Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

07. nóvember 2007 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ræða fjármálaráðherra á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa

Mynd af Árna M. Mathiesen
Árni M. Mathiesen

Mynd af Árna M. MathiesenRæða fjármálaráðherra á innkauparáðstefnu Ríkiskaupa, þriðjudaginn 6. nóvember 2007.

Ráðstefnustjóri, góðir ráðstefnugestir

Ég vil byrja á því að þakka Ríkiskaupum fyrir að efna til innkauparáðstefnu hér í dag, en ráðstefna þessi hefur verið fastur liður um þetta leyti árs í allmörg ár, og hefur hún jafnan verið vel sótt. Ég hygg að það sé bæði til gagns og hljóti að vera góð tilbreyting fyrir þá sem koma að innkaupamálum og rekstri ríkisstofnana að setjast niður dagpart og velta fyrir sér hvernig að innkaupum er staðið og eiga samræður við kollega frá öðrum stofnunum um þetta mikilvæga viðfangsefni, hvort heldur er nýjar innkaupaaðferðir, vandamál tengdum innkaupum eða lausnir á þeim.

Stöðug þróun og umbætur er varða fyrirkomulag innkaupa sem og umræður um framkvæmd þeirra, er mikilvægur liður í þeirri viðleitni opinberra aðila að ná árangri í ríkisrekstri. Kröfur til ríkisins vaxa stöðugt, bæði hvað varðar vandaða málsmeðferð og bætta þjónustu, en jafnframt er krafist hagkvæmari rekstrar og skilvirkni. Þetta kallar á aukinn sveigjanleika við tilhögun ríkisrekstrar. Leitað er nýrra leiða til að bæta reksturinn og kanna möguleika á að fela öðrum að sinna tilteknum verkefnum ríkisins.

Ríkisrekstur er veigamikill þáttur í atvinnulífinu og áframhaldandi þróun hans hefur áhrif á samkeppnishæfni Íslands á næstu árum. Umgjörð ríkisrekstrar þarf því að vera skýr og einföld og stjórnendur og starfsmenn reiðubúnir að tileinka sér ný vinnubrögð. Ekki aðeins þarf að meta hvort verkefni séu rétt unnin, heldur einnig hvort ríkið sjálft er að sinna réttu verkefnunum. Er rétt að það annist þá þjónustu og verkefni sem samstaða er um að ríkið tryggi þjóðfélagsþegnum sínum, en einkamarkaðurinn er fullfær um að sinna, hugsanlega með hagkvæmari hætti. Þetta eru spurningar sem ríkisstofnanir hafa nú til skoðunar, en sem kunnugt er þetta kjarni þess sem fram kemur í útvistunarstefnu ríkisins. Standa vonir okkar til að ráðuneytin öll hafi fyrir lok þessa árs, lokið við að semja eigin útfærslu á útvistunarstefnunni auk þess að gefa yfirlit yfir þau verkefni sem þegar hafa verið útvistuð með samningi. Með því móti fæst vonandi almenn vísbending og sjónarmið einstakra ráðuneyta og stofnana um eigin rekstur og þann rekstur sem falinn er einkaaðilum með samningi. Þetta felur jafnframt í sér tækifæri til að fara skipulega ofan í verkefni sem ástæða væri til að semja formlega um eða fylgja einstaka samningum enn betur eftir, ef ástæða þykir. Til þess að það gangi sem best fyrir sig þurfa ríkisaðilar að vera upplýstir kaupendur.

Lagaleg umgjörð opinberra innkaupa tók miklum framförum árið 2001 þegar fyrstu heilsteyptu lögin um framkvæmd og fyrirkomulag opinberra innkaupa tóku gildi. Á síðasta degi þingisins í vor, hafðist það að gefa út ný lög um opinber innkaup, nr. 84/2007, en þau byggja eins og hinn fyrri á tilskipunum og reglugerðum Evrópusambandsins á þessu sviði. Þessar umbætur snúa að því að gera íslenskt regluverk enn skýrara og skilvirkara og færa það á sama tíma til samræmis við Evrópureglur á þessu sviði, þar sem opinber innkaup yfir tilteknum fjárhæðum eru útboðsskyld á þeim 500 milljóna markaði sem EES nær yfir. Ýmsar nýjungar er að finna í lögunum, einkum hvað varðar útboðsaðferðir, rafræn innkaup og útboð, en með setningu laganna var einnig hægt að stilla betur af ýmsa þætti sem reynsla undanfarinna ára hefur fært okkur frá framkvæmd fyrri laga.

Meðal þess sem kveðið var á og fram kemur í fyrstu grein laganna, er varðar tilgang þeirra og markmið, er að efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu..
Þessi viðbót við markmið laganna er ekki tilviljun. Ríkið er, eins og þið flest hver vitið, ekki eins og hver annar kaupandi þegar innkaupamáttur þess er lagður saman. En ríkið hefur einnig á ýmsum sviðum aðrar og ólíkar þarfir en aðrir kaupendur á markaði. Þetta getur m.a. varðað sérsniðin verkefni á sviði vegagerðar og annarra innviða samfélagsins, verkefni á sviði t.a.m. heilbrigðisþjónustu, orkumála og svo framvegis. Þetta geta verið þjónusta, vörur, verkefni, mannvirki og úrlausnir sem ríkið skilgreinir og vinnur saman með hönnuðum og iðnfyrirtækjum sem dæmi, en fást ekki keypt eins og hver önnur hilluvara. Með samvinnu ríkisaðila og einkamarkaðar í gegnum opinber innkaup, að því gefnu að gagnsæi og jafnræði sé viðhaft, að sjálfsögðu, má nýta þekkingu ríkisins og einkaaðila til þróunar á ýmsum sviðum.

Þessi sýn á innkaup, varð m.a. til þess að fjármálaráðuneytið, Ríkiskaup, Samtök iðnaðarins, og atvinnulífsins ásamt iðnaðarráðuneytinu, stofnuðu til vettvangs um nýsköpun og þróun í tengslum við opinber innkaup. Það þótti því við hæfi og í anda þessarar sýnar að kveða sérstaklega á um þetta í markmiðsgrein laganna.
Á því ári sem liðið er frá því þessi vettvangur var stofnaður hafa fulltrúar þessara aðila mótað stefnu og skilgreint verkefni sem ég nefndi að ofan. Þann 15. nóvember nk. mun ég, ásamt Össuri Skarphéðinsssyni iðnaðarráðherra, setja ráðstefnu um þessi efni og verður hún haldin á Hilton hótelinu.

Viðfangsefnið opinber innkaup er enda ávallt brýnt, því segja má að þau snerti flest öll svið ríkisrekstrar með einum eða öðrum hætti. Engin ríkisstofnun, ráðuneyti eða fyrirtæki verður rekin án aðkeyptrar vöru eða þjónustu. En að greina þarfirnar rétt og hvernig á að bera sig að við að koma til móts við þær er ekki alltaf auðvelt viðfangsefni, ekki síst þar sem fylgja þarf fjárhagsrammanum. Reynslan hefur hins vegar sýnt okkur að ýmis úrræði eru til staðar til að standa sem best að kaupum.

Í því sambandi er ekki nóg að hafa skýra löggjöf, heldur þurfa kaupendur að geta stuðst við skýra stefnu á sviði innkaupa. Innkaupastefna ríkisins var í fyrsta sinn sett fyrir réttum fimm árum, og var það einmitt á þessum vettvangi í nóvember 2002, sem Geir H. Haarde þáverandi fjármálaráðherra kynnti stefnuna. Í stefnunni voru skilgreind bæði fjárhagsleg markmið sem og áherslur í innkaupum til fjögurra ára. Þar sem gildistími stefnunnar er nú liðinn, hefur ráðuneytið í samvinnu við Ríkiskaup, undanfarið metið árangur þeirrar stefnu og jafnframt unnið að mótun nýrrar innkaupastefnu fyrir ríkið, með nýjum áherslum.

Það er mat okkar að af þeim 2.500 mkr. ávinningi sem að var stefnt hafi um samtals 2000 milljónir króna náðst fram. Það er um 80% árangur. Ég vil leyfa mér að telja þann árangur viðunandi, enda aðeins liðið fyrsta tímaskeið stefnu af þessu tagi.

Ég ætla engu að síður að deila með ykkur innihaldinu og þeim áherslum sem drög að stefnunni kveða á um. Uppbygging stefnunnar og forsendur hennar eru að stofni til óbreyttar. Innkaupastefnan setur ráðuneytum, ríkisstofnunum og ríkisaðilum ný fjárhagsleg markmið, sem fela í sér 3.500 mkr. ávinning á því árabili sem stefnan nær yfir, frá árinu 2008 til og með 2011 og er hér því um að ræða enn metnaðarfylltri markmið en áður.

Fyrirhugað er að í tengslum við innkaupastefnuna verði þrjár sérgreindar stefnur, sem sömuleiðis hafa þegar fengið og munu væntanlega hljóta sérstaka samþykkt ríkisstjórnarinnar. Útvistunarstefna ríkisins hefur þegar verið sett eins og áður er rakið. Ætlunin er ennfremur að á grundvelli innkaupastefnu ríkisins verði sett stefna um rafræn innkaup og stefna um vistvæn innkaup.

Stefna um rafræn innkaup er því sem næst tilbúin, en sú stefna var unnin í samvinnu fjármálaráðuneytisins, Ríkiskaupa og Fjársýslu ríkisins. Meðal áhersluverkefna þar, eru að ríkið geti almennt tekið á móti rafrænum reikningum í lok árs 2008 og ríkið taki eingöngu við rafrænum reikningum í árslok 2009.

Stefna um vistvæn innkaup er í farvatninu en að mótun hennar koma Ríkiskaup og umhverfisráðuneytið. Vistvæn innkaup varða ekki aðeins virðingu fyrir umhverfinu heldur einnig hagkvæmni þegar horft er á líftímaferil innkaupanna til langs tíma.

Þegar stefnurnar hafa verið lagðar fram og samþykktar af ríkisstjórninni, sem ég geri mér vonir um að verði innan skamms tíma, er miðað við að þær verði álitnar formlegur hluti af innkaupastefnu ríkisins sem gildir fyrir árin 2008 – 2011 sem fyrr segir. Jafnframt er lagt til að gildistími útvistunarstefnunnar verði samræmdur við sama árabil.

Ég ætla ennfremur að upplýsa að nú stendur yfir vinna við gerð nýrrar handbókar um opinber innkaup, á vegum ráðuneytisins og Ríkiskaupa. Vonast ég til að hún verði tilbúin í byrjun næsta árs. Handbókin ásamt framangreindri stefnu á að vera þeim sem annast innkaup á vegum ríkisins leiðbeining og stuðningur í daglegum störfum við innkaupin.

Góðir ráðstefnugestir!

Rafræn innkaup er eitt af þeim tækjum sem ríksstofnanir hafa átt kost á að styðjast við á umliðnum árum. Í áður tilvitnuðum lögum um opinberum innkaupum er nú m.a. sérstök grein gerð fyrir reglum um slík innkaup og verklagi við rafrænar útboðstilkynningar og framkvæmd rafrænna útboða, eða niðurboða eins og það nefnist. Hér er um afar spennandi nýjung að ræða, sem ýmis fyrirtæki hafa verið að taka upp á síðustu árum, þar sem hægt er að keppa um að lækka verð í skilgreindum innkaupum á rauntíma.

Innkaup gegnum rafrænt markaðstorg er mörgum hér inni að góðu kunn. Eins og væntanlega flest ykkar vitið, lauk samstarfi ríkisins og ANZA um rekstur og þróun rafræns markaðstorgs ríkisins fyrr á þessu ári. Í júnímánuði sl. ritaði ég undir samning við fyrirtækið Vörusjá ehf. um nýtt markaðstorg. Þótt leiðin hafi verið torsóttari en að var stefnt á sínum tíma, hef ég fulla trú á að þessi viðskiptamáti, þar sem hægt er að nálgast rammasamningsvörur og upplýsingar um þær með beinum hætti, verði sá máti sem flestir haga innkaupum sínum eftir innan skamms tíma. Raunar er þegar gert ráð fyrir í drögum að stefnu um rafræn innkaup, að innkaup ríkisins í almennum rekstrar- og sérvörum verði með rafrænum hætti fyrir lok árs 2008.

Vörusjá ehf. hefur nú náð þeim áfanga í þróun torgsins að það er orðið virkt sem innkaupatæki. Það er því mér sérstakt ánægjuefni að fá að gera formlega fyrstu pöntunina á hinu nýja torgi

Með þessum táknræna hætti segi ég ráðstefnuna setta.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum