Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

23. nóvember 2004 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Ávarp fjármálaráðherra á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

FJÁRMÁLARÁÐHERRA GEIR H. HAARDE

Hið talaða orð gildir -

Ávarp á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

Ágætu ráðstefnugestir,

Áhugi og áhersla á innkaupamálefni, útboð og aðferðir þeim tengdar sem og lagalega umgjörð og stefnu hefur vaxið mikið undanfarin ár. Innkaupamál eru orðin fastur hluti af stefnumótun opinberra stofnana, enda munu öll ráðuneyti og meginþorri stofnana þegar hafa mótað sína eigin innkaupastefnu, sem byggð er á innkaupastefnu ríkisins, sem ég kynnti á þessum vettvangi fyrir réttum tveimur árum. Sérhæfing, þekking starfsmanna og athygli stjórnenda á þessu sviði getur enda haft umtalsverða þýðingu í rekstri ráðuneyta og stofnana, þar sem um þriðjungur allra ríkisútgjalda fellur undir opinber innkaup af einu eða öðru tagi.

Eins og flestum ætti að vera í fersku minni var í stefnunni gert ráð fyrir um 1% sparnaði árlega sem afleiðingu af bættum innkaupaháttum ríkisins sem skyldi studdur mælanlegum markmiðum sem tilgreind eru í stefnunni. Nú þegar tvö ár eru liðin frá setningu stefnunnar er eðlilegt að spyrja hvort hún hafi skilað þeim árangri sem stefnt var að? Enn er of snemmt að fullyrða það. Árið 2003 fór að mestu leyti innleiðingu stefnunnar og kynningu meðal fagráðuneyta og stofnana en yfirstandandi ár er fyrsta heila rekstrarárið sem hægt verður að mæla.

Ljóst er að innleiðing stefnunnar hefur náð að skapa umræður innan ríkiskerfisins og breytt hugsunargangi um gildi faglegra og agaðra vinnubragða við innkaup hins opinbera. Ég geri mér vonir til þess að þegar mælikvarðar hafa verið smíðaðir og töluleg gögn liggja fyrir um innkaup ársins, verði árangurinn sýnilegur. En gangi það ekki eftir þarf að endurmeta vinnubrögðin og brýna stofnanirnar enn til dáða. Það er jú þeim í hag þar sem ávinningurinn á að nýtast þeim sjálfum til að bæta eigin þjónustu og rekstur.

Það er hlutverk forstöðumanna ríkisstofnana að tryggja að stefnunni sé fylgt eftir og árangur náist. Í tengslum við innleiðingu innkaupastefnunnar höfðu fjármálaráðuneytið og Ríkiskaup forgöngu um að hvert ráðuneyti og stærri stofnanir fengju tilteknum starfsmanni ábyrgð á innkaupum sinnar stofnunar. Þannig á tiltekinn starfsmaður að innleiða og fylgja eftir að innkaupastefnan nái fram að ganga, í samstarfi og með stuðningi forstöðumanns. Þessu framtaki fagna ég og vænti góðs af störfum þeirra á þessu sviði. Lykillinn að árangri er að stefnunni sé fylgt markvisst eftir og það er ákaflega mikilvægt að tiltekinn aðili leiði það starf í hverri stofnun fyrir sig.

--------

Auk skýrrar stefnu byggja opinber innkaup á traustu og gagnsæju regluverki. Lagaumhverfi opinberra innkaupa tók stakkaskiptum árið 2001 þegar í fyrsta sinn voru samþykkt heilsteypt lög um opinber innkaup og útboð opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga og tengdar reglugerðir um innkaup veitustofnana. Lögin frá 2001 voru miðuð við fjórar tilskipanir Evrópusambandsins frá árunum 1992-1993 um kaup á þjónustu, vörukaup, opinbera verksamninga og loks svonefnd "veitutilskipun" þ.e. - innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti.

Fyrr á þessu ári gaf Evrópusambandið út tvær nýjar tilskipanir, þar sem hinum þremur fyrst töldu um vöru, þjónustu og verksamninga var steypt saman í eina og hins vegar gefin út ný veitutilskipun. Eiga þessar breytingar að verða til einföldunar í framkvæmd og túlkun laga um opinber innkaup á hinu Evrópska efnahagssvæði. Í fjármálaráðuneytinu er þegar hafinn undirbúningur að nýjum lögum um opinber innkaup sem ráðgert er að verði lögð fram til kynningar á næsta ári.

Í þessum lögum er ætlunin að innleiða ýmsa þætti sem eru tákn fyrir nútímalega viðskiptahætti. Sumpart er búist við að þau verði sveigjanlegri en hingað til, án þess að hvikað verði frá því gagnsæi og jafnræði sem núgildandi lögum er ætlað að tryggja. Þá verða ákvæði um framkvæmd innkaupa, t.d. er lýtur að rafrænum innkaupum og útboðum, sveigjanlegri ákvæði um viðræður við bjóðendur á markaði er nefnd hafa verið samkeppniskaup, skýr ákvæði um rammasamninga og loks ákvæði um umhverfisvæn innkaup. Flestir þessara þátta sem hér eru nefndir voru reyndar þegar teknir inn í innkaupastefnu ríkisins frá 2002 og ættu því ekki að breyta verulega því umhverfi er nú þegar ríkir um opinber innkaup a.m.k. er varðar innkaup ríkisins.

----

Stefna ríkisins hefur um alllanga hríð verið sú að auka beri útboð. Þetta á annars vegar við um útboð á vörum og þjónustu sem ríkið hefur þörf fyrir og markaðurinn veitir í dag. En þetta á ekki síður við um margvísleg rekstrarverkefni sem innt eru af hendi innan stofnana ríkisins í dag. Nýverið skipaði ég framkvæmdanefnd um stofnanakerfi og rekstur verkefna ríkisins sem ætlað er að fara skipulega í saumana á verkefnum og hlutverkum stofnana sem starfa á vegum ríkisins og mæla með úrbótum þar sem þeirra er þörf. Ég á von á því að nefndin fari skipulega yfir rekstrarþætti og uppbyggingu stofnanakerfis ríkisins með umbætur að leiðarljósi. Útboð ýmissa rekstrarþátta sem hingað til hefur þótt sjálfsagt að ríkið hefði með höndum en einkamarkaðurinn gæti mögulega sinnt jafn vel eða betur, koma þar vafalaust til umfjöllunar.

- - - - -

Útboð á fjarskiptaþjónustu fyrir ríkið var nokkuð til umfjöllunar fyrr í hausts. Sem kunnugt er hefur umhverfi fjarskiptamála og samkeppni á þeim sviðum tekið grundvallarbreytingum á undanförnum árum. Markaðurinn er í örri þróun og samkeppnisumhverfið orðið þroskaðra en áður. Víst er að fjarskiptamál verða áfram fyrirferðarmikil í umræðunni á næstunni, ekki síst í ljósi væntanlegrar sölu Símans.

Ríkiskaup hafa að undanförnu, að beiðni fjármálaráðuneytisins, undirbúið útboð á fjarskiptaþjónustu fyrir ríkið. Um talsverða fjárhæð er að ræða, en í heild eru kaup ríkisins á fjarskiptaþjónustu um 1300 m.kr. árlega. Hluti þessara innkaupa er hjá stærstu stofnunum ríkisins og hefur þegar verið boðinn út, en með þessu útboði, sem fram mun fara í byrjun næsta árs, munu Ríkiskaup leita tilboða í tiltekna hluta fjarskiptaþjónustu fyrir allar aðrar stofnanir hvað varðar almenna talsímaþjónustu og internetþjónustu. Samkvæmt lögum um opinber innkaup ber opinberum aðilum ekki skylda til að bjóða út rekstur fjarskiptaþjónustu. Það er hins vegar í þeim anda er fram kemur í innkaupastefnu stjórnvalda að bjóða beri út þjónustu, einkum og sér í lagi ef á markaðnum ríkir samkeppni og fleiri en einn aðili getur keppt um að veita þjónustuna á viðunandi hátt.

Góðir gestir.

Nú fyrir helgi var opnuð tenging milli nýs fjárhagskerfis Landsspítala- Háskólasjúkrahúss og Rafræns markaðstorgs. Þá var fyrsta rafræna pöntunin milli spítalans og Lyfjadreifingar send. Rafræna markaðstorgið hefur verið starfrækt í rúm tvö ár. Horft hefur verið til þess að upptaka þessarar innkaupaþjónustu skilaði sér í auknu hagræði og skjótari innkaupaferlum. Notkun torgsins hefur hins vegar gengið hægar en að var stefnt. Ég bind hins vegar vonir við að þátttaka spítalans og sú mikla innkaupageta sem hann hefur yfir að ráða færi aukinn kraft á torgið. Tenging fjárhagskerfisins við torgið mun væntanlega einnig nýtast öðrum þeim ríkisstofnunum sem tekið hafa upp hið nýja fjárhagskerfi. Við skulum þó vera minnug þess að breytingar á vinnulagi á borð við þetta krefjast þolinmæði. Dæmi þess má sjá í notkun á innkaupakorti ríkisins, sem óhætt er að segja að hafi náð góðu flugi.

Ríkiskaupum vil ég þakka fyrir að halda merkjum faglegra vinnubragða við opinber innkaup á lofti og fyrir að veita okkur mikilsverðan stuðning við að innleiða innkaupastefnuna.

Að endingu óska ég ráðstefnugestum góðs gengis hér í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum