans og nýtur ríkissjóður í staðinn vaxtatekna og arðgreiðslna.

Á næsta ári kemur til framkvæmda þriðji áfangi í þeirri hækkun barnabóta sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á árinu 2000 en þá verður enn frekar dregið úr skerðingu bóta vegna tekna auk þess sem bótafjárhæðir og tekjumörk hækka. Þessar breytingar leiða til umtalsverðrar hækkunar ráðstöfunartekna barnafólks, ekki síst lágtekjufólks. Samanlagt hafa þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar orðið til þess að barnabætur verða um tveimur milljörðum króna hærri á árinu 2003 en ella.

Á undanförnum árum hefur ríkisstjórnin beitt sér fyrir ýmsum breytingum á almannatryggingakerfinu sem miða að því að bæta kjör aldraðra og öryrkja. Á síðasta ári tóku gildi lög sem kváðu á um sérstaka hækkun bóta auk þess sem dregið var úr skerðingu bóta vegna annarra tekna. Þessar breytingar hafa skilað sér í auknum kaupmætti bóta almannatrygginga. Þá ber að nefna að fyrir skemmstu ákvað ríkisstjórnin að efna til formlegs samstarfs við Landssamtök eldri borgara til þess að gera tillögur um breytingar á bótakerfi almannatrygginga og um uppbyggingu hjúkrunarheimila. Vonir standa til að niðurstöður þeirrar vinnu liggi fyrir innan fárra vikna.

Útgjöld ríkissjóðs hafa lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu frá árinu 1998 og stefnt er að því að þau lækki áfram. Þessi árangur hefur náðst á sama tíma og staðið er við áform í stjórnarsáttmála um margþætt umbótamál eins og ég hef rakið. Þennan árangur má skýra með aðhaldi að rekstri og nýrra stjórnunarhátta sem hvetja til betri nýtingar á opinberu fé. Það er gleðiefni, fyrir okkur sem trúum á einstaklingsframtak og atvinnufrelsi að hlutur ríkisins í efnahagsumsvifum fari minnkandi. Jafnframt hlýtur það að vera lærdómsríkt fyrir hina, sem trúa á ríkisforsjá og efnahagsleg höft, að sjá að aukið frelsi í viðskiptum og minnkandi afskipti ríkisins í atvinnulífinu haldast í hendur við bætt lífskjör fólksins í landinu og sterkara velferðarkerfi.

Mikilvægt er að halda áfram á þessari braut. Aðhaldssöm og ábyrg stefna í ríkisfjármálum, sem einkum miðar að því að halda útgjaldavexti innan hóflegra marka, stuðlar að stöðugleika í efnahagsmálum. Hún skapar svigrúm til áframhaldandi skattalækkana, jafnt hjá fyrirtækjum sem einstaklingum, og er því mikilvæg forsenda áframhaldandi uppbyggingar atvinnulífs og bættra lífskjara.

Ég mun nú víkja nánar að helstu efnahagsforsendum fjárlagafrumvarpsins.

Forsætisráðherra hefur gert Alþingi grein fyrir niðurstöðum þjóðhagsspár eins og hún birtist í þjóðhagsáætlun sem lögð er til grundvallar í fjárlagafrumvarpinu. Ég mun því aðeins nefna helstu atriðin og einkum þau sem hafa áhrif á frumvarpið.

Framvinda efnahagsmála upp á síðkastið endurspeglar fyrst og fremst mjög snarpa aðlögun í þjóðarbúskapnum í kjölfar mikillar uppsveiflu að undanförnu. Verulega hefur dregið úr verðbólgu á þessu ári og er líklegt að hún verði innan við 2% á þessu ári og innan við 2S% á því næsta, vel innan við verðbólgumarkmið Seðlabankans. Atvinnuleysi hefur aukist tímabundið en flest bendir til að það fari fremur lækkandi á næstunni.

Ein athyglisverðasta niðurstaða þjóðhagsspár er að viðskiptahallinn, sem hér hefur mælst samfellt frá árinu 1995, hverfur á þessu ári og horfur á að áfram verði jafnvægi í utanríkisviðskiptum árið 2003.

Þessi þróun kemur mér ekki á óvart. Ríkisstjórnin hefur staðið fast við þá stefnu sína að veita markaðnum færi á að aðlagast breytingum í efnahagsumhverfinu án handaflsaðgerða. Sú stefna var gagnrýnd harðlega fyrir ekki löngu síðan. Sá málflutningur dæmir sig nú sjálfur. Styrk efnahagsstjórn í landinu hefur skapað skilyrði sem gera fyrirtækjum og einstaklingum kleift að bregðast við utanaðkomandi sveiflum án þvingunaraðgerða að hálfu ríkisins. Þannig hafa þenslueinkenni hjaðnað og jafnvægi náðst á ný.

Þróun viðskiptajöfnuðar við útlönd sýnir betur en nokkuð annað hve sveigjanleiki íslenska hagkerfisins hefur aukist á undanförnum árum. Þar skipta höfuðmáli þær skipulagsbreytingar sem ég hef áður nefnt og hafa ásamt stefnu ríkisstjórnarinnar gjörbylt íslensku efnahagslífi. Rétt er að nefna sérstaklega í þessu sambandi hina nýju umgjörð peningamálastefnunnar og ný Seðlabankalög, sem þegar hafa gefið góða raun.

Þeir miklu spádómar sem hafðir voru uppi um áhrif viðskiptahallans gerðu ekki ráð fyrir þeim breytingum sem hafa átt sér stað í íslensku efnahagslífi. Við, sem ekki höfum þá náðargjöf að geta séð óorðna hluti, verðum að notast við viðurkenndar hagfræðikenningar og vitneskju um stöðu og þróun mála til þess að draga ályktanir um framtíðarþróun efnahagsmála.

Það er því vonlegt að þeir, sem hafa meiri áhuga á að koma höggi á ríkisstjórnina en spá um hina efnahagslegu framtíð á yfirvegaðan og upplýstan hátt, séu eins og viðvaningar í pílukasti í myrkvuðu herbergi. Leikurinn gengur ef til vill ágætlega á meðan á honum stendur en þegar ljósin kvikna og árangurinn skoðaður kemur oftast í ljós að fæstar pílurnar hittu í mark.

Skjót aðlögun efnhagslífsins gerir þjóðarbúinu kleift að hefja nýja sókn til aukins hagvaxtar. Flest bendir til þess að það gangi eftir á næstu árum. Þannig er gert ráð fyrir að hagvöxtur standi í stað árið 2002 í stað samdráttar í fyrri spám. Árið 2003 er síðan spáð 1S% hagvexti og nálægt 3% hagvexti að jafnaði á árunum 2004–2007. Þjóðarútgjöld eru talin dragast saman um 3% á árinu 2002. Það má einkum rekja til samdráttar í fjárfestingu en reiknað er með að fjárfesting atvinnuveganna verði fimmtungi minni en árið 2001. Árið 2003 eru þjóðarútgjöld hins vegar talin aukast um 1S%. Hér er rétt að nefna að í þessum tölum er ekki gert ráð fyrir að ráðist verði í þær stóriðjuframkvæmdir á næstu árum sem nú eru á umræðustigi. Væru þær með í jöfnunni væri vitaskuld um hærri tölur að ræða.

Einhver mikilvægasta mælistika á árangur í efnahagsmálum er kaupmáttur ráðstöfunartekna. Sú tala segir okkur meira um þróun lífskjara í landinu en flestar aðrar. Hér á landi hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna aukist samfellt frá árinu 1994 og ekkert lát er á þeirri þróun. Árið 2002 er talið að kaupmátturinn aukist um 1S% og spáð er 2% aukningu árið 2003.

Þjóðhagslegur sparnaður hefur einnig aukist verulega að undanförnu í kjölfar minnkandi þjóðarútgjalda og er nú talinn verða um 19% af landsframleiðslu en hann var 14% árið 2000. Hagstæð þróun í utanríkisviðskiptum hefur skilað sér í batnandi skuldastöðu þjóðarbúsins. Hreinar erlendar skuldir þjóðarinnar hafa lækkað á þessu ári og spáð er áframhaldandi lækkun á því næsta.

Ég mun nú víkja nánar að sjálfu fjárlagafrumvarpinu fyrir árið 2003. Samkvæmt því er tekjuafgangur ríkissjóðs áætlaður 10,7 milljarðar króna. Til samanburðar má nefna að tekjuafgangur í endurskoðaðri áætlun fyrir yfirstandandi ár er 17,2 milljarðar króna, en ég mun fjalla sérstaklega um árið 2002 í umræðu um fjáraukalagafrumvarpið sem lagt hefur verið fram á Alþingi. Minni tekjuafgangur á næsta ári stafar fyrst og fremst af því að hagnaður af sölu eigna er talinn verða 7 milljörðum lægri en ráð er fyrir gert í fjárlögum á þessu ári.

Þess hefur verið gætt að áhrifum skattalækkana sé mætt með aðhaldi í útgjöldum og rúmast þær því innan fjármálastefnu stjórnvalda. Tekjuafgangur ríkissjóðs, að frátöldum hagnaði af sölu ríkiseigna, er talinn verða 2,8 milljarðar króna samkvæmt áætlun þessa árs en er 2,2 milljarðar í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2003. Þá verður að gæta að því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að ráðstafa 1,2 milljörðum sérstaklega af söluandvirði eigna til að fjármagna framkvæmdir við jarðgöng. Sé tekið tillit til þess er tekjuafgangur árið 2003, án hagnaðar af sölu eigna og sérstakri ráðstöfun hans, 3,4 milljarðar króna. Lánsfjárafgangur í frumvarpinu er áætlaður 10,1 milljarður en hann er áætlaður 20,6 milljarðar árið 2002. Lækkunin stafar af minni tekjum af eignasölu og af minni afborgunum af veittum lánum.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2003 tekur mið af þeirri meginniðurstöðu þjóðhagsspár að efnahagslífið sé smám saman að taka við sér eftir veika niðursveiflu og að hagvöxtur muni aukast á nýjan leik á næsta ári. Á þessum forsendum eru skatttekjur taldar aukast um 5,3 milljarða og nema 232,5 milljörðum króna. Hækkun skatttekna milli ára má meðal annars rekja til aukinnar innheimtu tekjuskatts einstaklinga vegna hækkandi tekna þeirra og hækkunar tryggingagjalds. Á móti vegur lækkun eignaskatts einstaklinga og fyrirtækja og lækkun tekjuskatts lögaðila.

Heildargjöld ríkissjóðs árið 2003 eru áætluð 253,3 milljarðar króna og hækka um 7 milljarða frá endurskoðaðri áætlun þessa árs. Hækkunin er tæplega 3% og standa heildargjöld því í stað að raungildi milli ára. Heildarútgjöldin lækka hins vegar sem hlutfall af landsframleiðslu frá þessu ári. Reiknað á föstu verðlagi fæst sú niðurstaða að almennur rekstrarkostnaður standi nánast í stað milli ára og sama gildir um fjárfestingu og viðhald, en vaxtagjöld lækka. Neyslu- og rekstrartilfærslur aukast hins vegar að raungildi.

Helstu breytingar milli ára eru að framlög til sambýla fyrir fatlaða eru aukin verulega til að stytta biðlista, rekstrargrunnur sjúkrastofnana er styrktur og framlög til háskóla aukast vegna fjölgunar nemenda. Neyslu- og rekstrartilfærslur hækka að raungildi milli ára meðal annars vegna þess að réttur karla og kvenna til fæðingarorlofs verður jafn á næsta ári, og vegna aukinna bótagreiðslna svo sem barnabóta. Stofnkostnaður og viðhald standa í stað milli ára. Framlög til nýframkvæmda í vegamálum aukast um ríflega fimmtung frá fjárlögum vegna sérstakrar fjármögnunar jarðganga af söluhagnaði eigna. Á móti kemur að mörgum stórum verkefnum lýkur í ár og næsta ár, meðal annars byggingu skála við Alþingi, barnaspítala og viðbyggingu við Kennaraháskóla Íslands. Loks er áætlað að vaxtagjöld ríkissjóðs lækki um hálfan milljarð króna á milli ára.

Ég hef nú kynnt meginefni fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2003. Eðli máls samkvæmt er sú umfjöllun nokkuð almenns eðlis hér við fyrstu umræðu. Sú ábyrga ríkisfjármálastefna sem þar birtist ber traustri efnahagsstefnu og styrkri hagstjórn ríkisstjórnarinnar gott vitni. Hagstjórn sem ber vott um hvort tveggja í senn: Örugga og trausta yfirsýn yfir stöðu efnahagsmála á líðandi stundu og framsækna hugsun sem miðar að því að styrkja uppbyggingu íslensks efnahagslífs, jafnt fyrirtækja sem heimila.

Við skulum hafa hugfast að verðmæti og auðlegð þjóðarinnar sem eru undirstaða þeirra lífskjara sem við njótum verða ekki til af sjálfu sér. Þau þarf að skapa og til þess þarf áræði og frumkvæði einstaklinga að fá að njóta sín. Það er hlutverk stjórnvalda að tryggja nauðsynleg skilyrði til þess að þetta gangi eftir. Þær breytingar sem hér hafa orðið á skipulagi og stöðu efnahagsmála undanfarin ár marka einhver dýpstu framfaraspor sem hér hafa verið stigin. Breytingar sem munu skila sér í sífellt betri lífskjörum á komandi árum. Fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2003 er mikilvægur áfangi á leið okkar fram á veg.

Ég legg til, herra forseti, að frumvarpinu verði, að lokinni þessari umræðu, vísað til 2. umræðu og háttvirtrar fjárlaganefndar. Óska ég eftir nánu og góðu samstarfi við nefndina nú sem jafnan og vona að takast megi að ljúka afgreiðslu frumvarpsins í byrjun desember í samræmi við starfsáætlun þingsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira