Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. nóvember 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ávarp fjármálaráðherra á málþingi Stofnunar stjórnsýslufræða

Mynd af Árna M. MathiesenÁvarp Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra á málþingi Stofnunar stjórnsýslufræða sem haldið var í samstarfi við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og félags forstöðumanna ríkisstofnana.

Góðir gestir!

Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með málþing þetta, Betri stjórnendur - góðir starfshættir stjórnenda í opinberum stofnunum, sem haldið er af Stofnun stjórnsýslufræða við HÍ og Félagi forstöðumanna í samstarfi við starfsmannaskrifstofu fjármálaráðuneytisins og jafnframt lýsa ánægju minni með samstarf þessara aðila sem ég álít að sé samstarf sem við viljum hlúa að.

Fyrir um 10 árum síðan settu stjórnarflokkarnir fram markmið undir samheitinu Nýskipan í ríkisrekstri. Þetta voru metnaðarfull markmið og til marks um það þá er enn unnið að framgangi þeirra. Gildir þá einu hvort unnið er að rafrænni stjórnsýslu, einkavæðingu, samruna stofnana eða kjarasamningum, markmiðið er alltaf hið sama, skilvirk stjórnsýsla og hagkvæmur rekstur til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Til að koma þessum markmiðum í kring voru gerðar viðamiklar breytingar á lögum er snertu starfsumhverfi ríkisstofnana. Við það varð hlutverk forstöðumanna ríkisstofnana flóknara og viðameira þar sem þeim er ætlað stærra hlutverk í stjórnsýslunni en áður.

Eitt helsta inntak Nýskipunarinnar er að heimfæra stjórnunaraðferðir einkamarkaðarins á opinberan markað og því hafa forstöðumenn ríkisstofnana ekki bara þurft að lesa ný lög heldur líka að tileinka sér nýjar og breyttar aðferðir innan nýs lagaramma. Það er því notkun nýrra aðferða á grundvelli breyttrar hugmyndafræði sem skiptir sköpum. Það er sú ögrun sem ríkisreksturinn stendur í raun frammi fyrir og er lagarammanum ætlað að styðja við það.

Fjölmargir aðilar innan stjórnsýslunnar hafa komið að stuðningsaðgerðum við breytingarnar. Það sem einkennt hefur aðkomu þeirra er að hver og einn hefur sinnt sínu afmarkaða sviði en æskilegt er að horfa í ríkari mæli til heildarmyndarinnar.

Eftir áratug frá framsetningu stefnunnar er að mínu mati kominn tími til að leggja mat á heildarframgang Nýskipunarinnar. Meta sóknarfærin og bæta úr ágöllunum. Veita stuðning þar sem hans er þörf og gera kröfur um betra starf þar sem það á við. Umbætur eru stöðugt starf, stöðug skylda stjórnsýslunnar. Við sem berum ábyrgð á stjórnsýslunni þurfum að sjá til þess að hún þróist í takt við breytingar í umhverfinu og helst að sjá breytingarnar fyrir. Í því ljósi verður áhugavert að heyra hvað Elisabeth Hvas hefur að segja um nýjustu hugmyndir Dana á þessu sviði.

Margir sem hér eru kannast við þá viðamiklu viðhorfskönnun á starfsumhverfi ríkisstarfsmanna sem gerð var árið 1998. Af hálfu Háskóla Íslands mun vera fyrirhugað að endurtaka að einhverju leyti þá könnun með sérstakri áherslu á hlut stjórnenda. Það er fengur að því að fá mat á því hvaða áhrif þessi stefnumörkun hefur haft á starfsemi stofnana ríkisins og því mikilvægt að fá fram sjónarmið aðila eins og Háskóla Íslands hvað varðar þróunina sem orðið hefur og næstu skref.

Markmið okkar er að Ísland standi framarlega meðal þjóðanna, engin þjóð með ófullkomna löggjöf og stjórnsýslu nær langt í alþjóðlegu umhverfi nútímans. Í ljósi þess að nú eru ríflega 10 ár liðin frá því að Nýskipan í ríkisrekstri var ýtt úr vör, verður sjónum beint sérstaklega að því verkefni á ný. Það sem liggur fyrir á þeim vettvangi er að leggja fram tillögur um breytingar á stofnanakerfi og rekstri verkefna á grundvelli skilvirkni, hagkvæmni og betri þjónustu við borgarana. Jafnframt verður unnið að tillögum um mismunandi rekstrarform fyrir ríkisreksturinn eftir eðli verkefna. Þá er í fjármálaráðuneytinu unnið að aðgerðaráætlun sem ætlað er að efla ríkið sem kaupanda að þjónustu. Jafnframt er ég viss um að upp munu koma ný og spennandi úrlausnarefni eftir því sem verkefnið þróast.

Allt þetta kallar á skarpari sýn á hlutverk og ábyrgð forstöðumanna. Ég hef sannfæringu fyrir því að málþing sem þetta hafi mikið að segja í því sambandi og muni skila okkur enn betri stjórnendum og enn betri starfsháttum stjórnenda í opinberum stofnunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum