Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

13. nóvember 2008 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ræða fjármálaráðherra á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga

Mynd af Árna M. Mathiesen
Árni M. Mathiesen

Mynd af Árna M. MathiesenHilton hótel, Reykjavík, 13. nóvember 2008.

Formaður sambands íslenskra sveitarfélaga, fundarstjóri, sveitarstjórnarmenn og aðrir ráðstefnugestir!

Ótrúlega væringar hafa orðið í fjármálaheiminum á síðustu dögum og vikum bæði hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Væringar sem enginn sá fyrir eða gat séð fyrir. Heimsbyggðin hefur gengið í gegnum fjármálakreppu sem líkja má við efnahagslegar hamfarir. Öflugir bankar bæði austan hafs og vestan hafa orðið þessari kreppu að bráð og yfirvöld í mörgum löndum hafa þurft að koma þeim til bjargar, ýmist með því að taka þá yfir eða setja til þeirra fjármagn í miklum mæli. Í þessu sambandi hafa bæði lítil og stór hagkerfi átt í mikilli baráttu við alvarlegar afleiðingar kreppunnar. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur nýlega endurnýjað spá sína um horfur í alþjóðlegum efnahagsmálum. Sjóðurinn telur að hagvöxtur í heiminum muni aðeins ná 2,2% 2009, sem er tæpu prósentustigi minna en gert var ráð fyrir í október, fyrir aðeins nokkrum dögum síðan. Gert er ráð fyrir samdrætti í þróuðum ríkjum á næsta ári og verður það þá í fyrsta sinn á heilsársgrundvelli frá stríðslokum. Á síðustu dögum og vikum hafa skuldatryggingarálög hækkað upp úr öllu valdi, hlutabréfavísitölur hríðfallið og gengi margra gjaldmiðla hefur lækkað hratt.

Þótt mörg lönd hafi nú þegar beitt róttækum aðgerðum til að rétta við fjármagnsmarkaði sína eru allar líkur á að staða fjármagnsmarkaða verði áfram helsti dragbíturinn á afturbatann í heiminum. Fall eignaverða og margföldunaráhrif þess á fjármálaheiminn er slíkt að almenn spálíkön ná ekki að skýra það inn í framtíðina.

Hér á landi hefur kreppan haft meiri áhrif en víða annars staðar enda hagkerfið lítið og viðkvæmara fyrir slíkum heimssveiflum. Vöxtur bankanna og velgengni var mikil í uppsveiflunni en um leið verður fallið meira og þyngra þegar slær í bakseglin.

Á rétt ríflega mánuði hefur gríðarlega margt gerst. Sérstök lög hafa verið sett sem heimila fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði, allir stóru viðskiptabankarnir hafa fallið og nýir verið stofnaðir á grunni þeirra, einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir hafa tapað fjármunum í stórum stíl, bæði innlendir aðilar sem erlendir, krónan hefur fallið gríðarlega og viðskipti með hana eru takmörkuð og svo mætti áfram telja. Óhætt er að segja að á síðari árum hafi íslensk þjóð aldrei áður staðið frammi fyrir jafn miklum og erfiðum vandamálum og nú eru framundan.

Fyrirtæki hafa á síðustu vikum verið að sjá fram á samdrátt í verkefnum og sagt upp starfsfólki. Þær uppsagnir eru fæstar komnar til framkvæmda en gera má ráð fyrir að í upphafi nýs árs muni atvinnuleysi aukast mjög hratt og verða meira en við höfum áður staðið frammi fyrir. Vinnumálastofnun birti í gær tölur um atvinnuleysi í október. Í lok mánaðarins voru rétt tæplega 4.000 manns á skrám stofnunarinnar en þeim hefur fjölgað um 1.300 frá byrjun mánaðar og þar til í dag. Sem hlutfall af áætluðum mannafla nam atvinnuleysið í október 1,9% en þegar er ljóst að það mun hækka mjög í næsta mánuði og verði um 3,5% af vinnuafli, samanborið við 0,8% atvinnuleysi í nóvember 2007. Svo mikil aukning atvinnuleysis er til marks um umtalsverðan samdrátt í landsframleiðslu miðað við sama tíma í fyrra. Fjölgunin er meiri á höfuðborgarsvæðinu en annars staðar á landinu og því ljóst að sú þróun á vinnumarkaði sem nú gengur yfir leggst af mun meiri þunga á höfuðborgarsvæðið en landsbyggðina, hvað sem síðar kann að verða.

Allar þessar breytingar leiða til mikilla umskipta á fjármálaumhverfi ríkis og sveitarfélaga. Nú er verið að reyna að leggja mat á þær breytingar sem verða á skatttekjum ríkissjóðs á þessu ári og þeim næstu og reynt að kortleggja hvaða breytingar er bæði mögulegt að gera og nauðsynlegt á útgjaldahliðinni. Ljóst er að skatttekjur munu dragast saman, útgjöld munu aukast vegna veikingar á gengi krónunnar og tímabundinnar hækkunar verðbólgu auk þess sem vaxtajöfnuður sem verið hefur jákvæður hjá ríkissjóði undanfarin ár mun verða neikvæður svo verulegum fjárhæðum skiptir.

Þó meginlínurnar liggi fyrir um þróun bæði tekna og gjalda ríkir engu að síður gríðarleg óvissa um hvaða fjárhæðir er að tefla í þessu sambandi. Óvissa um gengi, skuldastöðu, tekjuspár og vaxtabyrði. Endurreikningur þjóðhagsspár sem lögð var fram í októberbyrjun stendur nú yfir. Þar verður meðal annars horft til þeirra breytinga sem áætlað er að þurfi að koma til vegna nýrrar lántöku ríkissjóðs, svo sem hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við þá vinnu þarf að endurmeta allar áætlanir og forsendur sem lágu til grundvallar fjárlagafrumvarpi ársins 2009 og gera á því verulegar breytingar.

Tekjur hins opinbera munu dragast hratt saman árið 2009

Miðað við þau áföll sem dunið hafa yfir þjóðarbúið blasir við að hagvöxtur og eftirspurn muni dragast hraðar saman á komandi ári en áður var gert ráð fyrir. Fall bankakerfisins hefur skapað mikla erfiðleika sem við þurfum að vinna okkur út úr. Eitt af því sem sú þróun hefur áhrif á eru tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga. Eins og áður segir er óvissan mikil þegar kemur að tekjuspá næstu ára en ekki er ólíklegt að áætla að heildartekjur ríkissjóðs gætu dregist saman um fjórðung á milli áranna 2008 og 2009. Langþyngst munu þar vega tekjuskattar lögaðila og fjármagnstekjuskattur. Hvor skattstofn um sig mun sennilega dragast saman um ríflega helming á milli sömu ára. Um leið og þessir skattstofnar eru nefndir er jafnframt víst að engin skattstofn verði undanskilinn í samdrættinum þegar tekjur og velta minnka eins hratt og nú er spáð. Tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti einstaklinga, tryggingagjaldi, virðisaukaskatti, eignasköttum og vörugjöldum munu minnka á milli ára. Að sama skapi munu tekjur sveitarfélaga af útsvari, framlagi ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð og af lóðasölu einnig dragast mikið saman. Á þessu stigi er áætlað að reglubundin framlög ríkisins til Jöfnunarsjóðs geti dregist saman um að minnsta kosti 10%. Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2009 er gert ráð fyrir að þau tímabundnu framlög sem ríkissjóður hefur lagt til Jöfnunarsjóðs haldi ekki áfram þar sem samningar um þau eru nú útrunnir og því miður munu breytingartillögur við frumvarpið miða að því að skera niður fremur en að bæta við útgjöldin. Miðað við það stefnir í mjög aukinn halla á rekstri ríkissjóðs og sveitarfélaga á næstunni umfram það sem áður hefur verið spáð og gera má ráð fyrir að slík niðurstaða verði staðreynd þar til hagkerfið nær jafnvægi og hagvöxtur tekur við sér á ný. Vonandi ganga spár eftir um að samdráttarskeiðið vari stutt.

Skuldir aukast mikið

Tekjuhliðin er þó ekki eina vandamálið í stöðunni. Skuldir ríkissjóðs hafa vaxið og munu vaxa mikið á næstu mánuðum. Yfirtaka og endurfjármögnun bankanna leiðir til skuldsetningar ríkissjóðs fyrir nokkur hundruð milljarða króna auk yfirtöku margvíslegra skuldbindinga því tengdu. Tap Seðlabanka vegna endurhverfra viðskipta með skuldabréf í viðskiptabönkunum mun jafnframt nema verulegum fjárhæðum. Skuldir hins opinbera sem námu um 28% af landsframleiðslu árið 2007 eru líklegar til að vera orðnar mun meiri en 100% á árinu 2009. Enn er óljóst hvaða áhrif viðræður okkar við Breta, Hollendinga, Þjóðverja og fleiri þjóðir munu hafa á skuldastöðu ríkissjóðs til framtíðar og þar með um leið á vaxtagjöld.

Þörf á niðurskurði í opinberum rekstri

Af þeim sökum sem áður eru nefndar er ljóst að hið opinbera þarf að skera verulega niður útgjöld á komandi árum, ólíkt því sem hefur viðgengist undanfarin ár, þegar umræðan stóð um það hversu mikill vöxturinn mætti vera. Á þetta við bæði hjá ríki og sveitarfélögum. Ástæðan er að vaxtabyrði af skuldum stefnir opinberum fjármálum í voða ef skuldirnar eru of miklar. Það er brýnt verkefni hins opinbera að draga úr útgjöldum, lækka skuldirnar og ná jafnvægi á ný í fjármálum bæði ríkis og sveitarfélaga.

Fjármálareglur hjálplegar við að lækka skuldastöðuna

Undanfarin ár hafa nefndir skipaðar aðilum frá sveitarfélögum, samgönguráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu starfað við að kanna möguleika þess að sveitarfélög taki upp fjármálareglur í takt við það sem ríkissjóður hefur stuðst við varðandi stjórn ríkisfjármála. Þær reglur hafa falið í sér þak á raunvöxt rekstrarútgjalda og að rekstur ríkissjóðs sé í jafnvægi yfir hagsveifluna. Þar hefur verið miðað við að hann geti safnað skuldum í niðursveiflu en á móti þurfi hann að skila góðum afgangi til að greiða niður skuldir í uppsveiflu. Í vinnu nefndanna voru jafnframt ræddar fjármálareglur um jafnan vöxt stofnframkvæmda og að sveitarfélög setji þak á skuldir í hlutfalli við tekjur. Markmiðið með slíkum fjármálareglum er að sveitarfélögin nýti öll þau tæki sem til eru til að bæta árangur í rekstri og tryggja sjálfbærni fjármála þeirra til lengri tíma litið. Í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga frá 22.mars 2007 var samstaða um að ef sveitarfélög tækju upp slíkar reglur og færu að vinna eftir þeim myndi ríkissjóður koma að lækkun skulda þeirra að því gefnu að afkoma ríkissjóðs gæfi tilefni til. 

Því miður náðist aldrei niðurstaða um hvernig eða með hvaða hætti slíkar reglur ættu að vera og sjónarmið sveitarfélaganna voru nokkuð mismunandi eftir stærð þeirra. Nú er ljóst að ríkissjóður verður ekki aflögufær til að koma að niðurgreiðslu skulda sveitarfélaganna á næstu árum. Þrátt fyrir það vil ég hvetja sveitarstjórnarmenn til þess að halda áfram umræðu um fjármálareglur og gildi þeirra enda eru fá stjórntæki betri þegar kemur að gerð fjárhagsáætlana, - við að halda útgjöldum í skefjum.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur metið það svo að þörf sé á að skera niður útgjöld í opinberum rekstri á næstu árum og að sú þörf sé aðkallandi í ljósi breyttrar stöðu. Þótt sveitarfélögin séu mörg og misjafnlega stór og stæð, er það orðið enn mikilvægara en áður að þau leggist á sveif með ríkissjóði og komi að því að lækka skuldir hins opinbera. Í því sambandi geta fjármálareglur verið gott stjórntæki.
Á nýju ári er fyrirhuguð vinna við að útfæra nýjar fjármálareglur fyrir ríkissjóð í ljósi breyttra aðstæðna og í samhengi við rammafjárlög til fjögurra ára.

Ágætu sveitarstjórnarmenn

Verkefnið sem er framundan er erfitt. Nú er þörf að rifa seglin og draga úr opinberum rekstri til að hægt verði að lækka skuldirnar. Við þurfum öll að færa fórnir til að endurheimta þá sterku stöðu opinberra fjármála sem við nutum áður - þar til að áfall á alþjóðlegum fjármálamörkuðum reið yfir.

Nú sem aldrei fyrr er mikilvægt er að ríki og sveitarfélög eigi áfram gott samstarf um aðgerðir í efnahagsmálum og um viðbrögð við þeim vanda sem að steðjar. Ljóst er að árangur verður skjótari og betri ef við tökumst saman á við þau verkefni sem fyrir liggja. Vissulega eru sveitarfélög landsins í mismunandi stöðu eftir stærð þeirra og getu en í þessu verkefni þurfa allir að leggjast á eitt, aðgerðir verða að vera samstilltar þar sem allir leggjast á árar í sama takti og róa í sömu átt.

Á síðustu mánuðum hafa ýmis mál verið upp á borði í samskiptum ríkis og sveitarfélaganna. Eins og staðan er nú tel ég hvorki tímabært né skynsamlegt að ræða einstök mál eða verkefni sem þar hafa verið til umræðu. Þegar vind lægir eftir þann storm sem nú geisar getum við hins vegar aftur tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið.

Mikilvægt er að allir geri sér ljóst að svigrúmið er lítið og sérlausnir í einstökum málum á einu sviði getur bitnað á öðrum aðilum og bundið hendur hins opinbera á öðrum sviðum. Þess vegna er samstaða allra svo mikilvæg nú. 

Ég vil nota þetta tækifæri og óska eftir og hvetja sveitarstjórnarmenn til samstarfs á næstu misserum við að innleiða vinnubrögð og aðgerðir sem gera okkur kleift að endurheimta góða stöðu hins opinbera á komandi árum.

Ég ítreka vonir mínar um að þær spár gangi eftir sem gera ráð fyrir að niðursveiflan verði tímabundin og skammvinn. Þó stundum hafi blásið í viðræðum ríkis og sveitarfélag og ég hafi stundum þótt þver í þeim samskiptum er það einlæg von mín að við komumst sem fyrst í þá stöðu að geta aftur farið í viðræður um góðærisdeilumál eins og við höfum lengst af verið í - á síðustu árum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum