Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

09. mars 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðGeir H. Haarde, fjármálaráðherra 1998-2005

Setningarræða á ráðstefnu IMG Stefnumiðað árangursmat – sýnilegur árangur í opinberum rekstri Nordica Hótel, 9. mars 2005.

FJÁRMÁLARÁÐHERRA

GEIR H. HAARDE

- Hið talaða orð gildir -

Setningarræða á ráðstefnu IMG

Stefnumiðað árangursmat – sýnilegur árangur í opinberum rekstri

Nordica Hótel, 9. mars 2005

Góðir fundarmenn,

Það er ánægjulegt að fá að ávarpa þessa ráðstefnu um árangur í opinberum rekstri. Á undanförnum árum hefur verið unnið markvisst að því að bæta árangur í opinberum rekstri og innleiða nýjar aðferðir við stjórnun með það að markmiði að gera ríkisreksturinn hagkvæmari og skilvirkari um leið og þjónusta við borgarana er bætt. Fjármálaráðuneytið hefur haft forgöngu um innleiðingu markvissrar árangursstjórnunar og gaf ráðuneytið m.a. á síðasta ári út leiðbeiningarrit fyrir stofnanir ríkisins um það efni.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að ríkisrekstur sé árangursdrifinn, þannig að reynt sé að meta hverju starfsemin skilar og hvaða áhrif hún hefur á samfélagið. Þannig hefur verið lögð aukin áhersla á að þeir sem stýra ríkisstofnunum móti starfsemina með þeim hætti að hún skili sem mestum árangri um leið og leitast er við að ná fram jafnvægi milli þess ávinnings sem ríkisreksturinn skilar og þess fjármagns sem úthlutað er til hans.

Þegar skilgreint er hvaða árangri sóst er eftir þarf að gæta jafnvægis milli ólíkra hagsmunahópa, fyrst og fremst notenda þjónustunnar og skattgreiðenda. Þess er því vænst að stofnanir hafi að leiðarljósi hagkvæma notkun aðfanga til rekstrarins, veiti skilvirka þjónustu og skili góðum afköstum en reyni síðast en ekki síst að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu sem stofnuninni hefur verið falið að vinna að. Innleiðing árangursstjórnunar, sveigjanleiki í rekstri og jákvætt viðhorf auðveldar stofnunum að takast á við þessar aðstæður.

Þegar lagt var af stað með árangursstjórnun árið 1996 var eftirfarandi tilhögun höfð að leiðarljósi.

  1. Markviss stefnumótun til langs tíma varðandi málaflokka ráðuneyta og rekstur stofnana á grundvelli stefnu stjórnvalda í ríkisfjármálum.
  2. Gerð rammasamninga milli stofnana og hlutaðeigandi ráðuneyta sem skapi stofnunum nauðsynleg skilyrði til að skipuleggja rekstur sinn til lengri tíma.
  3. Bætt áætlanagerð stofnana til langs og skamms tíma þar sem fram komi meðal annars markmið og forgangsröðun verkefna.
  4. Setning mælanlegra markmiða til nota við stjórnun og mat á árangri.
  5. Einföldun ársskýrslugerðar stofnana, mat á árangri og aukin hvatning.

Þessir þættir eru enn í fullu gildi.

Við innleiðingu árangursstjórnunar er mikilvægt að stofnanir og ráðuneyti yfirfari og móti skýran farveg fyrir samskipti sín á milli og skerpi á gagnkvæmum skyldum. Þetta hefur verið gert með því að setja á blað helstu áherslur í starfi stofnana til nokkurra ára í rammasamningi, svonefndum árangursstjórnunarsamningi. Ekki er um að ræða eiginlegan samning þar sem ábyrgð ráðherra og forstöðumanns á rekstri stofnunar breytist ekki, heldur eru þar settar fram helstu áherslur ráðuneytisins varðandi þau verkefni sem stofnuninni hefur verið falið að sinna og hlutverk hennar og nokkur helstu markmið í starfseminni eru skilgreind. Árangursstjórnunarsamningurinn verður þannig veganesti fyrir stefnumótun og áætlanagerð stofnunar.

Hugmyndin er því sú að á grunni árangursstjórnunarsamnings vinni stofnanir að sinni innri stefnumótun og setji hana fram í langtímaáætlun til 3-5 ára. Í áætluninni skilgreini stofnunin framtíðarsýn sína ásamt því að setja fram helstu markmið og mælikvarða sem hafa áhrif á það hvort stofnunin nær þeim árangri sem stefnt er að á tímabilinu. Stefnumótun stofnunarinnar miðar fyrst og fremst að því að uppfylla hlutverk hennar í samfélaginu en er jafnframt lýsing á því hvernig stofnunin hyggst veita góða þjónustu og nýta fjármuni hins opinbera.

Á grundvelli slíkrar langtímaáætlunar er stofnunum síðan uppálagt að gera ársáætlun með markmiðum og mælikvörðum fyrir starfsemina með hliðsjón af markaðri stefnu í langtímaáætlun og þeim fjárveitingum sem ætlaðar eru til rekstursins samkvæmt fjárlögum hverju sinni. Slík áætlanagerð kallar á forgangsröðun þar sem í flestum tilvikum er ekki hægt að sinna öllum verkefnum af sama krafti.

Að lokum er mikilvægt að allar stofnanir taki saman í lok hvers árs stutta lýsingu á þeim árangri sem náðst hefur í starfseminni á árinu sem var að líða og beri hann saman við þær forsendur sem settar voru fram í ársáætlun og skýri frávik. Það auðveldar stofnunum að meta hversu raunhæfar áætlanirnar voru, hvernig stjórnunin hefur verið á einstökum þáttum og hjálpar stjórnendum þannig að læra af reynslunni og gera betur.

Þótt áætlanir og skýrslur séu fyrst og fremst tæki stofnana til þess stunda faglega stjórnun þurfa þær einnig að ganga til ráðuneyta svo að þau geti uppfyllt eftirlitsskyldur sínar með því fylgjast með því hvort markaðri stefnu sé framfylgt og í kjölfarið meta árangur af starfsemi stofnana.

Árangurstjórnun krefst þannig breyttrar nálgunar við stjórnun. En árangursstjórnun krefst jafnframt breytinga á því hvernig ráðuneytin stunda samskipti við stofnanir sínar á grundvelli þess ferlis sem að framan er lýst. Á síðustu árum hefur stefnumótunarhlutverk ráðuneyta verið að aukast um leið og dagleg afgreiðsluverkefni hafa í auknum mæli verið flutt til stofnana. Þegar talað er um árangursstjórnun innan ráðuneyta er í stórum dráttum átt við þrennt: a) Að ráðuneyti móti heildarstefnu í málaflokkum til lengri tíma sem síðan er að stærstum hluta framkvæmd og árangursmæld í stofnunum. b) Að ráðuneyti taki efnislega afstöðu til þeirra áætlana sem stofnanir leggja fram og hafi þær til hliðsjónar þegar unnið er að forgangsröðun verkefna. c) Að ráðuneyti hafi eftirlit með framvindu stefnumörkunar og endurmeti stefnuna í ljósi reynslu.

Í upphafi var nokkur misbrestur á því að ráðuneyti sinntu þessum hlutverkum sínum og var litið á árangursstjórnun meira sem áherslumál stofnana frekar en ráðuneyta. Þetta hefur þó verið að breytast á síðustu árum og ráðuneyti eru farin að taka fullan þátt í ferli árangursstjórnunar og líta á hana sem mikilvægt tæki til þess að koma áherslum varðandi rekstur stofnana á framfæri.

Góðir ráðstefnugestir.

Eitt af tækjum árangursstjórnunar, sem ríkisstofnanir hér á landi hafa í auknum mæli verið tileinka sér, er kallað stefnumiðað árangursmat og er það í forgrunni þessarar ráðstefnu. Óhætt er að hvetja stofnanir til þess að kynna sér stefnumiðað árangursmat til þess að framkvæma stefnu með opnum huga, en mikilvægt er að missa um leið ekki sjónar á því af hverju við kjósum að nota eina aðferð umfram aðra. Ekki eru til neinar töfralausnir við stjórnun og það krefst vinnu og úthalds til framtíðar að ná árangri. Árangursstjórnun líkur aldrei og stöðugt þarf að endurmeta það sem gert er og skoða leiðir til þess að gera hlutina betur.

Ég hef hér gert grein fyrir helstu áherslum ríkistjórnarinnar varðandi árangursstjórnun og mikilvægi hennar í opinberum rekstri. Allir þurfa að leggjast á eitt, starfsmenn stofnana og ráðuneyta, til þess að ferli árangursstjórnunar nái að gera stjórnsýsluna skilvirkari og betri. Þannig getur ríkið náð framúrskarandi árangri í þeim rekstri sem það sinnir hverju sinni. Ríkið sem heild sinnir mikilvægu hlutverki í samfélaginu og til þess að sinna hlutverkinu af kostgæfni þurfa allar einingar þess að vinna saman að því að ná markmiðum sem mótuð eru á vettvangi stjórnmálanna. Það er von mín að þeir sem hér eru saman komnir í dag muni hafa bæði gagn og gaman af því sem hér verður rætt um.

Með þessum orðum lýsi ég ráðstefnuna setta.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira