Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

16. mars 2006 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ávarp fjármálaráðherra á ráðstefnunni Verk og vit

Ávarp fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen á ráðstefnunni Verk og vit í Laugardalshöll fimmtudaginn 16. mars 2006.

Góðir ráðstefnugestir!

Mynd af Árna M. MathiesenÁ undanförnum áratugum hafa fasteignir og húseignir verið ein megin kjölfesta í fjárfestingum fyrirtækja og heimila í landinu. Hérlendis hefur um langt skeið þótt skynsamlegt að ráðstafa hagnaði fyrirtækja og sparnaði einstaklinga til byggingar eða kaupa á fasteignum. Sú leið hefur almennt verið farsæl enda hefur reynslan sýnt að fasteignir hafa haldið verðgildi sínu mjög vel hér á landi og vel það eins og við höfum séð að undanförnu þar sem miklar verðhækkanir hafa orðið á fasteignum um nær allt land.

Undanfarin ár hafa talsverðar breytingar átt sér stað á fasteignamarkaðnum um leið og öðrum fjárfestingakostum hefur verið að fjölga. Breytingarnar hafa haft það í för með sér að ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa tekið þá ákvörðun að losa alfarið um fjárbindingu sína í fasteignum og leigt húsnæði undir starfsemi sína í staðinn.  Fyrirtækin hafa þá í framhaldinu getað nýtt þá fjármuni sem losna með öðrum og oft arðsamari hætti í þágu rekstrarins.  Oft liggja fleiri ástæður hér að baki en einungis að losa um fjárbindingu.  Önnur meginástæðan er einnig sú að leiga á markaði býður oft upp á aukinn sveigjanleika við að minnka og stækka húsnæði um leið og slíkar breytingar eru ódýrari.  Þriðja meginástæðan er síðan sú að stjórnendur vilja einbeita sér að eigin kjarnarekstri sem þeir eru alla jafna góðir í en láta sérhæfða aðila sjá um viðhald og rekstur húseigna. 

Þessi þróun hefur leitt til þess að aðilar á markaði hafa séð tækifæri í þessum umbreytingum og haslað sér völl á sviði fasteignaútleigu og rekstri fasteigna.  Á síðustu árum hafa nokkur öflug félög á þessu sviði rutt sér til rúms á  sviði sérhæfðrar fasteignaumsýsla á Íslandi með það fyrir augum að eiga, reka og viðhalda fasteignum fyrir aðra aðila.  Telja verður að þessi þróun sé afar hagfelld og æskileg fyrir bæði fyrirtækin sem og samfélagið í heild,  enda er löngu viðurkennt að  hagkvæmur og árangursríkur rekstur fasteigna náist fyrst og fremst ef aðilar tileinka sér hann af festu.  

Ekki eru mörg ár síðan ríkið leysti flestar sínar húsnæðisþarfir með því að kaupa eða byggja þær húseignir sem þörf var á í ríkisrekstrinum.  Oft drógust framkvæmdirnar enda ekki byggt meira á hverju ári en fjármunir fengust til á fjárlögum hvers árs og hlé gert á milli.  Þetta leiddi til þess að oft tók það nokkur ár eða jafnvel áratugi að ljúka endanlega við sumar fasteignir.  Eftir að húseignin var tilbúin var hún síðan afhent hlutaðeigandi ríkisstofnun sem eftir það sá um rekstur eignarinnar og viðhald.  Eignin var ekki eignfærð í bókhaldi stofnunarinnar,  né var hún afskrifuð,  heldur var stofnkostnaðurinn einskiptiskostnaður sem færðist á því ári sem fjárveiting barst frá Alþingi. Stofnanirnar sátu svo í þeim leigulaust á meðan þær störfuðu í þeim. Þessi aðferðarfræði varð til þess að húsum í eigu ríkisins var illa við haldið þar sem stofnanir gerðu ekki ráð fyrir slíku í rekstri sínum.

Til að reyna að bæta viðhaldsmál fasteigna ríkisins og til að auka gegnsæi kostnaðar varðandi ríkiseignir voru Fasteignir ríkissjóðs settar á laggirnar fyrir um 25 árum síðan.  Hlutverk stofnunarinnar var að annast viðhald, endurbætur og breytingar á fasteignum í umsjá hennar,  ásamt útleigu á húsnæði til ríkisstofnana.  Fasteignir ríkissjóðs innheimtir tiltekin leigugjöld á hvern fermetra húsnæðis og rekur sig einvörðungu á innheimtu leigutekna.  Tilkoma Fasteigna ríkissjóðs markaði tímamót í opinberum fasteignarekstri þar sem allar eignir í umsjón stofnunarinnar hafa upp frá þeim tíma fengið reglulegt og gott viðhald um leið og áhyggjum tengdum húsnæðismálum var létt af leigjendunum. Leigutekjur stofnunarinnar þurfa eins og málum er nú háttað einungis að standa undir kostnaði við viðhald, endurbætur, opinber gjöld og tryggingar þessara eigna.  Leigan er því ekki markaðsleiga, þar sem fjármögnunarkostnaður og stofnkostnaður er tekinn með í útreikninginn.  

Eignir í umsjá Fasteigna ríkissjóðs fjölgar með hverju árinu sem líður og eru þær nú um 342 þús. fm.  og fjöldi leigjenda er um  220 talsins.  Þrátt fyrir að Fasteignir ríkissjóðs hafi á undanförnum árum tekið við miklu af eignasafni ríkisins eru þó enn talsvert margar stofnanir sem sjálfar sjá um að viðhalda þeim fasteignum sem þær nota í starfsemi sinni.  Í því sambandi má nefna fasteignir spítalanna um land allt og fasteignir Háskóla Íslands.

Sú sérhæfing sem nú hefur skapast á hinum almenna markaði varðandi umsýslu og rekstur á fasteignum á undanförnum árum hefur leitt til þess að áhugaverðir valkostir og möguleikar hafa opnast í fasteignamálum ríkisins sem hefur nýtt sér þessar leiðir í sífellt auknum mæli.  Það eru reyndar aðeins um 7 ár síðan að ríkið fór fyrir alvöru að nýta sér einkamarkaðinn hvað varðar húsnæðismálin.  Þá gerði ríkið langtímaleigusamning um fasteignina Borgartún 21 í Reykjavík sem nú hýsir Ríkissáttasemjara, Lánasjóð Íslenskra námsmanna, Fasteignamat ríkisins og ýmsar fleiri opinberar stofnanir. Stuttu síðar var tekið á leigu húsnæði fyrir Ríkistollstjóra við Skúlagötu, húsnæði fyrir stjórnsýslu LSH við Eiríksgötu, fyrir Héraðsdóm Reykjaness við Fjarðargötu í Hafnarfirði og embætti Ríkislögreglustjóra við Skúlagötu.  Sem nýleg dæmi um leiguhúsnæði á vegum ríkisins má nefna nýtt húsnæði Fiskistofu við Dalshraun í Hafnarfirði, nýtt húsnæði fyrir Landbúnaðarstofnun við Austurveg á Selfossi og fjórar heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.

Nú er svo komið að ríkið hefur um nokkurra ára skeið ekki byggt skrifstofuhúsnæði fyrir hinn opinbera rekstur heldur hefur það nýtt sér kosti markaðarins til að leysa málið. Sama gildir að mestu leyti um ýmist annað sérhæft húsnæði eins og t.d. húsnæði heilsugæslustöðva og húsnæði fyrir sýslumenn og lögregluembætti.  Að mati ríkisins er ekki vafi á því að ef vel er staðið að undirbúningi slíkra verkefna eru þau hagkvæmari kostur en hinar hefðbundnu opinberu framkvæmdir.  Samstarfið við einkamarkaðinn hefur einnig leitt til þess að fjölbreyttari og skjótari úrræði bjóðast við húsnæðisöflunina en áður.  Þá hefur samstarf við einkamarkaðinn gengið vel á byggingar- eða innréttingartíma húseignanna.  Óhætt er að því að fullyrða að innkoma ríkisins á þennan markað hefur verið ríkinu til góðs, eflt fasteignamarkaðinn í heild og styrkt þá aðila sem hafa sérhæft sig í fasteignarekstri.

Í framhaldi af aukinni áherslu á að leigja húsnæði hefur ríkið verið að fikra sig enn lengra í átt að samstarfi við einkamarkaðinn. Þannig hafa á síðustu árum verði gerðir nokkrir samningar um einkaframkvæmd. Slíkir samningar eru mun víðtækari og umfangsmeiri en venjulegir leigusamningar enda er viðsemjandinn að veita aðra og umfangsmeiri þjónustu og rekstur.  Slíkir samningar hafa t.d. verið gerðir um rekstur hjúkrunarheimilisins Sóltúns,  leigu og rekstur á Iðnskólanum í Hafnarfirði og leigu og rekstur á rannsóknarhúsi Háskólans á Akureyri.   Hér má einnig nefna nýlegan samning ríkis og borgar um byggingu og rekstur Tónlistar- og ráðstefnuhúss í miðbæ Reykjavíkur sem verður umfjöllunarefni hér síðar í dag. 

Til viðbótar við þá stefnu stjórnvalda að leigja húsnæði í stað þess að byggja er rétt að stefna að því að leiga ríkisins taki mið af fjárbindingu og stofnkostnaði húseignanna.  Það mun leiða til hærra verðs á þeim eignum sem ríkið leigir af sjálfu sér og mun það væntanlega taka mið af því sem almennt gildir á húsnæðismarkaði. Við þær breytingar mun rekstrarkostnaður stofnana ríkisins jafnframt verða sýnilegri og samanburðarhæfari við þær stofnanir sem nú leigja á einkamarkaði.  Þetta mun einnig leiða til þess að  samanburður ríkisins á kostnaði af eigin húsnæði samanborið við leigu á  einkamarkaði mun verða mun raunhæfari og sanngjarnari gagnvart aðilum markaðarins.

Góðir fundamenn!

Í vikunni tilkynnti ég framlagningu frumvarps á Alþingi sem tekur mið af því að leiðréttingartímabil innskatts varðandi fasteignir verði lengt úr tíu árum í tuttugu ár. Reynslan af þessu ákvæði hefur sýnt að tíu ára leiðréttingarskylda innskatts virðisauka varðandi fasteignir getur reynst of stutt tímabil meðal annars með tilliti til frjálsrar skráningar fasteigna. Þetta er að mínu mati mikilvægt skref sem mun jafnframt styðja þá stefnu stjórnvalda að efla enn frekara samstarf ríkis og einkaaðila í húsnæðismálum.

Að lokum vil svo að þakka fyrir þetta merka framtak sem ráðstefnan og sýningin Verk og vit er og óska ykkur góðs gengis hér í dag.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum