Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

09. janúar 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Íslenska skattkerfið á tímamótum

Mynd af Árna M. MathiesenRæða fjármálaráðherra á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og Samtaka atvinnulífsins miðvikudaginn 9. janúar 2008.

Ráðstefnustjóri, góðir ráðstefnugestir !

Íslenska hagkerfið er hluti af alþjóðlegu efnahagslífi með öllum þeim tækifærum og áskorunum sem því fylgja. Í alþjóðlegum skýrslum er íslenska hagkerfið talið með þeim samkeppnishæfustu í heiminum vegna mannauðs, tæknistigs og skipulagsmála, ekki síst vegna skattkerfisins. Fyrirtækin, sem búa við sveigjanleg starfsskilyrði, eru ábatasöm og vel í stakk búin að takast á við breytilegar aðstæður. Þá er staða ríkissjóðs sterk og þó að skuldir heimilanna séu háar eru eignir þeirra margfalt hærri en skuldir.

Þótt að tekið hafi að blása á móti á erlendum og innlendum fjármálamörkuðum á nýliðnu ári bendir enn flest til þess að ástandið í efnahagslífinu verði vel ásættanlegt á komandi ári og árum. Í núverandi stöðu veltur þó mikið á því að við bregðumst við af skynsemi, ekki síst til að viðhalda tiltrú erlendra aðila á efnahagsþróuninni hér á landi. Ég er bjartsýnn á að okkur takist að gera það. Í því samhengi er mikilvægt að yfirstandandi og komandi kjaraviðræður, bæði á almenna og opinbera markaðnum, leiði til niðurstöðu sem stuðli að áframhaldandi háu atvinnustigi í landinu og vexti kaupmáttar ráðstöfunartekna.

Skattadagur

Á skattadegi er viðeigandi að rifja upp helstu breytingar á skattkerfinu á undanförnum árum og horfurnar framundan svo og hvert sé upphaflegt markmið skattlagningar, en það er til að ríkissjóður geti aflað ákveðinna tekna til að standa undir útgjöldum við almannaþjónustu og til að jafna gæði meðal þegnanna.

Ljóst er að álagning skatta hefur heilmikil áhrif á ákvarðanir aðila í hagkerfinu, alþjóðlega samkeppnishæfni hagkerfisins og tekjujöfnuð milli aðila innan þess. Við mat á skattkerfisbreytingum er einkum stuðst við þrjú megin viðmið sem eru hagkvæmni, einfaldleiki og jöfnuður. Þar er skoðað hvaða áhrif ólíkar skattkerfisbreytingar koma til með að hafa á hvert þessara viðmiða fyrir sig.

Helstu breytingar á skattkerfinu undanfarin ár

Allmiklar breytingar hafa orðið á skattkerfinu á síðustu árum. Á síðasta áratug var kerfi fjármagnstekjuskatta einfaldað og skattprósentan lækkuð í 10%. Þá hófst vinna við að einfalda kerfi tekjuskatts lögaðila og einstaklinga og lækka skattprósentur þeirra umtalsvert og hið sama á við um erfðafjárskatta þar sem skattprósenta var lækkuð en skattstofnarnir breikkaðir. Í árslok 2005 var eignaskattur einstaklinga og lögaðila aflagður. Í ársbyrjun 2007 var stigið lokaskref í að lækka tekjuskatt einstaklinga í 22,75% en sá skattur hafði þá lækkað um tæplega 8 prósentustig á 10 ára tímabili og nokkru áður hafði sérstakur tekjuskattur, svokallaður hátekjuskattur verið felldur niður en hann var 7% þegar hann var hæstur. Nokkru áður hafði tekjuskattur lögaðila verið lækkaður í áföngum úr 50% í 18%.

Samhliða þessum breytingum var persónuafsláttur hækkaður umtalsvert til að auka ráðstöfunartekjur hinna tekjulægri hlutfallslega meira. Í mars 2007 var lægra þrep virðisaukaskatts, m.a. á matvæli og tengda vöru og þjónustu, lækkað úr 14% í 7% og ýmir vöruflokkar sem áður voru í hærra þrepinu, þe. 24,5% fóru einnig niður í 7% þrepið. Þá hafa framlög einstaklinga og vinnuveitenda til lífeyrissjóða verið gerð frádráttarbær frá skatti, sem hefur stuðlað að auknum sparnaði. Í umræðu um skattakerfið má ekki gleyma að nefna að á undanförnum árum hefur bótakerfið einnig tekið umtalsverðum breytingum. Þannig hafa barnabætur verið hækkaðar og framlög til öryrkja og eldri borgara verið stóraukin.

Áherslur í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er lögð áhersla á ,,trausta og ábyrga efnahagsstjórn," ,,kraftmikið atvinnulíf" og ,,hvetjandi skattaumhverfi". Varðandi áherslur í skattamálum verður stefnt ,,að frekari lækkun skatta á einstaklinga á kjörtímabilinu, meðal annars með hækkun persónuafsláttar." Þá verður unnið ,,að endurskoðun á skattkerfi og almanna-tryggingum til að bæta hag lágtekjufólks og millitekjufólks." og hefur hluti þeirra aðgerða þegar verið kynntur. Einnig verður lögð áhersla á að fyrirtæki búi við ,,stöðugt og örvandi skattaumhverfi" og ,,leitað leiða til að lækka frekar skatta á fyrirtæki." Þá munu ,,umhverfisþættir fái aukið vægi í skattastefnunni" og að ,,kerfi óbeinna skatta, s.s. vörugjalda og virðisaukaskatts, verði endurskoðað." Að lokum er nefnt að stimpilgjald í fasteignaviðskiptum ,,verði afnumið á kjörtímabilinu þegar aðstæður á fasteignamarkaði leyfa." Það er því enn margt ógert á þessu sviði og það verður vissulega háð þróun og horfum í efnahagsmálum hvernig þessi mál skipast á komandi árum.

Hagkvæmni

Skattar hafa áhrif á hvata og móta hagræna hegðun til skemmri og lengri tíma. Með hönnun skattkerfa er leitast við að lágmarka neikvæð áhrif þeirra á ákvarðanir aðila um sparnað, fjárfestingu, neyslu og vinnuframlag. Rannsóknir sýna að skattur á fjármagn hefur mikil áhrif til að draga úr sparnaði og fjárfestingu, skattur á vinnuframlag hefur einnig umtalsverð áhrif á vinnuframboð og fjárfestingu í mannauði en skattur á neyslu hefur síður bjagandi áhrif á efnahagsstarfsemina. Því hefur verið tilhneigingin að færa skattheimtu af fjármagni og vinnuframlagi í meira mæli á neysluskatta með því að draga úr muninum á milli skattprósenta og um leið byggja upp skattkerfi á sem breiðustum skattstofnum. Með öðrum orðum, ef sömu skatttekna er aflað með almennum og víðtækum veltusköttum og í stað beinna skatta má búast við því að hagvöxtur verði meiri fyrir vikið og að alþjóðleg samkeppnishæfni hagkerfisins aukist.

Einfaldleiki

Mikilvægt er að skattkerfið sé ekki flókið. Það auðveldar ákvarðanatöku, eykur getu skattayfirvalda að fylgja skattareglum eftir og kostnaður af eftirfylgni verður minni en ella yrði. Þá leiðir einfaldleiki skattkerfisins til aukinnar hagkvæmni og jákvæðara viðhorfs almennings til réttmætis þess.

Jöfnuður

Að nokkru leyti eru skatt- og bótakerfi nýtt í þeim tilgangi að auka jöfnuð meðal borgaranna. Þannig hafa bótagreiðslur, skattaafsláttur og skattleysismörk mikil áhrif hvað þetta varðar en skattar á neyslu eru hinsvegar ekki vel til þess fallnir að auka jöfnuð. Flestar þjóðir leggja nokkuð upp úr því að auka jöfnuð með skatta- og bótakerfinu en því eru þó takmörk sett þar sem slíku fyrirkomulagi fylgir óhjákvæmilega kostnaður í formi minni hagkvæmni. Þá má ekki gleyma því að ójöfn tekjudreifing er að stórum hluta eðlileg afleiðing lífaldurs, þar sem tekjur aukast með reynslu og þekkingu og fjárfestingar í mannauði. Að jafna slíka eðlilega tekjudreifingu yrði skaðlegt fyrir hagræna hegðun og gæti dregið úr þörf ungs fólks til að mennta sig og afla sér reynslu. Framleiðni og umsvif hagkerfisins yrðu minni fyrir vikið.

Breiðir skattstofnar og lágir skattar

Í dag snýst umræðan í auknum mæli um valið á milli breikkunar skattstofna og notkunar skatta til að hvetja til ákveðinnar hegðunar. Velflestar rannsóknir benda til þess að skattkerfi sem byggja á breiðum skattstofnum með lágum skattprósentum fylgi minna hagkvæmni-tap í samanburði við skattkerfi sem byggja á háum skattprósentum en færri skattgreiðendum. Rannsóknirnar benda til að skattkerfi sem leggja áherslu á breiða skattstofna og lága skatta séu ekki í mótsögn við jafnaðar markmið þar sem gæði skattaútgjalda hafa tilhneigingu til að dreifast á mið- og efri tekjur. Því getur breikkun skattstofna aukið jöfnuðinn, þ.e. gert dreifingu ráðstöfunartekna eftir tekjubilum jafnari.

Lægri skattprósentur og meiri skatttekjur

Fyrir nokkru var staddur hér á landi bandaríski hagfræðingurinn Arthur Laffer sem sett hefur fram kenningu um skattbogann en hún gengur út á það að of há skattprósenta dragi úr efnahagsumsvifum og þar með skatttekjum ríkja. Í þeim tilfellum borgi sig að lækka álögur á fyrirtæki og einstaklinga til þess að koma hjólum efnahags- og atvinnulífisins af stað.

Hér á landi hefur reynslan sýnt okkur svo að ekki verður um villst að kenning Laffers á rétt á sér, a.m.k. á ákveðnum skattbilum. Lækkun skatta á síðustu árum hefur nákvæmlega haft þau áhrif að umsvif í efnahagslífinu hefur aukist og við það hafa tekjur borgaranna og ríkissjóðs aukist umtalsvert, þvert ofan í sumar spár.

Mat á núverandi skatta- og bótakerfi

Á Íslandi er skatta- og bótakerfið talið samræmast bæði hagkvæmni og jöfnuðarsjónarmiðum. Jafnframt er það tiltölulega einfalt í framkvæmd og almenn sátt virðist vera um það, þótt ætíð sé einhver ágreiningur um áherslur. Skattahlutfall á fjármagn, vinnuframlag og neyslu er orðið nokkuð lágt og áþekkt, allavega í alþjóðlegum samanburði. Kerfi flatra skatta með persónuafslætti leiðir til þess að skattbyrðin eykst ofan við ákveðnar lágmarkstekjur. Þó er skatthlutfallið og jaðarskatthlutfallið ekki talið vera það hátt að það skaði vinnuframlag. Bótakerfið er hugsanlega ekki eins rausnarlegt og á hinum Norðurlöndunum en um leið er mun minni hætta talin á því að það leiði fólk í lágtekjugildru. Atvinnuþátttaka er mikil, atvinnuleysi er lítið og kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist helmingi meira á Íslandi undanfarin tíu ár en í Svíþjóð eða í Danmörku. Þá virðist kerfið vera hvetjandi til að ungt fólk sæki í æðri menntun og auki mannauð sinn. Hækkandi laun sérfræðinga endurspegla aukna þörf markaðarins fyrir starfsmenn með mikla menntun. Þrátt fyrir það er tekjudreifingin á Íslandi talinn jöfn. Bóta og skattakerfið á Íslandi er því metið vera hagkvæmara en á hinum Norðurlöndunum og um leið er jöfnuður á Íslandi mikill af því að það borgar sig að vinna á Íslandi.

Háir jaðarskattar óæskilegir

Skattar og bætur hafa sömu áhrif á hegðun einstaklinga og eru þau áhrif metin út frá reiknuðum jaðarsköttum. Það er vel þekkt að ef jaðarskattar eru háir þá dregur það úr áhuga fólks að auka tekjur sínar. Þetta á sérstaklega við þá sem þiggja bætur og eru á lægri launum. Ef skattkerfið er ekki rétt hannað geta myndast slíkar lágtekjugildrur. Við viljum forðast að lenda í slíkum gildrum þar sem lönd sem það hafa gert virðast ævinlega eiga erfitt með að losna út úr þeim aftur.

Þurfum að eiga borð fyrir báru

Aðgerðir til að lækka skatta þurfa að vera rétt tímasettar og falla að þeirri hagþróun sem er í landinu á hverjum tíma. Eins og staðan er nú er ekki tímabært að gefa út hvenær eða með hvaða hætti ríkisstjórnin muni lækka skatta á þessu kjörtímabili. Ástæða þess er sú að óvenju erfitt er að segja til um efnahagsástandið á næstu mánuðum meðal annars vegna óvissu í tengslum við kjarasamninga og sviptinga á fjármálamörkuðum.
Á komandi árum er því mikilvægt að huga að því að núverandi skattkerfi þarf að hafa borð fyrir báru ef  kemur til samdráttar, en þá er viðbúið að skattstofnar sem hafa verið gjöfulir í uppsveiflu, eins og tekjuskattur lögaðila og fjármagnstekjuskattur, gefi minna af sér í framtíðinni. Ekki er þess vegna ráðlegt að draga of mikið úr öflunargetu annarra skattstofna.

Minnug Laffer-bogans, mun ríkisstjórnin þó, hvernig sem málin þróast, nýta það svigrúm sem til staðar er til að lækka skatta og bæta kjör almennings eins og frekast er unnt á þessu kjörtímabili.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum