Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

13. janúar 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðÁrni M. Mathiesen, fjármálaráðherra 2005-2009

Ræða fjármálaráðherra á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og viðskiptablaðs Morgunblaðsins


Mynd af Árna M. MathiesenÁrni M. Mathiesen Ræða fjármálaráðherra, Árna M. Mathiesen á skattadegi Deloitte, Viðskiptaráðs og viðskiptablaðs Morgunblaðsins 13. janúar 2009.

Fundarstjóri, ágætu gestir.

Ég vil byrja á því að þakka Deloitte, Viðskiptaráði og Morgunblaðinu fyrir framtak sitt að boða til skattadagsins enn á ný. Ég þakka jafnframt fyrir að fá þetta tækifæri til að greina frá hvernig ég met núverandi ástand í efnahagsmálum og hvernig þessar breyttu aðstæður í samfélaginu kalla á endurskoðun á ríkisrekstri og tilhögun í skattamálum.

Nefnt hefur verið að líklegast verði árið í ár það erfiðasta í yfirstandandi efnahagsþrenginum. Það er mat flestra hagfræðinga, þ. á m. Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fjármálaráðuneytisins og seðlabankans, að ástandið sé líklegt til að byrja að lagast á næsta ári. Til að flýta fyrir batanum er mikilvægt að grípa strax til nauðsynlegra aðgerða, jafnvel þótt þær kunni að verða óvinsælar um tíma.

Og hver er þá vandi ríkisins um þessar mundir? Af nógu er að taka. Fall íslenska bankakerfisins hefur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Brestir hagkerfisins hafa orðið augljósari og nauðsynlegt inngrip ríkisins í bankastarfsemi skilyrði þess að hér geti dagleg starfsemi annarra fyrirtækja þrifist.

Margir hafa spurt hvort setning neyðarlaganna hafi átt rétt á sér – hvort stjórnvöld hafi ekki hrundið af stað atburðarrás sem ekki hefði orðið annars. Þetta tel ég fráleitt. Setning neyðarlaganna var fyrst og fremst ætluð til að hér yrði áfram bankastarfsemi þar sem daglegar færslur fólks og fyrirtækjanna yrðu áfram til staðar, að greiðslukerfi og hraðbankar virkuðu áfram. Ef það er eitthvað til marks um það að neyðarlögin virkuðu er það einmitt sú staðreynd að bankarnir lokuðu aldrei. Þeim hluta starfseminnar sem átti að verja, hefur verið haldið í góðu horfi.

En þetta er auðvitað ekki átakalaust. Kostnaður ríkisins vegna þessu hleypur á hundruðum milljarða króna vegna eiginfjármögnunar viðskiptabankanna og annarra fjárútláta vegna þeirra og sparisjóðanna. Vissulega er erfitt að meta hvernig okkur verður kleift að endurheimta þá fjármuni á nýjan leik, hvort og þá hvenær sala á bönkunum verði hagkvæm, hvernig eigi að haga kröfu um arðgreiðslur, og hvort skoða þurfi mögulega sameiningu þeirra í náinni framtíð. Allt þetta er til skoðunar hjá stjórnvöldum, og tölur um kostnað vegna bankanna til lengri framtíðar liggja því ekki fyrir Samstarf Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lánveiting á vegum sjóðsins hefur verið mikið til umræðu allt frá því að bankahrunið varð í byrjun október. Það var 24. október síðastliðinn sem IMF tilkynnti að sjóðurinn hyggðist veita íslenskum stjórnvöldum 2,1 milljarða bandaríkjadala lán á næstu tveimur árum til að styðja við efnahagslega uppbyggingu, hjálpa til við að endurreisa trúverðugleika bankakerfisins og skapa stöðugleika fyrir krónuna. Ég ætla svo sem ekki að tíunda hér hvernig það lán og önnur tengd lán frá ýmsum þjóðum verða nýtt á næstunni, hvort sem það er með inngripum og þá beinni nýtingu lánsins til gjaldeyriskaupa, eða sem nokkurkonar bakhjarl eða varaforði, slíkt verður að ráðast af öðrum þáttum. Þó er ljóst að lánafyrirgreiðlsa þessi mun kosta okkur einhverja fjármuni.

Eins og ég kom inn á áðan, má búast við því að það líði nokkur ár þar til afkoma ríkissjóðs verði jákvæð á ný, en áætlanir eru þó um að reksturinn verði kominn í jafnvægi árið 2012 og réttu megin við núllið árið 2013. Afleiðingar hallareksturs til nokkurra ára þekkjum við frá gamalli tíð, slíkt hefur í för með sér vaxtakostnað sem enn lengir þann tíma sem tekur að snúa tekjujöfnuði ríkissjóðs í jákvætt horf.

Sem betur fer erum við að fara inn í þetta erfiða efnahagsástand með verulega sterka stöðu ríkissjóðs - góðan sjóð í bönkum, sem nýtist okkur á þessum erfiðu tímum og við værum augljóslega í verri stöðu ef ekki hefði verið fyrir drjúgan afgang á fjárlögum og verulega niðurgreiðslu skulda á undanförnum árum.

Þá er ekki síst vert að minnast á aðstæður í efnahagslífi heimsins, því slíkt hefur auðvitað veruleg áhrif á hvernig okkur reiðir af hér á landi, sérstaklega með tilliti til aðstæðna á mörkuðum fyrir útflutningsafurðir okkar. Sem stendur virðist fátt gefa tilefni til bjartsýni um að botninum sé náð í alþjóðakreppunni, raunar verður að gera ráð fyrir því að hún dýpki nokkuð áður en hlutirnir fari að hreifast á nýjan leik.

Eins og skilja má af fyrrgreindu reynir nú talsvert á ríkissjóð Íslands og leiðir okkar til fjármögnunar á ýmsum þáttum sem að honum snúa.

Það er eðlilegt að halli myndist á ríkissjóði þegar efnahagslífið stefnir í krappa lægð, en ríkissjóður hefur sveiflujöfnunarhlutverk í efnahagslífinu til að draga úr miklum sveiflum í atvinnustigi og tekjum. Um leið er mikilvægt að þegar hagkerfið fer að taka við sér á ný að hallinn sé minnkaður hratt til að skapa svigrúm fyrir lækkun skuldbindinga ríkissjóðs. Til að gera það kleyft þarf að endurskilgreina starfsemi ríkissjóðs. Annarsvegar þarf að leita leiða að auka hagkvæmni í ríkisrekstri og draga úr útgjöldum að því marki sem hægt er. Einnig getur þurft að endurmeta skattkerfið í heild sinni þar sem sumir skattstofnar eins og tekjuskattur lögaðila og fjármagnstekjuskattur virka síður í niðursveiflu. Þrátt fyrir það verður ríkissjóður að afla tekna til að greiða fyrir opinberra þjónustu og framkvæmdir. Skatttekjur eru langstærsti hluti tekna ríkissjóðs.

Til að byrja með má nefna breytingar á skattkerfinu sem tóku gildi um nýliðin áramót. Þannig var tekjuskattur einstaklinga hækkaður úr 22,75% í 24,1%, eða um 1,35 prósentustig. Um leið var heimild veitt sveitarfélögum til að hækka útsvar um allt að 0,25 prósentustig. Þrátt fyrir þetta er skatthlutfallið nú um 37,2% sem er lægra en það var árið 2005, þeagr það nam 37,74%. Auk þess var persónuafslátturinn þá tæplega 14 þúsund krónum lægri á mánuði en hann var við breytingarnar nú um áramótin. Hækkun persónuafsláttar er tvíþætt; annarsvegar fylgir hann vísitöluhækkun síðastliðins árs en auk þess hefur hann með ákvörðun stjórnvalda í kjölfar kjarasamninga hækkað um 24 þúsund krónur á ári því til viðbótar. Við þessa breytingu hafa skattleysismörk hækkað úr 99.250 krónum í 118.182 á mánuði og langstærsti hópur launþega, þeirra með tekjur að 575 þúsund krónum á mánuði, mun hafa meira til ráðstöfunar af launum sínum nú í janúar en í desember í fyrra. Með öðrum orðum, hækkun persónuafsláttar er meiri en sem nemur hækkun tekjuskatts og útsvars hjá launþegum undir fyrrgreindum tekjumörkum.

Þetta er ágætt að rifja upp öðru hvoru í þeirri umræðu sem fram fer nú um þessar mundir í þeim efnahagsþrengingum sem dynja á heimsbyggðinni – á þeim tímum sem allir þurfa á einn eða annan hátt að fara vel yfir fjármál sín, og á það jafnt við um heimilin, fyrirtækin, sveitarfélög og ríki.

Ég hef áður sagt að það sé lykilatriði við núverandi aðstæður að bregðast við á ábyrgan hátt. Þær breytingar sem gerðar hafa verið á sköttum og gjöldum og aðrar þær ráðstafanir sem stjórnvöld hafa gripið til eru til þess gerðar að skapa svigrúm fyrir Íslendinga til að standa af okkur veðrið, og á þann hátt að ekki séu lagðar of miklar kvaðir á fyrirtæki og einstaklinga. Nauðsynlegt er að við höfum slíkt að leiðarljósi á þeirri vegferð sem framundan er.
Við endurskoðun á skattkerfinu er mikilvægt að fylgja þeirri viðleitni sem verið hefur að leiðarljósi undanfarin ár - að einfalda skattkerfið og gera það sem gegnsæjast og passa upp á að það hafi sem minnst neikvæð áhrif á efnahagslífið, eða sé sem mest hvetjandi fyrir efnahagsstarfsemi í landinu.
 
Ágætu fundargestir. Ég veit að Viðskiptaráð og fleiri eru áhugasamir um að stjórnvöld beiti fyrst og fremst aðhaldsleiðinni en auki ekki skattheimtu. Ég held að það sé óhætt að segja að stjórnvöld hafi nú þegar sýnt fram á vilja sinn að draga verulega úr útgjöldum hins opinbera. Hlutverk stjórnmálamanna er einmitt að forgangsraða. Samsetning útgjaldanna fyrir árið 2009 er önnur en áður hefur verið, og endurspeglar viðbrögð stjórnvalda við þeim aðstæðum sem uppi eru. Við þurfum að reyna að komast aftur á þá braut sem við höfum verið á undanfarin ár.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum