Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

15. apríl 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ræða fjármálaráðherra á ráðstefnu um rafræn viðskipti - „Tími til að tengja?“

GEIR H. HAARDE                                                                                                                                         (Hið talaða orð gildir)

FJÁRMÁLARÁÐHERRA

Ráðstefna um rafræn viðskipti - „Tími til að tengja?“

Skýrslutæknifélag Íslands og SARÍS

Hótel Loftleiðir 15. apríl 2004.

Ágætu ráðstefnugestir,

Yfirskrift ráðstefnunnar hér í dag gefur tilefni til fjölbreyttrar umræðu. Spurt er, hvort tími sé kominn til að tengja? Út frá þessari spurningu má spyrja; er ríkið tengt innbyrðis, er það tengt atvinnulífinu, liggja rafrænar tengingar milli stofnana ríkisins og þegna þjóðfélagsins? Þá má ennfremur velta fyrir sér hvort rétt hafi verið að verki staðið? Þótt ekki finnist algilt svar við þessum spurningum er alltaf hollt að líta yfir farinn veg, gera tilraun til að meta árangurinn og það sem mikilvægara er - að horfa fram á veginn.

Í apríl árið 1995, lagði ríkisstjórnin í fyrsta sinn fram pólitísk markmið um nýtingu upplýsingatækni í þágu ríkis og þjónustu við borgara. Meginmarkmiðin lutu að því að örva hagkerfið, bæta stjórnsýsluna og þar með þjónustu og upplýsingagjöf ríkis við landsmenn og fyrirtæki. Ári síðar, leit útfærð stefna dagsins ljós, með útgáfu ritisins "Framtíðarsýn ríkisstjórnar Íslands um upplýsingasamfélagið" Í kjölfarið voru á næstu árum þróuð á þriðja tug verkefna á vegum hinna ýmsu ráðuneyta, sem lutu að því að opna nýjar leiðir til upplýsingaöflunar og samskiptaleiðir við opinberar stofnanir. Of langt mál yrði að telja þau upp, en læt ég nægja að nefna í stuttu máli þau verkefni sem fjármálaráðuneytið hefur ýmist átt frumkvæði að eða stuðlað að í samvinnu við undirstofnanir ráðuneytisins. Á þetta bæði við fyrir og eftir að upplýsingatæknistefnan kom fyrst fram.

Að öðrum þeim verkefnum ólöstuðum, sem fjármálaráðuneytið hefur haft sérstaka forgöngu um, og segja má að hafi verið öðrum verkefnum fyrirmynd, er hin svonefnda SMT – tollþjónusta, sem verið hefur við lýði allt frá byrjun tíunda áratugarins. Óþarft er að tíunda hér á þessum vettvangi þá byltingu sem þessi þjónusta hafði í för með sér á sínum tíma, þar sem markviss og stöðluð vinnubrögð komu í stað ævaforns vinnulags. Það að senda pappír fram og til baka, með tilheyrandi margskráningu sömu gagna og löngum afgreiðslutíma, leið smám saman undir lok á einum áratug. Í dag býður tollurinn einnig upp á VEF – tollþjónustu. Það heyrir nú sögunni til að inn- og útflytjendur þurfi að eyða dýrmætum tíma sínum í útfyllingu margs konar eyðublaða og standa í löngum biðröðum eftir afgreiðslu og svo jafnvel niðurstöðu eftir ákveðinn dagafjölda.

Önnur bylting sem vert er að minnast á varðar hin "sívinsælu" árlegu skattframtöl. Sá árangur sem náðst hefur á aðeins örfáum árum, það er, að 90% framtala berist með rafrænum hætti, ber skýran vott um að notendum líkar þessi þjónusta.

Þriðja verkefnið sem ég nefni til sögunnar er rafræna markaðstorgið. Innkaupavefur markaðstorgsins hefur nú verið virkur í bráðum tvö ár, en það var í mars 2002 sem fjármálaráðuneytið og Ríkiskaup sömdu við ANZA um uppsetningu þess og þróun. Strax í upphafi var mótuð sú stefna að vinna með einkaaðilum við uppbyggingu á torginu og fá þannig fyrirtæki á almennum markaði til að taka þátt í kostnaði við uppbyggingu og rekstur. Þau samlegðaráhrif sem ríkið nær fram með atvinnulífinu á þennan hátt er að minni hyggju skynsamlegt fyrirkomulag. Þannig nýtur hið opinbera góðs af þekkingu og hugviti sem markaðurinn býr yfir, en á móti nýtur einkamarkaðurinn góðs af styrk og kaupgetu ríkisins. Þótt viðurkenna megi að viðtökur hafi verið heldur hægari en væntingar stóðu til í upphafi, sjást þess nú skýr merki að bæði birgjar og notendur hafa tekið vel við sér á síðustu misserum. Sem dæmi, nemur veltuaukning síðustu vikna um fimmtíu af hundraði. Hafa ber í huga að breytingar í vinnubrögðum taka tíma og krefjast úthalds. Sá hagkvæmi innkaupamáti sem torgið býður upp á skapar svigrúm til að verja tíma og fjármunum ríkisins á skynsamlegri máta og til þarfari nota en það að margskrá sömu gögnin á pappír og í ný og ný upplýsingakerfi. Í þessu sambandi má nefna að stefnt er að því að opinber innkaup á rekstrarvörum verði að mestu orðin rafræn árið 2005 og er það tilgreint í nýrri stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið sem og í innkaupastefnu ríkisins.

Innkaupakort ríkisins, samstarfsverkefni við Europay, hefur brátt fyllt fjórða árið. Líkt og markaðstorgið fór það hægt af stað, en nýjustu tölur sýna að velta þessa innkaupamáta og fjöldi nýrra notenda hefur stórvaxið á síðustu misserum og ekki horfur að lát verði á þeim vexti. Virkir notendur eru nú um 450 talsins og er áætlað að sparnaður sem af notkun kortsins hlýst nemi um 5 milljónum á mánuði.

Loks skal minnst á hin nýju fjárhags- og mannauðskerfi ríkisins. Þetta verkefni er ein viðamesta kerfisbreyting sem stjórnsýslan hefur ráðist í. Um þessar mundir er að ljúka síðasta hluta innleiðingar kerfanna í vel flestum ríkisstofnunum. Ég er þess fullviss að sú ákvörðun að kaupa eitt kerfi fyrir allar ríkisstofnanir tryggir fullt samræmi milli framsetningar fjárhagsupplýsinga og auðveldi þannig samanburð milli mismunandi stofnana. Auk fjárhagskerfisins mun nýtt mannauðskerfi stuðla að hagræðingu og skipulagi í rekstri stofnana. Hin nýju kerfi munu auðvelda öll samskipti hvað varðar miðlun upplýsinga um rekstur ríkisins og uppgjör milli ríkisins og einkaaðila og er þess vænst að fyrstu merki breytinganna sjáist nú á allra næstu mánuðum.

Ég hef nú rakið aðeins fá af þeim verkefnum er varða upplýsingatækni og fjármálaráðuneytið hefur haft forystu um á undanförnum árum. Öll tengjast þau rafrænni stjórnsýslu og hafa stutt vel við þá stefnu sem mörkuð var á árunum 1995 og 1996 um upplýsingasamfélagið. Vinnubrögð er varða samskipti við almenna borgara hafa gjörbreyst á þessum tíma. Innleiðing þeirra hefur þó ekki verið þrautalaus, en eins og dæmin sanna í þessum verkefnum sem öðrum kalla breytingar sem þessar á þolinmæði og úthald.

Nýverið birtist endurskoðuð stefna um upplýsingasamfélagið er ber heitið "Auðlindir í allra þágu – Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið". Stefnan nær til áranna 2004-2007 og er verkefnum settur tímarammi og ábyrgð á einstökum verkefnum deilt niður á ráðuneyti eftir því sem hægt er. Áhersla er lögð á verkefni á sviði rafrænnar stjórnsýslu. Ég læt hér nægja að minnast á þungamiðju þeirra verkefna sem fjármálaráðuneytinu er ætlað að framfylgja og varðar það rafrænar undirskriftir og opinber innkaup.

  1. Stefna ber að því að notkun rafrænna skilríkja verði almenn og útbreidd svo að unnt verði að bera með öruggum hætti kennsl á samskiptaaðila, og að komið verði við rafrænum undirskriftum og dulritun eftir því sem við á.
  2. 2. Stefna ber að opnum en stöðluðum markaði með rafræn skilríki og vottunarþjónustu. Gefnar verði út kröfur um innihald, form og meðferð rafrænna skilríkja í samskiptum við stofnanir ríkisins. Þær kröfur gætu orðið fyrirmynd að almennu dreifilyklakerfi fyrir atvinnulíf og sveitarfélög. Stefnt verði að einföldu kerfi og hagkvæmu í rekstri, og að kostnaður dreifist í hlutfalli við hag notenda.

  3. Fylgt verði evrópskum og alþjóðlegum stöðlum og stefnt að samþættingu við dreifilyklakerfi grannlandanna þegar tímabært þykir.

Góðir ráðstefnugestir.

Þær fréttir bárust fyrir skemmstu, að í skýrslu sem framkvæmdastjórn ESB hefur nýlega birt um stöðu rafrænnar stjórnsýslu á EES svæðinu, væri Ísland í 14. sæti af þeim 18 löndum sem þátt tóku í könnuninni. Allt eru þar þau lönd við viljum gjarnan bera okkur saman við. Því er ekki að leyna að þessi niðurstaða hefur komið mörgum á óvart og valdið vonbrigðum, ekki síst í ljósi þess að við höfum gjarnan talið okkur standa í fararbroddi á flestum sviðum upplýsingatækninnar. Við nánari skoðun hefur þó komið í ljós að ekki er mæld sú eiginlega notkun eða gæði þeirrar rafrænu þjónustu sem stjórnsýslan hefur upp á að bjóða. Til dæmis fá Íslendingar sömu einkunn og Svíar, sem lentu í 1. sæti, fyrir rafræn skattskil einstaklinga, en þar í landi eru rafrænu skilin einungis um 5%. Engu að síður er ljóst að breytingarnar gerast hratt, og við þurfum að halda vel á spöðunum til að vera í fremstu röð. Það er krafa sem við eigum að gera til sjálfra okkar á þessum sviðum sem öðrum. Fjármálaráðuneytið mun því leitast við að hvetja eigin stofnanir sem og önnur ráðuneyti til að fylgja vel eftir þeirri nýju stefnu sem mörkuð hefur verið, en jafnframt hvet ég atvinnulífið, félagasamtök þess og einkamarkaðinn til að taka höndum saman með ríkinu og leita leiða til að tengjast enn betur með rafrænum hætti. Skýr sýn, samræming og stöðluð samskipti er lykillinn að því marki.

Ég óska ykkur góðs gengis á ráðstefnunni í dag.

 Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira