Hoppa yfir valmynd

Stök ræða fyrrum fjármálaráðherra

30. mars 2009 Fjármála- og efnahagsráðuneytiðSteingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra 2009-2011

Sjálfstæðisflokkur í afneitun

Birtist í Morgunblaðiðinu 30. mars 2009.

Eftir Steingrím J. Sigfússon: „Flokkurinn sem ber umfram alla aðra íslenska flokka ábyrgð á hruninu reynir að búa til grýlu úr þeim sem eru að taka til eftir þá. Engar lausnir, engin uppbyggileg framtíðarsýn, bara gamaldags afturhaldssamur hræðsluáróður.“

ÞAÐ var dapurlegt svo vægt sé til orða tekið að fylgjast með landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Þessi undarlega blanda afneitunar, ráðleysis og lýðskrums sem þar var boðið upp á undirstrikar að um flokk í djúpri kreppu er að ræða. Gamaldags hræðsluáróður og veruleikafirring eru viðbrögð sjálfstæðismanna. Vinstrimenn og ekki síst sá er hér stýrir penna ætla að hækka skatta, segja þeir. Flokkurinn sem ber umfram alla aðra íslenska flokka ábyrgð á hruninu reynir að búa til grýlu úr þeim sem eru að taka til eftir þá. Engar lausnir, engin uppbyggileg framtíðarsýn, bara gamaldags afturhaldsamur hræðsluáróður.

Hvað gerði Sjálfstæðisflokkurinn fyrir jól? Hann hækkaði skatta. Samanlögð leyfileg álagning tekjuskatts og útsvars var hækkuð um 1,6% (1,35% í tekjuskatti og allt að 0,25% í útsvari) eða um u.þ.b. 11,5 milljarða, en það var gert flatt. Engin viðleitni var sýnd til að dreifa byrðunum með réttlátari hætti. Með þessu var Sjálfstæðisflokkurinn og þáverandi ríkisstjórn auðvitað að bregðast við aðstæðum, tekjufallinu vegna bankahrunsins og afla nokkurra tekna til að draga úr hallarekstri ríkissjóðs og/eða þörfinni á enn meiri niðurskurði. Nema hvað; hallinn stefnir samt í að verða á bilinu 150-170 milljarðar króna. Þannig skilur Sjálfstæðisflokkurinn við ríkissjóð í lokin á hátt í 18 ára ráðsmennsku.

Stóra spurningin er hins vegar þessi. Ef sjálfstæðismenn hafna því nú með öllu að einhver tekjuöflun verði hluti aðgerða til að ná 150-170 milljarða halla á ríkissjóði niður í 0 og síðan í afgang á 3-4 árum eins og stefna verður að (annars kyrkir vaxtakostnaður hið opinbera og gerir skuldabyrðina óbærilega), hvernig ætla þeir þá að gera það? Svarið virðist einfalt, með einum saman niðurskurði. Vill þá ekki Sjálfstæðisflokkurinn vera svo góður að útlista fyrir okkur hvernig sá niðurskurður á að fara fram? Hvað á að skera niður og hvernig, hvað á að verða eftir í almanntryggingakerfinu, heilbrigðis- og menntamálum o.s.frv. Er þá pólitík Sjálfstæðisflokksins sú að rústa frekar velferðarkerfið til grunna en afla nokkurra viðbótartekna? Þjóðartekjur munu dragast saman um nálægt 10% á þessu ári og u.þ.b. standa í stað á hinu næsta. Hagvöxtur mun því ekki leggjast með okkur í þessari glímu fyrr en vonandi frá og með árinu 2011.

Auðvitað er veruleikinn sá að rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn greip til þess ráðs að hækka skatta fyrir jól þá mun hvaða ríkisstjórn sem er, og alveg eins þó að svo ólíklega og ógæfulega tækist til að þar yrði Sjálfstæðisflokkurinn innanborðs, verða að fara einhvers konar blandaða leið. Og þá skiptir öllu máli hvernig það er gert. Að annars vegar sé tekna aflað að því marki sem skynsamlegt er á félagslega réttlátan og sanngjarnan hátt. Þeim einstaklingum og fjölskyldum sé hlíft sem minnst hafa aflögu, að atvinnurekstri og nýsköpun sé tryggt lífvænlegt og samkeppnishæft umhverfi, að byrðunum sé jafnað. Á hina hliðina þarf að framkvæma aðhalds- og sparnaðaraðgerðir þannig að undirstöðuvelferðarþjónusta sé varin eins og nokkur kostur er, að vinnu sé jafnað fremur en fólki sagt upp og kreppan ekki dýpkuð með aðgerðum skammsýni í rekstri og þjónustu ríkis- og sveitarfélaga.

Enn vakir ein spurning til sjálfstæðismanna eftir landsfund þeirra. Ætla þeir að bæta gráu ofan á svart hjá sér með því að reyna að skrökva að þjóðinni fyrir kosningar? Halda þeir að þjóðin kaupi það, og trúi um það þeim af öllum mönnum, að eitthvað sem er ekki hægt sé hægt? Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn ekki að hafa burði í sér til að koma sæmilega heiðarlega fram, horfast í augu við staðreyndir, viðurkenna ábyrgð sína og axla hana eða ætlar hann að leggjast í lýðskrum og hræðsluáróður?

Við Vinstri græn munum hér eftir sem hingað til leggja metnað okkar í að koma hreint og heiðarlega fram. Við munum segja þjóðinni það fyrir kosningar sem við teljum óhjákvæmilegt að gera eftir kosningar. Það vorum við sem sögðum þjóðinni satt á árunum 2004-2009, ruglárunum, meðan aðrir brugðust þjóðinni og lugu að henni. Ég óttast ekki samanburðinn eða það að margir verði til þess að láta glepjast af hugmyndafræðilega gjaldþrota flokki í afneitun, Sjálfstæðisflokknum.

Steingrímur J. Sigfússon
Höfundur er fjármálaráðherra.Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira