Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

20. október 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ávarp fjármálaráðherra á ráðstefnunni; Flatir skattar á Íslandi

Ávarp fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen á ráðstefnunni; Flatir skattar á Íslandi, haldin 20. október 2005.

Mynd af Árna M. MathiesenGóðir fundarmenn !

Skattafyrirkomulag það sem við búum við á Íslandi í dag byggir á grunni þess skattkerfis sem var innleitt þegar staðgreiðsla á tekjuskatt einstaklinga var tekin upp árið 1988. Þá var innleidd sú hugmyndafræði að greidd skyldi sama tekjuskattsprósenta á allar tekjur einstaklinga og má segja að við höfum á undanförnum árum verið að sjá svipaða þróun í ýmsum löndum Austur-Evrópu. Fyrir 1988 hafði tekjuskattur einstaklinga hér á landi byggst á fjölþrepa skattkerfi þar sem tekjuskatturinn var greiddur eftir á. Þetta var mikil breyting til hins betra og er óhætt að fullyrða að þeir séu fáir, ef nokkrir, sem vildu snúa til baka.

Við upphaf staðgreiðslukerfisins var tekjuskattshlutfall ríkisins 28,5% en hækkaði síðan jafnt og þétt næstu árin á eftir þannig að árið 1991 var þetta hlutfall orðið 32,8% og hafði því hækkað um 15%. Það var síðan með tilkomu fyrstu ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar að stefnan var tekin í þá veru að snúa þessari þróun við sem hefur skilað okkur þeim árangri að skattar hafa lækkað umtalsvert á undanförnum árum og sér ekki fyrir endan á því ferli. Tekjuskattur ríkisins á einstaklinga verður kominn niður í 21,75% árið 2007 og verður því búinn að lækka um 34%. Þess ber þó að geta að á árinu 1995 var gerð breyting á verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga með yfirfærslu á hluta af tekjuskatti ríkisins yfir í útsvar sveitarfélaga sem felur þá í sér að raunlækkunin er 28%. Hátekjuskatturinn verður lagður niður frá og með næstu áramótum og sama má segja um eignaskattinn. Þá hefur fjármagnstekjuskatturinn, að undaskildum sköttum á vexti sem voru skattfrjálsir, verið lækkaður niður í 10%. Rétt er að taka það fram að útsvarið, er ekki talið með í þessum tölum en sveitarfélögin hafa í raun verið að fara í öfuga átt við ríkið í þessum efnum og mörg hver notað hvert tækifæri sem gefist hefur til hækkunar. Svo ég tali nú ekki um ólíka þróun í skuldsetningu ríkissjóðs og sumra sveitarfélaga þar sem mörg af stærri sveitarfélögum landsins hafa verið að margfalda skuldir sínar á meðan ríkið hefur verið að greiða niður sínar.

Ef horft er til fyrirtækja þá hefur tekjuskattur á þau lækkað úr 45% niður í 18 % og eignaskattur hefur eins og hjá einstaklingum verið afnuminn. Þá heyrir sérstakur eignaskattur á fyrirtæki einnig sögunni til svo og aðstöðugjaldið sem var og hét.

Eins og ég tæpti á hér á undan hefur umræða um svo kallaða flata skatta verið að ryðja sér til rúms að undanförnu. Hugtakið flatur skattur er reyndar talsvert fljótandi og ekki alltaf ljóst við hvað er átt. Annars vegar getur verið um að ræða hreina flata skatta þar sem tekjuskattur á einstaklinga og fyrirtæki auk skatts á virðisauka ber sömu skattprósentu. Hins vegar er líka talað um flata skatta þar sem tekjuskattur á einstaklinga ber einungis eina skattprósentu og gildir þá einu hvort skattgreiðendur njóta frítekjumarks eður ei. Hér heima hefur Viðskiptaráð Íslands verið duglegt að vekja athygli á hugmyndinni og þeirri hugmyndafræði sem flatir skattar byggja á og held ég að það sé ekki á neinn hallað að segja að þeir hafi dregið vagninn í umræðunni.

Í flestum ef ekki öllum þeim blaðagreinum sem ég hef lesið að undanförnu um flata skatta hefur verið skýrt frá því að frumkvöðlar í skattlagningu af þessum toga séu fyrrum austantjaldslöndin þar sem Eistland hafi riðið á vaðið og sé nú í broddi fylkingar. Það er því ánægjulegt að við skulum fá tækifæri hér í dag að hlusta á framkvæmdastjóra viðskiptaráðs Eistland og heyra milliliðalaust hver reynsla þeirra sé og þá kannski sérstaklega hver reynsla atvinnulífsins er af þeirra kerfi.

Það er samt engu að síður kannski svolítið kaldhæðnislegt að litið skuli til Eistlands sem frumkvöðuls á þessu sviði því um það leyti sem þeir voru að taka upp sitt kerfi flatra skatta 1994 þá vorum við að færast úr slíku kerfi yfir í fjölþrepa skattkerfi með innleiðingu hátekjuskattsins árið 1993. Það er þó ánægjulegt að vita til þess að við skulum vera komin á sporið á ný við að fella niður hátekjuskattinn.

Í nýlegu tölublaði vikuritsins The Economist kemur skýrt fram að þær hugmyndir sem þar eru settar fram um flata skatta eru samskonar og tekjuskattskerfið á Íslandi. Það er að segja, að tekjuskattur byggi á einni skattprósenta og frítekjumarki. Í blaðinu kemur jafnframt fram að samkvæmt hugmyndum frá fulltrúa Adam Smith Institute er mögulegt að snúa frá fjölþrepaskattkerfi eins og þar er og koma á kerfi flatra skatta þannig að allir tekjuskattsgreiðendur komi betur út úr því.

Flestir sem um þessi mál fjalla virðast vera sammála því að skattur af þessum toga virki sem vítamínssprauta inn í þau efnahagskerfi sem nú búa við hátt tekjuskattshlutfall og fjölþrepa skattkerfi. Í mínum huga er þetta engin spurning. Fjölþrepa skattkerfi og háir skattar yfir höfuð virka sem deyfilyf á þjóðfélög. Hins vegar geta rétt upp byggð skattkerfi verið hvetjandi og aukið þjóðfélögum mátt og megin. Það hefði getað orðið raunin þegar við tókum upp staðgreiðslukerfið ef menn hefðu ekki fallið í þá gryfju að hækka skatta. Umbyltingin fyrir Ísland varð fyrst við lækkun þeirra en þá má heldur ekki gleyma því að skattkerfið hér á landi er jafnframt tiltölulega einfalt, gegnsætt og skilvirkt sem er líka nauðsynlegt.

Að baki nær öllum þeim skattabreytingum sem hér hefur verið lýst liggur eitt meginmarkmið, að gera íslenskt skattumhverfi samkeppnishæft við það  sem er að finna í okkar helstu samkeppnislöndum og helst samkeppnishæfara. Ég leyfi mér að fullyrða að það hafi tekist, jafnvel þótt að vegna þróunar annarsstaðar hafi eitthvað dregið saman með okkur og öðrum þjóðum að undanförnu. Ekki má þó skilja orð mín þannig að engra úrbóta sé þörf á íslenskum skattumhverfi í bráð og lengd. Þvert á móti. Við verður ávallt að gæta þess að vera á tánum gagnvart nauðsynlegri aðlögun að breyttu umhverfi í síbreytilegum heimi þar sem landamæri þekkjast tæpast lengur og einstaklingar og fyrirtæki færa sig auðveldlega um set á einni nóttu.

Vegna þeirrar miklu gerjunar sem nú á sér stað allt í kringum okkur hef ég ákveðið að skipa nefnd sem hefur það hlutverk að fara yfir skattkerfið til að varpa ljósi á hvaða þættir það eru sem gera Ísland samkeppnishæft og skilvirkt. Nefndin mun jafnframt hafa það hlutverk að skoða hvað er að gerast í þessum efnum í löndunum í kringum okkur. Ekki bara þeim löndum sem við helst berum okkur saman við, heldur líka í þeim löndum sem ekki eru föst í viðjum skattahugsana vestrænna ríkja. Í þeim ríkjum blása ferskir vinda og því ber okkur að horfa til þessara landa og taka mið af því sem þar er að gerast. Útgangspunktur í starfi nefndarinnar verður tekjuskattur einstaklinga og fyrirtækja en aðrir þættir skattkerfisins verði skoðaðir líka því ekki er hægt að gera þetta svo vel sé án þess að sjá heildar myndina.

Formaður nefndarinnar verður Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur, jafnframt verða skipaðir sérfræðingar á sviði skattamála auk þess sem aðilar vinnumarkaðarins og viðskiptalífsins fá tækifæri til þess að tilnefna fulltrúa.

Ég vil að lokum lýsa yfir ánægju minni með þetta framtak Viðskiptaráðsins sem hefur margoft sýnt mikið frumkvæði og áræði í störfum sínum sem nýst hefur atvinnulífinu og stjórnmálamönnum í vinnu sinni fyrir og með viðskiptalífinu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum